1. gr. Markmið. Markmið reglugerðar þessarar er að koma í veg fyrir eða draga úr skaðlegum áhrifum á umhverfið, einkum á vatn, andrúmsloft, jarðveg, plöntur, dýr og landslag, af völdum meðhöndlunar úrgangs frá námuiðnaði. Jafnframt er það markmið reglugerðarinnar að dregið verði með skipulögðum hætti úr myndun úrgangs eins og unnt er. Þeim úrgangi sem myndast verði komið í endurnotkun og endurnýtingu og að sú förgun úrgangs sem nauðsynleg er verði með skipulögðum hætti þannig að hann nái jafnvægi við umhverfi sitt á sem skemmstum tíma. 2. gr. Gildissvið. Reglugerð þessi gildir um námuúrgangsstaði og meðhöndlun á úrgangi frá námuiðnaði. 3. gr. Skilgreiningar. Í reglugerð þessari er merking eftirtalinna orða og orðasambanda sem hér greinir: | 1) | | Besta fáanlega tækni: Framleiðsluaðferð og tækjakostur sem beitt er til að lágmarka mengun og myndun úrgangs. Tækni nær til framleiðsluaðferðar, tækjakosts, hönnunar mannvirkja, eftirlits og viðhalds búnaðarins og starfrækslu hans. Með fáanlegri tækni er átt við aðgengilega framleiðsluaðferð og tækjakost (tækni) sem þróaður hefur verið til að beita í viðkomandi atvinnurekstri og skal tekið mið af tæknilegum og efnahagslegum forsendum. Með bestu er átt við virkustu aðferðina til að vernda alla þætti umhverfisins gegn mengun. | | 2) | | Eftirlit: Athugun á ferli eða starfsemi til að ákvarða samræmi þeirra við tilteknar kröfur. | | 3) | | Förgunarstaður: Staður þar sem förgun úrgangs fer fram, m.a. urðunarstaðir og brennslustöðvar. | | 4) | | Förgun úrgangs: Aðgerð eða ferli þegar úrgangi er umbreytt og/eða komið fyrir varanlega, svo sem urðun og sorpbrennsla. | | 5) | | Grunnvatn: Vatn í gegnmettuðum jarðlögum undir yfirborði jarðar. | | 6) | | Meðhöndlun úrgangs: Söfnun, geymsla, böggun, flokkun, flutningur, endurnotkun, endurnýting, pökkun og förgun úrgangs, þ.m.t. eftirlit með slíkri starfsemi og umsjón með förgunarstöðum eftir að þeim hefur verið lokað. | | 7) | | Námuiðnaður: Allar stöðvar og fyrirtæki sem stunda vinnslu verðmætra jarðefna, ofan- eða neðanjarðar, í atvinnuskyni, m.a. vinnsla með borholum, eða meðhöndlun á efninu sem unnið er. | | 8) | | Námuúrgangsstaður: Staður í námu þar sem spilliefni sem notuð eru eða til falla við námuvinnsluna eru meðhöndluð sem úrgangur. | | 9) | | Rekstraraðili: Einstaklingur eða lögaðili sem ber ábyrgð á viðkomandi atvinnurekstri. | | 10) | | Spilliefni: Úrgangur sem inniheldur efni sem haft geta mengandi eða óæskileg áhrif á umhverfið hvort sem þau eru óblönduð eða hluti af öðrum efnum, vörum eða umbúðum sem komist hafa í snertingu við spilliefni og skráð eru á lista í reglugerð um úrgang. | | 11) | | Stórslys: Atvik á borð við stórfellda efnaútlausn, eldsvoða eða sprengingu sem stafar af stjórnlausri atburðarás við rekstur starfsstöðvar og stofnar heilsu fólks og/eða umhverfi á vinnustaðnum eða fyrir utan hann í mikla hættu, samstundis eða síðar, og þar sem eitt eða fleiri hættuleg efni koma við sögu. | | 12) | | Úrgangur: Hvers kyns efni eða hlutir sem framleiðandi úrgangs eða sá sem hefur úrgang í vörslu sinni ákveður að losa sig við eða er gert að losa sig við á tiltekinn hátt og skráður er á lista í reglugerð um úrgang. | | 13) | | Vatn: Grunnvatn og yfirborðsvatn. | | 14) | | Vöktun: Kerfisbundin og síendurtekin skráning einstakra breytilegra þátta í umhverfinu. | | 15) | | Yfirborðsvatn: Kyrrstætt eða rennandi vatn á yfirborði jarðar, straumvötn, stöðuvötn og jöklar, svo og strandsjór. |
