1. gr. Almennt. Rannsóknaþjónusta Háskóla Íslands er þjónustustofnun starfrækt af Háskóla Íslands og heyrir undir háskólaráð. 2. gr. Hlutverk. Hlutverk stofnunarinnar er: - að rækta tengsl Háskóla Íslands og atvinnulífs á vettvangi rannsókna, nýsköpunar og starfsmenntunar og styðja þannig við rannsóknir og kennslu við Háskóla Íslands,
- að kynna rannsóknaáætlanir og möguleika kennara og sérfræðinga háskólans á rannsóknastyrkjum,
- að aðstoða kennara og sérfræðinga við gerð umsókna, fylgjast með framgangi þeirra og sjá um umsýslu fjármuna, sé þess óskað,
- að veita háskólamönnum upplýsingar um þá stoðþjónustu sem veitt er nýsköpunarfyrirtækjum og frumkvöðlum á Íslandi varðandi einkaleyfi, þróunarstyrki og áhættufé,
- að reka þjónustuverkefni sem styrkja aðra starfsemi Rannsóknaþjónustunnar.
Ennfremur að sinna eftirfarandi verkefnum fyrir aðila utan Háskóla Íslands, samkvæmt nánari ákvörðun stjórnar og í samráði við vísindasvið háskólans: - að veita íslenskum fyrirtækjum upplýsingar um hagnýtar rannsóknir innan Háskóla Íslands og aðstoða íslensk fyrirtæki við að eiga samstarf við starfsmenn háskólans um sameiginleg rannsóknaverkefni og styrkjaumsóknir,
- að reka Tæknigarð, sem aðstöðu fyrir sprotafyrirtæki úr Háskóla Íslands eða annars staðar frá,
- að reka Tækniþróunarsjóð, sem hefur það verkefni að fjárfesta í sprotafyrirtækjum sem eiga uppruna sinn í Háskóla Íslands,
- að reka þjónustuskrifstofur og einstök verkefni fyrir innlenda og erlenda aðila sem styrkja samstarf háskólans við íslenskt atvinnulíf og alþjóðlegt rannsókna- og þróunarumhverfi.
3. gr. Aðstaða. Háskóli Íslands lætur stofnuninni í té starfsaðstöðu, svo sem húsnæði og búnað eftir því sem nánar er kveðið á um í þjónustusamningi um verkefni Rannsóknaþjónustunnar sem unnin eru í þágu Háskóla Íslands. Stofnunin veitir starfsliði sínu skv. 7. gr. aðstöðu og nauðsynlegan búnað til starfseminnar eftir því sem unnt er. 4. gr. Stjórn. Rektor skipar Rannsóknaþjónustunni sex manna stjórn til þriggja ára í senn. Rektor tilnefnir þrjá stjórnarmanna og skal sviðsstjóri vísindasviðs háskólans vera einn þeirra og er hann jafnframt formaður stjórnarinnar. Samtök atvinnulífsins tilnefna þrjá stjórnarmanna og skulu tilnefningarnar eftir því sem kostur er tengjast iðnaði, sjávarútvegi og þjónustu. Í stjórn skulu sitja bæði karlar og konur og skal þess gætt að hlutfall kynjanna sé ekki minna en 40%, sbr. 15. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Stjórnin skiptir að öðru leyti með sér verkum. 5. gr. Stjórnarfundir. Að höfðu samráði við formann stjórnar, boðar forstöðumaður stjórnarfundi bréflega, eða í tölvupósti, og með hæfilegum fyrirvara. Fundarboð skal greina frá dagskrá fundar. Skylt er að boða stjórnarfund óski tveir eða fleiri stjórnarmenn þess. Sama gildir ef rektor ber fram slíka ósk og hefur þá hann, eða sá sem sækir fundinn í umboði hans, málfrelsi og tillögurétt á fundinum. Falli atkvæði jöfn á stjórnarfundi ræður atkvæði formanns eða þess sem gegnir formannsstörfum. Halda skal gerðabók stjórnar og skulu staðfestar fundargerðir færðar í hana. Afrit fundargerða skulu send rektor. Forstöðumaður situr stjórnarfundi með málfrelsi og tillögurétt en án atkvæðisréttar. 6. gr. Verkefni stjórnar. Stjórnin markar stefnu og fjallar um öll meiriháttar mál, samþykkir rekstraráætlanir og gjaldskrá fyrir selda þjónustu. Stjórnin sker úr í vafaatriðum sem upp kunna að koma og varða innri starfsemi stofnunarinnar. 7. gr. Forstöðumaður og starfsmenn. Rektor ræður stofnuninni forstöðumann að fengnum tillögum stjórnar og setur honum erindisbréf að tillögu stjórnar. Skal sá sem ráðinn er forstöðumaður hafa meistarapróf eða annað sambærilegt háskólapróf. Forstöðumaður stjórnar daglegum rekstri stofnunarinnar, annast áætlanagerð, fjármál og starfsmannamál og sér að öðru leyti um framkvæmd á þeim málum, sem stjórnin felur honum. Forstöðumaður er í starfi sínu ábyrgur gagnvart stjórn og rektor. 8. gr. Fjármál. Reikningshald stofnunarinnar skal vera hluti af reikningshaldi háskólans. Tekjur stofnunarinnar eru: - árleg fjárveiting Háskóla Íslands,
- tekjur af þjónustu sem seld er utan og innan skólans,
- tekjur af rekstri tæknigarða,
- framlög fyrirtækja og stofnana í atvinnulífi,
- styrkir sem stofnunin og starfsmenn hennar afla úr rannsóknasjóðum til rannsóknaverkefna,
- aðrar tekjur svo sem gjafir og framlög eftir því sem kveðið kann að vera á um í fjárlögum.
Árlega skal leggja fyrir háskólaráð sjálfstætt og endurskoðað reikningsuppgjör stofnunarinnar. Ef um er að ræða útselda þjónustu, sem veitt er í samkeppni við einkaaðila, skal sú starfsemi fjárhagslega afmörkuð frá öðrum rekstri stofnunarinnar og þess gætt að sá rekstur sé ekki niðurgreiddur með öðrum tekjum, í samræmi við ákvæði samkeppnislaga. 9. gr. Reglur þessar, sem háskólaráð hefur sett á grundvelli heimildar í 4. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla, sbr. 26. gr. reglna nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands, öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi reglur nr. 832/2001 um Rannsóknaþjónustu háskólans. Háskóla Íslands, 18. maí 2010. Kristín Ingólfsdóttir. Þórður Kristinsson. |