1. gr. Byggingarfulltrúi Sveitarfélagsins Ölfuss, sem starfar einnig sem skipulagsfulltrúi sveitarfélagsins, fer með verkefni sem mælt er fyrir um í lögum nr. 160/2010 um mannvirki og ákvæðum í þeim reglugerðum sem settar eru á grundvelli laganna, þar á meðal útgáfu byggingarleyfa. 2. gr. Skipulags-, byggingar- og umhverfisnefnd Sveitarfélagsins Ölfuss annast verkefni byggingarnefndar sveitarfélagsins, sbr. 7. gr. laga um mannvirki og samþykkt nr. 876/2013 um stjórn Sveitarfélagsins Ölfuss. Telji byggingarfulltrúi að umsókn um byggingarleyfi sé bersýnilega í ósamræmi við skipulagsáætlanir eða ekki liggur fyrir deiliskipulag skal hann vísa leyfisumsókninni til skipulags-, byggingar- og umhverfisnefndar í samræmi við ákvæði skipulagslaga. Telji byggingarfulltrúi að leyfisumsókn uppfylli ekki ákvæði laga um mannvirki, byggingarreglugerðar eða annarra reglugerða eða samþykkta eða óvissu ríkja um það hvort ákvæði þessi séu uppfyllt skal hann óska eftir umsögn skipulags-, byggingar- og umhverfisnefndar áður en hann afgreiðir umsóknina. 3. gr. Um málsmeðferð gilda að öðru leyti ákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, laga nr. 160/2010 um mannvirki, skipulagslaga, nr. 123/2010, stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og samþykktar nr. 875/2013 um stjórn Sveitarfélagsins Ölfuss, eftir því sem við á. 4. gr. Samþykkt þessi, sem bæjarstjórn Sveitarfélagsins Ölfuss hefur sett samkvæmt 7. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi. Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 18. júní 2014. F. h. r. Steinunn Fjóla Sigurðardóttir. Hafsteinn Pálsson. |