Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 870/2007

Nr. 870/2007 31. ágúst 2007
REGLUGERÐ
um flugleiðsögu í samevrópska loftrýminu.

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Markmið.

Markmiðið með reglugerð þessari er að setja samræmdan regluramma um flugleiðsögu í samevrópska loftrýminu í þeim tilgangi að efla öryggi og skilvirkni. Regluramminn sem vísað er til tekur til fjögurra reglugerða Evrópubandalagsins sem innleiddar eru í samn­inginn um Evrópska efnahagssvæðið, sjá liði 66t-u í XIII. viðauka samningsins.

2. gr.

Gildissvið.

Gildissvið reglugerðar þessarar tekur til flugleiðsöguþjónustu sem veitt er hér á landi, í lofthelgi Íslands og í því loftrými sem Íslandi hefur verið falin þjónusta í samkvæmt skuldbindingum og samningum á sviði þjóðaréttar.

Gildissvið loftrýmisreglugerðarinnar, sjá fylgiskjal IV, er nánar skilgreint í 1. mgr. sbr. 3. mgr. 1. gr. loftrýmisreglugerðarinnar.

3. gr.

Orðskýringar.

Þegar eftirfarandi hugtök eru notuð í reglugerð þessari hafa þau þá merkingu sem hér greinir:

Að taka í notkun (Putting into service): Fyrsta rekstrarlega notkun kerfis að lokinni fyrstu uppsetningu þess eða eftir uppfærslu þess.

Aðflugsstjórnarþjónusta (Approach control service): Flugstjórnarþjónusta við stjórnað flug í aðflugi og brottflugi.

Almenn flugumferð (General air traffic): Allar hreyfingar almenningsloftfara og ríkisloftfara (þ.m.t. her-, toll- og lögregluloftför) þegar þessar hreyfingar eru fram­kvæmdar í samræmi við verklagsreglur Alþjóðaflugmálastofnunarinnar.

Eurocontrol: Evrópustofnun um öryggi flugleiðsögu sem komið var á fót með Alþjóða­sáttmálanum um samvinnu flugumferðar frá 13. desember 1960 varðandi samvinnu um öryggi flugleiðsögu1.

Evrópskt net fyrir rekstrarstjórnun flugumferðar (European air traffic management network (EATMN)): Safn kerfa sem eru talin upp í I. viðauka við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 552/2004 frá 10. mars 2004 um rekstrarsamhæfi evrópska netsins fyrir rekstrarstjórnun flugumferðar (rekstrarsamhæfisreglugerðin) sem gerir kleift að veita flugleiðsöguþjónustu í Bandalaginu, þ.m.t. snertifletir við landamæri þriðju landa.

Fjarskiptaþjónusta (Communication services): Faststöðva- og farstöðvaþjónusta fyrir flug til að gera möguleg fjarskipti milli landstöðva, milli loftfara og landstöðva og milli loftfara að því er varðar flugstjórnarþjónustu.

Fluglag (Flight level): Flötur með jöfnum loftþrýstingi, sem miðaður er við ákveðið loftþrýstimið, 1013,2 hektópasköl (hPa), og aðgreindur frá öðrum slíkum flötum með tilteknum loftþrýstingsmun.

Flugleiðsöguþjónusta (Air navigation services): Með flugleiðsöguþjónustu er átt við flugumferðar- og fjarskiptaþjónustu, leiðsögu- og kögunarþjónustu, veðurþjónustu fyrir flugleiðsögu og upplýsingaþjónustu flugmála.

Flugstjórnarsvæðisþjónusta (Area control service): Flugstjórnarþjónusta fyrir stjórnað flug í tilteknu loftrými.

Flugstjórnarþjónusta (Air traffic control (ATC) service): Þjónusta sem veitt er í þeim tilgangi að: (a) að koma í veg fyrir árekstur: – milli loftfara, og – á umferðarsvæði flugvalla milli loftfars og hindrana; og (b) flýta fyrir og stuðla að skipulegri flugumferð.

