Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 335/2015

Nr. 335/2015 11. mars 2015
REGLUR
um ársreikninga lífeyrissjóða.

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Gildissvið.

Reglur þessar gilda um lífeyrissjóði sem starfa á grundvelli laga um skyldutryggingu lífeyris­réttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997, auk eftirtalinna sérlaga:

  1. laga um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda, nr. 155/1998,
  2. laga um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, nr. 1/1997,
  3. laga um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga, nr. 2/1997 og
  4. laga um Lífeyrissjóð bænda, nr. 12/1999.

Sé ekki annað tekið fram í reglum þessum gilda ákvæði laga um ársreikninga, nr. 3/2006, eftir því sem við á.

2. gr.

Skilgreiningar.

Í reglum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

Alþjóðlegir reikningsskilastaðlar: Reikningsskilastaðlar (IAS/IFRS) samkvæmt skilgreiningu 2. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002 sem framkvæmdastjórn ESB hefur samþykkt skv. 3. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002.

Eignarhluti: Hlutdeild lífeyrissjóðs í hlutafélögum, einkahlutafélögum og eigin fé annarra félaga.

Fjármálagerningur: Fjármálagerningur samkvæmt skilgreiningu laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007.

Gangvirði: Gangvirði er verðið sem fengist með því að selja eign eða yrði greitt við yfir­færslu á skuld í venjulegum viðskiptum á milli markaðsaðila á matsdegi. Aðferðir við mat á fjármálagerningum til gangvirðis skulu vera í samræmi við settar reikningsskilareglur.

Hlutdeildarfélag: Félag, þó ekki dótturfélag, sem annað félag og dótturfélög þess eiga veru­legan eignarhlut í eða hafa myndað varanleg tengsl við í þeim tilgangi að hafa áhrif á rekstur þess; félag er talið eiga verulegan eignarhlut ef það og dótturfélög þess eiga a.m.k. 20% eignarhlut í öðru félagi.

Settar reikningsskilareglur: Reglur sem reikningsskilaráð gefur út og alþjóðlegir reikn­ings­skila­staðlar, sbr. 2. gr. laga um ársreikninga nr. 3/2006.

Skipulegur markaður: Með skipulegum markaði er átt við skipulegan verðbréfamarkað, í skilningi laga um kauphallir, innan aðildarríkja Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) og ríkja Evrópska efnahagssvæðisins sem starfar reglulega, er opinn almenningi og viður­kenndur með þeim hætti sem Fjármálaeftirlitið metur gildan, sbr. 36. gr. laga um skyldu­tryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997. Sé markaðurinn utan ríkja OECD eða ríkja Evrópska efnahagssvæðisins skal Fjármálaeftirlitið hafa viður­kennt hann.

Virkur markaður: Með virkum markaði er átt við markað þar sem viðskipti með eignir eða skuldbindingar eru nægjanlega tíð og í nægjanlegu magni þannig að verðupplýsingar myndist með viðvarandi hætti.

Sé ekki annað tekið fram hafa hugtök í reglum þessum sömu merkingu og í lögum um ársreikninga, nr. 3/2006.

3. gr.

Samning ársreiknings.

Stjórn og framkvæmdastjóri bera ábyrgð á samningu ársreiknings fyrir hvert reikningsár og skal ársreikningurinn hafa að geyma yfirlit um breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris, efnahagsreikning, sjóðstreymi, yfirlit um tryggingafræðilega stöðu samtryggingardeildar, skýringar og skýrslu stjórnar. Yfirlit um tryggingafræðilega stöðu samtryggingardeildar skal byggja á tryggingafræðilegri athugun á fjárhag sjóðsins sem framkvæmt er af viður­kenndum tryggingastærðfræðingi, sbr. 24. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starf­semi lífeyrissjóða nr. 129/1997.

Stjórn og framkvæmdastjóri skulu undirrita ársreikninginn. Jafnframt skal áritun endur­skoðanda fylgja ársreikningnum. Ársreikningurinn með áritun endurskoðanda skal mynda eina heild. Í undirrituninni felst yfirlýsing um að ársreikningurinn sé saminn í sam­ræmi við lög, reglur og settar reikningsskilareglur, eftir því sem við á.

Ef stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri telur að ekki skuli samþykkja ársreikninginn, eða hann hefur mótbárur fram að færa sem hann telur rétt að sjóðfélagar fái vitneskju um, ber honum skylda til að gera grein fyrir því í áritun sinni.

Ársreikningur með undirritun stjórnenda og áritun endurskoðanda skal lagður fram í sam­ræmi við samþykktir lífeyrissjóðs.

Reikningsár lífeyrissjóðs er almanaksárið. Lífeyrissjóður skal bókfæra verðbréfaviðskipti sín á viðskiptadegi, þ.e. þegar hann gerist aðili að samningi.

Sýna skal sérgreint yfirlit um breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris, efnahagsreikning og sjóðstreymi í sérstökum kafla í ársreikningi, fyrir hverja fjárfestingarleið innan sérhverrar deildar sem lífeyrissjóður starfrækir.

4. gr.

Glögg mynd.

Ársreikningur lífeyrissjóðs skal gerður í samræmi við lög, reglur og settar reikn­ings­skila­reglur, eftir því sem við á, og gefa glögga mynd af breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris, fjárhagsstöðu og breytingu á handbæru fé.

Ef ákvæði laga, reglna þessara eða settra reikningsskilareglna nægja ekki til að gefa glögga mynd af breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris, fjárhagsstöðu og breytingu á handbæru fé skal vikið frá þeim í undantekningartilvikum til þess að reikningurinn gefi glögga mynd í skilningi 1. mgr. Í skýringum með ársreikningi skal greina frá slíkum frávikum ásamt ástæðum fyrir þeim og hvaða áhrif þau hafa á breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris og fjárhagsstöðu.

5. gr.

Uppsetning og samanburður milli ára.

Ársreikning skal setja upp samkvæmt reglum þessum. Framsetning á yfirliti um breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris, efnahagsreikningi, sjóðstreymi og yfirliti um trygg­inga­fræði­lega stöðu samtryggingardeildar skal vera í samræmi við form sem birt er í við­auka I. Ársreikningur skal settur upp með hliðstæðum hætti frá ári til árs nema sérstakar aðstæður gefi tilefni til annars. Breytingar skulu tilgreindar og rökstuddar í skýringum.

Við hvern lið í yfirliti um breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris, efnahagsreikningi, sjóðstreymi og yfirliti um tryggingafræðilega stöðu samtryggingardeildar skal sýnd sam­svarandi fjárhæð fyrir fyrra reikningsár til samanburðar. Ef liðirnir eru ekki sambærilegir við færslur frá fyrra ári skal aðlaga þær síðarnefndu. Sleppa má að aðlaga saman­burðar­fjárhæðir ef breyting á starfsemi lífeyrissjóðsins orsakar það að liðir eru ekki fylli­lega sambærilegir. Sundurgreindar upplýsingar um fjárhæðir fyrra árs skal gefa í skýr­ingum eftir því sem við á.

Liði í yfirliti um breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris og efnahagsreikningi, sem innihalda ekki neina fjárhæð, skal aðeins taka með ef slíkur liður var í reikningsskilum fyrra reikningsárs.

Heimilt er að sameina undirliði samkvæmt formi í viðauka I ef þeir teljast ekki mikilvægir til að gefa glögga mynd af breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris, fjárhagsstöðu og breytingu á handbæru fé. Undirliðir teljast ekki mikilvægir ef fjárhæðir þeirra eru mjög óverulegar. Mikilvægi einstakra undirliða skal metið í samhengi við aðra sambærilega undirliði. Gera skal grein fyrir öllum frávikum frá formi samkvæmt viðauka I í skýringum.

