Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 236/2011

Nr. 236/2011 10. mars 2011
REGLUR
um skráningu vátryggingaumboðsmanns.

1. gr.

Tilgangur.

Tilgangur reglna þessara er að útfæra nánar verklag vátryggingafélaga við skráningu vátryggingaumboðsmanns hjá vátryggingafélagi.

2. gr.

Gildissvið.

Reglurnar gilda um alla vátryggingaumboðsmenn sem starfa fyrir hönd vátrygginga­félaga.

Vátryggingaumboðsmaður er einstaklingur eða lögaðili sem á grundvelli samnings við eitt eða fleiri vátryggingafélög stundar þá starfsemi að kynna, bjóða fram eða undirbúa með öðrum hætti samning um vátryggingu, að koma á slíkum samningi eða aðstoða við framkvæmd slíkra samninga á ábyrgð viðkomandi vátryggingafélaga.

3. gr.

Skrá um vátryggingaumboðsmenn.

Vátryggingafélag skal halda skrá um alla vátryggingaumboðsmenn sem það hefur gert samning við um miðlun vátrygginga fyrir sína hönd.

Skráin skal að lágmarki hafa að geyma eftirfarandi upplýsingar um vátrygginga­umboðsmenn:

a)

Nafn einstaklings eða heiti félags ef um lögaðila er að ræða ásamt nafni forsvars­manns lögaðilans.

b)

Heimilisfang starfsstöðvar.

c)

Síma- og faxnúmer á starfsstöð.

d)

Tölvupóstfang.

e)

Haldi vátryggingaumboðsmaður vefsíðu skal vefslóð hennar koma fram, enda sé hún almennt notuð til miðlunar upplýsinga vegna starfa hans fyrir félagið.

Skrá skv. 1. mgr. skal vera aðgengileg á vefsíðu viðkomandi vátryggingafélags og á starfsstöð þess.

4. gr.

Heimild umboðsmanns til að hefja störf.

Vátryggingaumboðsmanni er heimilt að hefja starfsemi þegar hann hefur verið skráður hjá vátrygg­ingafélagi og sú skráning gerð aðgengileg á vefsíðu viðkomandi vátrygg­inga­félags, sbr. 3. mgr. 3. gr.

5. gr.

Skráning einstaklings.

Áður en vátryggingafélag skráir einstakling sem vátryggingaumboðsmann þarf félagið að ganga úr skugga um eftirfarandi:

-

að viðkomandi einstaklingur sé lögráða og sé búsettur hér á landi,

-

að hann hafi ekki á síðustu fimm árum verið úrskurðaður gjaldþrota eða í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, lögum um miðlun vátrygginga eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld eða þeim sérlögum sem gilda um aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi,

-

að hann búi yfir nægilegri þekkingu og starfsreynslu til að geta sinnt starfi sínu á tilhlýðilegan hátt,

-

að hann hafi ekki sýnt af sér háttsemi sem gefur tilefni til að ætla að hann misnoti aðstöðu sína eða skaði starfsemina.

6. gr.

Skráning lögaðila.

Áður en vátryggingafélag skráir lögaðila sem vátryggingaumboðsmann þarf félagið að ganga úr skugga um eftirfarandi:

-

að stjórnarmenn og framkvæmdastjóri viðkomandi lögaðila séu lögráða og hafi ekki á síðustu fimm árum verið úrskurðaðir gjaldþrota eða í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, lögum um miðlun vátrygginga eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld eða þeim sérlögum sem gilda um aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi,

-

að stjórnarmenn og framkvæmdastjóri lögaðilans búi yfir nægilegri þekkingu og starfsreynslu til að geta gegnt stöðu sinni á tilhlýðilegan hátt,

-

að stjórnarmenn og framkvæmdastjóri lögaðilans hafi ekki sýnt af sér háttsemi sem gefur tilefni til að ætla að þeir misnoti aðstöðu sína eða skaði starfsemina.

Um stjórn og framkvæmdastjóra vátryggingaumboðs gilda ákvæði laga um hlutafélög eða einkahlutafélög, enda sé ekki á annan veg mælt í lögum um miðlun vátrygginga.

7. gr.

Vátryggingasölumenn umboðsmanna.

Áður en vátryggingafélag skráir vátryggingaumboðsmann þarf félagið að ganga úr skugga um eftirfarandi:

-

að vátryggingasölumenn sem starfa á ábyrgð vátryggingaumboðsmanns búi yfir eða hafi nægilega starfsreynslu og þekkingu til að geta sinnt vátryggingasölu, þar á meðal á meginatriðum laga um miðlun vátrygginga, laga um vátryggingastarfsemi, laga um vátryggingarsamninga og laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi,

-

að vátryggingasölumenn séu lögráða og hafi forræði á búi sínu,

-

að þeir hafi ekki á síðustu fimm árum í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, lögum um miðlun vátrygginga eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld eða þeim sérlögum sem gilda um aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi.

Vátryggingasölumaður skv. 1. mgr. er starfsmaður sem starfar á vegum og á ábyrgð vátryggingaumboðsmanns, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 32/2005 um miðlun vátrygginga.

8. gr.

Afskráning umboðsmanns.

Þegar vátryggingaumboðsmaður hættir sölu vátrygginga á vegum vátryggingafélags skal hann tekinn af skrá félagsins.

9. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar eru settar á grundvelli 4. mgr. 39. gr. laga um miðlun vátrygginga nr. 32/2005 og taka þegar gildi.

Fjármálaeftirlitinu, 10. mars 2011.

Gunnar Þ. Andersen.

Ragnar Hafliðason.

B deild - Útgáfud.: 11. mars 2011