Flugturnsþjónusta (Aerodrome control service): Flugstjórnarþjónusta veitt flugvallarumferð.

Flugumferðarþjónusta (Air traffic services): Yfirhugtak sem nær til mismunandi flugupplýsingaþjónustu, viðbúnaðarþjónustu, ráðgjafaþjónustu og flugstjórnarþjónustu (aðflugsstjórnarþjónustu, flugstjórnarsvæðisþjónustu og flugturnsþjónustu).

Flugupplýsingasvæði (Flight information region): Loftrými af skilgreindri stærð þar sem veitt er flugupplýsingaþjónusta og viðbúnaðarþjónusta.

Flugupplýsingaþjónusta (Flight information services): Flugumferðarþjónusta sem felst í ráðleggingum og upplýsingum er stuðla að öryggi og hagkvæmni flugs á grundvelli flugupplýsinga.

Flæðisstjórnun flugumferðar (Air traffic flow management): Þjónusta sem er veitt með það að markmiði að stuðla að öruggu, skipulegu og hröðu flæði flugumferðar með því að tryggja að geta flugumferðarstjórnar sé nýtt til hins ítrasta og að umfang flugumferðar sé í samræmi við getuna sem viðeigandi þjónustuveitendur flugumferðar hafa gefið upp.

Grunnkröfur (fyrir evrópska netið fyrir rekstrarstjórnun flugumferðar) (Essential requirements): Þær kröfur sem tilgreindar eru í II. viðauka rekstrar­samhæfisreglugerðarinnar, sjá fylgiskjal V.

ICAO (International civil aviation organisation): Alþjóðaflugmálastofnunin sem komið var á fót með Chicago-samningnum frá 1944.

Kerfi (System): Safn af kerfishlutum í lofti og á jörðu niðri svo og búnaður í geimnum sem veitir stuðning fyrir flugleiðsöguþjónustu á öllum stigum flugs.

Kerfishlutar (Constituents): Áþreifanlegir hlutir eins og vélbúnaður og óáþreifanlegir hlutir eins og hugbúnaður sem rekstrarsamhæfi evrópska netsins fyrir rekstrarstjórnun flugumferðar byggist á.

Kögunarþjónusta (Surveillance services): Sá búnaður og þjónusta sem eru notuð til að ákvarða staðsetningu sérhvers loftfars til að tryggja örugga fjarlægð milli loftfara.

Leiðarval (Routing): Leið sem loftfar á að fylgja á meðan á flugi stendur.

Leiðsöguþjónusta (Navigation services): Sá búnaður og þjónusta sem lætur í té upplýsingar um stöðu og tíma loftfara.

Loftrýmisnotendur (Airspace users): Öll loftför sem eru starfrækt í tengslum við almenna flugumferð.

Loftrýmisreglugerðin (Airspace regulation): Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 551/2004 frá 10. mars 2004 um skipulag og notkun loftrýmis á samevrópska flugumferðarsvæðinu. Sjá fylgiskjal IV með reglugerðinni.

Loftrýmisumdæmi (Airspace block): Loftrými af skilgreindri stærð, að því er varðar rúm og tíma, þar sem veitt er flugleiðsöguþjónusta.

Meginreglur Evrópustofnunar um öryggi flugleiðsögu við ákvörðun kostnaðargrunns fyrir leiðargjald og útreikning á gjaldskráreiningu (Eurocontrol’s principles for establishing the cost-base for route facility charges and the calculation of unit rates): Meginreglur, sem eru tilgreindar í skjali nr. 99.60.01/01 sem Evrópustofnun um öryggi flugleiðsögu gaf út 1. ágúst 1999.

Net flugleiða (Route network): Net tiltekinna flugleiða til að beina almennri flugumferð í ákveðinn farveg eftir því sem nauðsynlegt er fyrir veitingu flugstjórnarþjónustu.

Rammareglugerðin (Framework regulation): Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 549/2004 frá 10. mars 2004 um setningu rammaákvæða um að koma á samevrópsku flugumferðarsvæði, sjá fylgiskjal II með reglugerðinni.