Upplýsingar í ársreikningi teljast mikilvægar ef ætla má að það að geta þeirra ekki eða misfærslur hafi veruleg áhrif á lífeyrisréttindi sjóðfélaga í samtryggingardeild, eða ákvarð­anir þeirra með tilliti til viðbótarlífeyrissparnaðar í séreignardeild. Þetta á jafnt við þegar upplýsingar eru felldar út á einum stað eða mörgum. Mikilvægi upplýsinga skal metið út frá samhengi við aðrar sambærilegar upplýsingar, og geta stærð og eðli úrfellingar eða misfærslna, eða hvort tveggja í sameiningu, haft áhrif á matið.

Breyti lífeyrissjóður um reikningsskilaaðferð á grundvelli ákvæða reglna þessara eða reikn­ingsskila­staðla um slíka breytingu skulu þeir liðir í ársreikningnum, sem það hefur áhrif á, breytast í samræmi við nýja aðferð. Breytast samanburðarfjárhæðir til samræmis við hina nýju aðferð. Gera skal grein fyrir þessum breytingum í skýringum.

Við einstaka liði í yfirliti um breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris og efnahagsreikningi skal eftir því sem við á vísa til skýringa, sbr. VI. kafla þessara reglna.

6. gr.

Samstæðureikningsskil.

Ákvæði reglna þessara gilda um samstæðureikning eftir því sem við getur átt.

7. gr.

Birting ársreiknings og fjárfestingarstefnu.

Endurskoðaður ársreikningur skal liggja frammi, og til afhendingar ef óskað er, á afgreiðslu­stað og heimasíðu sjóðsins eftir samþykkt hans. Senda skal Fjármálaeftirlitinu endur­skoðaðan ársreikning lífeyrissjóðs ásamt skýrslu stjórnar þegar eftir undirritun hans og eigi síðar en fjórum mánuðum eftir lok reikningsárs. Fjárfestingarstefna lífeyrissjóðs skal einnig liggja frammi, og til afhendingar ef óskað er, á afgreiðslustað og heimasíðu sjóðsins.

II. KAFLI

Yfirlit um breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris.

8. gr.

Iðgjöld.

Undir lið 1 Iðgjöld skal færa heildarfjárhæð iðgjalda og annarra framlaga, greiddra eða ógreiddra, sem skapað hafa réttindakröfur á lífeyrissjóðinn fyrir lok reikningsárs. Iðgjöldin skulu færð að frádregnum endurgreiddum og niðurfelldum iðgjöldum sem ekki skapa rétt­indi.

Undir lið 1.1 Iðgjöld sjóðfélaga skal færa iðgjöld frá sjóðfélögum.

Undir lið 1.2 Iðgjöld launagreiðenda skal færa iðgjöld frá launagreiðendum.

Undir lið 1.3 Réttindaflutningur og endurgreiðslur skal færa samtölu fjárhæða sem greiddar hafa verið eða mótteknar vegna réttindaflutnings eða endurgreiðslu á iðgjöldum. Verðbóta­tekjur/gjöld af réttindaflutningi færast einnig undir þennan lið.

Undir lið 1.4 Sérstök aukaframlög skal færa sérstök viðbótariðgjöld launagreiðenda eða ábyrgðaraðila eða sérstök framlög frá öðrum aðilum, sem líta má á sem viðbótariðgjöld, eins og árlegt fjárframlag ríkissjóðs til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða í samræmi við VI. kafla laga um tryggingagjald, nr. 113/1990. Þegar um séreignardeildir er að ræða skal þó færa viðbótariðgjöld undir tekjuliði 1.1 og 1.2. Í skýringum skal sundurliða þennan lið.

9. gr.

Lífeyrir.

Undir lið 2 Lífeyrir skal færa heildarfjárhæð lífeyris auk annarra greiðslna og kostnaðar sem tengist lífeyrisgreiðslum lífeyrissjóðs.

Undir lið 2.1 Heildarfjárhæð lífeyris skal færa heildarfjárhæð ellilífeyris, örorkulífeyris, makalífeyris og barnalífeyris á reikningsárinu til lífeyrisþega. Í skýringum skal koma fram sundur­liðun lífeyristegunda með samanburði við árið áður.

Undir lið 2.2 Framlag til starfsendurhæfingarsjóðs skal færa lögbundið gjald til starfs­endurhæf­ingarsjóðs á grundvelli 6. gr. laga um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starf­semi endurhæfingarsjóða, nr. 60/2012.

Undir lið 2.3 Beinn kostnaður vegna örorkulífeyris skal færa beinan kostnað vegna örorku­lífeyris, svo sem vegna örorkumats og endurhæfingar. Í skýringum skal sundurliða þennan lið.

Undir lið 2.4 Tryggingakostnaður skal færa kostnað við kaup á tryggingu vegna áhættudreifingar á lífeyrisskuldbindingum sjóðsins.

Undir lið 2.5 Eftirlaun frá Tryggingastofnun skal færa greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins vegna eftirlauna.

10. gr.

Hreinar fjárfestingartekjur.

Undir lið 3 Hreinar fjárfestingartekjur skal færa allar fjárfestingartekjur sjóðsins að frá­dregnum öllum fjárfestingargjöldum. Við hvern undirlið skal gera grein fyrir breytingum á gengi gjaldmiðla vegna erlendra eigna.

Undir lið 3.1 Hreinar tekjur af eignarhlutum í félögum og sjóðum skal færa tekjur af fjárfestingum lífeyrissjóðs í hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum, að frádregnum gjöldum vegna slíkra fjárfestinga önnur en þau sem tilgreina skal undir lið 3.7.

Til tekna samkvæmt lið 3.1 teljast arðgreiðslur af skráðum og óskráðum hlutabréfum félaga og fagfjárfestasjóða, hagnaður af sölu eignarhluta í félögum og sjóðum um sameiginlega fjárfestingu, breytingar á gangvirði félaga og sjóða um sameiginlega fjárfestingu til hækk­unar og hliðstæðar tekjur.

Til gjalda samkvæmt lið 3.1 telst tap af sölu eignarhluta í félögum og sjóðum um sam­eigin­lega fjárfestingu, breytingar á gangvirði þeirra til lækkunar svo og hliðstæð gjöld.

Í skýringum skal sundurliða breytingar á gangvirði niður á 20 stærstu fjárfestingar í félögum og sjóðum.

Undir lið 3.2 Hreinar tekjur af skuldabréfum skal færa tekjur af fjárfestingum lífeyrissjóðs í skuldabréfum, að frádregnum gjöldum vegna slíkra fjárfestinga önnur en þau sem tilgreina skal undir lið 3.7.

Til tekna samkvæmt lið 3.2 teljast vaxtatekjur, verðbætur og lántökuþóknanir af skulda­bréfum, hagnaður af sölu skuldabréfa, breytingar á gangvirði skuldabréfa til hækk­unar og hliðstæðar tekjur.

Til gjalda samkvæmt lið 3.2 teljast tap af sölu skuldabréfa, breytingar á gangvirði skulda­bréfa til lækkunar að meðtalinni varúðarniðurfærslu vegna tapshættu sem kann að vera fyrir hendi á uppgjörsdegi svo og hliðstæð gjöld.

