1. gr. Fyrirframgreiðsla samkvæmt reglugerð þessari tekur til eftirtalinna stóriðjufyrirtækja: - Járnblendiverksmiðjunnar í Hvalfirði, sbr. lög nr. 18/1977.
- Álvers Norðuráls ehf. á Grundartanga, sbr. lög nr. 62/1997.
- Álvers Alcoa á Íslandi ehf. og Reyðaráls ehf. á Reyðarfirði, sbr. lög nr. 12/2003.
- Álvers Alcoa á Íslandi ehf. í Straumsvík, sbr. lög nr. 76/1966.
2. gr. Aðilar sem greiðsluskyldir eru skv. 1. gr. skulu auk almennrar fyrirframgreiðslu skv. 112. gr. laga nr. 90/2003 greiða fyrirfram samtals 1.200 millj. kr. á árunum 2010, 2011 og 2012 upp í væntanlega álagningu á tekjuskatti og öðrum opinberum gjöldum á árunum 2013-2018. Fyrirframgreiðsla skv. 1. mgr. skal greidd á einum gjalddaga ár hvert, þ.e. á árunum 2010, 2011 og 2012 og skiptast jafnt á hvert ár, sbr. 3. gr. Gjalddagi og eindagi vegna ársins 2010 er 31. desember. Gjalddagi vegna áranna 2011 og 2012 er 15. desember og eindagi er 15 dögum eftir gjalddaga, sbr. einnig 5. gr. 3. gr. Fjárhæð greiðsluskyldu hvers stóriðjufyrirtækis skv. 2. gr. skal taka mið af hlutfallslegri raforkunotkun þeirra, og ákvarðast fyrir hvert áranna 2010, 2011 og 2012 þannig: - Járnblendiverksmiðjan í Hvalfirði skal greiða 6,8% af 1.200 millj. kr. eða 81.600.000 kr.
- Álver Norðuráls ehf. á Grundartanga skal greiða 32,36% af 1.200 millj. kr. eða 388.320.000 kr.
- Álver Alcoa á Íslandi ehf. og Reyðaráls ehf. á Reyðarfirði skal greiða 38,11% af 1.200 millj. kr. eða 457.320.000 kr.
- Álver Alcoa á Íslandi ehf. í Straumsvík skal greiða 22,73% af 1.200 millj. kr. eða 272.760.000 kr.
4. gr. Ef uppgjörsmynt stóriðjufyrirtækis er önnur en íslenskar krónur skal umreikna fjárhæð þeirrar fyrirframgreiðslu sem ákvörðuð er samkvæmt 3. gr. miðað við gengi uppgjörsmyntar hvers félags á greiðsludegi. Við álagningu opinberra gjalda gjaldárin 2013-2018 skal fjárhæð í erlendri mynt samkvæmt 1. málsl. dragast frá tekjuskatti og öðrum opinberum gjöldum eins og þau eru ákvörðuð hjá hverjum aðila fyrir sig umreiknuð í íslenskar krónur miðað við gengi viðkomandi myntar á álagningardegi. Fyrirframgreiðsla hvers árs tekur engum öðrum breytingum en leiðir af gengisþróun á uppgjörsmynt hvers aðila fyrir sig frá greiðsludegi hennar til uppgjörsdags, þ.e. þar til hún gengur á móti álögðum opinberum gjöldum. Sé heildarfjárhæð fyrirframgreiðslu samkvæmt 3. gr. hærri en álagning opinberra gjalda til ríkis og sveitarfélaga gjaldárið 2013 færast eftirstöðvar yfir á gjaldárið 2014 og síðan frá ári til árs til gjaldársins 2018. Ef þá eru eftirstöðvar af fyrirframgreiðslunni skal endurgreiða þá fjárhæð í samræmi við almennar reglur um endurgreiðslu á ofgreiddum opinberum gjöldum að teknu tilliti til ákvæðis 3. málsl. 1. mgr. 4. gr. Hafi fyrirframgreiðsla skv. 1. gr. ekki verið greidd innan fimmtán daga frá gjalddaga skal greiða ríkissjóði dráttarvexti af því sem gjaldfallið er frá gjalddaga. 5. gr. Ríkisskattstjóra er heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd greiðsluskyldu og önnur atriði varðandi framkvæmd þessarar reglugerðar. 6. gr. Um fyrirframgreiðslu skv. 2. gr. fer að öðru leyti eftir ákvæðum XIII. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og laga nr. 151/2009, um tímabundna breytingu á heimildarlögum um stóriðju vegna skattgreiðslna á árunum 2010, 2011 og 2012 o.fl., þar sem það á við. 7. gr. Reglugerð þessi öðlast þegar gildi og er sett samkvæmt heimild í ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 18/1977, um járnblendiverksmiðju í Hvalfirði, með síðari breytingum, ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 62/1997, um heimild til samninga um álbræðslu á Grundartanga, með síðari breytingum, ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 12/2003, um heimild til samninga um álverksmiðju í Reyðarfirði, með síðari breytingum, og samningi milli ríkisstjórnar Íslands og Alcan Holdings Switzerland Ltd., dags. 7. desember 2009, um viðauka við aðalsamning milli sömu aðila, dags. 28. mars 1966, um byggingu og rekstur álbræðslu við Straumsvík, í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar, sbr. lög nr. 151/2009, um tímabundna breytingu á heimildarlögum um stóriðju vegna skattgreiðslna á árunum 2010, 2011 og 2012 o.fl. Fjármálaráðuneytinu, 23. desember 2010. F. h. r. Guðmundur Árnason. Þórður Reynisson. |