Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 87/2008

Nr. 87/2008 12. júní 2008
LÖG
um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

FORSETI ÍSLANDS
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

I. KAFLI
Gildissvið.
1. gr.
Gildissvið.
    Lög þessi taka til menntunar og ráðningar kennara og skólastjórnenda við leik-, grunn- og framhaldsskóla og lögverndunar starfsheita og starfsréttinda þeirra.

2. gr.
Markmið.
    Markmið laganna er að tryggja að þeir sem leggja stund á kennslu- og uppeldisstörf í leik-, grunn- og framhaldsskólum hafi menntun í samræmi við störf þeirra og ábyrgð.

II. KAFLI
Menntun kennara, starfsheiti, leyfisbréf.
3. gr.
Starfsheitið leikskólakennari.
    Rétt til að nota starfsheitið leikskólakennari og starfa við leikskóla á vegum opinberra aðila eða aðra hliðstæða skóla hefur sá einn sem til þess hefur leyfi menntamálaráðherra.
    Leyfi til þess að nota starfsheitið leikskólakennari má aðeins veita þeim sem lokið hefur:
    1.    meistaraprófi frá háskóla sem hlotið hefur viðurkenningu ráðherra á grundvelli laga um háskóla, nr. 63/2006, á fræðasviði sem ráðherra viðurkennir til kennslu á leikskólastigi; eða
    2.    öðru námi sem jafngildir meistaraprófi skv. 1. tölul. og ráðherra viðurkennir til kennslu á leikskólastigi.

4. gr.
Starfsheitið grunnskólakennari.
    Rétt til að nota starfsheitið grunnskólakennari og starfa við grunnskóla á vegum opinberra aðila eða aðra hliðstæða skóla hefur sá einn sem til þess hefur leyfi menntamálaráðherra.
    Leyfi til þess að nota starfsheitið grunnskólakennari má aðeins veita þeim sem lokið hefur:
    1.    meistaraprófi frá háskóla sem hlotið hefur viðurkenningu ráðherra á grundvelli laga um háskóla, nr. 63/2006, á fræðasviði sem ráðherra viðurkennir til kennslu á grunnskólastigi; eða
    2.    öðru námi sem jafngildir meistaraprófi skv. 1. tölul. og ráðherra viðurkennir til kennslu á grunnskólastigi; eða
    3.    meistararéttindum í iðngrein sem nýtist til kennslu á grunnskólastigi í skilgreindri námsgrein eða á skilgreindu námssviði, enda komi slík sérhæfing fram í leyfisbréfi, auk 60 eininga náms í kennslu- og uppeldisfræði; eða
    4.    fullgildu lokaprófi í listgrein, tæknigrein eða verkgrein sem nýtist til kennslu á grunnskólastigi í skilgreindri námsgrein eða á skilgreindu námssviði, enda komi slík sérhæfing fram í leyfisbréfi. Skal menntun a.m.k. vera 270–300 námseiningar, þar af að lágmarki 60 námseiningar í kennslu- og uppeldisfræði.

5. gr.
Starfsheitið framhaldsskólakennari.
    Rétt til að nota starfsheitið framhaldsskólakennari og starfa við framhaldsskóla hefur sá einn sem til þess hefur leyfi menntamálaráðherra. Í leyfisbréfi skal tilgreina kennslugrein/ar eða sérsvið viðkomandi framhaldsskólakennara samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð.
    Leyfi til þess að nota starfsheitið framhaldsskólakennari má aðeins veita þeim sem lokið hefur:
    1.    meistaraprófi frá háskóla sem hlotið hefur viðurkenningu ráðherra á grundvelli laga nr. 63/2006, á fræðasviði sem ráðherra viðurkennir til kennslu á framhaldsskólastigi; eða
    2.    öðru námi sem jafngildir meistaraprófi skv. 1. tölul. og ráðherra viðurkennir til kennslu á framhaldsskólastigi; eða
    3.    meistararéttindum í iðngrein sem nýtist til kennslu á framhaldsskólastigi í skilgreindri námsgrein eða á skilgreindu námssviði, auk 60 eininga náms í kennslu- og uppeldisfræði; eða
    4.    fullgildu lokaprófi í listgrein, tæknigrein eða verkgrein sem nýtist til kennslu á framhaldsskólastigi í skilgreindri námsgrein eða á skilgreindu námssviði, enda komi slík sérhæfing fram í leyfisbréfi. Skal menntun a.m.k. vera 270–300 námseiningar, þar af að lágmarki 60 námseiningar í kennslu- og uppeldisfræði.

