1. gr. Á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 118/2010 frá 10. nóvember 2010 tekur gildi þegar í stað ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar nr. 2009/251/EB frá 17. mars 2009 þar sem þess er krafist að aðildarríkin sjái til þess að vörur, sem innihalda sæfiefnið dímetýlfúmarat (DMF) séu ekki settar á markað eða boðnar fram. Dímetýlfúmarat er yfirleitt í litlum pokum sem eru festir innan í húsgögn eða settir í kassa utan um vöruna til að vernda hana gegn myglu, einkum við flutning milli landa. DMF getur komist í gegnum föt og á húð neytenda og valdið þar sársaukafullum snertihúðbólgum einnig bruna, kláða og jafnvel í sumum tilvikum öndunarvandamálum. Undir þessum kringumstæðum er þess krafist að EES-ríkin sjái til þess að engar vörur sem innihalda dímetýlfúmarat með þessum hætti séu settar þar á markað til að koma í veg fyrir þá alvarlegu áhættu sem þessar vörur geta haft fyrir neytendur. Þar til að endanlegt bann tekur gildi er framangreind ákvörðun endurnýjuð til eins árs í senn, sbr. ákvörðun nr. 2010/153/EB frá 11. mars 2010, 2011/135/EB frá 1. mars 2011 og 2012/48/EB frá 26. janúar 2012. Framangreind ákvörðun nr. 2009/215/EB, með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af II. viðauka, bókun I og öðrum ákvæðum samningsins, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið nr. 2/1993, með áorðnum breytingum hefur því gildi hér á landi. 2. gr. Ákvörðun nr. 2009/251/EB var felld inn í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 118/2010 sem er birt í EES-viðbæti nr. 12 (18. árgangur) þann 3. mars 2011 á bls. 16. Ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar og EB-gerðirnar, sem vísað er að öðru leyti til í 1. gr., eru birtar í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi EB. Grunngerðin er ákvörðun nr. 2009/251/EB, sem birt er sem fylgiskjal með auglýsingu þessari. 3. gr. Um viðurlög og önnur réttarúrræði Neytendastofu í tilefni af brotum og sem unnt er að beita gegn brotum á reglum sem banna notkun DMF samkvæmt ákvæðum þessarar auglýsingar fer nánar eftir ákvæðum IV. og V. kafla laga nr. 134/1995, um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu. 4. gr. Auglýsing þessi um bann við markaðssetningu vöru sem inniheldur dímetýlfúmarat, innleiðir ákvörðun 2009/251/EB, sem ákvarðanir 2010/153/EB, 2011/135/EB og 2012/48/EB um sama efni framlengja, og er sett með hliðsjón af 21. gr., sbr. 10. gr. laga nr. 134/1995, um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, og með stoð í 18. gr. laga nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, sbr. einnig 2. ml. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 15/2005 um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað. Auglýsingin öðlast þegar gildi. Í samræmi við ákvarðanir framkvæmdastjórnar ESB um framlengingu á banni gegn notkun á dímetýlfúmarati er bann þetta framlengt árlega með sérstakri auglýsingu til innleiðingar á ákvörðun framkvæmdastjórnar ESB um framlengingu á banninu. Neytendastofu, 4. júlí 2012. Tryggvi Axelsson. Matthildur Sveinsdóttir. Fylgiskjal. (sjá PDF-skjal)
|