Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 426/2010

Nr. 426/2010 11. maí 2010
REGLUGERÐ
um viðurkenningu einkaskóla á framhaldsskólastigi.

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til viðurkenningar einkaskóla til kennslu á framhaldsskólastigi sem reknir eru sem sjálfseignarstofnanir, hlutafélög eða samkvæmt öðru viðurkenndu rekstrarformi, sbr. 12. gr. laga nr. 92/2008 um framhaldsskóla.

2. gr.

Inntak viðurkenningar o.fl.

Mennta- og menningarmálaráðherra getur veitt einkaskólum viðurkenningu til kennslu á grundvelli laga um framhaldsskóla og reglna settra samkvæmt þeim, enda miði starfsemi þeirra að því að:

  1. stuðla að alhliða þroska allra nemenda og virkri þátttöku þeirra í lýðræðis­þjóðfélagi,
  2. búa nemendur undir þátttöku í atvinnulífinu og/eða frekara nám,
  3. starfrækja nám á framhaldsskólastigi sem miðar að lokaprófi, svo sem framhaldsskólaprófi, starfsréttindaprófi, stúdentsprófi eða öðrum skilgreindum námslokum, sem geta miðast við tiltekin störf og veitt sérstök réttindi þeim tengd.

Viðurkenning á starfsemi einkaskóla felur í sér staðfestingu á að starfsemi hans uppfylli almenn skilyrði laga um framhaldsskóla hvað varðar hlutverk og markmið skóla, skólanámskrá og námsbrautarlýsingar, skipulag náms og kennslu, námsmat og námslok, hæfisskilyrði starfsmanna, inntökuskilyrði nemenda, réttindi og skyldur nemenda auk starfsaðstöðu og aðbúnaðar.

Í viðurkenningu felst ekki skuldbinding um fjárframlög úr ríkissjóði til viðkomandi skóla og ekki heldur ábyrgð á skuldbindingum hans.

Viðurkenning er veitt skriflega og þar skal lýst þeim skilyrðum sem sett eru. Viður­kenning einkaskóla er veitt til tiltekins tíma, að hámarki til þriggja ára í senn.

3. gr.

Umsókn.

Ábyrgðaraðili einkaskóla sækir um viðurkenningu skólans til mennta- og menningar­mála­ráðuneytis. Umsækjandi skal leggja fram eftirgreindar upplýsingar með umsókn um viðurkenningu:

  1. skólanámskrá, bæði almennan hluta og námsbrautarlýsingar. Í almennum hluta skólanámskrár, sbr. 22. gr. laga um framhaldsskóla, skal gerð grein fyrir starfsemi skólans, helstu áherslum og stefnumörkun, stjórnskipan, námsframboði og skipulagi náms, kennsluháttum, námsmati og námslokum, stuðningi, ráðgjöf og þjónustu við nemendur, réttindum og skyldum nemenda, foreldrasamstarfi og samstarfi við utanaðkomandi aðila, sjálfsmati og gæðamálum og öðru sem skóli kýs að kveða á um í skólanámskrá,
  2. staðfestingu á því hvernig fjárhagslegri ábyrgð sé háttað og hvernig fjárhagslegt rekstraröryggi skólans sé tryggt. Ráðuneytið getur krafist bankatryggingar sem samsvarar rekstrarfjárhæð skólans fyrir eina önn,
  3. lýsingu á starfsaðstöðu, þ.e. húsnæði skólans og búnaði, ásamt vottorðum frá yfirvöldum heilbrigðis- og brunamála,
  4. yfirlýsingu ábyrgðaraðila um að hann veiti mennta- og menningarmálaráðuneyti upplýsingar um starfsemi skólans á hverjum tíma.

4. gr.

Viðurkenning nýrra námsbrauta.

Um viðurkenningu nýrra námsbrauta eftir að skóli hefur hlotið viðurkenningu fer skv. 23. gr. laga um framhaldsskóla og fyrirmælum settum samkvæmt þeim.

5. gr.

Skilyrði.