Í skýringum skal sundurliða hreinar tekjur af skuldabréfum eftir matsaðferðum og ein­stökum skuldabréfaflokkum. Einnig skal í skýringum gera grein fyrir niðurfærslu skulda­bréfa, eftir því sem við á.

Undir lið 3.3 Hreinar tekjur af afleiðusamningum skal færa tekjur af fjárfestingum lífeyrissjóðs í afleiðusamningum, að frádregnum gjöldum vegna slíkra fjárfestinga önnur en þau sem tilgreina skal undir lið 3.7. Í skýringum skal gera nánari grein fyrir þessum lið, sbr. 35. og 36. gr. þessara reglna.

Undir lið 3.4 Vaxtatekjur af bundnum bankainnstæðum skal færa vaxtatekjur vegna banka­innstæðna sem bundnar eru til lengri tíma en þriggja mánaða.

Undir lið 3.5 Hreinar tekjur af fjárfestingum í íbúðarhúsnæði skal færa tekjur af fjár­fest­ingum lífeyrissjóðs í íbúðarhúsnæði á grundvelli 36. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, að frádregnum gjöldum vegna slíkra fjárfestinga önnur en þau sem tilgreina skal undir lið 3.7.

Undir lið 3.6 Aðrar fjárfestingartekjur skal færa aðrar fjárfestingartekjur en þær sem koma fram í liðum 3.1 – 3.5, sundurliðað samkvæmt liðum 3.6.1 – 3.6.3.

Undir lið 3.6.1 Vaxtatekjur af handbæru skal færa vaxtatekjur af sjóði og óbundnum inn­stæðum hjá bönkum og sparisjóðum, að frádregnum vaxtagjöldum.

Undir lið 3.6.2 Vaxtatekjur af iðgjöldum og öðrum kröfum skal færa vaxtatekjur af ið­gjöldum og öðrum kröfum, að frádregnum vaxtagjöldum.

Undir lið 3.6.3 Ýmsar fjárfestingartekjur skal færa fjárfestingartekjur sem ekki falla undir liði 3.1 – 3.5, 3.6.1 og 3.6.2. Undir þennan lið geta m.a. fallið tekjur af eignalið 1.6 Aðrar fjárfestingar. Veita skal nánari upplýsingar um þennan lið í skýringum og sundurliða hann, nema um óverulega fjárhæð sé að ræða.

Undir lið 3.7 Fjárfestingargjöld skal telja öll fjárfestingargjöld og allar þóknanir fjár­mála­fyrirtækja og sjóða um sameiginlega fjárfestingu vegna umsýslu og stjórnunar á fjár­fest­ingum lífeyrissjóðs. Undir þennan lið skal einnig færa fjárfestingargjöld sem ekki falla undir liði 3.1 – 3.5, m.a. gjöld vegna eignaliðar 1.6 Aðrar fjárfestingar. Í skýringum skal veita nánari upplýsingar um þennan lið, sundurliða hann og greina frá öllum fjár­fest­ingar­gjöldum og þóknunum. Jafnframt skal í skýringum greina frá áætlaðri umsýslu­þóknun þegar kostnaðarupplýsingar liggja ekki fyrir, t.d. vegna þess að upplýsingar um slíkar þóknanir fást ekki gefnar upp eða kostnaður er innifalinn í gengismuni eða vaxtatekjum viðkomandi sjóða.

11. gr.

Rekstrarkostnaður.

Undir lið 4 Rekstrarkostnaður skal færa kostnað vegna reksturs sjóðsins.

Undir lið 4.1 Skrifstofu- og stjórnunarkostnaður skal færa skrifstofu- og stjórnunarkostnað, þ.m.t. kostnað við rekstur fasteigna og afskriftir vegna varanlegra rekstrarfjármuna. Frá skrifstofu- og stjórnunarkostnaði skal draga endurgreiddan kostnað frá aðilum sem standa að lífeyrissjóðnum, svo sem vegna innheimtu iðgjalda stéttarfélags. Í skýringum skal sundurliða þennan lið og gera grein fyrir helstu kostnaðarliðum og endurgreiddum kostnaði.

12. gr.

Aðrar tekjur.

Undir lið 5 Aðrar tekjur skal færa tekjur sem ekki eru taldar annars staðar. Í skýringum skal gerð grein fyrir þessum lið nema um óverulega fjárhæð sé að ræða.

13. gr.

Önnur gjöld.

Undir lið 6 Önnur gjöld skal færa gjöld sem ekki eru talin annars staðar, s.s. virðisrýrnun krafna sbr. 31. gr. þessara reglna. Í skýringum skal gerð grein fyrir þessum lið nema um óverulega fjárhæð sé að ræða.

III. KAFLI

Efnahagsreikningur.

Eignir.

14. gr.

Fjárfestingar.

Undir lið 1 Fjárfestingar skal færa allar fjárfestingar lífeyrissjóðs sundurliðað eftir því hvort um er að ræða eignarhluti í félögum og sjóðum, skuldabréf, afleiðusamninga, bundnar bankainnstæður, fjárfestingar í íbúðarhúsnæði eða aðrar fjárfestingar.

Undir lið 1.1 Eignarhlutir í félögum og sjóðum skal færa hlutabréf og hlutdeildarskírteini. Í skýringum skal gera nánari grein fyrir þessum lið, sbr. 35. og 43. gr. þessara reglna.

Undir lið 1.2 Skuldabréf skal færa skuldabréf. Undir þennan lið skal m.a. færa útlán, þ.m.t. áfallna vexti, sem veitt eru gegn veði í fasteign og lausafé sem tryggingu fyrir greiðslu. Í skýringum skal gera nánari grein fyrir þessum lið, m.a. með því að sundurliða skuldabréf eftir því hvort þau eru metin á gangvirði eða á afskrifuðu kostnaðarverði, sbr. 27., 28., 35. og 43. gr. þessara reglna. Í skýringum skal einnig gera grein fyrir skiptingu veðlána til sjóðfélaga annars vegar og annarra hins vegar.

Undir lið 1.3 Afleiðusamningar skal færa afleiðusamninga sem eru í jákvæðri stöðu. Í skýringum skal gera nánari grein fyrir þessum lið, sbr. 35. og 36. gr.

Undir lið 1.4 Bundnar bankainnstæður skal færa innlán í bönkum og sparisjóðum sem bundin eru til lengri tíma en þriggja mánaða. Handbært fé og óbundnar innstæður skal færa undir lið 4 Handbært fé.

Undir lið 1.5 Fjárfestingar í íbúðarhúsnæði skal færa allar fjárfestingar lífeyrissjóðs í íbúðarhúsnæði á grundvelli 36. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997. Í skýringum skal gera nánari grein fyrir þessum lið.

Undir lið 1.6 Aðrar fjárfestingar skal færa allar fjárfestingar sem ekki falla undir liði 1.1 – 1.5. Hér skal færa húseignir og lóðir sem tekin eru til fullnustu greiðslu. Í skýringum skal gera nánari grein fyrir skiptingu og breytingu á þessum lið.

Framangreindar sundurliðanir skulu ná til hverrar fjárfestingarleiðar innan sérhverrar deildar sem lífeyrissjóður starfrækir.

15. gr.

Kröfur.

Undir lið 2.1 Kröfur á dóttur- og hlutdeildarfélög skal færa heildarfjárhæð krafna á dóttur- og hlutdeildarfélög sem ekki falla undir lið 2.2. Í skýringum skal sundurgreina þessar kröfur eftir eðli þeirra.

Undir lið 2.2 Kröfur á launagreiðendur skal færa heildarfjárhæð krafna á launagreiðendur svo sem iðgjaldakröfur, endurkröfur, verðbréf og kröfur vegna samninga um greiðslur. Verðbréf og samninga til lengri tíma skal færa undir viðeigandi liði fjárfestinga.

