1. gr. Gildissvið. Reglugerð þessi tekur til fyrirkomulags og eftirlits með útgreiðslum séreignarsparnaðar sem byggjast á ákvæði til bráðabirgða nr. VIII við lög nr. 129/1997, um skyldutryggingu og starfsemi lífeyrissjóða. 2. gr. Skilgreiningar. Í reglugerð þessari hafa eftirfarandi hugtök þá merkingu sem hér greinir: Rétthafi: Einstaklingur sem greitt er fyrir, greiðir eða hefur greitt iðgjald til vörsluaðila séreignarsparnaðar. Lágmarksiðgjald: Iðgjald sem nemur a.m.k. 12% af iðgjaldsstofni og ákveðið er í sérlögum, kjara- eða ráðningarsamningi eða með öðrum sambærilegum hætti. Viðbótariðgjald: Iðgjald umfram lágmarksiðgjald. Séreignarsparnaður: Sú tryggingarvernd sem greitt er fyrir með greiðslu viðbótariðgjalds samkvæmt sérstökum samningi við þá aðila sem tilgreindir eru í 8. gr. laga nr. 129/1997 og hafa heimild til að stunda starfsemi skv. II. kafla laganna. Vörsluaðilar séreignarsparnaðar: Þeir aðilar sem heimild hafa skv. 8. gr. laga nr. 129/1997 til að stunda starfsemi skv. II. kafla þeirra laga og taka við viðbótariðgjaldi með samningi um séreignarsparnað. 3. gr. Útgreiðslur. Á tímabilinu 1. mars 2009 til 1. október 2010 er vörsluaðilum séreignarsparnaðar heimilt að greiða út séreignarsparnað eftir því sem nánar er mælt fyrir um í ákvæði þessu. Heimilt er á því tímabili sem tilgreint er í 1. mgr. að hefja útborgun innstæðu séreignarsparnaðar rétthafa, ásamt vöxtum, að fjárhæð sem við gildistöku laga nr. 13/2009 nemur samanlagt allt að 1.000.000 kr. óháð því hvort samanlagður séreignarsparnaður sé í vörslu hjá fleiri en einum vörsluaðila. Skal sú fjárhæð greiðast út með jöfnum mánaðarlegum greiðslum, að frádreginni staðgreiðslu, skv. lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, í níu mánuði frá því að beiðni um útgreiðslu er lögð fram hjá vörsluaðila. Útgreiðslutími styttist hlutfallslega ef um lægri útgreiðslu en 1.000.000 kr. er að ræða. Óski rétthafi eftir útgreiðslu séreignarsparnaðar, skv. 2. mgr., skal hann leggja fram umsókn þess efnis hjá viðkomandi vörsluaðila. Vörsluaðili séreignarsparnaðar fer yfir umsókn rétthafa og hefur umsjón með útgreiðslu á séreignarsparnaði hans. Útgreiðslur séreignarsparnaðar skulu hefjast eigi síðar en í næsta mánuði eftir að fullnægjandi umsókn berst vörsluaðila séreignarsparnaðar og staðfesting ríkisskattstjóra skv. 3. mgr. 4. gr., um að skilyrði útgreiðslu séu uppfyllt, liggur fyrir. Eigi rétthafi séreignarsparnað hjá fleiri en einum vörsluaðila er honum heimilt að skipta útgreiðslunni skv. 2. mgr. á þá vörsluaðila sem hann á séreignarsparnaðinn hjá. Eigi er heimilt að fá greiddan út séreignarsparnað samkvæmt ákvæði þessu hjá fleiri en einum vörsluaðila í einu. Eftir að útgreiðsla séreignarsparnaðar er hafin getur rétthafi afturkallað beiðni um útgreiðslu. Rétthafi kemur slíkri beiðni á framfæri við vörsluaðila og skal vörsluaðili í framhaldi af slíkri beiðni hætta þeim útgreiðslum sem eftir eru til rétthafa. 4. gr. Eftirlit. Ríkisskattstjóri hefur eftirlit með útgreiðslum séreignarsparnaðar samkvæmt reglugerð þessari. Vörsluaðilar séreignarsparnaðar skulu senda ríkisskattstjóra svo fljótt sem kostur er upplýsingar um þá sem sækja um útgreiðslu séreignarsparnaðar á því formi sem ríkisskattstjóri ákveður. Ríkisskattstjóri fer yfir innsendar upplýsingar og staðreynir hvort að skilyrði 3. gr. um útgreiðslu séu uppfyllt og tilkynnir vörsluaðila um það. Hafi beiðni verið afturkölluð, skv. 6. mgr. 3. gr., skal vörsluaðili tilkynna ríkisskattstjóra um það og hversu mikið viðkomandi rétthafi hafi verið búinn að fá greitt út af séreignarsparnaði sínum þegar greiðslum var hætt. 5. gr. Gjaldtaka. Vörsluaðila er heimilt að taka gjald fyrir þá þjónustu sem kveðið er á um í 3. gr. og skal það gjald taka mið af þeim kostnaði sem til fellur hjá vörsluaðila við að veita umrædda þjónustu, t.d. vegna launakostnaðar, þróun tölvukerfa, útgáfu upplýsingaefnis og umsóknareyðublaða, útsendingu launaseðla og innlausn verðbréfa, en þó skal gjaldið eigi vera hærri en 0,5% af útgreiðslu rétthafa og að hámarki 3.000 kr. fyrir hverja umsókn. 6. gr. Gildistaka. Reglugerð þessi, sem er sett samkvæmt heimild í ákvæði til bráðabirgða VIII við lög nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi. Fjármálaráðuneytinu, 16. mars 2009. Steingrímur J. Sigfússon. Vala R. Þorsteinsdóttir. |