1. gr. Við 25. gr. reglnanna bætist ný málsgrein, 9. mgr., svohljóðandi: Virði áhættuskuldbindingar vegna eignarleigusamninga skal vera núvirði lágmarksleigugreiðslna. Með lágmarksleigugreiðslu er átt við greiðslur sem lántaki ber eða getur verið krafinn um að greiða á leigutímanum ásamt vildarkjörum. Tryggt lokavirði, sem uppfyllir skilyrði 26.-28. liðar 1. hluta viðauka VIII, skv. 55. gr. A, að því er varðar hæfi aðila sem veita útlánavörn, og lágmarkskröfur 14.-19. liðar 2. hluta viðauka VIII, skv. 55. gr. A, skal vera innifalið í lágmarksleigugreiðslum. Flokka skal áhættuskuldbindingar þessar í samræmi við 10. gr. reglnanna. Þegar virði áhættuskuldbindingar er lokavirði eignarleigusamnings skal reikna fjárhæð hinnar áhættuvegnu áhættuskuldbindingar með því að margfalda virði hennar með 100% og 1/t, þar sem t er annaðhvort jafnt og einn eða sá fjöldi ára sem næstur er heilum árum af eftirstöðvatíma eignarleigusamningsins. 2. gr. 2. og 3. mgr. 42. gr. reglnanna orðast svo: Reikna skal eiginfjárkröfu vegna rekstraráhættu sem þriggja ára meðaltal árlegra samtala eiginfjárkrafna eftir viðskiptasviðum sem getið er í ofangreindri töflu. Á hverju ári er heimilt að jafna neikvæðar eiginfjárkröfur, á hvaða viðskiptasviði sem er, við jákvæðar eiginfjárkröfur á öðrum viðskiptasviðum án takmarkana. Sé samanlögð eiginfjárkrafa á öllum viðskiptasviðum innan ákveðins árs neikvæð skal virðið fyrir það ár sem notað er í útreikningunum vera jafnt og núll. Viðeigandi mælikvarði er meðaltal samtölu hreinna vaxtatekna og annarra rekstrartekna síðustu þriggja reikningsára (þrjú 12 mánaða tímabil) fyrir hvert viðskiptasvið. Séu endurskoðaðar tölur ekki tiltækar má nota áætlun. 3. gr. Eftirfarandi breytingar verða á 55. gr. reglnanna: 1. mgr. 55. gr. orðast svo: Með vísan til heimildar í ákvæði til bráðabirgða III í lögum nr. 170/2006 um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum, vísar Fjármálaeftirlitið til enskrar útgáfu í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins á eftirfarandi viðaukum tilskipunar 2006/48/EB um stofnun og rekstur lánastofnana með áorðnum breytingum samkvæmt tilskipun 2009/83/EB: http://eur-lex.europa.eu/LexUriServ/site/en/oj/2006/l_177/l_17720060630en00010200.pdf og http://eur-lex.europa.eu/LexUriServ/LexUriServ.do?uri=OJ:L:2009:196:0014:0021:EN:PDF og tilskipunar 2006/49/EB um eiginfjárkröfur fjárfestingarfyrirtækja og lánastofnana með áorðnum breytingum samkvæmt tilskipun 2009/27/EB: http://eur-lex.europa.eu/LexUriServ/site/en/oj/2006/l_177/l_17720060630en02010255.pdf og http://eur-lex.europa.eu/LexUriServ/LexUriServ.do?uri=OJ:L:2009:094:0097:0099:EN:PDF. A-hluti 1. mgr. 55. gr. orðast svo: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/48/EB frá 14. júní 2006 um stofnun og rekstur lánastofnana (endursamið) (e. Directive 2006/48/EC of the European Parliament and of the Council of 14 June 2006 relating the taking up and pursuit of the business of credit institutions (recast), OJ L 177, 30.6.2006, p. 1) með áorðnum breytingum samkvæmt tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2009/83/EB frá 27. júlí 2009 um breytingu á tilteknum viðaukum við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/48/EB að því er varðar tæknileg ákvæði um áhættustýringu (e. Commission Directive 2009/83/EC of 27 July 2009 amending certain Annexes to Directive 2006/48/EC of the European Parliament and of the Council as regards technical provisions concerning risk management, OJ L 196, 28.7.2009, p. 14). 4. gr. Reglur þessar fela í sér innleiðingu á tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2009/83/EB frá 27. júlí 2009 um breytingu á tilteknum viðaukum við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/48/EB að því er varðar tæknileg ákvæði um áhættustýringu. Tilskipunin var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 120/2010 frá 10. nóvember 2010, sem birt var í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, hefti nr. 12, frá 3. mars 2011, bls. 20. 5. gr. Reglur þessar eru settar með heimild í 2. mgr. 84. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, með síðari breytingum, og öðlast gildi þegar í stað. Fjármálaeftirlitinu, 5. mars 2012. Unnur Gunnarsdóttir. Gísli Örn Kjartansson. |