I. KAFLI Ríkisstjórnarfundir. 1. gr. Ríkisstjórnarfundir. Ríkisstjórnarfundir eru fundir allra ráðherra sem sæti eiga í ríkisstjórn Íslands. Ráðherrum er skylt að sækja ríkisstjórnarfundi nema réttmæt forföll hamli. Forsætisráðherra stýrir ríkisstjórnarfundum, sbr. 4. mgr. 6. gr. laga um Stjórnarráð Íslands. Ráðherrar skulu ávarpa hvern annan með starfstitlum á ríkisstjórnarfundum. Áður en ráðherra fer úr landi ber honum að tryggja að annar ráðherra geti veitt ráðuneyti hans forstöðu meðan dvalið er ytra. Tilkynna skal ritara ríkisstjórnarinnar skriflega um brottfarar- og komudag ráðherra og um staðgengil hans. Ritari færir fjarveru ráðherra og staðgöngu fyrir hann til bókar í fundargerð næsta fundar. 2. gr. Mál sem bera skal upp í ríkisstjórn. Ríkisstjórnarfundi skal halda um eftirfarandi mál, sbr. 1.-2. mgr. 6. gr. laga um Stjórnarráð Íslands: 1. | Nýmæli í lögum, þ.e. lagafrumvörp sem ráðherrar hyggjast leggja fram á Alþingi sem stjórnarfrumvörp, og önnur málefni sem bera á upp fyrir forseta Íslands til staðfestingar, þ.m.t. tillögur til þingsályktana og tillögur um flutning stjórnarmálefna á milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. | 2. | Mikilvæg stjórnarmálefni. Til mikilvægra stjórnarmálefna teljast t.d. reglugerðir og yfirlýsingar sem taldar eru fela í sér mikilvæga stefnumörkun eða áherslubreytingar eða ef sýnt þykir að reglugerð eða yfirlýsing geti haft áhrif á útgjöld ríkissjóðs umfram fjárheimildir eða á efnahagsmál almennt. | 3. | Önnur mál sem ráðherrar óska eftir að bera upp í ríkisstjórn. |
Á ríkisstjórnarfundum skal skýra frá fundum þar sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar koma sameiginlega fram gagnvart aðilum úr stjórnkerfinu eða utan þess til umræðna um mikilvæg málefni og þegar þeim sem fulltrúum ríkisstjórnarinnar eru veittar mikilvægar upplýsingar eða kynnt mikilsverð málefni sem þurfa að koma til úrlausnar innan stjórnsýslunnar. Þegar mál sem bera skal upp í ríkisstjórn varðar málefnasvið annars ráðuneytis skal það borið undir viðkomandi ráðuneyti á undirbúningsstigi áður en það kemur til umfjöllunar í ríkisstjórn. Þá skulu reglugerðir og önnur stjórnvaldsfyrirmæli sem kunna að kalla á breyttar fjárheimildir og fyrirhugað er að setja eða breyta metnar af fjármálaráðuneytinu með sambærilegum hætti og stjórnarfrumvörp, sbr. 13. gr., áður en þær koma til kynningar í ríkisstjórn. 3. gr. Boðun ríkisstjórnarfunda. Ríkisstjórnarfundir skulu að jafnaði haldnir tvisvar í viku meðan Alþingi situr, á þriðjudögum og föstudögum, en annars einu sinni í viku og þá að jafnaði á þriðjudögum. Fundir hefjast stundvíslega kl. 9, nema annað sé ákveðið. Forsætisráðherra getur boðað fundi á öðrum tímum eftir þörfum og aðrir ráðherrar geta jafnframt óskað eftir því við forsætisráðherra að boðað sé til fundar utan reglulegra fundatíma. Forsætisráðherra boðar ráðherra til fundar. Boða skal til ríkisstjórnarfunda fyrir kl. 12, að jafnaði á mánudögum og fimmtudögum, ef um reglulegan fundartíma er að ræða. Ríkisstjórnarfundir skulu að jafnaði haldnir í Stjórnarráðshúsinu eða í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu. Forsætisráðherra getur boðað til funda á öðrum stöðum. 