1. gr. Almennt. Miðstöð framhaldsnáms er stofnun við Háskóla Íslands sem heyrir undir háskólaráð. Tilgangur hennar er að hafa umsjón með og fylgja eftir settum viðmiðum og kröfum um gæði framhaldsnáms við Háskóla Íslands með það að markmiði að stuðla að kröftugu vísindastarfi sem stenst alþjóðlegan samanburð og samkeppni. Deildir háskólans bera faglega ábyrgð á framhaldsnámi við skólann. Miðstöð framhaldsnáms gætir heildarhagsmuna námsins og starfar náið með háskóladeildum, gæðanefnd háskólaráðs og sameiginlegri stjórnsýslu. Miðstöðin er þannig vettvangur samráðs og samvinnu um námið innan háskólans og tengiliður við samstarfsaðila innan lands og utan. Þverfræðilegar námsleiðir geta átt formlegt aðsetur í miðstöðinni og eru skilgreindar í samstarfi við hlutaðeigandi deildir. 2. gr. Hlutverk. Hlutverk Miðstöðvar framhaldsnáms er að tryggja og efla gæði doktorsnáms við Háskóla Íslands og stuðla að viðgangi þess í samræmi við ákvarðanir háskólaráðs. Hlutverk sitt rækir hún m.a. með því að: - hvetja til aukinna gæða og þjóna vexti og viðgangi framhaldsnámsins í hvívetna, einkum doktorsnáms,
- skilgreina og fylgja eftir sameiginlegum viðmiðum og kröfum um gæði framhaldsnáms, fylgjast með því að starfandi námsleiðir í rannsóknatengdu framhaldsnámi séu í samræmi við gildandi viðmið og kröfur, að framboð námskeiða sé fullnægjandi og staðfesta lýsingar deilda á nýjum námsleiðum í framhaldsnámi,
- hafa eftirlit með því að deildir fylgi almennum reglum um inntökukröfur, inntökuferli, inntökupróf fyrir doktorsnema ef því er að skipta, námsframvindu og dagsetningar sem standast verður til að nemendur geti lokið framhaldsnámi,
- fylgjast með því að nemendur í framhaldsnámi séu ávallt skráðir við háskólann á meðan á námi stendur, annast skráningu niðurstaðna deilda vegna umsókna um framhaldsnám, námsáætlana fyrir rannsóknatengt meistaranám og breytinga á þeim og skrá og staðfesta námsáætlanir fyrir doktorsnám og breytingar á þeim,
- sannreyna hvort leiðbeinendur í framhaldsnámi uppfylli sett viðmið og kröfur og viðurkenna þá sem aðila að miðstöðinni,
- vera vettvangur samráðs og samvinnu um framhaldsnám innan skólans og um kröfur til framhaldsnema og leiðbeinenda,
- stuðla í senn að samhæfingu og fjölbreytni framhaldsnámsins við háskólann og fylgjast náið með þróun framhaldsnáms á alþjóðlegum vettvangi og beita sér fyrir því að framhaldsnám við háskólann sé ávallt í samræmi við alþjóðlega viðurkenndar gæðakröfur,
- hvetja til alþjóðlegs samstarfs og samvinnu við erlenda háskóla, m.a. varðandi sameiginleg rannsóknaverkefni og sameiginlegar prófgráður (joint degrees) og halda utan um sértæka samstarfssamninga um framhaldsnám og sameiginlegar prófgráður,
- efla skilning á hagsmunum framhaldsnáms og framhaldsnema,
- stuðla að bættri aðstöðu og aðbúnaði til rannsókna við háskólann,
- halda saman, greina og miðla gögnum og upplýsingum um alla helstu þætti framhaldsnáms við háskólann, þ.m.t. styrki og staðtölur um námið á íslensku og ensku, og gera eftir atvikum tillögur til háskólaráðs um reglur og/eða viðmið sem stuðla að gæðum þess,
- annast í samráði við deildir og kennslusvið umsýslu við kennsluskrá framhaldsnáms við háskólann og
- gangast fyrir fræðslu, ráðstefnum, umræðufundum og fyrirlestrum um efni sem varða hlutverk og markmið miðstöðvarinnar, framhaldsnám almennt og vísindastörf við háskólann.