Skilyrði þess að einkaskóli geti hlotið viðurkenningu eru:

  1. að stjórnskipan og skipulag skólans uppfylli almenn skilyrði laga um framhalds­skóla og reglna settra samkvæmt þeim,
  2. að gætt sé ákvæða laga nr. 87/2008 um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við framhaldsskóla, við ráðningar í kennslu og stjórnunarstörf,
  3. að laun og önnur starfskjör starfsfólks séu ekki lakari en stéttarfélög og við­semjendur þeirra semja um í kjarasamningum í þeirri starfsgrein sem samningur­inn tekur til, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldu­tryggingu lífeyrisréttinda,
  4. að námið uppfylli almenn skilyrði laga um framhaldsskóla hvað varðar hlutverk og markmið,
  5. að námið sé skipulagt sem a.m.k. einnar annar heildstætt nám, falli að ákvæðum framhaldsskólans um flokkun og þrepaskiptingu náms og að vinnuframlag nemenda hafi verið skilgreint,
  6. að skipulag náms feli í sér skilgreind námslok, sbr. 16. - 19. gr. laga nr. 92/2008 um framhaldsskóla,
  7. að skilyrði fyrir innritun hafi verið skilgreind,
  8. að réttindi og skyldur nemenda séu sambærileg við almennar reglur aðalnámskrár framhaldsskóla,
  9. að innra gæðakerfi skólans fullnægi 40. og 41. gr. laga nr. 92/2008 um framhalds­skóla,
  10. að starfsaðstaða skólans sé fullnægjandi að mati ráðuneytisins.

6. gr.

Veiting upplýsinga og úttektir.

Ábyrgðaraðili einkaskóla skal senda mennta- og menningarmálaráðuneyti árlega skýrslu um starfsemina og veita allar umbeðnar upplýsingar um rekstur og starfsemi skólans þegar óskað er.

Ráðuneytinu er heimilt að höfðu samráði við ábyrgðaraðila að taka út starfsemi skólans.

7. gr.

Afturköllun viðurkenningar.

Uppfylli viðurkenndur einkaskóli ekki lengur skilyrði laga nr. 92/2008 um framhaldsskóla eða fyrirmæli sett samkvæmt þeim getur ráðherra afturkallað viðurkenninguna.

Áður en til afturköllunar kemur skal ábyrgðaraðila einkaskóla send aðvörun þar sem lýst er þeim aðfinnslum og athugasemdum sem gerðar hafa verið við starfsemi skólans. Heimilt er að veita ábyrgðaraðila allt að þrjá mánuði til að bregðast við athugasemdum og bæta úr ágöllum á starfseminni. Eigi síðar en 9 mánuðum eftir að aðvörun hefur verið send skal heildarúttekt gerð á starfsemi skólans. Um málsmeðferð fer að öðru leyti samkvæmt stjórnsýslulögum nr. 37/1993.

8. gr.

Fjárhagsmálefni.

Einkaskólar eiga ekki kröfu á framlögum af almannafé. Njóti einkaskólar framlags af opinberu fé samkvæmt ákvörðun Alþingis skal gerður þjónustusamningur milli mennta- og menningarmálaráðherra og rekstraraðila skólans um greiðslu fjárframlaga, svo og annarra skilyrða sem framlagið er háð að mati samningsaðila.

9. gr.

Takmörkuð viðurkenning.

Ef sótt er um viðurkenningu einkaskóla sem ekki hefur hafið starfsemi sína, er heimilt að veita honum viðurkenningu til kennslu á framhaldsskólastigi til allt að eins árs að uppfylltum skilyrðum samkvæmt reglugerð þessari. Mennta- og menningarmála­ráðuneytið gerir úttekt á starfsemi skólans sbr. 2. gr. áður en til viðurkenningar kemur.

Mennta- og menningarmálaráðuneyti er heimilt að víkja frá kröfum laga um menntun framhaldsskólakennara í skólum sem hljóta viðurkenningu enda sé þá um að ræða nám sem ekki byggist á aðalnámskrá framhaldsskóla heldur sérhæft starfsmiðað nám.

10. gr.

Um viðurkenningu samkvæmt eldri lögum o.fl.

Framhaldsskólar sem hlotið hafa viðurkenningu sem einkaskólar samkvæmt eldri lögum skulu hafa aflað sér viðurkenningar ráðherra eigi síðar en 1. ágúst 2011, sbr. ákvæði til bráðabirgða II í lögum nr. 92/2008 um framhaldsskóla og 5. gr. reglugerðar þessarar.

11. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 12. gr. laga nr. 92/2008 um framhaldsskóla öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 108/1999 um viðurkenningu einkaskóla á framhaldsskólastigi.

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, 11. maí 2010.

Katrín Jakobsdóttir.

Ásta Magnúsdóttir.

B deild - Útgáfud.: 17. maí 2010