Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 24/2010

Nr. 24/2010 30. mars 2010
LÖG
um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri.

HANDHAFAR VALDS FORSETA ÍSLANDS
   samkvæmt 8. gr. stjórnarskrárinnar
forsætisráðherra, forseti Alþingis og forseti Hæstaréttar,
gjöra kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og vér staðfest þau með samþykki voru:

1. gr.
Umsókn um greiðsluuppgjör.
    Lögaðilar og einstaklingar í atvinnurekstri sem eru í vanskilum með virðisaukaskatt, staðgreiðslu opinberra gjalda, tryggingagjald og þing- og sveitarsjóðsgjöld sem hafa gjaldfallið fyrir 1. janúar 2010 geta sótt um frest til greiðsluuppgjörs á þeim vanskilum til 1. júlí 2011.
    Umsókn skal beint til tollstjóra óháð lögheimili umsækjanda. Tollstjóra er heimilt að samþykkja umsókn að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, sbr. 2. gr.

2. gr.
Skilyrði greiðsluuppgjörs.
    Skilyrði fyrir fresti til greiðsluuppgjörs skv. 1. gr. eru eftirfarandi:
    1.    Umsækjandi skal vera í skilum með aðra skatta og gjöld en þau sem tilgreind eru í 1. mgr. 1. gr. þegar umsókn er lögð fram.
    2.    Umsækjandi skal vera í skilum með alla skatta og gjöld sem gjaldfalla frá 1. janúar 2010 til og með 30. júní 2011.
    3.    Umsækjandi skal lýsa því yfir að hann muni skila inn skilagreinum og framtölum til að tryggja rétta álagningu gjalda.
    4.    Umsækjandi skal við umsókn um greiðsluuppgjör skv. 1. gr. viðurkenna greiðsluskyldu vegna þeirra krafna sem frests njóta.

3. gr.
Réttaráhrif greiðsluuppgjörs.
    Dráttarvextir eru ekki lagðir á kröfur sem njóta frests til greiðsluuppgjörs á tímabilinu 1. janúar 2010 til og með 30. júní 2011. Innheimtumaður ríkissjóðs skal skuldajafna inneignum sem myndast vegna krafna, sem hefur verið frestað skv. 1. gr., upp í þær kröfur.
    Séu fullnustugerðir hafnar vegna krafna sem njóta frests til greiðsluuppgjörs skv. 1. gr. skal innheimtumaður ríkissjóðs fresta þeim eða afturkalla þær eftir atvikum.

4. gr.
Ógilding greiðsluuppgjörs.
    Standi aðili sem nýtur frests til greiðsluuppgjörs skv. 1. gr. ekki í skilum með greiðslu skatta og opinberra gjalda sem falla í gjalddaga eftir 1. janúar 2010 fellur frestur til greiðsluuppgjörs niður og dráttarvextir reiknast á vanskil eins og frestur til greiðsluuppgjörs hefði ekki verið veittur.
    Verði bú aðila sem nýtur frests til greiðsluuppgjörs skv. 1. gr. tekið til gjaldþrotaskipta á tímabili frestsins fellur heimild til greiðsluuppgjörs niður og dráttarvextir leggjast á vanskil eins og heimild hefði ekki verið veitt.

5. gr.
Umsókn um skuldbreytingu.
    Hafi umsækjandi um greiðsluuppgjör haldið skilyrði 2. gr. fram til 1. júlí 2011 er tollstjóra heimilt að samþykkja útgáfu skuldabréfs til greiðslu þeirra skatta og gjalda sem voru í fresti til greiðsluuppgjörs skv. 1. gr.
    Skuldabréfið skal vera til fimm ára með jöfnum mánaðarlegum afborgunum og með fyrstu greiðslu 1. október 2011. Skuldabréfið skal vera verðtryggt miðað við vísitölu neysluverðs 1. júlí 2011, en án vaxta.
    Hafi umsækjandi greiðsluuppgjörs ekki fengið álagningar byggðar á áætlunum leiðréttar fyrir 1. júlí 2011 er ekki heimilt að samþykkja útgáfu skuldabréfs skv. 1. mgr. og dráttarvextir leggjast á vanskil eins og heimild til greiðsluuppgjörs hefði ekki verið veitt.

6. gr.
    Lög þessi öðlast þegar gildi og falla úr gildi 31. desember 2011.

Jóhanna Sigurðardóttir.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir.
(L. S.)

Ingibjörg Benediktsdóttir.

Steingrímur J. Sigfússon.

A deild - Útgáfud.: 31. mars 2010