Undir lið 2.3 Fyrirframgreiddur kostnaður og áunnar tekjur skal færa gjöld sem stofnað er til á reikningsárinu en varða síðari ár, og tekjur sem varða reikningsárið en innheimtast eftir lok þess. Áunna vexti skal þó færa með viðeigandi eignaliðum. Ef þessi liður nemur verulegum fjárhæðum skal sundurliða hann í skýringum.

Undir lið 2.4 Aðrar kröfur skal færa kröfur sem ekki falla undir aðra liði. Þegar um verulegar fjárhæðir er að ræða skal gerð grein fyrir þeim í skýringum.

16. gr.

Ýmsar eignir.

Undir lið 3.1 Óefnislegar eignir skal, að uppfylltum ákvæðum settra reikningsskilareglna er varðar framtíðarmöguleika til tekjuöflunar, telja til eignar þróunarkostnað og óefnisleg réttindi, svo sem einkaleyfi, einkarétt, vörumerki og þess háttar réttindi. Kostnað við stofnun sjóðsins má ekki eignfæra.

Undir lið 3.2 Varanlegir rekstrarfjármunir skal færa rekstrarfjármuni og efnislegar eignir svo sem húseignir og lóðir til eigin nota, innréttingar, áhöld og búnað og fyrirframgreiðslur vegna þeirra. Í skýringum skal gera nánari grein fyrir þessum lið, sbr. einnig 42. gr. þessara reglna.

Undir lið 3.3 Aðrar eignir skal færa eignir sem notaðar eru í rekstri sjóðsins en falla ekki undir liði 3.1 og 3.2. Nánari grein skal gerð fyrir þessum lið í skýringum nemi hann verulegri fjárhæð.

17. gr.

Handbært fé.

Undir lið 4 Handbært fé skal færa sjóð og innstæður hjá bönkum og sparisjóðum sem ekki falla undir lið 1.4 Bundnar bankainnstæður.

Skuldir.

18. gr.

Viðskiptaskuldir.

Undir lið 5.1 Skuldir við dóttur- og hlutdeildarfélög skal færa heildarfjárhæð skulda, þ.m.t. áfallna vexti, við dóttur- og hlutdeildarfélög. Í skýringum skal sundurgreina þessar skuldir eftir félögum sem um ræðir.

Undir lið 5.2 Skuldir við lánastofnanir skal færa allar skuldir sjóðsins aðrar en afleiðuskuldir, þ.m.t. áfallna vexti, við lánastofnanir. Þegar um verulegar fjárhæðir er að ræða skal gerð grein fyrir þeim í skýringum.

Undir lið 5.3 Afleiðuskuldir skal færa afleiðusamninga sem eru í neikvæðri stöðu. Í skýringum skal gera nánari grein fyrir þessum lið, sbr. 35. og 36. gr.

Undir lið 5.4 Ógreiddur gjaldfallinn lífeyrir skal færa ógreiddan gjaldfallinn lífeyri í árslok.

Undir lið 5.5 Áfallinn kostnaður og fyrirframinnheimtar tekjur skal færa gjöld sem varða reikningsárið en koma til greiðslu síðar, og tekjur sem innheimtar hafa verið á reikn­ings­árinu en varða síðari reikningsár og falla ekki undir aðra liði. Áfallna vexti skal þó færa með viðeigandi skuldaliðum. Verulegar fjárhæðir undir þessum lið skal sundurgreina í skýr­ingum.

Undir lið 5.6 Aðrar skuldir skal færa skuldir sem ekki falla undir aðra liði. Þegar um veru­legar fjárhæðir er að ræða skal gerð grein fyrir þeim í skýringum.

19. gr.

Skuldbindingar utan efnahags.

Vegna liðar 6 Skuldbindingar utan efnahags skal í skýringum veita upplýsingar um skuld­bindingar sem ekki eru tilfærðar í efnahagsreikningi, sbr. 45. gr. þessara reglna. Undir þennan lið falla ekki lífeyrisskuldbindingar.

IV. KAFLI

Sjóðstreymi.

20. gr.

Innihald sjóðstreymis.

Í yfirliti um sjóðstreymi skal færa inn- og útgreiðslur á árinu flokkaðar í inngreiðslur, útgreiðslur og fjárfestingarhreyfingar, sbr. form í viðauka I. Ennfremur skal yfirlitið sýna sérstaklega breytingar á handbæru fé og handbært fé við upphaf og lok reikningsárs.

21. gr.

Inngreiðslur.

Undir lið 1 Inngreiðslur skal sýna með sundurgreindum hætti inngreiðslur sem stafa frá eftirtöldum liðum:

  1. Iðgjöld skv. lið 1 í yfirliti um breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris,
  2. Vaxtatekjur af handbæru fé skv. lið 3.6.1 og Vaxtatekjur af iðgjöldum og öðrum kröfum skv. lið 3.6.2 í yfirliti um breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris, og
  3. allar aðrar innborganir sem stafa frá einstökum liðum á yfirliti um breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris og efnahagsreikningi og koma ekki fram í lið 3 Fjárfest­ingar­hreyfingar, sbr. 23. gr. þessara reglna.

22. gr.

Útgreiðslur.

Undir lið 2 Útgreiðslur skal sýna með sundurgreindum hætti útgreiðslur sem stafa frá eftir­töldum liðum:

  1. Lífeyrir skv. lið 2 í yfirliti um breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris,
  2. Rekstrarkostnaður skv. lið 4 í yfirliti um breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris,
  3. Fjárfesting í rekstrarfjármunum skv. lið 3.2 í efnahagsreikningi, og
  4. allar aðrar útborganir sem stafa frá einstökum liðum á yfirliti um breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris og efnahagsreikningi og koma ekki fram í lið 3 Fjárfest­ingar­hreyfingar, sbr. 23. gr. þessara reglna.

23. gr.

Fjárfestingarhreyfingar.

Undir lið 3 Fjárfestingarhreyfingar skal sýna inn- og útgreiðslur, sem stafa frá kaupum eða sölu á verðbréfum og öðrum fjárfestingum sem tilgreindar eru undir fjárfestingum sam­kvæmt yfirliti um breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris og efnahagsreikningi.

Undir liðum 3.1 – 3.3 skal sýna inn- og útgreiðslur sem stafa frá eignarhlutum í félögum og sjóðum skv. lið 1.1 í efnahagsreikningi og lið 3.1 í yfirliti um breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris, sundur­greint eftir keyptum og seldum eignarhlutum annars vegar og innborguðum tekjum, s.s. arðgreiðslum, hins vegar.

Undir liðum 3.4 – 3.6 skal sýna inn- og útgreiðslur sem stafa frá skuldabréfum skv. lið 1.2 í efnahagsreikningi og lið 3.2 í yfirliti um breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris, sundur­greint eftir keyptum og seldum skuldabréfum annars vegar og afborgunum á höfuð­stól og vöxtum skuldabréfa hins vegar.

Undir lið 3.7 skal sýna inn- og útgreiðslur sem stafa frá uppgjöri afleiðusamninga, sbr. liði 1.3 og 5.3 í efnahagsreikningi og lið 3.3 í yfirliti um breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris.

Undir liðum 3.8 – 3.9 skal sýna inn- og útgreiðslur sem stafa frá breytingum á lið 1.4 í efnahagsreikningi, sundurgreint eftir nýjum bundnum innlánum og endurgreiddum bundn­um innlánum.