Ráðgjafaþjónusta (Air traffic advisory services): Þjónusta við loftför í blindflugi innan ráðgjafarýmis til að tryggja aðskilnað milli þeirra eins og frekast er unnt.

Reglugerðir um innleiðingu rekstrarsamhæfis (Implementation rules for interoperability): (Einnig nefnt framkvæmdareglur um rekstrarsamhæfi): Reglugerðir sem innleiddar eru með vísan til samevrópska loftrýmisins og eru nánari kröfur um innleiðingu tiltekinna krafna.

Rekstrargögn (Operational data): Upplýsingar sem varða öll stig flugs og eru nauðsynlegar til að veitendur flugleiðsöguþjónustu, loftrýmisnotendur, rekstraraðilar flugvalla og aðrir hlutaðeigandi aðilar geti tekið rekstrarákvarðanir.

Rekstrarhugmynd (Concept of operation): Viðmiðanir fyrir rekstrarlega notkun evrópska netsins fyrir rekstrarstjórnun flugumferðar eða hluta þess.

Rekstrarsamhæfi (Interoperability): Starfrænir, tæknilegir og rekstrarlegir eiginleikar sem krafist er í kerfum og kerfishlutum evrópska netsins fyrir rekstrarstjórnun flugumferðar og í verklagsreglum um rekstur þess til að tryggja öruggan, samfelldan og skilvirkan rekstur. Rekstrarsamhæfi næst með því að láta kerfin og kerfishlutana uppfylla grunnkröfurnar.

Rekstrarsamhæfisreglugerðin (Interoperability regulation): Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 552/2004 frá 10. mars 2004 um rekstrarsamhæfi evrópska netsins fyrir rekstrarstjórnun flugumferðar. Sjá fylgiskjal V með reglugerðinni.

Rekstrarstjórnun flugumferðar (Air traffic management): Samstillt stjórnun í lofti og á jörðu niðri (flugumferðarþjónustu, loftrýmisstjórnun og flæðisstjórnun flugumferðar) sem krafist er til að tryggja örugga og skilvirka hreyfingu loftfars á öllum stigum starfrækslu.

Samevrópska loftrýmið (Single European sky): Heiti sem notað er yfir framtaksverkefni Evrópubandalagsins til að breyta skipulagi og uppbyggingu flug­leiðsögu­þjónustu í Evrópu í þeim tilgangi að auka öryggi og skilvirkni til framtíðar.

Samfelldur rekstur (Seamless operation): Rekstur evrópska netsins fyrir rekstrarstjórnun flugumferðar með þeim hætti að frá sjónarhóli notanda virkar það eins og um væri að ræða samfellt kerfi.

Starfrænt loftrýmisumdæmi (Functional airspace block): Loftrýmisumdæmi sem byggist á rekstrarkröfum sem endurspegla þörfina á að tryggja samþættari stjórnun loftrýmis án tillits til fyrirliggjandi landamæra.

Starfsleyfi (Certificate): Hvers kyns skjal, útgefið af aðildarríki, sem samræmist landslögum og staðfestir að sá sem veitir flugleiðsöguþjónustu uppfylli skilyrði fyrir veitingu tiltekinnar þjónustu.

Starfsmenn í öryggistengdum störfum (Safety-sensitive personnel): Starfsmenn sem gætu heft öryggi í flugi ef þeir framkvæma störf sín og skyldur á óviðeigandi hátt. Þeir eru, en þó ekki takmarkaðir við, flugáhafnir, viðgerðarmenn loftfara og flug­umferðar­stjóra.

Stjórnun loftrýmis (Airspace management): Áætlunaraðgerð sem hefur fyrst og fremst það markmið að hámarka nýtingu tiltæks loftrýmis með virkum tímaskiptum og með skiptingu loftrýmis öðru hverju milli mismunandi loftrýmisnotenda sem byggist á skammtímaþörfum.

