Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1077/2013

Nr. 1077/2013 15. nóvember 2013
REGLUR
um breytingu á reglum nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands.

1. gr.

Á eftir 2. mgr. 7. gr. bætist við ný málsgrein, svohljóðandi:

Við Háskóla Íslands starfar sérstök kærunefnd í málefnum nemenda sem hefur það hlutverk að fjalla um kvartanir og kærur stúdenta samkvæmt 50. gr. reglna þessara. Samkvæmt tilnefningu rektors skipar háskólaráð þrjá fulltrúa í nefndina og til þriggja ára og jafnmarga til vara. Formaður nefndarinnar skal vera lögfræðingur.

2. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 19. gr.:

a. Í 2. málslið fellur brott orðið „deildarfundi“ sem kemur næst á eftir orðunum „sitji deildarfundi með atkvæðisrétt, er“.

b. Við málsgreinina bætist nýr málsliður, svohljóðandi:

Deild er heimilt að ákveða tilnefningu með rafrænni kosningu, með tölvupósti eða öðrum jafntryggum hætti, enda sé niðurstaða kosningar formlega kynnt og bókuð á næsta deildarfundi. Rafræn kosning skal standa yfir í að minnsta kosti þrjá virka daga og skal tilskilinn meirihluti miðast við alla sem atkvæðisbærir eru á deildarfundi.

3. gr.

Í stað orðanna „önnur en framgangsmál sbr. 31. gr.“ í lok 2. málsliðar 1. mgr. 40. gr. reglnanna kemur: þar með talin framgangsmál sbr. 31. gr.

4. gr.

50. gr. ásamt fyrirsögn orðast svo:

Ferli kvartana og kærumála nemenda.

Telji stúdent brotið á rétti sínum varðandi kennslu, próf, námsmat, einkunnagjöf, mat á námsframvindu eða annað sem lýtur að kennslu og prófum skal hann senda skriflegt erindi til deildarforseta. Í erindi skal stúdent greina skilmerkilega frá því hvert álitaefnið er, hver sé krafa stúdents og rökstuðning fyrir henni. Varði erindi samskipti nemanda og leiðbeinanda við ritun lokaverkefnis skal deildarforseti leita leiða til að ná sáttum á milli aðila eins fljótt og kostur er. Nýr leiðbeinandi skal ekki skipaður nema sérstaklega standi á.

Deildarforseti skal fjalla um álitaefnið svo fljótt sem unnt er og afgreiða það að jafnaði eigi síðar en innan tveggja mánaða frá því að erindið barst. Ef mál er viðamikið og fyrirsjáanlegt að afgreiðsla taki lengri tíma, skal tilkynna hlutaðeigandi það og tilgreina hvenær afgreiðslu sé að vænta. Deildarforseta ber að afgreiða erindi með formlegu svari, hvort sem það lýtur að ákvörðun um réttindi eða skyldur stúdents í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eða að öðru leyti að kennslu eða prófum stúdentsins. Deildarforseta er ávallt heimilt að óska eftir afstöðu deildarfundar til erindis. Ef það er gert gilda ákvæði þessarar greinar um málsmeðferð og ákvörðun deildarfundar eftir því sem við á.

Uni stúdent ekki endanlegri ákvörðun deildarforseta um rétt hans eða skyldu getur hann skotið máli sínu til kærunefndar í málefnum nemenda við Háskóla Íslands samkvæmt 7. gr. reglna þessara, sem úrskurðar um rétt hans. Ef erindi nemanda til deildarforseta lýtur ekki að málefni sem lokið verður með endanlegri ákvörðun um réttindi hans eða skyldur getur stúdent borið undir nefndina hvort málsmeðferð deildarforseta á skriflegu erindi hans hafi verið í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti, og skal nefndin þá veita álit sitt um það efni. Deildarforseti eða kærunefndin endurmeta ekki prófúrlausnir eða faglega niðurstöðu kennara eða prófdómara.

Umsækjandi um inntöku í framhaldsnám getur borið synjun undir kærunefndina. Synjun um inntöku í grunnnám fellur ekki undir ákvæði þetta, sbr. 7. mgr. 47. gr. reglna þessara. Máli verður ekki skotið til kærunefndar fyrr en endanleg ákvörðun eða afstaða deildarforseta liggur fyrir eða þrír mánuðir eru liðnir frá því að erindi var fyrst skriflega lagt fyrir deildarforseta.