4. gr. Starfsleyfi. Námuúrgangsstaður er förgunarstaður og skal hafa gilt starfsleyfi sem Umhverfisstofnun veitir. Um veitingu starfsleyfis fer skv. reglugerð þessari og reglugerð um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Í starfsleyfi skulu vera ákvæði sem miða að því að vernda umhverfi og heilsu manna. Jafnframt skulu ákvæði starfsleyfis taka mið af aðstæðum á viðkomandi stað. Í starfsleyfi samkvæmt 1. mgr. skulu vera ákvæði um: | a) | kröfur sem varða hönnun og stjórnun námuúrgangsstaðarins, sbr. 9. gr., | | b) | skrásetningu og lýsing á meðferð úrgangs, sbr. 10. gr., | | c) | varúðarráðstafanir á námuúrgangsstað, | | d) | hávaða, | | e) | tæknilegar kröfur sem gera skal til námuúrgangsstaðar, | | f) | samþættar mengunarvarnir og til þess sé beitt bestu fáanlegu tækni eins og hún er skilgreind á hverjum tíma, | | g) | nauðsynlegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir mengunaróhöpp og til þess að draga úr afleiðingum þeirra, | | h) | fullnægjandi trygging umsækjanda, eða sérhver önnur jafngild ráðstöfun, sem krafist er samkvæmt 8. gr., | | i) | aðferðir við vöktun og eftirlit, þar á meðal viðbragðsáætlun, sbr. 7. gr., sem og bráðabirgðakröfur sem varða aðgerðir við lokun námuúrgangsstaðar og eftirlit í kjölfar hennar sbr. 11. gr., | | j) | árlega skýrslugjöf til eftirlitsaðila, sbr. 10. gr., | | k) | að stjórnandi námuúrgangsstaðar hafi nægilega tæknilega færni til að stjórna staðnum og hljóti faglega og tæknilega menntun og þjálfun, | | l) | að meðhöndlun úrgangsins samræmist viðeigandi áætlunum og viðmiðum um móttöku og meðhöndlun úrgangs sem kveðið er á um í lögum um meðhöndlun úrgangs og reglugerðum settum samkvæmt þeim, | | m) | tilkynningarskyldu vegna óhappa eða slysa sem gætu valdið mengun eða haft önnur óæskileg áhrif á umhverfið, | | n) | um innra eftirlit og eftirlit eftirlitsaðila, | | o) | takmörkun á aðgangi að námúrgangsstaðnum, | | p) | lokun og endanlegan frágang námuúrgangstaða, sbr. 11. gr., | | q) | hvort veittar eru undanþágur samkvæmt 2. ml. 4. mgr. 11. gr. |
Starfsleyfi skal gefa út til tiltekins tíma. Umhverfisstofnun er heimilt að endurskoða starfsleyfi áður en gildistími þess er liðinn, vegna breyttra forsendna, svo sem ef mengun af völdum atvinnurekstrar er meiri en búist var við þegar leyfið var gefið út, breytingar verða á rekstrinum, vegna tækniþróunar eða breytinga á reglum um mengunarvarnir eða ef starfsleyfishafi óskar eftir því. Um endurskoðun starfsleyfis fer samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerð um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Ef rekstraraðili námuúrgangsstaðar hyggst gera breytingar á rekstrinum sem varðað geta starfsleyfið eða flytja reksturinn ber honum að tilkynna Umhverfisstofnun um það með hæfilegum fyrirvara. Umhverfisstofnun metur innan fjögurra vikna frá móttöku tilkynningar hvort nauðsynlegt er að gefa út nýtt starfsleyfi vegna þeirra breytinga sem rekstraraðili hefur tilkynnt um. Ef fyrirhugaður námuúrgangsstaður er háður mati á umhverfisáhrifum, sbr. lög um mat á umhverfisáhrifum, skal ekki auglýsa tillögu að starfsleyfi fyrr en mat á umhverfisáhrifum hefur farið fram. Umhverfisstofnun skal hafa útgefið starfsleyfi aðgengilegt á vefsetri sínu, ásamt samantekt á efni þess og greinargerð um afstöðu stofnunarinnar til athugasemda sem bárust henni. 5. gr. Umsókn um starfsleyfi. Umsókn um starfsleyfi fyrir námuúrgangsstað skal auk þess sem fram kemur í 6. gr. laga um meðhöndlun úrgangs, fylgja úrgangsáætlun, viðbragðsáætlun og starfsleyfistrygging, sbr. ákvæði í 6.