Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 653/2013

Nr. 653/2013 11. janúar 2013

REGLUR
byggðasamlags um málefni fatlaðra á Norðurlandi vestra um styrki til náms og verkfæra- og tækjakaupa fatlaðs fólks.

1. gr.

Markmið.

Markmið reglnanna er að auðvelda fötluðu fólki að verða sér úti um þekkingu og reynslu og til að auka möguleika sína á að vera virkir þátttakendur í samfélaginu. Í þeim tilgangi eru veittir styrkir til þess að fatlað fólk geti:

a) sótt sér menntun,

b) viðhaldið og aukið við þekkingu og færni og

c) nýtt möguleika á aukinni þátttöku í félagslífi og atvinnu.

Samkvæmt 27. gr. laga um málefni fatlaðs fólks nr. 59/1992 með síðari breytingum, er heimilt að veita fötluðu fólki aðstoð vegna félagslegrar hæfingar og endurhæfingar. Aðstoðin er annars vegar í formi styrkja til verkfæra- og tækjakaupa eða annarrar fyrirgreiðslu vegna heimavinnu eða sjálfstæðrar starfsemi að endurhæfingu lokinni og hins vegar í formi styrkja til greiðslu námskostnaðar sem ekki er greiddur samkvæmt ákvæðum annarra laga.

2. gr.

Hverjir eiga kost á styrk.

Rétt til styrkja samkvæmt reglum þessum á fatlað fólk og fólk með 75% örorku sem er 16 ára og eldra. Allir íbúar sem eiga lögheimili á þjónustusvæði byggðasamlagsins eiga rétt til þjónustunnar að uppfylltum öðrum viðmiðunum skv. reglum þessum.

3. gr.

Orðskýringar.

Hæfing hefur að markmiði að viðhalda og auka færni viðkomandi þannig að afleiðingar fötlunar eða áfalla leiði ekki til versnandi lífsgæða. Með félagslegri hæfingu er átt við að úrræði sé einkum ætlað að auka og viðhalda færni viðkomandi til almennrar samfélagslegrar þátttöku.

Endurhæfingu er ætlað að stuðla að því að einstaklingur nái aftur eins góðri andlegri, félagslegri og líkamlegri færni og mögulegt er.

Starfsendurhæfingu er einkum ætlað að endurhæfa einstaklinga til vinnu eða náms.

4. gr.

Skilyrði sem þarf að uppfylla til að fá styrk.

a) Styrkir vegna náms eru veittir vegna námsgagna og námskeiðs- og skólagjalda.

b) Styrkir vegna verkfæra- og tækjakaupa eru til að auðvelda fólki að skapa sér atvinnu með heimavinnu eða sjálfstæðri starfsemi.

c) Sýna þarf fram á að starfsemin geti skapað viðkomandi atvinnu. Styrkurinn skal vera einstaklingsbundinn og óheimilt er að hann renni til fyrirtækis.

d) Þörf fyrir slíka styrki er metin hverju sinni út frá fötlun einstaklingsins og aðstæðum hans í heild. Við matið er horft til gagnsemi náms og/eða tækja fyrir umsækjanda, sem og gildi þess sem félagslegrar hæfingar eða endurhæfingar. Við mat umsókna er einnig tekið tillit til fjárhagslegra aðstæðna umsækjanda, tekna hans og útgjalda.

e) Veita má árlega styrki til náms ef sýnt er fram á gildi námsins fyrir viðkomandi einstakling, góða námsástundun og áætluð námslok.

f) Við úthlutun á styrk til skóla- eða námskeiðsgjalda skal miða við tiltekinn tíma, svo sem námskeið eða skólaár.

g) Alla jafna skal miða við að nám eða námskeið rúmist innan námskrár framhaldsskóla og viðurkenndra símenntunarmiðstöðva.

h) Styrkur til verkfæra- og tækjakaupa er að öllu jöfnu ekki veittur til sama einstaklings oftar en einu sinni á þriggja ára fresti.

i) Umsækjandi skal sýna fram á að aðrir möguleikar til styrkja hafi verið kannaðir og nýttir. Í þessu sambandi er vísað til sjóða stéttarfélaga, lögbundinna framlaga vegna hjálpartækja og þess ef nám er lánshæft samkvæmt lögum og úthlutunarreglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna.