6. gr.
Réttindi sem aflað er í ríki innan EES eða í aðildarríki EFTA.
    Menntamálaráðherra skal staðfesta leyfi til að nota starfsheitið leikskólakennari, grunnskólakennari eða framhaldsskólakennari samkvæmt umsókn ríkisborgara frá ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins ef viðkomandi leggur fram vottorð um viðurkennd kennsluréttindi í ríki innan svæðisins í samræmi við skilyrði tilskipunar 89/48/EBE, sbr. lög um viðurkenningu á menntun og prófskírteinum, nr. 83/1993.
    Samkvæmt umsókn frá ríkisborgara aðildarríkis stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu skal ráðherra staðfesta leyfi til að nota starfsheitið leikskólakennari, grunnskólakennari eða framhaldsskólakennari með sömu skilyrðum og tilgreind eru í 1. mgr., enda leggi viðkomandi fram vottorð um viðurkennd kennsluréttindi í aðildarríki samtakanna.

7. gr.
Matsnefnd.
    Leiki vafi á hvort umsækjandi um leyfi til þess að nota starfsheitið leikskólakennari, grunnskólakennari eða framhaldsskólakennari fullnægi þeim skilyrðum sem kveðið er á um í lögum þessum skal leita umsagnar matsnefndar sem menntamálaráðherra skipar til fjögurra ára í senn.
    Matsnefnd skal skipuð fimm fulltrúum, einum fulltrúa tilnefndum af samstarfsnefnd um háskólastigið, tveimur fulltrúum tilnefndum af heildarsamtökum kennara, einum fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga og einum fulltrúa án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar. Jafnmarga varamenn skal skipa á sama hátt.
    Nánar skal kveðið á um starfshætti nefndarinnar í reglugerð.

8. gr.
Um inntak menntunar leik-, grunn- og framhaldsskólakennara.
    Menntamálaráðherra setur reglugerð þar sem inntak menntunar leik-, grunn- og framhaldsskólakennara er nánar skilgreint með tilliti til lágmarkskrafna um vægi kennslu- og uppeldisfræða og vægi faggreina.
    Með námseiningum er í lögum þessum átt við ECTS-einingar eða staðlaðar námseiningar, sbr. lög nr. 63/2006, um háskóla.

III. KAFLI
Starfsréttindi og ráðningar í leikskólum.
9. gr.
Leikskólakennarar og ráðning þeirra.
    Til þess að verða ráðinn kennari við leikskóla skal umsækjandi hafa öðlast leyfi til þess að nota starfsheitið leikskólakennari skv. 3. og 21. gr.
    Að lágmarki 2/3 hlutar stöðugilda við kennslu, umönnun og uppeldi barna í hverjum leikskóla skulu teljast til stöðugilda leikskólakennara.
    Sveitarstjórn, eða sá sem sveitarstjórn felur umboð sitt, eða aðrir rekstraraðilar, ráða leikskólakennara og skólastjórnendur við leikskóla í samræmi við lög þessi, fyrirmæli laga um leikskóla og ákvæði sveitarstjórnarlaga.

10. gr.
Ráðning skólastjóra í leikskólum.
    Til þess að verða ráðinn leikskólastjóri eða aðstoðarleikskólastjóri við leikskóla skal umsækjandi hafa starfsheitið leikskólakennari og viðbótarmenntun í stjórnun eða kennslureynslu á leikskólastigi.