4. gr. Dagskrá ríkisstjórnarfunda. Ráðherrar skulu tilkynna forsætisráðherra um mál sem þeir hyggjast taka upp á ríkisstjórnarfundi eigi síðar en kl. 15 á mánudögum og fimmtudögum ef um reglulega fundartíma er að ræða. Mál sem tilkynnt er um eftir þann tíma verða ekki tekin á dagskrá ríkisstjórnarfundar nema brýna nauðsyn beri til. Dagskrá ríkisstjórnarfunda skal send öllum ráðherrum að jafnaði fyrir kl. 16 daginn fyrir ríkisstjórnarfund, ef um reglulegan fundartíma er að ræða. Fyrirhuguð dagskrá ríkisstjórnarfunda er trúnaðarmál og er óheimilt að upplýsa um dagskrármál nema með samþykki þess ráðherra sem hefur óskað eftir að taka málið á dagskrá. Dagskrá ríkisstjórnarfunda skal gerð opinber að fundi loknum, kynnt fjölmiðlum með tilkynningu og birt á vef Stjórnarráðs Íslands, sbr. 4. mgr. 7. gr. laga um Stjórnarráð Íslands. Sá ráðherra sem ber ábyrgð á dagskrármáli gerir nánari grein fyrir efnisatriðum þess samkvæmt nánari ákvörðun ríkisstjórnarinnar, að eigin frumkvæði eða samkvæmt fyrirspurnum þar um. Heimilt er að undanskilja dagskrármál birtingu ef þau varða málefni sem eru undanþegin upplýsingarétti almennings samkvæmt upplýsingalögum, þegar umfjöllun ríkisstjórnar er ólokið, endanleg ákvörðun í máli liggur ekki fyrir eða þegar aðrar málefnalegar ástæður réttlæta að vikið sé frá meginreglunni um birtingu að mati ríkisstjórnarinnar. Um aðgang að gögnum ríkisstjórnar fer samkvæmt ákvæðum upplýsingalaga. 5. gr. Gögn mála sem leggja á fyrir ríkisstjórn. Öllum málum sem ráðherrar bera upp í ríkisstjórn skal fylgja sérstakt minnisblað ráðherra til ríkisstjórnar þar sem meginatriði máls eru rakin og helstu sjónarmið sem að baki liggja, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga um Stjórnarráð Íslands. Ef óskað er eftir samþykki ríkisstjórnar skal setja þar fram skýrt orðaða tillögu. Forsætisráðuneytið veitir nánari leiðbeiningar um ritun minnisblaða sem leggja á fyrir ríkisstjórn. Þegar sérstaklega stendur á er heimilt með samþykki forsætisráðherra að víkja frá skyldu til að leggja mál fram skriflega. Minnisblöð, lagafrumvörp, þingsályktunartillögur, drög að reglugerðum, skýrslur og önnur gögn sem ráðherrar hyggjast leggja fram á ríkisstjórnarfundum í tengslum við tilkynnt dagskrármál, sbr. 1. mgr. 4. gr., skulu hafa borist forsætisráðuneytinu eigi síðar en kl. 15 daginn fyrir fund og skulu þau gerð aðgengileg ráðherrum, ráðuneytisstjórum og riturum ráðherra, sem og öðrum starfsmönnum ráðuneyta sem fengið hafa sérstaka heimild ráðherra til aðgangs, í sameiginlegu fundakerfi ríkisstjórnarinnar, eigi síðar en kl. 16 daginn fyrir ríkisstjórnarfund, ef um reglulegan fundartíma er að ræða. Þegar sérstaklega stendur á, að mati ráðherra, er honum þó heimilt að undanskilja gögn máls eða hluta þeirra frá birtingu í sameiginlegu fundakerfi ríkisstjórnarinnar samkvæmt ákvæði þessu. Við upphaf ríkisstjórnarfundar skulu ráðherrar afhenda ritara ríkisstjórnar minnisblöð og önnur gögn, sem þeir hyggjast leggja fyrir ríkisstjórn, í nægilega mörgum eintökum handa ráðherrum og ritara ríkisstjórnar. Ráðherra skal vekja athygli á því ef minnisblaði eða öðrum gögnum sem dreift er á ríkisstjórnarfundi hefur verið breytt frá því að þau voru birt í sameiginlegu fundakerfi ríkisstjórnarinnar eða ef ný gögn eru lögð fram. Komi í ljós misræmi á milli framlagðra gagna og gagna sem birt hafa verið í sameiginlegu fundakerfi ríkisstjórnarinnar fyrir fund, gilda hin framlögðu gögn. Trúnaðar- og þagnarskylda hvílir á ráðherrum og starfsmönnum ráðuneyta sem aðgang hafa að sameiginlegu fundakerfi ríkisstjórnarinnar um öll gögn ríkisstjórnar nema ríkisstjórnin samþykki að aflétta trúnaði eða lög kveði á um annað. 