Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1052/2014

Nr. 1052/2014 21. nóvember 2014
SAMÞYKKT
um sameiginlega byggingarnefnd Keflavíkurflugvallar á flugvallarsvæði A.

1. gr.

Samstarfsaðilar og starfssvæði.

Sandgerðisbær, Reykjanesbær og Sveitarfélagið Garður starfrækja sameiginlega bygg­ingar­nefnd, skv. heimild í 5. mgr. 7. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, fyrir flug­vallar­svæði A á Keflavíkurflugvelli, eins og það svæði er afmarkað skv. 1. gr. laga nr. 76/2008 um stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar og auglýsingu forsætis­ráðuneytisins nr. 1263/2007 um að hluti varnarsvæðisins á Keflavíkurflugvelli sé tekinn undir borgaraleg not.

2. gr.

Skipan byggingarnefndar.

Byggingarnefnd Keflavíkurflugvallar á flugvallarsvæði A skal skipuð þremur fulltrúum, einum frá hverju sveitarfélagi, sbr. 1. gr. Skulu fulltrúar alla jafna vera byggingarfulltrúar viðkomandi sveitarfélaga. Staðgenglar þeirra skulu alla jafna vera varamenn þeirra. Auk þriggja fulltrúa skal rekstraraðila Keflavíkurflugvallar, nú Isavia ohf., heimilt að tilnefna skipulagsfulltrúa Keflavíkurflugvallar eða annan áheyrnarfulltrúa í nefndina með málfrelsi og tillögurétt en án atkvæðisréttar.

Formaður byggingarnefndar skal vera fulltrúi Sandgerðisbæjar. Byggingarnefndin skal að öðru leyti skipta með sér verkum á fyrsta fundi kjörtímabils nefndarinnar eftir hverjar sveitarstjórnarkosningar. Auk formanns skal einn nefndarmanna verða varaformaður og annar ritari nefndarinnar.

3. gr.

Hlutverk byggingarnefndar.

Byggingarnefnd Keflavíkurflugvallar á flugvallarsvæði A starfar skv. lögum nr. 160/2010 um mannvirki og byggingarreglugerð eins og hún er á hverjum tíma. Byggingarnefnd fjallar um umsóknir um byggingarleyfi á starfssvæði nefndarinnar og önnur mál sem byggingarnefndum eru falin að lögum, sbr. þó ákvæði 4. og 6. gr. Nefndin ályktar um afgreiðslu mála til hlutaðeigandi sveitarstjórna eins og um væri að ræða byggingarnefnd viðkomandi sveitarfélags. Þegar um er að ræða mál sem þurfa afgreiðslu eða umsögn skipulagsnefndar skal vísa máli til skipulagsnefndar Keflavíkurflugvallar sem fer með stjórn­sýslu skipulagsmála á svæðinu.

Nefndin skal setja sér starfs- og verklagsreglur. Skal hlutaðeigandi sveitarfélögum, skipu­lags­nefnd Keflavíkurflugvallar og rekstraraðila Keflavíkurflugvallar gefinn kostur á að veita umsögn um reglurnar áður en þær verða samþykktar.

4. gr.

Byggingarfulltrúar.

Sameiginlegur byggingarfulltrúi verður ekki ráðinn fyrir flugvallarsvæði A. Byggingar­fulltrúi hvers sveitarfélags fyrir sig annast störf byggingarfulltrúa innan þess starfs­svæðis byggingarnefndarinnar sem tilheyrir viðkomandi sveitarfélagi. Um innheimtu gjalda vegna útgáfu leyfa fer eftir gjaldskrá viðkomandi sveitarfélags og skulu gjöldin innheimt af hverju sveitarfélagi fyrir sig.

Byggingarfulltrúa hvers sveitarfélags er heimilt að afgreiða byggingarleyfi og önnur leyfi vegna framkvæmda á svæðinu sem eru í samræmi við skipulag án þess að vísa slíku máli til afgreiðslu byggingarnefndar. Sé umsókn ekki í samræmi við skipulag eða skipulag ekki til af því svæði sem umsóknin varðar skal máli ávallt vísað til afgreiðslu byggingarnefndar. Listi yfir mál sem byggingarfulltrúar afgreiða án aðkomu nefndarinnar skal ætíð lagður fram á næsta fundi byggingarnefndar.

5. gr.

Rekstur byggingarnefndar og gagnasafn.

Rekstur byggingarnefndar heyrir undir þær sveitarstjórnir sem tilnefna fulltrúa í nefndina og ber hvert sveitarfélag kostnað af sínum fulltrúa í nefndinni. Kjósi rekstraraðili Kefla­víkur­flugvallar að tilnefna áheyrnarfulltrúa í nefndina ber hann kostnað vegna hans sjálfur.

Allar fundargerðir byggingarnefndar, uppdrættir og önnur gögn, sem varða leyfisveitingar á svæðinu, skulu varðveitt miðlægt á rafrænan hátt og skulu öll sveitarfélög, sbr. 1. gr., hafa aðgang að þeim gögnum sem og rekstraraðili Keflavíkurflugvallar. Rekstraraðili flug­vallarins hefur samþykkt að kosta rekstur vél- og hugbúnaðar til varðveislu gagna­safns­ins og bera kostnað vegna uppsetningar hans.

6. gr.

Fundir byggingarnefndar.

Byggingarnefnd skal funda a.m.k. á tveggja mánaða fresti á fyrirfram ákveðnum tíma. Allir nefndarmenn geta óskað eftir að nefndin verði kölluð saman beri brýna nauðsyn til utan þess tíma. Skal formaður boða til fundar innan viku frá því að slík beiðni berst enda sé þá lengra en tíu dagar í næsta fund nefndarinnar.

Nefndinni er heimilt að tilkynna sumarleyfi í 6 vikur á tímabilinu 15. júní til 31. ágúst ár hvert. Þegar byggingarnefnd er í sumarleyfi er byggingarfulltrúum í viðkomandi sveitar­félögum heimilt að afgreiða þau mál sem upp koma og ekki geta beðið afgreiðslu næsta fundar og fer þá um afgreiðslu þeirra mála eins og annarra byggingarmála í við­kom­andi sveitarfélagi. Skal öðrum sveitarfélögum, sbr. 1. gr., tilkynnt um slíkar afgreiðslur fyrirfram og þær lagðar fyrir byggingarnefnd á fyrsta fundi eftir sumarleyfi til kynningar.

7. gr.

Slit samstarfs.

Kjósi sveitarfélag að hætta samstarfi um byggingarnefnd skal tilkynna það sveitar­stjórnum hinna sveitarfélaganna skriflega með a.m.k. árs fyrirvara og skal úrsögn miðast við næstu áramót.

8. gr.

Gildistaka.

Samþykkt þessi sem hlotið hefur afgreiðslu bæjarstjórna Sandgerðisbæjar, Reykjanes­bæjar og Sveitarfélagsins Garðs, er sett í samræmi við 7. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 21. nóvember 2014.

F. h. r.

Steinunn Fjóla Sigurðardóttir.

Vigdís Sigurðardóttir.

B deild - Útgáfud.: 5. desember 2014