Sveigjanleg notkun loftrýmis (Flexible use of airspace): Hugmynd að stjórnun loftrýmis sem er notuð á yfirráðasvæði Evrópusambands flugmálastjórna (ECAC) eins og tilgreint er í 1. útgáfu af „Handbók um stjórnun loftrýmis að því er varðar beitingu hugmyndarinnar um sveigjanlega notkun loftrýmis" frá 5. febrúar 1996 sem Evrópu­stofnun um öryggi flugleiðsögu gaf út.

Uppfærsla (Upgrade): Hvers kyns lagfæringar sem breyta rekstrarlegum eiginleikum kerfis.

Upplýsingaþjónusta flugmála (Aeronautical information service): Þjónusta sem stofnuð er innan skilgreinds rýmis og sem er ábyrg fyrir að miðla flugmálaupplýsingum og gögnum sem nauðsynleg eru til að tryggja öryggi, reglufestu og skilvirkni í flug­leiðsögu.

Undirsvæði (Sector): Hluti af flugstjórnarsvæði og/eða efra/neðra flugupplýsingasvæði.

Veðurþjónusta (Meteorological services): Sá búnaður og þjónusta sem lætur loftfari í té veðurspár, yfirlit og athuganir sem og hvers konar aðrar veðurupplýsingar og gögn sem veitt eru af ríkjum til notkunar fyrir flug.

Veitendur flugleiðsöguþjónustu (Air navigation service providers): Opinber aðili eða einkaaðili sem veitir flugleiðsöguþjónustu fyrir almenna flugumferð.

Verklagsregla (Procedure) (eins og hún er notuð í tengslum við rekstrarsamhæfisreglugerðina): Stöðluð aðferð fyrir annaðhvort tæknilega eða rekstrarlega notkun kerfa í tengslum við samþykktar og fullgiltar rekstrarhugmyndir sem krefjast samræmdrar framkvæmdar í evrópska netinu fyrir rekstrarstjórnun flugumferðar.

Viðbúnaðarþjónusta (Alerting service): Þjónusta sem tilkynnir viðeigandi stofnunum, þegar nauðsyn er leitar- og björgunaraðgerða vegna loftfara, og er til aðstoðar slíkum stofnunum eftir þörfum.

Þjónustupakki (Bundle of services): Tvenns konar eða fleiri tegundir af flug­leiðsögu­þjónustu.

Þjónustureglugerðin (Service regulation): Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 550/2004 frá 10. mars 2004 um að veita þjónustu á sviði flugleiðsögu á samevrópska flugumferðarsvæðinu. Sjá fylgiskjal III með reglugerðinni.

Öryggisstjórnunarkerfi (Safety management system): Kerfi til að stjórna öryggi í flugleiðsöguþjónustu, sem felur í sér stjórnunarlega uppbyggingu, ábyrgð, verklag, aðferðir og ráðstafanir til að öryggisstefnu í flugleiðsöguþjónustu sé framfylgt af rekstraraðila, sem sér um öryggisráðstafanir og örugga starfrækslu þjónustunnar.

1 Samningi sem er breytt með bókun frá 12. febrúar 1981 og endurskoðaður með bókun frá 27. júní 1997.

II. KAFLI

Veitendur flugleiðsöguþjónustu og eftirlit.

4. gr.

Eftirlitsstjórnvald.

Tilnefnt eftirlitsstjórnvald er Flugmálastjórn Íslands skv. reglugerð þessari.

Flugmálastjórn Íslands skal tryggja viðeigandi eftirlit, einkum að því er varðar öruggan og skilvirkan rekstur veitenda flugleiðsöguþjónustu innan þess loftrýmis sem er á ábyrgð íslenska ríkisins.

5. gr.

Viðurkenndar stofnanir.

Flugmálastjórn Íslands er heimilt að ákveða að úthluta, að fullu eða að hluta til, skoð­unum og könnunum skv. 4. gr., til viðurkenndra stofnana sem uppfylla kröfurnar í viðauka I við þjónustureglugerðina.