-8. gr. reglugerðar þessarar. 6. gr. Úrgangsáætlun. Rekstraraðili námuúrgangsstaðar skal gera úrgangsáætlun sem miðar að því að lágmarka úrgang og kveður á um meðhöndlun og þá sérstaklega endurnýtingu eða förgun á námuúrgangi. Við áætlunargerð skal hafa sjálfbærni í huga. Áætlunin um meðhöndlun úrgangs skal fela í sér eftirtalin markmið: | a) | að koma í veg fyrir eða draga úr tilurð úrgangs og skaðsemi hans, | | b) | að hvetja til endurheimtar úrgangs frá námuiðnaði með endurnýtingu, endurnotkun eða endurvinnslu slíks úrgangs þar sem slíkt er umhverfisvænt í samræmi við gildandi umhverfisstaðla og, eftir atvikum, kröfurnar í þessari reglugerð og | | c) | að tryggja örugga förgun úrgangs frá námuiðnaði til skamms og langs tíma, einkum með því að taka, á hönnunarstigi, tillit til meðhöndlunar meðan á rekstri staðarins stendur og eftir að honum hefur verið lokað. |
Úrgangsáætlun skal hið minnsta innihalda upplýsingar um tegund og magn úrgangs sem áætlað er að falli til, einnig upplýsingar um áhrif úrgangsins á umhverfi og heilsu manna, greinargerð um aðgerðir til að draga úr áhættu ef einhver er, áætlun um eftirlit og vöktun, upplýsingar um lokun, um aðgerðir í kjölfar lokunar, um aðgerðir til að draga úr hættu á mengun vatns, lofts og jarðvegs, sem og niðurstöður könnunar á áhrifasvæði námuúrgangsstaðarins. 7. gr. Viðbragðsáætlun. Fyrir námuúrgangsstaði sem flokkast sem hættulegur skal rekstraraðili staðarins gera viðbragðsáætlun vegna hættu á stórslysum af völdum hættulegra efna og setja fram aðgengilegar upplýsingar um þá hættu. Námuúrgangsstaður skal flokkaður sem hættulegur ef: - líkur eru á að hrun haugs eða stíflubrestur á námuúrgangsstaðnum geti valdið stórslysi samkvæmt áhættumati sem gert er fyrir staðinn, en í því skal m.a. tekið tillit til umfangs námuúrgangsstaðarins, einnig fyrirhugaðs framtíðarumfangs, staðsetningar hans og umhverfisáhrifa frá honum, eða
- á staðnum er úrgangur sem yfir ákveðnum mörkum flokkast sem spilliefni, eða
- á staðnum eru efni eða efnablöndur sem yfir ákveðnum mörkum flokkast sem hættuleg.
Rekstaraðili skal sjá til þess að hætta á stórslysum sé greind og að tekið sé tillit til nauðsynlegra þátta við hönnun, byggingu, rekstur og viðhald úrgangsstöðvarinnar, auk lokunar hennar og aðgerða eftir lokun, til að koma í veg fyrir slík slys og takmarka neikvæðar afleiðingar þeirra fyrir heilbrigði manna og/eða umhverfið, þ.m.t. öll áhrif yfir landamæri. Hver rekstraraðili skal semja áætlun, áður en rekstur hefst, um forvarnir gegn stórslysum í tengslum við meðhöndlun á úrgangi frá námuiðnaði og koma á öryggisstjórnunarkerfi til að framkvæma áætlunina í samræmi við þættina sem settir eru fram í 1. lið í I. viðauka og einnig skal hann koma á neyðaráætlun í stöðinni þar sem tilgreindar eru þær ráðstafanir sem grípa ber til á staðnum ef slys ber að höndum. Það skal vera þáttur í þeirri áætlun að rekstraraðilinn tilnefni öryggisstjóra sem ber ábyrgð á framkvæmd áætlunarinnar um stórslysavarnir og reglubundnu eftirliti með henni. Viðbragðsáætlun skal liggja fyrir áður en starfsleyfi er gefið út. 8. gr. Starfsleyfistrygging. Auk almennra skilyrða sem tilgreind eru í 8. gr., 26. gr. og 27. gr. laga um meðhöndlun úrgangs er það skilyrði starfsleyfis fyrir námuúrgangsstað að rekstraraðili leggi fram fullnægjandi fjárhagslega tryggingu eða ábyrgð fyrir því að uppfylltar verði þær skyldur sem starfsleyfinu fylgja, þar á meðal um lokunar- og