Undir liðum 3.10 – 3.13 skal sýna inn- og útgreiðslur sem stafa frá lið 1.5 í efna­hags­reikningi og lið 3.5 í yfirliti um breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris, sundur­greint eftir kaupum og sölu í íbúðarhúsnæði. Gera skal ennfremur grein fyrir inn­borg­uðum tekjum og greiddum gjöldum vegna reksturs íbúðarhúsnæðis, hvort sem þær stafa af fjárfestingum í íbúðarhúsnæði eða vegna fullnustueigna, sbr. lið 1.6 í efna­hags­reikningi.

Undir liðum 3.14 – 3.15 skal sýna inn- og útgreiðslur sem stafa frá keyptum og seldum fjárfestingum, öðrum en þeim sem falla undir liði 3.1 – 3.13 samkvæmt þessari grein.

V. KAFLI

Matsreglur.

24. gr.

Almennar reglur.

Við mat á einstökum liðum ársreikningsins skal farið eftir ákvæðum V. kafla þessara reglna. Ef veruleg óvissa er um mat skal greina sérstaklega frá því í skýringum. Hliðstæðum aðferðum skal beitt við matið frá ári til árs, nema ef ný aðferð gefur gleggri mynd og veitir áreiðanlegri upplýsingar en fyrri aðferðir. Breyting á aðferð telst breyting á reikn­ings­halds­legu mati.

25. gr.

Matsaðferðir vegna fjárfestinga.

Beita skal sömu matsaðferðum innan sama liðar ársreiknings þegar um fjárfestingar er að ræða, að undanskildum fjármálagerningum skv. 27. og 28. gr. þessara reglna. Í skýringum skal greint frá þeim matsaðferðum sem beitt er við hvern lið fjárfestinga.

26. gr.

Mat fjármálagerninga.

Fjármálagerninga, þ.m.t. eignarhluti í dóttur- og hlutdeildarfélögum, aðra en þá sem til­greindir eru í 27. gr. þessara reglna, skal meta á gangvirði. Mat á fjármálagerningum sem metnir eru á gangvirði skal vera í samræmi við settar reikningsskilareglur.

Þrátt fyrir 1. mgr. þessarar greinar er lífeyrissjóði heimilt að færa skuldabréf sem er haldið til gjalddaga, í samræmi við 28. gr. þessara reglna.

27. gr.

Útlán til sjóðfélaga.

Færa skal útlán til sjóðfélaga og önnur útlán til eignar miðað við þau vaxtakjör sem um var samið þegar bréfið var keypt eða móttekið.

Útlán til sjóðfélaga og önnur útlán skal færa með áföllnum vöxtum, verðbótum og gengis­mun á reikningsskiladegi. Verðbætur skal miða við viðeigandi vísitölu næsta mánaðar eftir lok reikningsárs. Skuldabréf í erlendum gjaldmiðli skal færa á kaupgengi gjaldmiðils í lok reikningsárs.

Við mat á útlánum og öðrum skuldabréfum sem metin eru á kostnaðarverði skal taka tillit til þeirrar tapsáhættu sem kann að vera fyrir hendi á uppgjörsdegi og færa í afskriftarreikning niðurstöðu slíks mats. Afskriftarreikninginn skal draga frá útlánum til sjóðsfélaga í efna­hags­reikningi. Tapsáhætta skal metin í samræmi við settar reikningsskilareglur. Færa skal niður­færsluna undir lið 3.2 Hreinar tekjur af skuldabréfum í yfirliti um breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris.

28. gr.

Skuldabréfi haldið til gjalddaga.

Heimilt er að færa skuldabréf sem er haldið til gjalddaga í samræmi við 27. gr. þessara reglna.

Ásetning um að halda skuldabréfi til gjalddaga skal byggja á skjalfestum áætlunum, stefn­um og verklagsreglum sem lífeyrissjóður setur vegna fjárfestinga í skuldabréfum.

Lífeyrissjóður, sem færir skuldabréf í samræmi við 27. gr., skal við kaupdag skuldabréfs tilgreina hvort hann ætli sér að halda því til gjalddaga. Skuldabréf sem lífeyrissjóður til­greinir að verði haldið til gjalddaga er óheimilt að meta á gangvirði eftir kaupdag. Enn­fremur er óheimilt að færa skuldabréf úr gangvirðismati yfir í að vera haldið til gjald­daga.

Í skýringum skal sundurliða skuldabréf sem er haldið til gjalddaga og tilgreina gangvirði þeirra.

29. gr.

Fjárfestingar í íbúðarhúsnæði og fullnustueignir.

Fjárfestingar í íbúðarhúsnæði samkvæmt lið 1.5 í efnahagsreikningi skulu færðar á gang­virði. Húseignir og lóðir sem tekin eru til fullnustu greiðslu, sbr. lið 1.6 í efnahags­reikningi, skulu færðar á gangvirði þeirra eða kostnaðarverði, hvoru sem lægra reynist.

30. gr.

Varanlegir rekstrarfjármunir og óefnislegar eignir.

Varanlega rekstrarfjármuni samkvæmt lið 3.2 í efnahagsreikningi skal færa á afskrifuðu kostnaðarverði. Varanlegir rekstrarfjármunir, sem nýtast takmarkaðan tíma vegna aldurs, úreldingar eða slits eða af hliðstæðum ástæðum, skulu afskrifaðir árlega á kerfisbundinn hátt á áætluðum nýtingartíma þeirra í samræmi við settar reikningsskilareglur.

Ef gangvirði varanlegra rekstrarfjármuna er lægra en bókfært verð þeirra og ástæður þess verða ekki taldar skammvinnar ber að færa bókfært verð þeirra niður að því marki sem telja verður nauðsynlegt samkvæmt settum reikningsskilareglum. Ef ástæður lækkunarinnar eiga ekki lengur við ber að færa bókfært verð þeirra upp að því marki að engin virðisrýrnun hefði átt sér stað.

Óefnislegar eignir skulu færðar á afskrifuðu kostnaðarverði. Óefnislegar eignir skal afskrifa árlega á áætluðum nýtingartíma þeirra. Ef gangvirði óefnislegra eigna er lægra en afskrifað kostnaðarverð og ástæður þess verða ekki taldar skammvinnar, ber að færa verð þeirra niður að því marki sem telja verður nauðsynlegt samkvæmt settum reikningsskilareglum.

Gera skal grein fyrir afskriftum og niðurfærslum samkvæmt þessari grein í skýringum.

31. gr.

Mat á virði krafna.

Á hverjum reikningsskiladegi skal meta kröfur með hliðsjón af virðisrýrnun og færa í afskriftarreikning samkvæmt niðurstöðu slíks mats. Afskriftarreikningur skal myndaður með tilliti til aðferða settra reikningsskilareglna og taka tillit til einstakra útlána og fjárfestinga sem og safns útlána og fjárfestinga. Afskriftarreikninginn skal draga frá viðkomandi liðum í efnahagsreikningi. Færa á virðisrýrnunina undir lið 6 Önnur gjöld í yfirliti um breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris og gera grein fyrir henni í skýringum.

32. gr.

Umreikningur í íslenskar krónur.

Eignir og skuldir í erlendri mynt skulu umreiknaðar í íslenskar krónur á opinberu gengi í lok reikningsárs. Nota skal opinbert gengi sem Seðlabanki Íslands auglýsir, kaupgengi fyrir eignir og sölugengi fyrir skuldir.

VI. KAFLI

Skýringar.

Almenn ákvæði.

33. gr.