6. gr. Fundargerðir ríkisstjórnarfunda. Forsætisráðherra felur starfsmanni forsætisráðuneytisins að gegna störfum ritara ríkisstjórnar, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga um Stjórnarráð Íslands. Ritari ríkisstjórnar annast undirbúning ríkisstjórnarfunda í samvinnu við ritara forsætisráðherra og skráir fundargerðir. Í fundargerðir ríkisstjórnar, sbr. 2. mgr. 7. gr. laga um Stjórnarráð Íslands, skulu færðar niðurstöður, skýrt frá frásögnum og tilkynningum ráðherra auk þess sem greint skal frá umræðuefni, ef ekki er á því formleg niðurstaða, og bókuð afstaða samkvæmt sérstakri ósk ráðherra. Ef afgreiðsla máls byggist á öðrum sjónarmiðum en þeim sem lýst er í minnisblaði ráðherra, sbr. 1. mgr. 5. gr., eða í öðrum framlögðum gögnum skal gera grein fyrir þeim í fundargerð. Fundargerðir skulu staðfestar af forsætisráðherra og dreift til annarra ráðherra þegar staðfesting liggur fyrir, sbr. 3. mgr. 7. gr. laga um Stjórnarráð Íslands. Komi fram athugasemd við fundargerð frá ráðherra skal hún skráð í fundargerð næsta fundar. Dagskrár, fundargerðir og öll gögn sem lögð eru fram á ríkisstjórnarfundum skulu varðveitt á pappír og rafrænu formi í málaskrá ríkisstjórnar. Ritara ríkisstjórnar er heimilt að skýra ráðuneytisstjórum viðkomandi ráðuneyta frá ákvörðunum er varða þeirra ráðuneyti og senda þeim skriflega útdrætti úr fundargerðum samkvæmt eigin ákvörðun eða ósk viðkomandi ráðuneytisstjóra. Trúnaðar- og þagnarskylda hvílir á ráðuneytisstjórum og öðrum starfsmönnum ráðuneyta með sama hætti og á ráðherra. 7. gr. Eftirfylgni með samþykktum ríkisstjórnar. Ráðherra sem ber ábyrgð á máli skal tryggja eftirfylgni með samþykkt ríkisstjórnar. II. KAFLI Undirbúningur, meðferð og afgreiðsla stjórnarfrumvarpa í ríkisstjórn. 8. gr. Afgreiðsla ríkisstjórnar. Frumvörp til laga sem ráðherrar hyggjast leggja fram á Alþingi skulu áður tekin til meðferðar á ríkisstjórnarfundi, sbr. 1. tölul. 6. gr. laga um Stjórnarráð Íslands. Skulu frumvörp undirbúin og frá þeim gengið í samræmi við þessar reglur, sbr. einnig gátlista og leiðbeiningar um efnisyfirlit almennra athugasemda, sem forsætisráðuneytið gefur út, og handbók um undirbúning og frágang lagafrumvarpa, sem gefin er út af forsætisráðuneyti að höfðu samráði við skrifstofu Alþingis. 9. gr. Tilefni og nauðsyn lagasetningar. Í almennum athugasemdum við frumvarp sem lagt er fyrir ríkisstjórn skal greina frá tilefni lagasetningar og rökstyðja hvers vegna hún er nauðsynleg. Þá skal greint frá þeim valkostum sem fyrir hendi hafi verið við útfærslu frumvarps og hvers vegna leið lagasetningar var valin. Ef frumvarp er ekki á þingmálaskrá ríkisstjórnar skal ráðherra rökstyðja í minnisblaði til ríkisstjórnar hvers vegna frumvarp skuli eigi að síður lagt fram. 10. gr. Stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar. Ef samning frumvarps hefur gefið tilefni til að meta hvort það samrýmist stjórnarskrá eða alþjóðlegum skuldbindingum skal þess getið í almennum athugasemdum. 