5. gr.

Gagnaöflun.

Til að hægt sé að afgreiða umsókn vegna náms og verkfæra- og tækjakaupa þarf umsækjandi að skila eftirfarandi gögnum:

Vegna náms:

a) Kvittun fyrir námskeiðs- eða skólagjöldum eða greinargóð kostnaðaráætlun ásamt staðfestingu á skráningu á námi eða námskeiði.

b) Vottorði frá fagaðila með staðfestingu á fötlun eða örorku þar sem fram kemur hvort umsækjandi er fær um að stunda viðkomandi nám.

c) Tekjuupplýsingum s.s. greiðslum Tryggingastofnunar ríkisins og lífeyrissjóða, ásamt öðrum launaseðlum ef við á.

d) Námsvottorði. Staðfestingu frá skóla um skráningu í nám og skólasókn.

e) Staðfestingu á að umsækjandi eigi ekki rétt á námsláni eða öðrum styrkjum.

f) Greinargerð umsækjanda um tilgang náms og annað sem umsækjandi vill taka fram. Almennar upplýsingar um námið og námsáætlun, þ.e. námsframvindu og áætluð námslok.

g) Upplýsingum um aðra styrki á árinu frá byggðasamlagi eða sveitarfélagi.

Vegna verkfæra- og tækjakaupa (til að stunda heimavinnu eða sjálfstæða starfsemi):

h) Greinargóðri kostnaðaráætlun, tilboði frá söluaðila eða kvittun fyrir útlögðum kostnaði.

i) Vottorði frá fagaðila með staðfestingu á fötlun eða örorku þar sem fram kemur hvort umsækjandi er fær um að stunda viðkomandi starfsemi.

j) Tekjuupplýsingum s.s. greiðslum Tryggingastofnunar ríkisins og lífeyrissjóða, ásamt öðrum launaseðlum ef við á.

k) Gögn sem sýna útilokun á rétti viðkomandi til hjálpartækja frá Sjúkratryggingum Íslands.

l) Greinargerð um fyrirhugaða starfsemi og hvernig undirbúningi hennar hefur verið háttað. Ástæður umsóknar, til hvers á að nota styrkinn, hefur umsækjandi rétt á öðrum styrkjum og þá hverjum og annað sem umsækjandi vill taka fram.

m) Rekstraráætlun vegna fyrirhugaðrar starfsemi. Greinargóð kostnaðaráætlun eða reikningur fyrir útlögðum kostnaði.

n) Rekstrarreikningi ef starfsemi er þegar hafin.

o) Upplýsingum um aðra styrki á árinu frá byggðasamlagi eða sveitarfélagi.

Sé umsókn ófullnægjandi eða henni fylgja ekki nauðsynleg gögn skal umsækjanda gerð grein fyrir því sem ábótavant er og honum gefinn kostur á að bæta úr því innan 10 daga. Sinni hann ekki þeim tilmælum fellur umsókn úr gildi.

Málsgögn er varða persónulega hagi einstaklinga skulu varðveitt með tryggilegum hætti. Umsækjandi á rétt á að kynna sér upplýsingar úr skráðum gögnum sem varða mál hans, að svo miklu leyti sem það stangast ekki á við trúnað gagnvart öðrum.

6. gr.

Auglýsingar.

Byggðasamlagið vekur athygli á rétti fólks til umsókna með því að auglýsa a.m.k. einu sinni á ári. Auglýsing skal innihalda allar upplýsingar um ferli umsóknar og hvert skal leita eftir eyðublöðum og upplýsingum. Allar umsóknir um styrki skv. 27. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks eiga að berast viðkomandi félagsþjónustu í heimabyggð umsækjanda á viðeigandi umsóknareyðublöðum sem þar liggja frammi.