3. gr. Aðstaða. Háskólinn lætur miðstöðinni í té starfsaðstöðu, svo sem húsnæði og búnað eftir því sem kostur er. Miðstöðin veitir starfsliði sínu skv. 4. og 7. gr. aðstöðu og nauðsynlegan búnað til að rækja hlutverk sitt eftir því sem unnt er. 4. gr. Stjórn. Stjórn miðstöðvarinnar er í höndum forstöðumanns sem tilnefndur er af háskólaráði til fimm ára í senn og er ábyrgur gagnvart því. Til forstöðumanns eru gerðar tilteknar kröfur, sbr. 7. gr. Forstöðumanni til ráðuneytis skipar háskólaráð fjóra menn í stjórn sem skipuð skal fulltrúum þeirra fjögurra flokka fræðasviða sem fulltrúa eiga í háskólaráði; félagsvísindasviðs, heilbrigðisvísindasviðs, hugvísindasviðs og raunvísindasviðs. Forstöðumaður miðstöðvarinnar er formaður stjórnar. 5. gr. Stjórnarfundir. Stjórnarfundir skulu haldnir a.m.k. einu sinni á misseri. Forstöðumaður miðstöðvarinnar boðar stjórnarfundi bréflega, eða í tölvupósti, með þriggja daga fyrirvara. Fundarboð skal greina dagskrá fundar. Skylt er að boða stjórnarfund óski tveir eða fleiri stjórnarmenn þess. Sama gildir ef rektor ber fram slíka ósk og hefur rektor þá málfrelsi og tillögurétt á fundinum, en ekki atkvæðisrétt. Falli atkvæði jöfn á stjórnarfundi ræður atkvæði forstöðumanns. Halda skal gerðabók stjórnar og skulu staðfestar fundargerðir færðar í hana. Afrit fundargerða skulu send rektor. 6. gr. Verkefni stjórnar. Verkefni stjórnar er að vera forstöðumanni til ráðgjafar um allar stefnumarkandi ákvarðanir fyrir miðstöðina, framkvæmd hlutverks hennar skv. 2. gr. og veita honum umsagnir um starfsáætlanir og annað er lýtur að starfsemi hennar. Forstöðumaður ber ábyrgð á fjármálum miðstöðvarinnar gagnvart háskólaráði, undirbýr rekstrar- og fjárhagsáætlun í samráði við stjórn og gerir tillögu til háskólaráðs um fjárveitingar og ráðstöfun þeirra ásamt skiptingu annarra tekna ef við á. 7. gr. Forstöðumaður og starfsmenn. Rektor skipar forstöðumann Miðstöðvar framhaldsnáms við Háskóla Íslands til fimm ára í senn samkvæmt tilnefningu háskólaráðs. Starf forstöðumanns skal auglýst laust til umsóknar og skal hann hafa hæfi sem prófessor og hafa reynslu af stjórnun innan háskóla, leiðbeiningu doktorsnema og umsýslu viðamikilla rannsókna. Forstöðumaður annast daglegan rekstur miðstöðvarinnar, þar á meðal starfsmannastjórnun ef við á, fjármál og verkefni. Rektor ræður í starfið og setur forstöðumanni erindisbréf, þar sem nánar er kveðið á um verksvið hans. Um ráðningu annars starfsfólks fer eftir ákvæðum reglna fyrir Háskóla Íslands. Sé um að ræða ráðningu í starf og ekki er gert ráð fyrir því starfsheiti í reglum fer forstöðumaður með ráðningarmálið. 8. gr. Fjármál. Tekjur miðstöðvarinnar eru eftirfarandi: - framlag frá háskólaráði,
- framlög frá deildum háskólans ef því er að skipta,
- styrkir til einstakra verkefna,
- greiðslur fyrir þjónustustarfsemi,
- tekjur af útgáfustarfsemi og námskeiðahaldi,
- aðrar tekjur, t.d. Þróunarsjóður Háskóla Íslands, gjafir og framlög úr ríkissjóði eftir því sem kveðið kann að vera á um í fjárlögum.
Reikningshald miðstöðvarinnar skal vera hluti af reikningshaldi háskólans. Árlega skal leggja fyrir háskólaráð sjálfstætt og endurskoðað reikningsuppgjör miðstöðvarinnar. Gætt skal að því að opinberu fé sé varið í samræmi við ákvæði samkeppnislaga. 9. gr. Formlegt mat. Formlegt mat á rekstri og starfsemi miðstöðvarinnar skal fara fram með reglulegu millibili, samkvæmt nánari ákvörðun háskólaráðs 10. gr. Gildistaka. Reglur þessar, sem háskólaráð hefur sett á grundvelli heimildar í 3. mgr. 19. gr. laga nr. 41/1999 um Háskóla Íslands, sbr. 26. gr. reglna nr. 458/2000 fyrir Háskóla Íslands, öðlast þegar gildi. Háskóla Íslands, 14. maí 2007. Kristín Ingólfsdóttir. Þórður Kristinsson. |