Nú viðurkennir Flugmálastjórn stofnun til að annast skoðanir og kannanir á veitendum flugleiðsöguþjónustu og skal slík viðurkenning vera til þriggja ára að hámarki. Flugmálastjórn getur afturkallað viðurkenningu sína uppfylli stofnun ekki lengur þær kröfur sem gerðar eru skv. viðauka I við þjónustureglugerðina.

6. gr.

Samningur um eftirlit með flugleiðsögu.

Nái loftrýmisumdæmi yfir loftrými á ábyrgð fleiri en eins ríkis skal Flugmálastjórn Íslands gera samning um eftirlit með veitendum flugleiðsöguþjónstu, við eftirlitsstjórnvöld viðkomandi ríkja. Einnig er Flugmálastjórn heimilt að gera samninga um eftirlit vegna veitenda flugleiðsöguþjónustu sem veitir þjónustu í öðru ríki en því þar sem aðalrekstur hans fer fram.

7. gr.

Tilnefning þjónustuveitanda.

Flugmálastjórn Íslands skal tilnefna þjónustuveitanda, í samráði við samgönguráðuneytið, sem veittur er einkaréttur á veitingu flugumferðarþjónustu, þjónustupakka eða einnar tegundar flugleiðsöguþjónustu, innan tiltekinna loftrýmisumdæma að því er varðar loftrými á ábyrgð íslenska ríkisins, skv. 1. mgr. 8. gr. þjónustureglugerðarinnar.

Flugmálastjórn Íslands er heimilt að tilnefna þjónustuveitanda, í samráði við samgöngu­ráðuneytið, sem hefur einkarétt á því að láta í té öll veðurfræðileg gögn eða hluta af þeim í öllu eða hluta af loftrýminu sem er á ábyrgð íslenska ríkisins, að teknu tilliti til öryggisráðstafana, skv. 1. mgr. 9. gr. þjónustureglugerðarinnar.

Ef um er að ræða starfrænt loftrýmisumdæmi sem nær yfir loftrými fleiri en eins ríkis skulu hlutaðeigandi eftirlitsstjórnvöld tilnefna sameiginlega einn eða fleiri veitendur flugleiðsöguþjónustu, a.m.k. einum mánuði áður en loftrýmisumdæminu er komið á fót.

8. gr.

Tilnefning.

Tilnefning þjónustuveitanda skv. 7. gr. skal veitt að hámarki til 7 ára í senn. Tilnefning er háð eftirfarandi skilyrðum:

  1. Þjónustuaðili hafi gilt starfsleyfi fyrir þeirri þjónustu sem hann hyggst veita, sam­kvæmt gildandi reglugerð um starfsleyfi fyrir flugleiðsöguþjónustu;
  2. Aðgangur loftrýmisnotenda sé tryggður til þjónustunnar án mismununar, einkum að því er varðar öryggi; og
  3. Önnur skilyrði sem Flugmálastjórn Íslands kann að setja.

9. gr.

Samstarf milli þjónustuveitenda.

Veitendur flugleiðsöguþjónustu mega nýta sér þjónustu annarra þjónustuveitenda sem hafa starfsleyfi innan Evrópska efnahagssvæðisins. Veitendur flugleiðsöguþjónustu skulu gera samstarfið formlegt með skriflegum samningi eða ígildi hans, þar sem tilgreindar eru skyldur og verkefni sem hver þjónustuveitandi hefur með höndum og sem gerir þjón­ustuveitendum kleift að skiptast á rekstrargögnum að því er varðar almenna flug­umferð. Tilkynna skal slíkt samstarf til Flugmálastjórnar Íslands með hæfilegum fyrir­vara.

Þegar um er að ræða veitingu flugumferðarþjónustu skal liggja fyrir samþykki frá hlutaðeigandi ríkjum. Þegar um er að ræða veðurþjónustu skal liggja fyrir samþykki hlutaðeigandi ríkja ef þau hafa tilnefnt þjónustuveitanda sem fær einkarétt í samræmi við ákvæði 7. gr. reglugerðar þessarar.

10. gr.

Gagnsæi reikningsskila.

