Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 456/2012

Nr. 456/2012 10. maí 2012
REGLUR
um mat á umsóknum um leyfi til að kalla sig arkitekt.

Iðnaðarráðuneytið og Arkitektafélag Íslands hafa komið sér saman um að miða við eftir­farandi reglur við mat á umsóknum um leyfi til að kalla sig arkitekt, sbr. 1.-3. gr. laga nr. 8/1996, um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum, með síðari breytingum.

1. gr.

Iðnaðarráðuneyti sendir umsóknir um leyfi til að kalla sig arkitekt til umsagnar Arkitekt­afélags Íslands.

Menntamálanefnd Arkitektafélagsins fjallar um allar umsóknir sem Arkitektafélaginu berast frá iðnaðarráðuneytinu og sendir ráðuneytinu umsögn sína.

Menntamálanefnd skal leitast við að svara erindum frá iðnaðarráðuneyti svo skjótt sem verða má og eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að þau berast. Séu fylgigögn ófull­nægjandi skal nefndin samstundis upplýsa ráðuneytið um að umsókn sé ábótavant og útskýra hvaða gögn vanti.

Á aðalfundi Arkitektafélags Íslands skulu árlega kosnir þrír félagsmenn til setu í mennta­mála­nefnd.

2. gr.

  1. Til að hljóta löggildingu til að nota starfsheitið arkitekt þarf umsækjandi að hafa lokið akademísku fullnaðarnámi í arkitektúr, frá skóla sem hefur verið viður­kenndur af lögbærum stjórnvöldum í viðkomandi ríki, og eru gerðar forkröfur um í þeim tilfellum sem krafist er viðbótar starfsþjálfunar og/eða viðbótarprófs til að hljóta starfsréttindi.
    Umsækjandi skal leggja fram yfirlit yfir námsferil og frumrit af prófskírteinum eða staðfest ljósrit frá viðkomandi skóla.
  2. Við mat á umsóknum frá aðilum sem lokið hafa námi í arkitektúr frá skólum á Evrópska efnahagssvæðinu skal menntamálanefnd viðurkenna fullnaðarnám og prófgráður samkvæmt viðauka V.7 og viðauka VI við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/36/EB, um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, með síðari breytingum. Samþykkja skal umsókn ef að skóli og prófgráða umsækjanda er á listanum í viðauka V.7 eða VI yfir viðurkennda skóla og prófgráður á Evrópska efnahagssvæðinu.
  3. Við mat á umsóknum frá aðilum sem lokið hafa námi í arkitektúr frá skólum í Bandaríkjunum skal menntamálanefnd viðurkenna það nám sem er á skrá National Architectural Accrediting Board (NAAB) um viðurkennt fullnaðarnám og prófgráður í arkitektúr í Bandaríkjunum.
  4. Við mat á umsóknum frá aðilum sem lokið hafa námi frá skólum utan Evrópu og Bandaríkjanna er það á ábyrgð umsækjanda að leggja fram fullnægjandi gögn um að hafa lokið akademísku fullnaðarnámi í arkitektúr frá skóla sem viðurkenndur er í viðkomandi ríki og að námið veiti umsækjanda starfsréttindi sem arkitekt eða sé forsenda/skilyrði löggildingar til starfsréttinda í viðkomandi ríki.

3. gr.

Til viðmiðunar um hvort umsækjandi uppfylli námskröfur til að fá leyfi til að kalla sig arkitekt skal menntamálanefnd hafa til hliðsjónar að miðað er við að fullnaðarpróf í arkitektúr feli í sér að lágmarki 5 ára nám í arkitektúr í samræmi við viðmið L’Union International des Architectes (UIA) og samkvæmt EAAE (European Association for Architectural Education) og Bologna-samþykktum. Þetta felur í sér að umsækjandi þarf að hafa lokið 300 ECTS einingum í arkitektúrnámi, sem öllu jafna skiptist sem 180 ECTS eininga BA nám og 120 ECTS eininga MA-nám í arkitektúr.

Í þeim tilfellum sem nemandi flyst á milli skólastofnana á námsferlinum þá er það loka­prófið til fullnaðarnáms frá skóla, sem viðurkenndur hefur verið af lögbærum stjórn­völdum, sem gildir.

4. gr.

Telji menntamálanefnd Arkitektafélagsins að synja beri umsækjenda um leyfi skal rök­styðja þá ákvörðun.

Iðnaðarráðherra skal rökstyðja synjun um leyfi. Bera má málið undir dómstóla, svo og ef ákvörðun er eigi tekin innan þriggja mánaða frá því að umsækjandi leggur inn umsókn sína ásamt fullnægjandi fylgiskjölum.

5. gr.

Reglur þessar eru settar á grundvelli 3. gr. laga nr. 8/1996 um löggildingu nokkurra starfs­heita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum og öðlast gildi við birtingu í Stjórnar­tíðindum.

Iðnaðarráðuneytinu, 10. maí 2012.

F. h. r.

Kristján Skarphéðinsson.

Hreinn Hrafnkelsson.

B deild - Útgáfud.: 25. maí 2012