11. gr. Samráð milli ráðuneyta, við hagsmunaaðila og almenning. Ef frumvarp varðar málefnasvið annars ráðuneytis skal það borið undir viðkomandi ráðuneyti á undirbúningsstigi. Einnig skal kynna frumvarp öðrum ráðuneytum með hæfilegum fyrirvara fyrir ríkisstjórnarfund ef ætla má að efni þess tengist málefnasviðum þeirra. Þegar um veigamikil mál er að ræða sem ekki er að finna í þingmálaskrá ríkisstjórnar er æskilegt að kynna þau í ríkisstjórn áður en samning frumvarps hefst. Í almennum athugasemdum við lagafrumvörp skal gera grein fyrir því hverja frumvarp snerti fyrst og fremst, hvernig samráði hafi verið háttað, hvaða sjónarmið komu fram og hvort brugðist hafi verið við þeim, og hvaða áhrif samráðið hafi haft á fyrirliggjandi frumvarp. 12. gr. Almennt mat á áhrifum. Í almennum athugasemdum við frumvörp skal setja fram stutt og almennt mat á áhrifum fyrirhugaðrar lagasetningar. Rekja skal afleiðingar fyrir almannahagsmuni og helstu hagsmunaaðila. Áhrif á stjórnsýslu ríkisins skulu rakin eftir því sem tilefni er til. Rökstyðja skal hvers vegna ávinningurinn af samþykkt frumvarps sé meiri en hugsanleg neikvæð eða íþyngjandi áhrif, þar á meðal með tilliti til þess sértæka mats á áhrifum sem farið hefur fram. 13. gr. Áhrif á fjárhag ríkisins. Umsögn fjárlagaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins um áhrif lagafrumvarps á fjárhag ríkisins skal fylgja því við meðferð ríkisstjórnar. Fyrir viðameiri frumvörp sem horfur eru á að hafi umtalsverð fjárhagsáhrif og geta kallað á talsverða upplýsingaöflun, greiningu og áætlanagerð skal að jafnaði senda frumvarpið til fjármála- og efnahagsráðuneytis með tveggja vikna fyrirvara fyrir ríkisstjórnarfund. Fyrir veigaminni frumvörp eða frumvörp sem ekki eru talin hafa fjárhagsáhrif nægir yfirleitt vikufrestur. Umsögn fjármála- og efnahagsráðuneytis skal prentuð sem fylgiskjal með frumvarpi þegar það er lagt fram á Alþingi. 14. gr. Áhrif á fjárhag sveitarfélaga. Þegar fyrirsjáanlegt er að lagafrumvarp muni hafa fjárhagsleg áhrif á sveitarfélög skal fara fram sérstakt mat á slíkum áhrifum, sbr. 129. gr. sveitarstjórnarlaga. Slíkt mat skal lagt fyrir Samband íslenskra sveitarfélaga til umsagnar. Viðkomandi ráðuneyti skal í kostnaðarumsögn, sem fylgi frumvarpi, gera grein fyrir niðurstöðunni og hvort ágreiningur sé við Samband íslenskra sveitarfélaga. Ráðuneyti sveitarstjórnarmála gefur nánari leiðbeiningar um hvað felast skuli í matinu, um framsetningu kostnaðarumsagnarinnar og tekur saman árlegt yfirlit yfir niðurstöður, sbr. 5. mgr. 129. gr. sveitarstjórnarlaga. 15. gr. Mat á nauðsyn eftirlitsreglna. Þegar stjórnarfrumvarp felur í sér ákvæði um eftirlit með starfsemi fyrirtækja eða einstaklinga skal fylgja því greinargerð um mat skv. 1.-2. mgr. 3. gr. laga um opinberar eftirlitsreglur. Sú greinargerð skal að lágmarki unnin í samræmi við grunnmat á eftirlitsreglum, sem birt er á vef forsætisráðuneytisins. 16. gr. Önnur sértæk áhrif. Þegar tilefni er til skal meta önnur sértæk áhrif, svo sem áhrif á umhverfið, á sjálfbæra þróun og á fyrirtæki, áhrif á jafnrétti kynjanna, tiltekna þjóðfélagshópa, stjórnsýslu og samkeppni og möguleika einstaklinga og fyrirtækja til að eiga samskipti þvert á norræn landamæri. Æskilegt er að viðkomandi fagráðuneyti komi að mati á sértækum áhrifum. 