IV. KAFLI
Starfsréttindi og ráðningar í grunnskólum.
11. gr.
Ráðning grunnskólakennara og sérfræðinga.
    Til þess að verða ráðinn kennari við grunnskóla skal umsækjandi hafa öðlast leyfi til þess að nota starfsheitið grunnskólakennari skv. 4. og 21. gr.
    Skólastjórar ráða grunnskólakennara til tímabundinnar forfallakennslu eða afleysinga og aðra sérfræðinga, sbr. 3. mgr.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að ráða sérfræðing tímabundið að hámarki eitt skólaár í senn til að kenna sérgrein sína, enda sé aðeins um að ræða kennslu sem nemur 240 mínútum eða minna á viku.

12. gr.
Ráðning skólastjóra í grunnskólum.
    Til þess að verða ráðinn skólastjóri eða aðstoðarskólastjóri við grunnskóla skal umsækjandi hafa starfsheitið grunnskólakennari og viðbótarmenntun í stjórnun eða kennslureynslu á grunnskólastigi.

V. KAFLI
Starfsréttindi og ráðningar í framhaldsskólum.
13. gr.
Starfsfólk framhaldsskóla og ráðning þess.
    Til þess að verða ráðinn til kennslu í framhaldsskóla skal umsækjandi hafa öðlast leyfi til þess að nota starfsheitið framhaldsskólakennari skv. 5. og 21. gr. Miða skal við að framhaldsskólakennari kenni þær greinar eða á því sviði sem menntun hans nær til.
    Skólameistari framhaldsskóla ræður starfsfólk framhaldsskóla í samræmi við ákvæði laga um framhaldsskóla og lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er skólameistara heimilt að ráða sérfræðing tímabundið að hámarki eitt skólaár í senn til að kenna sérgrein sína, enda sé aðeins um að ræða kennslu sem nemur 240 mínútum eða minna á viku.

14. gr.
Skólastjórnendur framhaldsskóla.
    Við ráðningu í stjórnunarstörf við framhaldsskóla skal umsækjandi hafa starfsheitið framhaldsskólakennari og viðbótarmenntun í stjórnun eða kennslureynslu á framhaldsskólastigi.

15. gr.
Auglýsingar og ráðningar.
    Auglýsa skal öll laus kennslu- og stjórnunarstörf í framhaldsskóla í samræmi við reglur fjármálaráðherra um auglýsingar á lausum störfum. Í auglýsingu skal m.a. tilgreina kennslugreinar eða sérsvið. Ekki er skylt að auglýsa þau störf sem getið er um í 16. gr. Ráðningum skal lokið fyrir 31. maí eftir því sem við verður komið.

16. gr.
Sérstök tilvik.
    Kennsla skal falin framhaldsskólakennurum sem þegar hafa ráðningu eftir því sem við verður komið. Heimilt er þó að ráða framhaldsskólakennara og aðra sérfræðinga, sbr. 3. mgr. 13. gr., án auglýsingar til tímabundinnar forfallakennslu eða afleysinga, svo sem vegna orlofs, veikinda, fæðingarorlofs eða námsleyfis, enda sé afleysingu ekki ætlað að standa lengur en 12 mánuði samfellt.
    Þá er heimilt að ráða framhaldsskólakennara til kennslustarfa sem eiga að standa tvo mánuði eða skemur sem og til tímabundinna starfa í minna en 1/4 hluta starfs.
    Ráða skal til starfa skv. 1. og 2. mgr. með ráðningarsamningi með þriggja mánaða gagnkvæmum uppsagnarfresti sem er þó einn mánuður fyrstu þrjá mánuði í starfi, enda sé ráðningu ætlað að standa í a.m.k. þrjá mánuði.

