Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 580/2012

Nr. 580/2012 3. júlí 2012
REGLUGERÐ
um framleiðslu og markaðssetningu aðila undir smáræðismörkum á matvælum og afhendingu frumframleiðenda á litlu magni matvæla beint til neytenda og staðbundina smásölufyrirtækja.

1. gr.

Markmið.

Markmið þessarar reglugerðar er að afmarka þær skyldur sem gerðar eru til aðila undir smáræðismörkum og frumframleiðenda, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli, með síðari breytingum.

2. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um:

  1. Framleiðslu og markaðssetningu aðila undir smáræðismörkum á matvælum, þ.e. þar sem starfsemin er ekki samfelld heldur tilfallandi, lýtur ekki sérstöku skipulagi og er ekki rekin í eigin hagnaðarskyni og,
  2. afhendingu frumframleiðenda á frumframleiðsluvörum úr jurtaríkinu, að undan­skildum bauna- og fræspírum, sem framleiddar eru í litlu magni og markaðssettar beint til neytenda eða til staðbundins smásölufyrirtækis sem afhendir matvæli beint til neytenda og,
  3. afhendingu frumframleiðenda, á ræktuðum og villtum frumframleiðsluvörum úr jurtaríkinu, að undanskildum bauna- og fræspírum, og óunnum afurðum sem fengnar eru með dýra- eða fiskveiðum, að undanskildu hreindýrakjöti og skel­dýrum, þ.m.t. kræklingi, enda sé starfsemin ekki samfelld heldur tilfallandi og lúti ekki sérstöku skipulagi.

Ákvæði reglugerða nr. 103/2010 um hollustuhætti sem varða matvæli og nr. 104/2010 um sérstakar reglur um hollustuhætti sem varða matvæli úr dýraríkinu gilda ekki um starf­semi sem fellur undir reglugerð þessa.

Þá gilda ákvæði laga nr. 93/1995 um matvæli, með síðari breytingum, ekki um starf­sem­ina, nema að því leyti sem ákveðið er í reglugerð þessari.

3. gr.

Orðskýringar.

Merking orða í reglugerðinni er sem hér segir:

Frumframleiðsla: Framleiðsla, eldi eða ræktun undirstöðuafurða ásamt uppskeru, mjölt­um og framleiðslu eldisdýra fram að slátrun. Frumframleiðsla tekur einnig til dýra- og fiskveiða og nýtingar villigróðurs.

Neytandi: Neytandi matvæla sem notar matvæli ekki sem lið í rekstri eða starfsemi matvælafyrirtækis.

Staðbundið smásölufyrirtæki: Með staðbundnu smásölufyrirtæki er átt við fyrirtæki sem afhendir matvæli beint til neytenda og er ekki í meira en 50 km fjarlægð frá frum­framleið­enda.

Lítið magn: Með litlu magni er átt við að afhending frumframleiðandans á matvælum úr jurtaríkinu telst vera aukastarfsemi hjá hlutaðeigandi og smávægileg samanborin við aðra starfsemi sem á sér stað hjá framleiðandanum.

Óunnar afurðir: Með óunnum afurðum er átt við að dýrin/afurðirnar hafi ekki verið fláð, reitt, eða að búið sé að taka innyflin úr þeim, þó á þetta ekki við um slægingu á fiski. Sama á við um afurðir sem ekki er búið að stykkja, hluta sundur, sneiða, úrbeina, hakka, mylja, skera, afhýða, mala og frysta eða afurðir þar sem ekki er búið að vinna afurðirnar með einhverjum þeim hætti að það hefur í för með sér umtalsverða breytingu á upphaflegu afurðinni, þ.m.t. hitun, reyking, söltun, þroskun, þurrkun, kryddlagning, úrdráttur eða þrýstimótun eða samsetning þessara aðgerða.

4. gr.

Matvælaöryggi, framleiðsla og markaðssetning.