Gera skal grein fyrir þeim reikningsskilaaðferðum sem beitt er við mat á hinum ýmsu liðum ársreiknings. Einnig skal tilgreina það gengi sem miðað er við þegar einstakir liðir eru umreiknaðir úr öðrum gjaldmiðli í íslenskar krónur.

34. gr.

Í skýringum skal m.a. veita upplýsingar um eftirtalda liði eins og nánar er kveðið á um í II. og III. kafla þessara reglna.

Í yfirliti um breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris:

Sérstök aukaframlög, sbr. lið 1.4,
Lífeyrir, sbr. lið 2.1,
Beinn kostnaður vegna örorkulífeyris, sbr. lið 2.3,
Hreinar tekjur af eignarhlutum í félögum og sjóðum, sbr. lið 3.1,
Hreinar tekjur af skuldabréfum, sbr. lið 3.2,
Hreinar tekjur af afleiðusamningum, sbr. lið 3.3,
Hreinar tekjur af fjárfestingum í íbúðarhúsnæði, sbr. lið 3.5,
Ýmsar fjárfestingartekjur, sbr. lið 3.6.3,
Fjárfestingargjöld, sbr. lið 3.7,
Skrifstofu- og stjórnunarkostnaður, sbr. lið 4.1,
Aðrar tekjur, sbr. lið 5 og
Önnur gjöld, sbr. lið 6.

Í efnahagsreikningi:

Eignarhlutir í félögum og sjóðum, sbr. lið 1.1,
Skuldabréf, sbr. lið 1.2,
Afleiðusamningar, sbr. lið 1.3,
Aðrar fjárfestingar, sbr. lið 1.6,
Kröfur á dóttur- og hlutdeildarfélög, sbr. lið 2.1,
Fyrirframgreiddur kostnaður og áunnar tekjur, sbr. lið 2.3,
Aðrar kröfur, sbr. lið 2.4,
Varanlegir rekstrarfjármunir, sbr. lið 3.2,
Aðrar eignir, sbr. lið 3.3,
Skuldir við dóttur- og hlutdeildarfélög, sbr. lið 5.1,
Skuldir við lánastofnanir, sbr. lið 5.2,
Afleiðuskuldir, sbr. lið 5.3,
Áfallinn kostnaður og fyrirframinnheimtar tekjur, sbr. lið 5.5,
Aðrar skuldir, sbr. lið 5.6 og
Skuldbindingar utan efnahags, sbr. lið 6.

Við einstaka liði ársreikningsins skal vísað til viðeigandi skýringa.

35. gr.

Veita skal eftirfarandi upplýsingar þegar fjármálagerningar eru metnir til gangvirðis skv. 26. gr.:

  1. Helstu forsendur sem liggja að baki matslíkönum og matsaðferðum þegar gangvirði er ákvarðað.
  2. Breytingar á gangvirði fyrir hvern flokk fjármálagerninga samkvæmt sundurliðun hreinna fjárfestingartekna í yfirliti um breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris.
  3. Umfang og eðli hvers flokks afleiðusamninga, þ.m.t. mikilvægi skilmála og skilyrði sem gætu haft áhrif á fjárhæð, tímasetningu og áreiðanleika framtíðarfjárstreymis.
  4. Í skýringum skal birta töflu yfir fjármálagerninga sem færðir eru á gangvirði, er sýnir þrepaskiptingu gangvirðis samkvæmt settum reikningsskilareglum sundurliðað fyrir fjáreignir og fjárskuldir.
  5. Í skýringum skal birta töflu sem sýnir bókfært virði fjáreigna og fjárskulda, sundur­liðað eftir útlánum, kröfum og skuldum á afskrifuðu kostnaðarverði.

36. gr.

Gera skal grein fyrir afleiðuviðskiptum þar sem sérstaklega komi fram, fyrir hverja tegund viðskipta, fjárhæðir samninga og áhrif þeirra á ársreikninginn. Þá skal koma fram í hvaða tilgangi þeir eru gerðir svo sem til að draga úr áhrifum vaxtabreytinga, gengisbreytinga eða breytinga á markaðsverði.

37. gr.

Tilgreina skal nöfn, heimilisföng og félagsform dótturfélaga og hlutdeildarfélaga. Geta skal hlutdeildar í hverju þeirra, eigin fjár þeirra samtals og rekstrarniðurstöðu samkvæmt síðasta ársreikningi. Ekki er nauðsynlegt að veita þessar upplýsingar ef þær hafa óverulega þýð­ingu.

38. gr.

Tilgreina skal nöfn, heimilisföng og form félaga með ótakmarkaðri ábyrgð ef sjóðurinn er aðili að slíku félagi.

39. gr.

Hafi lífeyrissjóður sett eignir að veði skal veita upplýsingar um fjárhæð veðsetninganna og bókfært verð veðsettra eigna, sundurliðað eftir eignum. Heildartryggingar í þágu dóttur­félaga og annarra félaga innan sömu samstæðu skulu tilgreindar sérstaklega.

40. gr.

Í skýringum skal tilgreina heildarfjárhæð launa og þóknana til stjórnar, endur­skoð­unar­nefndar og stjórnenda lífeyrissjóðs vegna starfa í þágu sjóðsins. Upp­lýs­ingarnar skulu sérgreindar á einstaka stjórnarmenn og stjórnendur. Með stjórnendum er átt við aðila, einn eða fleiri, sem ráðinn er af stjórn eða framkvæmdastjóra lífeyrissjóðs til að bera ábyrgð á daglegum rekstri sjóðsins eða einstökum hlutum af daglegum rekstri, s.s. eigna­stýringu. Með launum og þóknunum er auk beinna launa átt við hvers konar starfs­tengd hlunnindi svo sem bifreiða- og húsaleiguhlunnindi og aukið mótframlag í séreignar­sjóð. Með störfum í þágu lífeyrissjóðs er m.a. átt við störf sem viðkomandi gegnir í krafti eignaraðildar lífeyrissjóðsins að dóttur- eða hlutdeildarfélögum, sem og setu í nefndum og stjórnum sem hann er tilnefndur í af hálfu lífeyrissjóðsins, þótt þóknanir fyrir þau störf séu ekki greidd af lífeyrissjóðnum sjálfum.

41. gr.

Í skýringum skal veita upplýsingar um þóknun til endurskoðanda / endurskoðunarfélags, sem annast ytri endurskoðun lífeyrissjóðsins. Upplýsingar skal sundurliða í þóknun fyrir endur­skoðun, könnun og aðra staðfestingarvinnu annars vegar og fyrir aðra þjónustu hins vegar.

Í skýringum skal veita upplýsingar um þóknun til endurskoðanda / endurskoðunarfélags / aðila sem hlotið hefur viðurkenningu Fjármálaeftirlitsins á grundvelli 2. mgr. 34. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, sem annast innri endurskoðun lífeyrissjóðsins. Upplýsingar skal sundurliða í þóknun fyrir innri endurskoðun annars vegar og fyrir aðra þjónustu hins vegar.

Í skýringum skal veita upplýsingar um þóknun til tryggingastærðfræðings, sundurliðað í þóknun fyrir útreikninga á tryggingafræðilegri stöðu annars vegar og fyrir aðra þjónustu hins vegar.

Eignaliðir.

42. gr.

Upplýsa skal um síðasta opinbert fasteignamat fasteigna og vátryggingarverðmæti varan­legra rekstrarfjármuna, sbr. liði 1.5 Fjárfestingar í íbúðarhúsnæði, 1.6 Aðrar fjár­fest­ingar og 3.2 Varanlegir rekstrarfjármunir í efnahagsreikningi.