7. gr.

Úthlutun styrkja.

Fjárhæð styrkja er tilgreind í viðmiðunarreglum byggðasamlags um málefni fatlaðra á Norðurlandi vestra um greiðslur styrkja til náms og verkfæra- og tækjakaupa.

Þessir styrkir geta varðað:

a) náms- og skólagjöld,

b) tómstundanámskeið,

c) tölvukaup,

d) verkfæra- og tækjakaup.

8. gr.

Málsmeðferð.

Starfsmenn sveitarfélags veita umsækjendum aðstoð við umsóknir. Við afgreiðslu umsóknar skal starfsmaður veita umsækjanda upplýsingar og leiðbeiningar um réttindi sem hann kann að eiga annars staðar.

Þjónustuhópur byggðasamlagsins (SSNV) tekur ákvörðun um úthlutun styrkja. Þjónustuhópi er heimilt að afgreiða umsóknir utan auglýsts umsóknarfrests ef málefnalegar ástæður eru fyrir hendi. Allir umsækjendur skulu fá skrifleg svör innan tveggja vikna frá ákvörðun þjónustuhóps.

9. gr.

Endurkröfur.

Styrkir sem veittir eru á grundvelli rangra eða villandi upplýsinga af hendi styrkþega eru alla jafna endurkræfir og getur byggðasamlagið endurkrafið viðkomandi um fjárhæðina samkvæmt almennum reglum kröfuréttar. Sama gildir ef þeir eru nýttir í annað en umsókn gerði ráð fyrir. Ef sannreynt er við vinnslu málsins að upplýsingar sem umsækjandi hefur veitt eru rangar eða villandi stöðvast afgreiðsla umsóknarinnar.

10. gr.

Útborgun.

Styrkur skal afgreiddur inn á reikning viðkomandi umsækjanda samkvæmt framlagðri staðfestingu eða kvittun fyrir kaupum. Leiðbeiningar um hvar færa skuli styrkupphæð á skattframtali skulu fylgja.

11. gr.

Niðurstaða synjunar og málskot til málsmeðferðarnefndar.

Kynna skal umsækjanda niðurstöðu umsóknar svo fljótt sem unnt er. Sé umsókn hafnað í heild eða að hluta skal umsækjandi fá skriflegt svar þar sem forsendur synjunar eru rökstuddar. Synjun þjónustuhóps má skjóta til málsmeðferðarnefndar byggðasamlags um málefni fatlaðra á Norðurlandi vestra, og skal það gert skriflega innan þriggja mánaða frá því að umsækjanda berst vitneskja um synjun. Málsmeðferðarnefnd skal fjalla um umsókn og taka ákvörðun svo fljótt sem unnt er.

12. gr.

Málskot til úrskurðarnefndar félagsþjónustu.

Umsækjandi getur skotið ákvörðun málsmeðferðarnefndar til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála hjá velferðarráðuneytinu. Skal það gert innan fjögurra vikna frá því umsækjanda berst vitneskja um ákvörðun nefndarinnar.

13. gr.

Heimildir til ákvarðana skv. reglum þessum.

Þjónustuhópur byggðasamlagsins tekur ákvarðanir skv. reglum þessum í umboði stjórnar byggðasamlags.

14. gr.

Birting og endurskoðun.

Reglur þessar eru settar með heimild í 27. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks og birtar í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 55. gr. laganna. Reglurnar skulu endurskoðaðar eigi sjaldnar en á tveggja ára fresti að teknu tilliti til viðeigandi þjónustu- og gæðaviðmiða, sbr. 2. mgr. 3. gr. umræddra laga.

15. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar, sem samþykktar voru í stjórn byggðasamlagsins þann 4. desember 2012, öðlast þegar gildi.

Skagafirði, 11. janúar 2013.

F.h. samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra,
Jón Óskar Pétursson framkvæmdastjóri.


B deild - Útgáfud.: 10. júlí 2013