1. gr. Við 1. mgr. 9. gr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Tilvikabundin skoðun vinnuveitanda á tölvupósti starfsmanns er óheimil nema uppfyllt séu ákvæði 7., 8., og eftir atvikum, 9. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, s.s. ef grunur er uppi um brot starfsmanns gegn trúnaðar- eða vinnuskyldum. Á eftir 2. málslið 4. mgr. 9. gr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Við starfslok skal starfsmanni leiðbeint um að virkja sjálfvirka svörun úr sínu pósthólfi um að hann hafi látið af störfum. Eigi síðar en að tveimur vikum liðnum skal loka pósthólfinu. Vinnuveitanda er óheimilt að senda áfram á annan starfsmann þann póst sem berst í pósthólf fyrrverandi starfsmanns eftir starfslok, nema um annað hafi verið samið. 2. gr. Við heiti reglnanna bætast orðin: [...] og meðferð persónuupplýsinga sem til verða við rafræna vöktun. 3. gr. Reglur þessar, sem settar eru samkvæmt heimild í 5. mgr. 37. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sbr. 5. gr. laga nr. 81/2002, taka þegar gildi. Persónuvernd, 7. apríl 2011. Páll Hreinsson formaður. Sigrún Jóhannesdóttir. |