Veitendur flugleiðsöguþjónustu skulu semja ársreikning og leggja hann fram til endur­skoðunar og birtingar, hvernig sem eignarhaldi þeirra og rekstrarformi að lögum er háttað. Ársreikningurinn skal saminn í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla, sbr. lög um ársreikninga nr. 3/2006. Þar sem ekki reynist unnt að ná fullu samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla, vegna réttarstöðu þjónustuveitandans, skal hann kappkosta að ná eins miklu samræmi og mögulegt er.

Þegar veitendur flugleiðsöguþjónustu bjóða þjónustupakka skulu þeir í innra bókhaldi sínu tilgreina viðeigandi kostnað og tekjur af flugleiðsöguþjónustu, sundurliðaðar í samræmi við meginreglur Evrópustofnunar um öryggi flugleiðsögu um ákvörðun kostnaðargrunns fyrir leiðargjald og útreikning á gjaldskráreiningum. Þeir skulu einnig, eftir því sem við á, halda annarri þjónustu en flugleiðsöguþjónustu aðskildri í undir­reikningi ársreiknings, á sama hátt og krafist yrði af þeim ef þjónustan sem um er að ræða væri veitt af aðskildum fyrirtækjum.

11. gr.

Tilnefnt stjórnvald með gagnsæum reikningsskilum.

Tilnefnt eftirlitsstjórnvald um gagnsæi reikningsskila er Flugmálastjórn Íslands.

Ársreikningaskrá er tilnefnt eftirlitsstjórnvald varðandi þau félög er skylt er að beita alþjóðlegum reikningsskilum við gerð samstæðureiknings og ársreiknings, sbr. 90. gr. laga um ársreikninga nr. 3/2006 og félögum sem nýta sér heimild til að beita alþjóð­legum reikningsskilum skv. 92. gr. sömu laga.

12. gr.

Innheimtukerfi.

Veitandi flugleiðsöguþjónustu skal þróa innheimtukerfi fyrir flugleiðsöguþjónustu í samræmi við meginreglurnar í 15. og 16. gr. þjónustureglugerðarinnar sem stuðlar að meira gagnsæi að því er varðar ákvörðun, álagningu og innheimtu gjalda af loftrýmis­notendum. Þetta kerfi skal vera í samræmi við 15. gr. Chicago-samningsins frá 1944 og innheimtukerfi Evrópustofnunar um öryggi í flugleiðsögu fyrir leiðargjöld eða við samninginn um sameiginlega greiðslu kostnaðar af tiltekinni flugþjónustu á Íslandi fyrir Norður-Atlantshafs svæðið, eftir því sem við á.

13. gr.

Samráð við notendur þjónustu.

Þjónustuveitandi flugleiðsöguþjónustu skal hafa árlega samráð við notendur þjónustunnar um gjaldtöku vegna þjónustunnar.

14. gr.

Birting ársskýrslu og úttektir.

Veitendur flugleiðsöguþjónustu skulu birta ársskýrslu sína sem skal vera háð reglu­bundnu eftirliti óháðs úttektaraðila.

15. gr.

Samráðsvettvangur vegna flugleiðsögu í samevrópska loftrýminu.

Flugmálastjórn Íslands skal koma á fót samráðsvettvangi með hagsmunaaðilum til að tryggja viðeigandi þátttöku þeirra í innleiðingu reglna er varða samevrópska loftrýmið. Slíkir hagsmunaaðilar geta verið fulltrúar veitenda flugleiðsöguþjónustu, loftrýmis­notenda, flugvalla, framleiðsluiðnaðar og fagmenntaðra starfsmanna veitenda flugleiðsögu­þjónustu.

III. KAFLI

Grunnkröfur og rekstrarsamhæfi.

16. gr.

Grunnkröfur.

Evrópska netið fyrir rekstrarstjórnun flugumferðar (EATMN), kerfi þess, kerfishlutar og tilheyrandi verklagsreglur skulu uppfylla grunnkröfurnar sem settar eru fram í II. viðauka við rekstrarsamhæfisreglugerðina.