VI. KAFLI
Undanþágur.
17. gr.
Undanþáguheimild fyrir leikskóla.
    Sæki enginn leikskólakennari um auglýst leikskólakennarastarf, leikskólastjórastarf eða aðstoðarleikskólastjórastarf, sbr. 2. mgr. 9. gr., þrátt fyrir endurtekna auglýsingu er heimilt að lausráða í starfið til bráðabirgða, að hámarki til eins árs í senn, einstakling sem ekki er leikskólakennari. Hið sama gildir ef umsækjandi uppfyllir ekki þau almennu skilyrði sem nauðsynleg teljast til þess að fá ráðningu í starf. Nú hefur starf starfsmanns verið auglýst í tvígang án þess að leikskólakennari hafi fengist og er þá heimilt að ráða hann í starfið samkvæmt nánari fyrirmælum sveitarstjórnarlaga og hlutaðeigandi kjarasamnings. Starfsmaður sem ráðinn er vegna framangreindra aðstæðna má ekki bera starfsheitið leikskólakennari og ekki má endurráða hann án undangenginnar auglýsingar.

18. gr.
Undanþágunefnd grunnskóla.
    Menntamálaráðherra skipar undanþágunefnd grunnskóla til fjögurra ára í senn. Nefndin skal skipuð fjórum fulltrúum, einum fulltrúa tilnefndum af heildarsamtökum kennara, einum fulltrúa tilnefndum af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, einum fulltrúa tilnefndum af samstarfsnefnd um háskólastigið og einum fulltrúa án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar. Jafnmarga varamenn skal skipa á sama hátt.
    Óheimilt er að ráða aðra en þá sem uppfylla ákvæði laga þessara til kennslu við grunnskóla á vegum opinberra aðila eða hliðstæða skóla, sbr. lög um grunnskóla.
    Nú sækir enginn grunnskólakennari um auglýst kennslustarf þrátt fyrir endurtekna auglýsingu og getur skólastjóri þá sótt um heimild til undanþágunefndar grunnskóla um að lausráða tiltekinn starfsmann til kennslustarfa til bráðabirgða, þó aldrei lengur en til eins árs í senn. Undanþágunefnd er heimilt að víkja frá kröfu um endurtekna auglýsingu þegar sótt er um undanþágu til að endurráða einstakling sem er í námi til kennsluréttinda. Slíkri umsókn skal fylgja staðfesting á að viðkomandi sé í námi og áætlun um námsframvindu. Skólastjóra er ekki skylt að leita til undanþágunefndar sé um að ræða kennslu sem nemur 240 mínútum á viku eða minna, sbr. 3. mgr. 11. gr.
    Málsaðili getur skotið ákvörðun undanþágunefndar til ráðherra. Málskot frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar undanþágunefndar.
    Ef hvorki skólastjóri né að minnsta kosti tveir skólanefndarmenn mæla með ráðningu grunnskólakennara í kennslustarf getur skólastjóri þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. leitað til undanþágunefndar og óskað eftir heimild nefndarinnar til að lausráða annan einstakling.
    Nú fæst heimild frá undanþágunefnd til að lausráða einstakling skv. 3. eða 5. mgr. og skal hann þá ráðinn með sérstökum ráðningarsamningi til ákveðins tíma með þriggja mánaða gagnkvæmum uppsagnarfresti sem er þó einn mánuður á fyrstu þremur mánuðum í starfi. Slíkur starfsmaður má ekki bera starfsheitið grunnskólakennari og ekki má endurráða hann án undangenginnar auglýsingar.
    Starfsreglur undanþágunefndar skal ákveða nánar í reglugerð.