Ákvarðanir kærunefndar samkvæmt þessari grein eru kæranlegar til áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema samkvæmt 20. gr. laga nr. 63/2006 um háskóla. Nefndin endurmetur ekki prófúrlausnir eða faglega niðurstöðu kennara, dómnefnda eða próf­dómara. Málum verður ekki skotið til áfrýjunarnefndarinnar fyrr en kærunefndin hefur tekið ákvörðun í málinu eða þrír mánuðir eru liðnir frá því að kæra var fyrst skriflega lögð fyrir hana. Leiðbeina skal um kæruheimild þegar ákvarðanir samkvæmt þessari grein eru birtar.

5. gr.

2. mgr. 51. gr. orðast svo:

Leiki grunur á að stúdent hafi gerst sekur um hegðun sem lýst er í 1. mgr. eða ef stúdent hefur gerst sekur um brot á lögum eða öðrum reglum háskólans, skal vekja athygli deildarforseta á málinu. Ef um er að ræða brot sem til þess er fallið að hafa áhrif á einkunn getur aðeins viðkomandi kennari tekið ákvörðun um slíkt. Deildarforseti skal þó stýra meðferð málsins og undirbúningi, í samráði við kennara. Berist deildarforseta ábending skv. 1. mgr. skal þegar tilkynna nemanda um málið og gefa honum hæfilegan frest til að tjá sig um atvik þess, eftir atvikum með skriflegum hætti, enda sé það ekki augljóslega óþarft. Að teknu tilliti til svara nemanda skal taka ákvörðun um hvort um brot nemanda sé að ræða og um áhrif þess á einkunn, ef um það er að ræða. Skal nemanda kynnt niðurstaða deildar skriflega. Deildarforseti sendir þá jafnframt málið eins fljótt og kostur er til forseta fræðasviðs til ákvörðunar um agaviðurlög, sbr. 3. mgr. 19. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla. Ekki þarf þá að gefa nemanda frekara tæki­færi til að tjá sig á vettvangi deildar. Í tilkynningu til sviðsforseta skal koma fram lýs­ing á ætluðu broti.

6. gr.

Lokamálsliður 1. mgr. 57. gr. orðast svo:

Háskóladeild metur hvort veita skuli undanþágu frá ákvæðum þessarar greinar vegna atvika er varða hag eða heilsu stúdents eða annarra sérstakra og óviðráðanlegra ástæðna.

7. gr.

2. mgr. 59. gr. orðast svo:

Stúdent á rétt til að fá útskýringar kennara á mati skriflegrar úrlausnar sinnar ef hann æskir þess innan 15 daga frá birtingu einkunnar. Heimilt er með skýru samþykki nemanda, sem þreytt hefur sjúkra- eða endurtökupróf og er skráður til brautskráningar, að halda prófsýningu fyrr. Kennurum er heimilt að halda prófsýningu fyrir alla nemendur námskeiðs þar sem skýrt er út mat skriflegra úrlausna. Vilji stúdent, sem ekki hefur staðist próf, þá eigi una mati kennarans getur hann snúið sér til viðkomandi deildar­forseta. Skal þá prófdómari skipaður í hverju tilviki. Þetta á þó ekki við um inntöku­próf. Meirihluti nemenda í námskeiði getur með rökstuddu erindi óskað eftir því að skip­aður verði prófdómari til þess að fara yfir skriflegar úrlausnir á lokaprófi í námskeið­inu. Þegar prófdómari er skipaður eftir að einkunn kennara hefur verið birt fer hann einungis yfir prófúrlausnir þeirra nemenda sem óskað hafa eftir endurmati. Einnig getur kennari, telji hann til þess sérstaka ástæðu, óskað skipunar prófdómara í einstöku prófi og fer hann þá yfir prófúrlausnir allra nemenda í námskeiðinu. Prófdómari verður þó ekki skipaður ef meira en sex vikur hafa liðið frá birtingu einkunnar og þar til beiðni um skipun­ina berst.

8. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 84. gr.:

a. Upptalning námsbrauta í 5. mgr. orðast svo: félagsfræði, fötlunarfræði, mannfræði, náms- og starfsráðgjöf, upplýsingafræði, þjóðfræði.

b. Orðin „bókasafns- og upplýsingafræði“ í 14. mgr., 25. mgr. og 29. mgr. breytast og verða (í viðeigandi beygingarfalli): upplýsingafræði.

9. gr.

Reglur þessar, sem samþykktar hafa verið í háskólaráði Háskóla Íslands, eru settar á grundvelli laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla og öðlast þegar gildi.

 

Háskóla Íslands, 15. nóvember 2013.

Kristín Ingólfsdóttir.

Þórður Kristinsson.

B deild - Útgáfud.: 4. desember 2013