eftirlitsaðgerðir eftir lokun námuúrgangsstaðarins. Starfsleyfistrygging skal gilda í 30 ár eftir að námuúrgangsstað er lokað. Fjárhæð tryggingar skal tiltekin í starfsleyfi. Fjárhæð tryggingar skal vera í samræmi við umhverfisáhrif sem líklegt er að verði af starfseminni og þann kostnað sem fylgir því að byggja upp svæðið eftir lokun. Einnig skal taka mið af þeim kostnaði sem hlýst af vöktun og sýnatöku. Rekstraraðili getur óskað eftir því við Umhverfisstofnun að trygging vegna námuúrgangsstaðar, sem er í rekstri eða hefur verið lokað, verði lækkuð. Aðför má ekki gera í tryggingunni nema til fullnustu skyldu rekstraraðila til aðgerða í samræmi við starfsleyfi samkvæmt lögum um meðhöndlun úrgangs. Tryggingin skal jafnframt undanskilin þrotabúi rekstraraðila verði bú hans tekið til gjaldþrotaskipta innan 30 ára frá lokun námuúrgangsstaðarins. 9. gr. Hönnun og stjórnun námúrgangsstaðar. Námuúrgangsstaður skal vera á hentugum stað, að teknu tilliti til verndaðra svæða og til jarðfræðilegra og vatnafræðilegra þátta, og skal hann hannaður þannig að hann uppfylli nauðsynleg skilyrði til að koma í veg fyrir mengun jarðvegs, andrúmslofts, grunnvatns og yfirborðsvatns. Tryggja skal markvissa söfnun á menguðu vatni og sigvatni. Eins skal dregið úr jarðvegsrofi af völdum vatns eða vinds eins og er tæknilega mögulegt og fjárhagslega hagkvæmt. Hönnun og viðhald staðarins skal vera með þeim hætti að hann sé stöðugur og að unnt sé að koma í veg fyrir mengun eða smitun jarðvegs, andrúmslofts, yfirborðsvatns eða grunnvatns, til lengri eða skemmri tíma. Rekstaraðili skal halda úti reglubundinni vöktun og skoðun á staðnum. Halda skal skrá yfir slíka vöktun á formi innra eftirlits. Rekstraraðili skal án tafar og í öllum tilvikum innan 48 klukkustunda, tilkynna Umhverfisstofnun um alla atburði sem líklegt er að hafi áhrif á stöðugleika námuúrgangsstaðarins. Einnig um sérhver skaðleg áhrif á umhverfið, sem teljast veruleg og koma í ljós við eftirlit og vöktun, og hlíta ákvörðun Umhverfisstofnunar um eðli og tímasetningu þeirra aðgerða til úrbóta sem grípa ber til. Þær aðgerðir skulu vera á kostnað rekstraraðilans. 10. gr. Skráning úrgangs og skýrslugerð. Rekstraraðila er skylt að skila árlega inn skýrslu til Umhverfisstofnunar, eigi síðar en 1. maí ár hvert fyrir árið á undan, þar sem fram koma upplýsingar um magn og eiginleika efna sem notuð eru á og við námuúrgangsstaðinn, eðlis- og efnafræðilega eiginleika þeirra og aðferðir við förgun og geymslu efnanna. Einnig skal rekstraraðili gera grein fyrir flutningi efna til og frá námuúrgangsstað, sem og niðurstöðum vöktunar og skoðunar, sbr. 4. mgr. 9. gr. Að auki skal fylgja lýsing á úrgangi og meðhöndlun hans í samræmi við II. viðauka. 11. gr. Lokunaráætlanir. Námuúrgangsstaður telst lokaður að undangenginni úttekt Umhverfisstofnunar á svæðinu ásamt mati á gögnum sem rekstraraðili leggur fram þar sem gerð er grein fyrir frágangi svæðisins. Lokun námuúrgangsstaðar leysir rekstraraðila ekki undan þeim ábyrgðum og skyldum sem gerð er grein fyrir í starfsleyfi. Rekstraraðila ber skylda til að sjá um vöktun og eftirlit með námuúrgangsstað eftir lokun eins lengi og Umhverfisstofnun telur þörf á. Rekstraraðili námuúrgangsstaðar ber ábyrgð á viðhaldi námuúrgangsstaðarins, vöktun og greiningu á sigvatni sem berst frá námuúrgangsstaðnum og greiningu grunnvatns í nágrenni staðarins, eftir því sem nánar greinir í starfsleyfi, svo lengi sem telja má að mengunarhætta stafi af námuúrgangsstaðnum, að jafnaði í 30 ár frá lokun hans. Umhverfisstofnun er heimilt að veita rekstraraðila undanþágu frá sýnatöku, eftir því sem aðstæður á viðkomandi námuúrgangsstað mæla með, vegna vöktunar á sigvatni og grunnvatni. 