Aðilar undir smáræðismörkum og frumframleiðendur, sem reglugerð þessi nær til, skulu tryggja að matvæli sem þeir framleiða og markaðssetja séu örugg og ekki heilsuspillandi eða óhæf til neyslu. Við ákvörðun um hvað teljist ekki örugg, þ.e. heilsuspillandi eða óhæf matvæli til neyslu skal hafa hliðsjón af 8. gr. a. laga nr. 93/1995 um matvæli, með síðari breytingum.

Aðilar undir smáræðismörkum og frumframleiðendur, sem reglugerð þessi nær til, skulu haga starfsemi sinni í samræmi við meginreglur um almenna hollustuhætti og tryggja að matvæli óhreinkist ekki eða spillist á annan hátt. Matvælin skal geyma þannig að þau verði ekki fyrir skemmdum eða spillist á annan hátt. Tilgreindum aðilum ber að tryggja með eigin eftirliti að starfsemi þeirra sé í samræmi við reglugerð þessa.

Óheimilt er að hafa matvæli á boðstólum eða dreifa þeim þannig að þau blekki neytendur að því er varðar uppruna, tegund, gæðaflokkun, samsetningu, magn, eðli eða áhrif.

Matvælastofnun er heimilt að gefa út leiðbeiningar og viðmiðunarreglur varðandi holl­ustu­hætti, efnainnihald, viðmiðunarmörk fyrir örverur, merkingar og umbúðir sem aðilum undir smáræðismörkum og frumframleiðendum, sem reglugerð þessi nær til, ber að fylgja.

5. gr.

Innköllun og rekjanleiki.

Ef aðilar undir smáræðismörkum eða frumframleiðendur, sem reglugerð þessi nær til, álíta eða hafa ástæðu til að álíta að matvæli, sem þeir hafa framleitt eða markaðsett, séu ekki í samræmi við kröfur um öryggi matvæla, sbr. 4. gr., skulu þeir tafarlaust gera ráðstafanir til að taka umrædd matvæli af markaði og tilkynna það hlutaðeigandi opin­berum eftirlitsaðila. Ef matvælin eru komin í hendur neytenda skulu þeir upplýsa á skilvirkan og nákvæman hátt um ástæður þess að matvælin eru tekin af markaði og, ef nauðsyn krefur, að innkalla matvælin sem þegar hafa verið afhent neytendum ef aðrar ráðstafanir nægja ekki til að tryggja víðtæka heilsuvernd.

Þegar við á skal vera fyrir hendi möguleiki til að rekja feril matvæla, þ.e. að hægt sé að tilgreina hvaðan matvæli eru fengin og til hvaða fyrirtækja þau eru afhent.

6. gr.

Leyfisveitingar.

Aðilar undir smáræðismörkum og frumframleiðendur, sem falla undir reglugerð þessa, þurfa ekki leyfi, skv. 9. og 20. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli, með síðari breytingum, til að framleiða og markaðssetja matvæli sem reglugerð þessi nær til.

7. gr.

Matvælaeftirlit, varúðarráðstafanir, þvingunarúrræði og valdsvið.

Þrátt fyrir að ekki sé gert ráð fyrir almennu reglubundnu matvælaeftirliti með aðilum undir smáræðismörkum og frumframleiðendum, sem falla undir reglugerð þessa, er eftirlitsaðilum heimilt að sinna eftirliti ef nauðsyn krefur og fer það þá fram skv. IX. kafla laga nr. 93/1995 um matvæli. Um varúðarráðstafanir, þvingunarúrræði og valdsvið eftirlitsaðila fer skv. XI. kafla sömu laga.

8. gr.

Viðurlög.

Brot gegn reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt lögum nr. 93/1995 um mat­væli, með síðari breytingum. Með mál út af brotum skal farið skv. lögum um meðferð saka­mála.

9. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 2. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli, með síðari breyt­ingum og öðlast þegar gildi.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 3. júlí 2012.

F. h. r.

Sigurgeir Þorgeirsson.

Baldur P. Erlingsson.

B deild - Útgáfud.: 6. júlí 2012