17. gr. Frumvörp er varða samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Ef frumvarp felur í sér innleiðingu á EES-gerð eða heimild til slíkrar innleiðingar skal þess getið í ákvæði næst á undan gildistökuákvæði, enda beri aðrar greinar frumvarpsins það ekki skýrlega með sér. Tekið skal fram í almennum athugasemdum við frumvarpið hvaða leiðir hafi verið færar til innleiðingar á gerðinni og hvers vegna sú leið sem lögð er til í frumvarpinu hafi orðið fyrir valinu. Þá skulu í athugasemdum við frumvarpið koma fram þau efnisatriði sem tilgreind eru í 5. gr. reglna forsætisnefndar Alþingis um þinglega meðferð EES-mála, sbr. 37. gr. laga um þingsköp Alþingis. Gæta skal að tilkynningarskyldu gagnvart Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) og biðstöðuskyldu íslenska ríkisins varðandi ríkisaðstoð samkvæmt 61. gr. EES-samningsins. Ennfremur skal gæta að tilkynningaskyldu gagnvart Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) þar sem það á við, t.d. varðandi tæknilegar reglur um vöru og fjarþjónustu sem geta haft í för með sér óheimilar tæknilegar viðskiptahindranir, sbr. lög um skipti á upplýsingum um tæknilegar reglur um vörur og fjarþjónustu, og ákvæði er varða frelsi til að veita þjónustu (með eða án staðfestu) á Íslandi, sbr. 1. og 2. gr. reglugerðar um tilkynningar til Eftirlitsstofnunar EFTA í tengslum við þjónustuviðskipti á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins. 18. gr. Málfar, íslensk lagahefð. Frumvörp skulu sett fram á skýru og einföldu máli. Texti lagafrumvarpa á að vera á lýtalausu íslensku máli og laus við villur í málfari og stafsetningu, greinarmerkjasetning á að vera skýr og frágangur til fyrirmyndar. Þá skulu frumvörp falla vel að öðrum lögum og vera í samræmi við íslenska lagahefð. Við yfirlestur frumvarpa að þessu leyti skal hafa samstarf við skjaladeild Alþingis. 19. gr. Umsögn forsætisráðuneytis. Stjórnarfrumvörp, önnur en frumvarp til fjárlaga, fjáraukalaga og lokafjárlaga, skulu send forsætisráðuneytinu ásamt útfylltum gátlista, sem forsætisráðuneytið gefur út, í síðasta lagi viku fyrir ríkisstjórnarfund. Áður en stjórnarfrumvarp verður tekið til meðferðar í ríkisstjórn skal liggja fyrir umsögn skrifstofu löggjafarmála í forsætisráðuneytinu um það hvort frumvarpið hafi verið unnið í samræmi við reglur þessar. Forsætisráðherra getur veitt undanþágu frá þessu ákvæði ef brýna nauðsyn ber til. 20. gr. Samþykki þingflokka. Samþykki ríkisstjórnar fyrir framlagningu stjórnarfrumvarpa, annarra en frumvarps til fjárlaga, fjáraukalaga og lokafjárlaga, er að jafnaði skilyrt samþykki þingflokka sem eiga aðild að ríkisstjórn, nema ríkisstjórnin ákveði annað. Þingflokkar stjórnarflokkanna tilkynna viðkomandi ráðherra eða fulltrúa hans skriflega um afgreiðslu sína með afriti til ritara ríkisstjórnarinnar. Ritari heldur skrá yfir tillögur ráðherra um þingmál ríkisstjórnarinnar og afdrif þeirra í þingflokkum hennar. III. KAFLI Gildistaka. 21. gr. Reglur þessar, sem settar eru með stoð í 5. mgr. 7. gr. laga um Stjórnarráð Íslands og samþykktar hafa verið í ríkisstjórn, öðlast þegar gildi. Forsætisráðuneytinu, 9. janúar 2013. Jóhanna Sigurðardóttir. Ragnhildur Arnljótsdóttir. |