17. gr.

Framkvæmdarreglur um rekstrarsamhæfi.

Kerfi, hlutar þeirra og tilheyrandi verklagsreglur skulu vera í samræmi við viðkomandi reglugerðir um innleiðingu rekstrarsamhæfis allan endingartímann.

18. gr.

EB-samræmisyfirlýsing eða yfirlýsing um nothæfi kerfishluta.

Kerfishlutum skal fylgja EB-yfirlýsing um samræmi eða nothæfi. Í III. viðauka rekstrar­samhæfisreglugerðarinnar eru talin upp einstök atriði þessarar yfirlýsingar.

Framleiðandi eða viðurkenndur fulltrúi hans með staðfestu innan Evrópska efnahags­svæðisins skal tryggja og lýsa yfir með EB-yfirlýsingu um samræmi eða nothæfi að hann hafi beitt ákvæðunum sem mælt er fyrir um í grunnkröfunum og í viðkomandi reglugerðum um innleiðingu rekstrarsamhæfis.

Gengið skal út frá því að grunnkröfurnar og viðkomandi reglugerðir um innleiðingu rekstrarsamhæfis séu uppfylltar að því er varðar þá kerfishluta sem EB-yfirlýsing um samræmi eða nothæfi fylgir.

19. gr.

Sannprófanir kerfa.

Kerfi skulu gangast undir EB-sannprófun, af hálfu þess sem veitir flugleiðsöguþjónustu, í samræmi við viðkomandi reglugerðir og reglur um rekstrarsamhæfi í því skyni að tryggja að þau uppfylli grunnkröfurnar í þessari reglugerð og reglugerðar um innleiðingu rekstrar­samhæfis þegar þau eru felld inn í evrópska netið fyrir rekstrarstjórnun flug­umferðar.

Áður en kerfi er tekið í notkun skal sá sem veitir flugleiðsöguþjónustu útbúa EB-yfirlýsingu um sannprófun, sem staðfestir samræmi og leggja fyrir Flugmálastjórn Íslands ásamt tækniskjölum.

Í IV. viðauka rekstrarsamhæfisreglugerðarinnar eru talin upp einstök atriði þessarar yfir­lýsingar og tækniskjalanna. Flugmálastjórn Íslands er heimilt að krefjast viðbótar­upplýsinga sem nauðsynlegar eru til að hafa eftirlit með slíku samræmi.

EB-yfirlýsingin um sannprófun skal vera með fyrirvara um hvers kyns mat sem nauð­synlegt kann að vera fyrir Flugmálastjórn Íslands að framkvæma af öðrum ástæðum en rekstrarsamhæfi.

20. gr.

Eftirlit með sannprófun á samræmi.

Ef Flugmálastjórn Íslands kemst að raun um að:

a) kerfishluti, sem fylgir EB-yfirlýsingu um samræmi eða nothæfi eða
b) kerfi, sem fylgir EB-yfirlýsingu um sannprófun,

uppfyllir ekki grunnkröfurnar og/eða viðkomandi reglugerðir um innleiðingu rekstrar­samhæfis skal hún, að teknu tilliti til nauðsynjar þess að tryggja öryggi og samfellu í rekstri, grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að takmarka notkunarsvið kerfishlutarins eða kerfisins, sem um er að ræða, eða banna að aðilar, sem heyra undir eftirlit hennar, noti þau.

Flugmálastjórn Íslands skal þegar í stað tilkynna til Eftirlitsstofnunar EFTA allar slíkar ráðstafanir og greina frá ástæðum fyrir þeim í samræmi við 2. mgr. 7. gr. rekstrar­samhæfis­reglugerðarinnar.

21. gr.

Tilkynntir aðilar.

