1. gr. Fræðslunefnd í mjólkuriðn. Menntamálaráðherra skipar fræðslunefnd í mjólkuriðn sem ætlað er að hafa umsjón með námi nemenda í mjólkuriðn eins og nánar greinir í reglum þessum. Fræðslunefndin skal skipuð þremur mönnum og jafnmörgum til vara til fjögurra ára í senn. Tveir nefndarmanna skulu skipaðir að fenginni tillögu starfsgreinaráðs matvæla- og veitingagreina og skulu þeir að jafnaði hafa lokið meistara- og sveinsprófi í mjólkuriðn. Einn nefndarmaður skal skipaður án tilnefningar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Nefndin kýs sér formann. 2. gr. Nám í mjólkuriðn. Mjólkuriðn er löggilt iðngrein og er námstími þrjú ár. Námið fer fram bæði í skóla og á vinnustað. Við upphaf náms í mjólkuriðn skal nemi vera orðinn fullra 16 ára og hafa staðist inntökuskilyrði starfsnámsbrauta framhaldsskóla samkvæmt gildandi reglugerð um innritun nemenda í framhaldsskóla eða hafa lokið annarri hliðstæðri menntun. Skólanám í mjólkuriðn fer fram á vegum dönsku fræðslunefndarinnar í mjólkuriðn (Mejeribrugets uddannelsesudvalg), í Dalum Uddannelses Center í Odense, Danmörku, á grundvelli þarlendrar námstilhögunar. Vinnustaðanám í mjólkuriðn fer fram í mjólkursamlagi, einu eða fleirum, samkvæmt námssamningi sem fræðslunefnd staðfestir fyrir hönd menntamálaráðuneytis, sbr. að öðru leyti ákvæði gildandi reglugerðar um námssamninga og starfsþjálfun. Fræðslunefnd metur hvort viðkomandi mjólkursamlag getur veitt nægilega fjölbreytta þjálfun miðað við færnikröfur starfsins eða hvort neminn þarf að fá starfsþjálfun í fleiri fyrirtækjum og því skal í 5. gr. námssamnings getið um vinnustaðaskipti ef þurfa þykir. Vinnustaðanámið fer fram undir handleiðslu meistara sem skal tryggja að nemi kynnist starfinu þannig að hann sé að námi loknu fær um að vinna sjálfstætt við öll algengustu störf innan mjólkursamlaganna. 3. gr. Sveinspróf. Nemar í mjólkuriðn ljúka námi og gangast undir sveinspróf í iðn sinni við Dalum Uddannelses Center. Sótt skal um útgáfu sveinsbréfs í mjólkuriðn til menntamálaráðuneytisins sem veitir umsögn til iðnaðarráðuneytisins að fenginni umsögn fræðslunefndar í mjólkuriðn. Ef árangur á sveinsprófi telst fullnægjandi að mati menntamálaráðuneytisins gefur iðnaðarráðuneytið út sveinsbréf í mjólkuriðn til viðkomandi. Heimilt er að gefa út sveinsbréf vegna náms í mjólkuriðn í öðrum skóla en framangreindum, enda sé um sambærilegt nám að ræða að mati fræðslunefndar í mjólkuriðn. 4. gr. Meistaranám. Meistararéttindi í mjólkuriðn er heimilt að veita þeim sem lokið hefur námi sem Procesteknolog med speciale i Mejeridrift eða sambærilegu námi og hefur jafnframt unnið undir stjórn meistara í mjólkuriðn í, a.m.k. eitt ár sbr. 10. gr. iðnaðarlaga, nr. 42/1978. 5. gr. Reglur þessar eru settar með stoð í 29. gr. laga um framhaldsskóla, nr. 80/1996 og öðlast þegar gildi. Um leið falla úr gildi reglur um nám í mjólkuriðn, nr. 755/2004. Menntamálaráðuneytinu, 18. desember 2006. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Guðmundur Árnason. |