12. gr. Neyðaráætlun. Umhverfisstofnun skal samhliða vinnslu starfsleyfis semja neyðaráætlun til nota utan námuúrgangsstaðarins þar sem tilgreindar eru þær ráðstafanir sem grípa ber til utan staðarins ef stórslys ber að höndum. Það skal vera liður í umsókninni um starfsleyfi að rekstraraðilinn veiti stofnuninni upplýsingar sem því eru nauðsynlegar til að semja áætlunina. Neyðaráætlanir skulu hafa eftirfarandi markmið: - að ná tökum á stórslysum og öðrum atvikum og afmarka þau til að lágmarka áhrif þeirra og þó einkum til að takmarka tjón á heilbrigði manna og umhverfinu,
- að hrinda í framkvæmd þeim ráðstöfunum sem nauðsynlegar eru til þess að vernda heilbrigði manna og umhverfi fyrir áhrifum stórslysa og annarra atvika,
- að koma nauðsynlegum upplýsingum til almennings og stofnana eða yfirvalda á svæðinu sem málið varðar,
- að umhverfið sé endurmótað, lagfært og hreinsað í kjölfar stórslyss.
Umhverfisstofnun skal í upphafi vinnslu neyðaráætlunar halda almennan borgarafund á nærsvæði fyrirhugaðs námuúrgangsstaðar. Á fundinum gefist almenningi kostur á að bera fram fyrirspurnir og koma á framfæri ábendingum til stofnunarinnar um vinnslu neyðaráætlunar. Þá skal og veita almenningi frest til að koma á framfæri skriflegum ábendingum til Umhverfisstofnunar og skal fresturinn vera fjóra vikur frá því að almennur borgarafundur er haldinn. Tillaga að neyðaráætlun skal auglýst, samhliða starfsleyfistillögu. 13. gr. Upplýsingaskylda rekstraraðila. Ef stórslys ber að höndum, skal rekstraraðili námuúrgangsstaðar veita Umhverfisstofnun tafarlaust allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að stuðla að því að draga úr afleiðingum þess fyrir heilbrigði manna eins og framast er kostur og meta umfang raunverulegra eða hugsanlegra umhverfisáhrifa og lágmarka þau. 14. gr. Upplýsingar til almennings. Umhverfisstofnun skal tryggja að almenningur eigi greiðan aðgang að starfsleyfisumsóknum fyrir námuúrgangsstaði. Umsóknin skal liggja frammi á skrifstofu viðkomandi sveitarstjórnar ásamt starfsleyfistillögu, sbr. 2. mgr., og er heimilt að gera athugasemdir við umsóknina áður en frestur, sem þar greinir, rennur út. Umhverfisstofnun skal auglýsa á tryggan hátt, svo sem í dagblaði eða staðarblaði ef við á, að starfsleyfistillaga og tillaga að neyðaráætlun séu komnar fram, hvers efnis tillögurnar séu og hvar þær liggi frammi. Einnig skal tilgreina frest til þess að gera skriflegar athugasemdir við tillögurnar. Frestur til að gera skriflegar athugasemdir vegna starfsleyfa fyrir námuúrgangsstaði, og vegna neyðaráætlunar fyrir námuúrgangsstaði skal vera átta vikur frá auglýsingu. Senda skal athugasemdir til Umhverfisstofnunar. Umhverfisstofnun skal sjá til þess að þeir sem málið varðar fái upplýsingar, án endurgjalds og skilyrðislaust, um öryggisráðstafanir og aðgerðir sem grípa skal til ef slys ber að höndum og skulu þær innihalda a.m.k. þá þætti sem tilgreindir eru í 2. lið I. viðauka. Þessar upplýsingar skulu endurskoðaðar á þriggja ára fresti og uppfærðar ef nauðsyn krefur. Umhverfisstofnun skal tryggja að upplýsingar skv. 1.-3. mgr. séu aðgengilegar á vefsetri sínu. Um aðgang almennings að upplýsingum fer að öðru leyti samkvæmt lögum nr. 21/1993 um upplýsingamiðlun og aðgang að upplýsingum um umhverfismál, upplýsingalögum nr. 50/1996 og lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. 