Gera skal grein fyrir bókfærðu verði húseigna og lóða sem lífeyrissjóðurinn hefur til eigin nota. Noti sjóðurinn hluta húseignar skal reikna verðið hlutfallslega.

43. gr.

Í skýringum skal gera grein fyrir skiptingu fjárfestinga í heild eftir helstu gjaldmiðlum.

Sundurliða skal í skýringum eign í hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum skv. lið 1.1 Eignar­hlutir í félögum og sjóðum í efnahagsreikningi eftir félögum eða sjóðum. Tilgreina skal hvort félagið eða sjóðurinn er skráður á skipulegum markaði og greina frá eignarhlutdeild í hverju félagi/sjóði ásamt markaðsverði og kostnaðarverði. Ekki er nauðsynlegt að sundur­liða eign þar sem eignarhlutdeild í einstökum félögum/sjóðum er undir 2% af útgefn­um hlutum eða hlutabréfum nema upplýsingarnar hafi verulega þýðingu. Þrátt fyrir 3. málsl. 2. mgr. skal lífeyrissjóður ávallt sundurliða í skýringum eign í hlutabréfum og hlutum skv. 1. málsl., nemi eignarhluturinn meira en 5% af hreinni eign sjóðsins til greiðslu lífeyris.

Skuldaliðir og aðrar skuldbindingar.

44. gr.

Greina skal frá samningum sem gerðir hafa verið við stjórn, framkvæmdastjóra og starfs­menn um eftirlaun og hliðstæð réttindi, og tilgreina heildarfjárhæðir. Áfallnar skuld­bind­ingar sjóðsins vegna þessa skulu sundurliðaðar á stjórn, framkvæmdastjóra og aðra stjórnendur annars vegar og aðra starfsmenn hins vegar.

45. gr.

Veita skal upplýsingar um aðrar skuldbindingar sem ekki eru tilfærðar í efnahagsreikningi, að því leyti sem það skiptir máli við mat á fjárhagsstöðu. Hafi sjóðurinn skuldbundið sig til fjárfestinga eða gert leigusamninga sem nema verulegum fjárhæðum skulu slíkar skuld­bindingar tilgreindar sérstaklega.

46. gr.

Forsendur fyrir útreikningi tryggingastærðfræðings á tryggingafræðilegri stöðu.

Gera skal í skýringum með ársreikningi grein fyrir meginforsendum tryggingastærðfræðings við útreikninga á tryggingafræðilegri stöðu lífeyrissjóðsins og þeim breytingum sem verða á milli núverandi og síðasta reikningsárs.

47. gr.

Yfirlit um tryggingafræðilega stöðu samtryggingardeildar.

Í skýringum skal gera grein fyrir breytingum á tryggingafræðilegri stöðu og áföllnum líf­eyris­skuldbindingum samtryggingardeildar í sérstöku yfirliti samkvæmt niðurstöðu trygg­inga­fræðilegrar athugunar, sbr. eftirfarandi sundurliðun.

Yfirlit um breytingar á tryggingafræðilegri stöðu samtryggingardeildar árið 20xx

20xx     

20xx - 1

Eignir

Endurmetin eign til tryggingafræðilegs uppgjörs í árslok ..............

Endurmetin eign til tryggingafræðilegs uppgjörs í árbyrjun ...........

           

           

Hækkun/lækkun endurmetinnar eignar á árinu ...........................

           

           

Skuldbindingar

Skuldbindingar í árslok .............................................................

Skuldbindingar í ársbyrjun ........................................................

           

           

Hækkun/lækkun skuldbindinga á árinu .......................................

           

           

           

           

Breyting á tryggingafræðilegri stöðu á árinu ........................

          0

          0

Yfirlit um breytingar á áföllnum lífeyrisskuldbindingum samtryggingardeildar árið 20xx

Áfallnar lífeyrisskuldbindingar í ársbyrjun ....................................

Hækkun lífeyrisskuldbindinga vegna vaxta og verðbóta .................

Hækkun áunninna réttinda vegna iðgjalda ársins ..........................

Lækkun vegna greidds lífeyris á árinu .........................................

Hækkun vegna nýrra lífslíkataflna ...............................................

           

           

Hækkun/lækkun vegna annarra breytinga ...................................

           

           

Áfallnar lífeyrisskuldbindingar í árslok

          0

           0

48. gr.

Áhættuþættir í starfsemi og áhættustýring.

Í skýringum skal gera grein fyrir þeirri áhættu sem felst í starfsemi lífeyrissjóðsins og þeim aðferðum sem sjóðurinn beitir við eftirlit og stýringu á þeirri áhættu. Hér er meðal annars átt við fjárhagslega áhættu (markaðsáhættu) þ.e. gjaldeyrisáhættu, vaxtaáhættu og aðra verðáhættu, mótaðilaáhættu, rekstraráhættu, lausafjáráhættu og lífeyristryggingaráhættu, sbr. leiðbeinandi tilmæli um áhættustýringu (eftirlitskerfi) samtryggingardeilda lífeyrissjóða og vörsluaðila séreignarsparnaðar.

Ennfremur skal í skýringum veita upplýsingar um eðli og umfang áhættu sem stafar frá fjár­mála­gerningum og skuldbindingum sjóðsins. Annars vegar eigindlegar (e. qualitative) skýr­ingar um hvern áhættuflokk og hvernig áhættunni er stjórnað og hins vegar megind­legar (e. quantitative) skýringar um hvern áhættuflokk, sundurliðað eftir markaðs-, útlána-, lausafjár- og lífeyristryggingaráhættu að meðtalinni næmnigreiningu.

Kennitölur.

49. gr.

Ársreikningur skal hafa að geyma yfirlit með helstu niðurstöðutölum og kennitölum úr rekstri og efnahag sjóðsins í heild á reikningsárinu og samsvarandi upplýsingum fjögurra undangenginna reikningsára.

Í yfirlitinu skulu eftirtaldir liðir koma fram:

1. Fjárhagsstaða skv. tryggingafræðilegri úttekt samtryggingardeildar:

  1. Hrein eign umfram heildarskuldbindingar %
  2. Hrein eign umfram áfallnar skuldbindingar %

Með hreinni eign umfram heildarskuldbindingar í % er átt við endurmetna hreina eign til greiðslu lífeyris ásamt núvirði framtíðariðgjalda umfram heildarskuldbindingar í hlutfalli af heildarskuldbindingum.

Með hreinni eign umfram áfallnar skuldbindingar í % er átt við endurmetna hreina eign til greiðslu lífeyris umfram áfallnar skuldbindingar í hlutfalli af áföllnum skuld­bindingum.

2. Hrein raunávöxtun.

Hjá lífeyrissjóði sem reiknar daglegt gengi eigna er raunávöxtun reiknuð samkvæmt eftirfarandi formúlu:

    þar sem r táknar hreina raunávöxtun; i táknar breytingu á gengi sjóðsins á árinu og j táknar hækkun vísitölu á árinu.

Hjá lífeyrissjóði sem reiknar ekki daglegt gengi eigna er hrein raunávöxtun reiknuð samkvæmt eftirfarandi formúlu:

    þar sem r táknar hreina raunávöxtun; i táknar ávöxtun eigna sbr. sérstaka formúlu hér á eftir og j táknar hækkun vísitölu á árinu.

