1. gr. Hlutverk, umsýsla. Hlutverk Rannsóknarnámssjóðs er að veita styrki til rannsóknartengds framhaldsnáms að loknu grunnnámi við háskóla, sem bjóða framhaldsnám og stunda vísindalegar rannsóknir. Rannsóknamiðstöð Íslands annast umsýslu Rannsóknarnámssjóðs. 2. gr. Stjórn. Menntamálaráðherra skipar þriggja manna stjórn sjóðsins til þriggja ára í senn. Í sjóðstjórn sitja fulltrúi tilnefndur af samstarfsnefnd háskólastigsins, fulltrúi tilnefndur af vísindanefnd Vísinda- og tækniráðs og fulltrúi skipaður af ráðherra án tilnefningar og skal hann jafnframt vera formaður stjórnar sjóðsins. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Stjórn námsgagnasjóðs ber ábyrgð á umsýslu sjóðsins og ákveður skiptingu á fjárveitingu hans. Sjóðstjórn skal haga starfi sínu í samræmi við málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Heimilt er stjórn Rannsóknarnámssjóðs að efna til samstarfs við einstaklinga, fyrirtæki og stofnanir um fjármögnun sérstakra styrkja til rannsóknartengds framhaldsnáms á afmörkuðum sviðum rannsókna. Ákvarðanir stjórnar Rannsóknarnámssjóðs sæta ekki stjórnsýslukæru. 3. gr. Tekjur, fjárheimild. Tekjur sjóðsins eru framlög í fjárlögum ár hvert auk annarra framlaga. Kostnaður við mat á umsóknum og við störf sjóðstjórnar skal greiddur af árlegu ráðstöfunarfé sjóðsins. 4. gr. Úthlutunarreglur og umsóknir. Stjórn Rannsóknarnámssjóðs gefur út úthlutunarreglur fyrir sjóðinn eigi síðar en sex vikum fyrir lok umsóknarfrests. Veittir eru styrkir til rannsóknartengds framhaldsnáms sem stundað er við háskóla eða á ábyrgð hans í samvinnu við rannsóknastofnanir eða fyrirtæki. Gert er ráð fyrir að sjóðurinn styrki nemendur í rannsóknarnámi á Íslandi og erlendis. Sé námið stundað við háskóla erlendis skal rannsóknaverkefnið lúta að íslensku viðfangsefni og vísindamaður með starfsaðstöðu á Íslandi taka virkan þátt í leiðbeiningu nemandans. Tilhögun námsins skal uppfylla Viðmið um æðri menntun og prófgráður, sem menntamálaráðuneytið gefur út, en fer að öðru leyti eftir lögum um háskóla, nr. 63/2006, reglum einstakra deilda og eftir almennum reglum háskóla. Stjórn Rannsóknarnámssjóðs er heimilt að leita faglegrar umsagnar um vísindalegt gildi verkefna, framkvæmda- og fjárhagsáætlun og vísindalega hæfni leiðbeinenda hjá óháðum sérfræðingum, áður er stjórnin úthlutar styrkjum. Við mat á umsóknum er m.a. tekið tillit til eftirtalinna þátta: - Vísindagildis fyrirhugaðs rannsóknarverkefnis og frágangs umsóknar.
- Frammistöðu nemanda í námi.
- Rannsóknavirkni leiðbeinenda.
- Tengslum rannsóknarverkefnis við fræðasvið leiðbeinenda.
Styrkir eru einkum veittir til framfærslu nemenda meðan unnið er að rannsóknarverkefni á grundvelli upplýsinga sem fram koma í greinargerð með umsókn. 5. gr. Ýmis ákvæði. Styrkþegar skulu fara að gildandi lögum og almennum reglum við vinnu sína og afla sér allra nauðsynlegra heimilda til verksins eftir því sem við á hjá siðanefndum, vísindanefndum og nefndum sem sjá um persónuvernd. Styrkþegar skulu í öllum ritsmíðum sínum um niðurstöður vísindarannsókna sem styrktar eru af sjóðnum geta um þátt hans í viðkomandi verki. Enskt heiti sjóðsins er: „The Icelandic Research Fund for Graduate Students“. Niðurstöður rannsókna, sem kostaðar eru með styrkjum úr Rannsóknarnámssjóði, skulu birtar opinberlega og vera öllum tiltækar nema um annað sé samið. 6. gr. Gildistaka. Reglur þessar sem settar eru með heimild í 1. mgr. 6. gr. laga um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, nr. 3/2003, öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi reglur um Rannsóknarnámssjóð nr. 974/2000. Menntamálaráðuneytinu, 9. janúar 2008. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Þórhallur Vilhjálmsson. |