19. gr.
Undanþágunefnd framhaldsskóla.
    Menntamálaráðherra skipar undanþágunefnd framhaldsskóla til fjögurra ára í senn. Nefndin skal skipuð þremur fulltrúum, einum fulltrúa tilnefndum af heildarsamtökum kennara, einum fulltrúa tilnefndum af Félagi íslenskra framhaldsskóla og einum fulltrúa án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar. Jafnmarga varamenn skal skipa á sama hátt.
    Óheimilt er að ráða aðra en þá sem uppfylla ákvæði laga þessara til kennslu við framhaldsskóla, sbr. lög um framhaldsskóla.
    Nú sækir enginn sem fullnægir ákvæðum þessara laga um auglýst kennslustarf þrátt fyrir endurtekna auglýsingu og getur skólameistari þá sótt um heimild til undanþágunefndar framhaldsskóla um að lausráða tiltekinn starfsmann til kennslustarfa til bráðabirgða, þó aldrei lengur en til eins árs. Undanþágunefnd er heimilt að víkja frá kröfu um endurtekna auglýsingu þegar sótt er um undanþágu til að endurráða einstakling sem er í námi til kennsluréttinda. Slíkri umsókn skal fylgja staðfesting á að viðkomandi sé í námi og áætlun um námsframvindu. Skólameistara er ekki skylt að leita til undanþágunefndar sé um að ræða kennslu sem nemur 240 mínútum á viku eða minna, sbr. 3. mgr. 13. gr.
    Málsaðili getur skotið ákvörðun undanþágunefndar til ráðherra. Málskot frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar undanþágunefndar.
    Ef hvorki skólameistari né að minnsta kosti tveir skólanefndarmenn mæla með ráðningu framhaldsskólakennara í kennslustarf getur skólameistari þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. leitað til undanþágunefndar og óskað eftir heimild nefndarinnar til að lausráða annan einstakling sem hefur sérmenntun í auglýstri kennslugrein.
    Nú fæst heimild frá undanþágunefnd til að lausráða einstakling skv. 3. eða 5. mgr. og skal hann þá ráðinn með sérstökum ráðningarsamningi með þriggja mánaða gagnkvæmum uppsagnarfresti sem er þó einn mánuður á fyrstu þremur mánuðum í starfi. Slíkur starfsmaður má ekki bera starfsheitið framhaldsskólakennari og ekki má endurráða hann án undangenginnar auglýsingar.
    Starfsreglur undanþágunefndar skal ákveða nánar í reglugerð.

VII. KAFLI
Almenn ákvæði.
20. gr.
Mat á umsóknum og forgangur til starfs.
    Við ráðningu skólastjórnenda í leik-, grunn- og framhaldsskólum skal tekið tillit til menntunar, starfsferils, stjórnunarreynslu eða viðbótarmenntunar í stjórnun og umsagna um starfshæfni umsækjanda. Sæki fleiri en einn um sama starf og uppfylli tveir eða fleiri þær kröfur sem gerðar eru skal m.a. tekið tillit til menntunar, starfsreynslu og umsagna um starfshæfni umsækjenda þegar ákvörðun er tekin um ráðningu í starfið.
    Grunnskólakennari sem hefur sérhæft sig til kennslu í tiltekinni námsgrein, á tilteknu námssviði eða aldursstigi, skal við ráðningu hafa forgang til kennslu miðað við það.
    Einstaklingar sem hafa lokið bakkalárprófi á sviði uppeldis- og kennslufræða, og aðrir þeir sem hafa sambærilega menntun sem nýtist til starfa í leikskólum, skulu njóta forgangs umfram aðra við ráðningu í störf í leikskólum.
    Einstaklingar sem hafa lokið bakkalárprófi á sviði uppeldis- og kennslufræða, og aðrir þeir sem hafa sambærilega menntun sem nýtist til starfa í grunnskólum, skulu njóta forgangs umfram aðra við ráðningu í störf í grunnskólum.
    Einstaklingar með starfsréttindapróf eða háskólapróf og a.m.k. 120 námseiningar í auglýstri kennslugrein skulu njóta forgangs umfram aðra við ráðningu í störf í framhaldsskólum.
    Þrátt fyrir ákvæði 3.–5. mgr. skulu þeir einstaklingar ekki njóta forgangs umfram þá sem hlotið hafa starfsheitið leikskólakennari, grunnskólakennari eða framhaldsskólakennari skv. 3.–5. gr.