15. gr. Eftirlit. Umhverfisstofnun annast eftirlit með því að starfsleyfishafi sem hún veitir starfsleyfi fari að ákvæðum starfsleyfis. Heimilt er stofnuninni að fela heilbrigðisnefnd eftirlit og framkvæmd þvingunarúrræða samkvæmt lögum þessum í umboði stofnunarinnar. Umhverfisstofnun er einnig heimilt að fela tiltekna þætti heilbrigðiseftirlitsins faggiltum skoðunaraðilum. Starfsmönnum Umhverfisstofnunar og öðrum eftirlitsaðilum samkvæmt reglugerð þessari skal heimill aðgangur til skoðunar og eftirlits, þar á meðal töku sýna og myndatöku. Eftirlitsskyldum aðilum er skylt að veita allar upplýsingar sem eru nauðsynlegar til eftirlits og ber þeim að afhenda nauðsynleg sýni endurgjaldslaust. 16. gr. Þvingunarúrræði. Til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt reglugerð þessari er eftirlitsaðila heimilt að veita rekstaraðila áminningu. Jafnframt skal veita hæfilegan frest til úrbóta ef þeirra er þörf. Ef aðili verður ekki við tilmælum um úrbætur innan tiltekins frests er heimilt að ákveða honum dagsektir þar til úr er bætt og skal hámark þeirra vera 500.000 kr. á dag. Dagsektir sem Umhverfisstofnun innheimtir skulu renna til ríkissjóðs en dagsektir sem heilbrigðisnefnd innheimtir til rekstraraðila heilbrigðiseftirlits. Heimilt er að láta vinna verk á kostnað rekstaraðila ef tilmæli um framkvæmd eru vanrækt og skal sá kostnaður þá greiddur til bráðabirgða af Umhverfisstofnun eða heilbrigðisnefnd þar sem hún fer með eftirlit en innheimtast síðar hjá hlutaðeigandi. Kostnað við verkið sem og dagsektir skv. 2. mgr. má innheimta með fjárnámi. Ef svo alvarleg hætta stafar af tiltekinni starfrækslu eða notkun að aðgerð þoli enga bið er heimilt til bráðabirgða að stöðva starfsemi eða notkun þegar í stað. Sinni rekstraraðili ekki úrbótum og um alvarlegt eða ítrekað tilvik að ræða getur Umhverfisstofnun svipt rekstraraðila starfsleyfi. Leita skal aðstoðar lögreglu ef með þarf við framkvæmd þvingunarúrræða. 17. gr. Viðurlög. Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða sektum hvort sem þau eru framin af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Sé um stórfelld eða ítrekuð ásetningsbrot að ræða skulu þau að auki varða fangelsi allt að fjórum árum. Tilraun til brota gegn reglugerð þessari skal varða refsingu sem fullframið brot, sbr. III. kafla almennra hegningarlaga. Sama gildir um hlutdeild í brotum. Sektir má ákvarða lögaðila þó að sök verði ekki sönnuð á fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðra þá einstaklinga sem í þágu hans starfa, enda hafi brotið orðið eða getað orðið til hagsbóta fyrir lögaðilann. Einnig má með sama skilorði, gera lögaðila sekt ef fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðrir einstaklingar sem í þágu hans starfa hafa gerst sekir um brot. 18. gr. Innleiðing á tilskipun Evrópusambandsins. Reglugerðin er sett til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2006/21/EB um meðhöndlun úrgangs frá námuiðnaði sem vísað er til í 32fe-lið XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 18/2009. 19. gr. Gildistaka. Reglugerð þessi er sett með stoð í. f., i., l. og p.-liðum 29. gr., sbr. ákvæði 24.-28. gr. laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, og 5. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Reglugerðin öðlast þegar gildi. Umhverfisráðuneytinu, 26. október 2011. Svandís Svavarsdóttir. Magnús Jóhannesson. VIÐAUKAR (sjá PDF-skjal) |