Tilkynna skal til Eftirlitsstofnunar EFTA þá aðila sem tilnefndir eru til að inna af hendi verkefni er lúta að mati á samræmi eða nothæfi og sannprófun skv. 5. og 6. gr. rekstrar­samhæfisreglugerðar og gefa upp verksvið hvers aðila og úthlutuðu kenninúmeri. Beita skal viðmiði sem kveðið er á um í V. viðauka rekstrarsamhæfisreglugerðarinnar við mat á aðilum. Tilkynna ber þá aðila sem standast framangreind viðmið. Heimilt er að tilkynna viðurkenndar stofnanir, sbr. 1. mgr. 5. gr. þessarar reglugerðar, sem aðila enda uppfylli þær viðmiðanir V. viðauka rekstrarsamhæfisreglugerðarinnar.

IV. KAFLI

Niðurlagsákvæði.

22. gr.

Málskotsréttur.

Ákvarðanir Flugmálastjórnar Íslands sæta kæru samkvæmt almennum reglum stjórn­sýslu­laga.

23. gr.

Refsingar.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða refsingu samkvæmt 141. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum.

24. gr.

Innleiðing.

Með reglugerð þessari öðlast gildi eftirtaldar fjórar reglugerðir Evrópuþingsins og ráðsins með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af XIII. viðauka samningsins og bókun 1 um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum hans, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 67/2006 sem er meðfylgjandi merkt fylgiskjal I:

  1. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 549/2004 frá 10. mars 2004 um setningu rammaákvæða um að koma á samevrópsku flugumferðarsvæði (rammareglugerðin), sem er meðfylgjandi merkt fylgiskjal II;
  2. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 550/2004 frá 10. mars 2004 um að veita þjónustu á sviði flugleiðsögu á samevrópska flugumferðarsvæðinu (þjónustureglugerðin), sem er meðfylgjandi merkt fylgiskjal III;
  3. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 551/2004 frá 10. mars 2004 um skipulag og notkun loftrýmis á samevrópska flugumferðarsvæðinu (loftrýmis­reglugerðin), sem er meðfylgjandi merkt fylgiskjal I; og
  4. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 552/2004 frá 10. mars 2004 um rekstrarsamhæfi evrópska netsins fyrir rekstrarstjórnun flugumferðar (rekstrar­samhæfis­reglugerðin) sem er meðfylgjandi og er merkt fylgiskjal V.

Reglugerðirnar eru birtar sem fylgiskjöl með reglugerð þessari.

25. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 57. gr. a., sbr. 145. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

I.

Frá og með 20. október 2005 skulu grunnkröfurnar gilda um kerfi og kerfishluta evrópska netsins fyrir rekstrarstjórnun flugumferðar sem tekin eru í notkun, ef það er ekki tilgreint með öðrum hætti í viðkomandi reglugerðum um innleiðingu rekstrarsamhæfis.

Frá og með 20. apríl 2011 skulu kerfi og kerfishlutar evrópska netsins fyrir rekstrar­stjórnun flugumferðar sem nú eru í notkun uppfylla grunnkröfurnar, ef það er ekki tilgreint með öðrum hætti í viðkomandi reglugerðum um rekstrarsamhæfi.

Ef kerfi evrópska netsins fyrir rekstrarstjórnun flugumferðar hafa verið pöntuð eða bind­andi samningar þess efnis hafa verið undirritaðir:

- fyrir gildistökudag þessarar reglugerðar eða eftir því sem við á,
- fyrir gildistökudag einnar eða fleiri viðkomandi reglugerða um rekstrarsamhæfi,

þannig að ekki sé hægt að tryggja að grunnkröfurnar og/eða viðkomandi reglugerðir um rekstrarsamhæfi séu uppfylltar innan tímamarkanna, sem um getur í 1. mgr., skal Flugmálastjórn Íslands veita Eftirlitsstofnun EFTA ítarlegar upplýsingar um grunnkröfurnar og/eða reglugerðirnar um innleiðingu rekstrarsamhæfis ef bent hefur verið á að óvissa ríki um hvort reglurnar hafi verið uppfylltar.

Samgönguráðuneytinu, 31. ágúst 2007.

Kristján L. Möller.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

Fylgiskjöl.
(sjá PDF-skjal)

B deild - Útgáfud.: 28. september 2007