1. gr. 4. gr. reglugerðarinnar orðast svo ásamt fyrirsögn: Útreikningur á leiðréttingu. Viðmiðunarvísitölur skv. 4. mgr. 7. gr. laga nr. 35/2014 miðast við 5,8% hækkun á ársgrundvelli. Þannig verður hvert gildi viðmiðunarvísitölu láns jafnt og síðasta gildi á undan margfaldað með 1,058 í veldinu einn deilt með tólf. Öll lán skv. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 35/2014 skal reikna sem eina heild miðað við þá lánaskilmála sem voru í gildi við upphaf leiðréttingartíma viðkomandi láns, óháð því hvort lán hafi færst á milli kröfuhafa eða innheimtuaðila á leiðréttingartímabilinu. Fjárhæð leiðréttingar einstaklings og hámark hennar ræðst skv. 5. mgr. 7. gr. laga nr. 35/2014 af hjúskapar- eða heimilisstöðu eins og hún var á hverjum tíma innan leiðréttingartímabilsins 1. janúar 2008 til 31. desember 2009. Ef breytingar urðu á högum umsækjanda, einu sinni eða oftar, sbr. 1. málsl., á leiðréttingartímabilinu skal útreikningur leiðréttingar miða við að breytingin taki gildi í sama mánuði. Heildarsamtala fjárhæðar útreiknaðrar leiðréttingar hvers heimilis getur að hámarki orðið 4 millj. kr. Við útreikning á hámarki leiðréttingar hvers heimilis skal, eftir atvikum, skipta fjárhæð leiðréttingar í samræmi við breytingar á hjúskapar- eða heimilisstöðu hvers einstaklings á hverjum tíma innan leiðréttingartímabilsins. 2. gr. Við 5. gr. reglugerðarinnar bætast tvær nýjar málsgreinar, sem verða 2. og 3. mgr. svohljóðandi: Þeir frádráttarliðir einstaklings skv. 8. gr. laga nr. 35/2014 sem komið hafa til framkvæmda eða samkomulag verið gert um, á tímabilinu 1. janúar 2008 til samþykktardags ákvörðunar um útreikning leiðréttingar skv. 3. mgr. 10. gr. laganna dragast frá leiðréttingarfjárhæð skv. 7. gr. laga nr. 35/2014. Sömu tímafrestir skulu gilda um kröfur sem glatað hafa veðtryggingu en hafa ekki verið felldar endanlega niður gagnvart umsækjanda, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 35/2014. Með annarri ráðstöfun eignar í skilningi 1. málsl. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 35/2014 er m.a. átt við sölu eða aðra eignaráðstöfun sem framkvæmd hefur verið í tengslum við gjaldþrot umsækjanda og leitt hefur til þess að fasteignaveðlán hans hefur glatað veðtryggingu. Fasteignaveðkröfur sem glatað hafa veðtryggingu fyrir, í tengslum við eða eftir gjaldþrot umsækjanda, teljast endanlega niðurfelldar í skilningi 1. málsl. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 35/2014 og dragast frá þeirri fjárhæð sem ákvarðast skv. 7. gr. laganna, sé fyrningarfrestur skv. lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. liðinn á samþykktardegi ákvörðunar um útreikning leiðréttingar skv. 3. mgr. 10. gr. laga nr. 35/2014. Ef fyrningarfrestur fasteignaveðkröfu, sem glatað hefur veðtryggingu fyrir, í tengslum við eða eftir gjaldþrot umsækjanda, er ekki liðinn á framangreindu tímamarki, skal leiðréttingarfjárhæð umsækjanda skv. 9. gr. laga nr. 35/2014 fyrst ráðstafað til að lækka slíkar kröfur skv. 1. mgr. 11. gr. laganna enda hafi krafan ekki verið endanlega felld niður. 3. gr. Við 6. gr. reglugerðarinnar bætast sjö nýjar málsgreinar svohljóðandi: Ríkisskattstjóra er heimilt að birta öllum umsækjendum niðurstöðu umsókna samtímis eða eftir því sem afgreiðslu lýkur. Þá er honum jafnframt heimilt að birta ákvörðun um útreikning leiðréttingarfjárhæðar og framkvæmd leiðréttingar sitt í hvoru lagi. Eigi birting ákvörðunar um útreikning leiðréttingarfjárhæðar og framkvæmd hennar sér ekki stað samtímis verður samþykki, sbr. 4. mgr., ekki við komið og hefst þá frestur til að staðfesta ákvörðun frá þeim degi sem síðari birting á sér stað. Sama á við um frest til að kæra til úrskurðarnefndar, sem starfar skv. 14. gr. laga nr. 35/2014. Nú hefur umsækjandi ekki athugasemdir við ákvörðun um útreikning leiðréttingarfjárhæðar og framkvæmd leiðréttingar og kærir ekki niðurstöðu, sbr. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 35/2014, og skal hann þá samþykkja hana innan þriggja mánaða. Að þeim tíma liðnum fellur réttur til leiðréttingar niður. Umsækjandi getur gert athugasemdir til ríkisskattstjóra vegna rangra upplýsinga um staðreyndir, s.s. um lán, hjúskaparstöðu eða frádráttarliði. Á þetta t.d. við ef ekki hefur verið tekið tillit til áhvílandi fasteignaveðláns við útreikning eða við ráðstöfun leiðréttingarfjárhæðar, tímabil sambúðartíma verið of eða vanreiknað eða umsækjandi hefur ekki notið þeirra úrræða sem færð voru til frádráttar leiðréttingarfjárhæð skv. 8. gr. laga nr. 35/2014. Athugasemdir skal rökstyðja og setja fram á rafrænu formi og skulu þær studdar þeim gögnum sem við eiga. Frestur til að gera athugasemdir er þrír mánuðir frá birtingu. Ákvörðun ríkisskattstjóra um að hafna athugasemd umsækjanda, sbr. 5. mgr., er endanleg ákvörðun á stjórnsýslustigi. Geri umsækjandi athugasemdir, sbr. 5. mgr., rofnar sá frestur sem hann hefur til að samþykkja útreikning og framkvæmd leiðréttingar og tekur fresturinn að líða að nýju frá þeim tíma sem ríkisskattstjóri hefur birt niðurstöðu sína. Sama gildir ef umsækjandi kærir útreikning og/eða framkvæmd leiðréttingarinnar til úrskurðarnefndar skv. 14. gr. laga nr. 35/2014. Á þeim tíma sem athugasemd er til meðferðar hjá ríkisskattstjóra er ekki unnt að kæra til úrskurðarnefndar. Heimilt er að kæra til úrskurðarnefndar ákvörðun um fjárhæð leiðréttingar, þ.e. útreikning hennar, forsendur frádráttarliða og framkvæmd leiðréttingar skv. 9. og 11. gr. laga nr. 35/2014. Sama gildir um endurupptöku skv. 13. gr. laga nr. 35/2014. Kærufrestur er þrír mánuðir frá birtingardegi ákvörðunar. 4. gr. Við reglugerðina bætist ný grein, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi: Samþykki umsækjanda. Umsækjandi skal samþykkja leiðréttingu, þ.e. bæði útreikning á leiðréttingarfjárhæð og framkvæmd/ráðstöfun hennar, sbr. 3. mgr. 10. gr. laga nr. 35/2014, með rafrænni undirritun. Rafræn undirritun fer fram með rafrænum skilríkjum og er þá átt við vottorð á rafrænu formi sem vistað er á símkorti, debetkorti, sérstökum einkaskilríkjum eða á minnislykli, er tengir sannprófunargögn við vottorðshafa og staðfestir hver hann er. Hafi hjúskapur varað samfellt frá upphafi leiðréttingartíma og fram að samþykkt skv. 1. mgr. er nægjanlegt að annað hjóna, sem stóð að sameiginlegri umsókn, samþykki fyrir beggja hönd. Hið sama á við um samþykki samskattaðs sambýlisfólks á umræddu tímabili, sem sótti sameiginlega um leiðréttingu. Heimilt er að víkja frá kröfu um samþykki með rafrænni undirritun í eftirfarandi tilvikum: Umsækjandi er heimilisfastur erlendis og getur ekki aflað sér rafrænna skilríkja sem viðurkennd eru hér á landi. Umsækjanda er ómögulegt að komast til útgáfuaðila rafrænna skilríkja til að sanna á sér deili s.s. vegna dvalar á heilbrigðisstofnun, hrumleika, sjúkdóms eða af öðrum hliðstæðum ástæðum.
Við þær aðstæður að vikið er frá kröfu um rafræna undirritun skal ríkisskattstjóri tryggja að samþykki skv. 1. mgr. verði rakið til umsækjanda svo óyggjandi sé. Ríkisskattstjóri getur sett nánari reglur um fyrirkomulag rafrænnar undirritunar samkvæmt ákvæði þessu. 5. gr. Reglugerð þessi er sett með stoð í 17. gr. laga nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, og öðlast þegar gildi. Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 10. nóvember 2014. F. h. r. Hafdís Ólafsdóttir. Guðrún Þorleifsdóttir. |