21. gr.
Um gildissvið leyfisbréfa og útgáfu þeirra.
    Menntamálaráðherra veitir kennurum leyfisbréf til notkunar á starfsheitum kennara skv. 3.–5. gr. Um gildissvið leyfisbréfa fer að öðru leyti eftir því sem hér segir:
    1.    Leyfisbréf grunnskólakennara sem sérhæft hefur sig í kennslu yngri barna veitir honum heimild til kennslu elstu aldursflokka í leikskólum.
    2.    Leyfisbréf leikskólakennara sem sérhæft hefur sig í kennslu eldri barna veitir honum heimild til kennslu í 1.–3. bekkjum grunnskóla.
    3.    Leyfisbréf framhaldsskólakennara veitir honum heimild til kennslu á sérsviði sínu í 8.–10. bekkjum grunnskóla.
    4.    Leyfisbréf grunnskólakennara sem lokið hefur a.m.k. 120 námseininga sérmenntun í kennslugrein veitir honum heimild til kennslu á sérsviði sínu í byrjunaráföngum framhaldsskóla.
    Leikskólakennari sem lokið hefur a.m.k. 60 námseininga viðbótarmenntun í stjórnun eða sérkennslu á rétt á leyfisbréfi sem grunnskólakennari og starfa sem slíkur.
    Grunnskólakennari sem lokið hefur a.m.k. 60 námseininga viðbótarmenntun í stjórnun eða sérkennslu á rétt á leyfisbréfi sem leikskólakennari og starfa sem slíkur.
    Ráðherra er heimilt að fela háskólum, sem hlotið hafa viðurkenningu á grundvelli laga um háskóla og sinna menntun kennara eftir samningi við ráðuneytið, að annast útgáfu leyfisbréfa samkvæmt lögum þessum. Skal þá ráðherra veita hlutaðeigandi stofnunum sérstök fyrirmæli um hvernig útgáfu slíkra leyfisbréfa skuli nánar háttað.
    Ráðherra er heimilt að setja nánari fyrirmæli um útgáfu leyfisbréfa í reglugerð.

22. gr.
Eldri réttindi.
    Leikskólakennarar með bakkalárpróf á sviði uppeldis- og kennslufræða frá viðurkenndri kennaramenntunarstofnun, eða annað jafngilt nám sem lokið var með prófum sem tryggðu kennsluréttindi fyrir gildistöku laga þessara, skulu halda réttindum sínum.
    Grunn- og framhaldsskólakennarar með leyfisbréf við gildistöku laga þessara halda fullum réttindum til jafns við þá sem öðlast starfsréttindi grunn- og framhaldsskólakennara samkvæmt lögum þessum.

23. gr.
Gildistaka o.fl.
    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2008. Frá sama tíma falla úr gildi lög nr. 86/1998, um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra.
    Ákvæði 3., 4. og 5. gr. taka til þeirra sem hefja nám eftir gildistöku laga þessara.
    Fram til 1. júlí 2011 skulu þeir sem fá leyfisbréf til kennslu í leik-, grunn- og framhaldsskólum hafa lokið bakkalárprófi og tilskildu námi í uppeldis- og kennslufræðum.
    1. ágúst 2008 falla brott lög nr. 72/1996, um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla.

Ákvæði til bráðabirgða.
    Við gildistöku laga þessara skulu gefin út leyfisbréf til handa leik-, grunn- og framhaldsskólakennurum sem til þess eiga tilkall og ekki hafa þegar fengið slík bréf, enda óski þeir eftir því.
    Starfsmenn sem ráðnir hafa verið án kennaramenntunar, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 78/ 1994, um leikskóla, skulu þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 9. gr. halda starfi sínu. Um réttarstöðu þeirra að öðru leyti fer samkvæmt fyrirmælum í ráðningarsamningum og/eða kjarasamningum, sbr. 1. mgr. 57. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998.

Gjört á Bessastöðum, 12. júní 2008.

Ólafur Ragnar Grímsson.
(L. S.)

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

A deild - Útgáfud.: 20. júní 2008