Formúla fyrir ávöxtun eigna er eftirfarandi:

    þar sem F táknar hreinar fjárfestingartekjur, sbr. lið 3; K táknar rekstrar­kostnað, sbr. lið 4, að viðbættum gjöldum, sbr. lið 6, en að frá­dregnum tekjum, sbr. lið 5; A táknar hreina eign til greiðslu lífeyris frá fyrra ári og B táknar hreina eign til greiðslu lífeyris í árslok samkvæmt yfirliti yfir hreina eign til greiðslu lífeyris.

3. Meðaltal hreinnar raunávöxtunar síðustu 5 ára.

Meðaltal hreinnar raunávöxtunar síðustu 5 ára, skv. eftirfarandi formúlu:

4. Meðaltal hreinnar raunávöxtunar síðustu 10 ára.

Meðaltal hreinnar raunávöxtunar síðustu 10 ára, skv. eftirfarandi formúlu:

5. Hlutfallsleg skipting fjárfestinga.

Heildarfjárhæð fjárfestinga, skv. lið 1 í efnahagsreikningi, skipt hlutfallslega niður á skráða og óskráða eignarhluti í félögum og sjóðum, skráð og óskráð skuldabréf, afleiðu­samninga, bundnar bankainnstæður og aðrar fjárfestingar. Tilgreint með eftir­farandi hætti:

    Skráðir eignarhlutir í félögum og sjóðum %
    Skráð skuldabréf %
    Óskráðir eignarhlutir í félögum og sjóðum %
    Óskráð skuldabréf %
    Afleiðusamningar %
    Bundnar bankainnstæður %
    Fjárfestingar í íbúðarhúsnæði %
    Aðrar fjárfestingar %

6. Hlutfallsleg skipting fjárfestinga eftir gjaldmiðlum.

Heildarfjárhæð fjárfestinga, skv. lið 1 í efnahagsreikningi, skipt hlutfallslega niður á eignir í íslenskum krónum annars vegar og eignir í erlendum gjaldmiðlum samtals hins vegar. Tilgreint með eftirfarandi hætti:

    Eignir í íslenskum krónum %,
    Eignir í erlendum gjaldmiðlum samtals %

7. Fjöldi virkra sjóðfélaga.

Þ.e. meðaltal fjölda sjóðfélaga sem greiddi iðgjald á reikningsárinu.

8. Fjöldi sjóðfélaga í árslok

Þ.e. heildarfjöldi sjóðfélaga sem á réttindi í sjóðnum í árslok.

9. Fjöldi lífeyrisþega.

Þ.e. meðaltal fjölda lífeyrisþega sem fékk greiddan lífeyri á reikningsárinu.

10. Hlutfallsleg skipting lífeyris.

Heildarfjárhæð lífeyris samkvæmt yfirliti um breytingu á hreinni eign til greiðslu líf­eyris, skipt hlutfallslega niður á ellilífeyri, örorkulífeyri, makalífeyri og barnalífeyri með eftirfarandi hætti:

    Ellilífeyrir %
    Örorkulífeyrir %
    Makalífeyrir %
    Barnalífeyrir %

11. Stöðugildi.

Þ.e. meðaltal stöðugilda lífeyrissjóðsins á reikningsskilaárinu.

12. Iðgjöld alls (á föstu verðlagi).

13. Lífeyrir alls (á föstu verðlagi).

14. Hreinar fjárfestingartekjur alls (á föstu verðlagi).

15. Skrifstofu- og stjórnunarkostnaður alls (á föstu verðlagi).

16. Hækkun (lækkun) á hreinni eign (á föstu verðlagi).

Við útreikning á föstu verðlagi vegna töluliða 12 – 16, skal miða við vísitölu neyslu­verðs á uppgjörsdegi.

17. Lífeyrisbyrði.

Lífeyrisbyrði skal reikna sem hlutfall milli lífeyris og iðgjaldatekna.

18. Skrifstofu- og stjórnunarkostnaður (alls) í % af iðgjöldum.

19. Hreinar fjárfestingartekjur í % af meðalstöðu eigna.

20. Skrifstofu- og stjórnunarkostnaður í % af meðalstöðu eigna.

Upplýsingar samkvæmt 1. – 20. tölulið 2. mgr. skulu eins og frekast er unnt vera sam­bæri­legar milli ára. Þess skal getið sérstaklega ef svo er ekki og ástæðna þess. Sé ekki unnt að birta tölur sem bera má saman milli ára er heimilt að birta yfirlit yfir skemmra tíma­bil en fimm ár.

Tilvísun til einstakra tekju- og gjaldaliða miðast við þá liði sem fram koma í yfirliti um breyt­ingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris sbr. viðauka I.

VII. KAFLI

Skýrsla stjórnar og góðir stjórnarhættir.

50. gr.

Skýrsla stjórnar.

Í skýrslu stjórnar skal koma fram yfirlit um starfsemi sjóðsins á árinu, svo og upplýsingar um atriði er mikilvæg eru við mat á fjárhagslegri stöðu sjóðsins og breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris á reikningsárinu sem ekki koma fram annars staðar í ársreikningnum. Í skýrslu stjórnar skal ennfremur upplýst um eftirfarandi:

  1. atburði eftir uppgjörsdag sem hafa verulega þýðingu,
  2. væntanlega þróun sjóðsins,
  3. aðgerðir sem hafa þýðingu fyrir framtíðarþróun hans,
  4. mögulega óvissu við mat eða óvenjulegar aðstæður sem kunna að hafa áhrif á það og, eftir því sem við á, tilgreina fjárhæðir og
  5. stjórnarhætti, sbr. 51. gr.

51. gr.

Stjórnarhættir.

Lífeyrissjóður skal árlega birta yfirlýsingu um stjórnarhætti sína í sérstökum kafla í skýrslu stjórnar.

Í yfirlýsingunni skal að lágmarki koma fram eftirfarandi:

  1. Tilvísanir í þær reglur, leiðbeiningar, handbækur og önnur gögn um stjórnarhætti sem lífeyrissjóðurinn fylgir eða fylgja ber samkvæmt lögum og reglum og upp­lýs­ingar um hvar slík gögn eru aðgengileg almenningi. Víki lífeyrissjóður frá reglum eða öðru skv. þessum málslið í heild eða að hluta skal greina frá því hver frá­vikin eru og ástæðu fráviksins.
  2. Lýsing á helstu þáttum innra eftirlits og áhættustýringarkerfa lífeyrissjóðsins.
  3. Lýsing á samsetningu og starfsemi stjórnar, framkvæmdastjórnar og eftirlitsstjórnar og nefnda þeirra.

VIII. KAFLI

Gildistökuákvæði.

52. gr.

Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 5. mgr. 40. gr. laga um skyldutryggingu líf­eyris­réttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997. Reglurnar öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við gerð ársreikninga fyrir árið 2015. Jafnframt falla úr gildi reglur um gerð ársreikninga lífeyrissjóða, nr. 55/2000.

Við gildistöku þessara reglna er lífeyrissjóði heimilt að endurflokka verðbréf í eigu sjóðanna til samræmis við breyttar matsreglur skv. V. kafla reglnanna. Breyti lífeyrissjóður um mats­aðferð á grundvelli ákvæða þessara reglna skal gera breytingar á þeim liðum í árs­reikn­ingnum sem aðferðin hefur áhrif á, svo og breyta samanburðarfjárhæðum til sam­ræmis við hina nýju aðferð, sbr. 6. mgr. 5. gr. þessara reglna. Gera skal grein fyrir slíkum breytingum í skýringum.

Fjármálaeftirlitinu, 11. mars 2015.

Jón Þór Sturluson.

Rúnar Guðmundsson.

VIÐAUKI
(sjá PDF-skjal)

B deild - Útgáfud.: 13. apríl 2015