Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 123/2009

Nr. 123/2009 20. janúar 2009
REGLUGERÐ
um alþjóðlegar öryggisaðgerðir varðandi gereyðingarvopn.

1. gr.

Almenn ákvæði.

Reglugerð þessi er sett til þess að framfylgja ályktunum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um öryggisaðgerðir varðandi gereyðingarvopn nr. 1540 (2004), 1673 (2006) og 1810 (2008).

Ákvarðanir nefndar öryggisráðsins um gereyðingarvopn (1540-nefndarinnar), sbr. ályktun nr. 1540 (2004), eru birtar á vefsetri hennar (http://disarmament2.un.org/Committee1540/index.html).

Ákvæði reglugerðar nr. 119/2009 um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða skulu gilda um framkvæmd reglugerðar þessarar.

2. gr.

Meðferð gereyðingarvopna.

Enginn annar en ríki má þróa, framleiða, afla, safna, nota, útvega, eiga, flytja, miðla, eiga viðskipti með eða hafa í vörslu sinni kjarna-, efna-, sýkla- eða eiturvopn eða burðarkerfi fyrir slík vopn, sbr. lög nr. 17/2000 um framkvæmd samnings um bann við framleiðslu, söfnun og notkun efnavopna og um eyðingu þeirra, lög nr. 25/2001 um framkvæmd samnings um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn og ákvæði almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Bann skv. 1. mgr. tekur einnig til tilraunar og hlutdeildar í athöfnum sem bann er lagt við og þess að veita hvers konar þjónustu í tengslum við hana, þ. á m. fjármögnunar- eða fjármálaþjónustu, sbr. 1.-3. mgr. ályktunar nr. 1540 (2004).

3. gr.

Tilkynningar og leyfi.

Aðilum, sem þróa, framleiða, afla, safna, nota, útvega, eiga, flytja, miðla, eiga viðskipti með eða hafa í vörslu sinni vörur, tækni eða þjónustu sem getur nýst til þess að þróa, framleiða, afla, safna, nota, útvega, eiga, flytja, miðla, eiga viðskipti með eða hafa í vörslu sinni kjarna- eða efnavopn eða lífræn vopn eða burðarkerfi fyrir slík vopn, er skylt:

 

a)

að tilkynna það utanríkisráðuneytinu,

 

b)

að koma tryggilega í veg fyrir aðgang óviðkomandi aðila að þeim vörum og þeirri tækni,

 

c)

að afla innflutningsleyfis frá utanríkisráðuneytinu áður en slíkar vörur eða tækni er flutt til landsins eða hefur viðkomu hérlendis og

 

d)

að afla útflutningsleyfis frá utanríkisráðuneytinu áður en slíkar vörur, tækni eða þjónusta er flutt út úr landinu,

sbr. lög nr. 4/1988 um útflutningsleyfi o.fl. og 3. mgr. ályktunar nr. 1540 (2004).

4. gr.

Alþjóðasamningar.

Ákvæði þessa kafla hafa ekki áhrif á réttindi eða skuldbindingar Íslands samkvæmt samningnum um að dreifa ekki kjarnavopnum frá 1. júlí 1968, sýkla- og eiturvopnasamningnum frá 10. apríl 1972 eða efnavopnasamningnum frá 13. janúar 1993 og breyta ekki réttindum eða skyldum Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar eða Efnavopnastofnunarinnar, sbr. 5. mgr. ályktunar nr. 1540 (2004).

5. gr.

Undanþágur frá öryggisaðgerð.

Ráðherra getur veitt undanþágur frá öryggisaðgerðum, sem gripið hefur verið til á grundvelli ályktana öryggisráðsins, af mannúðarástæðum eða öðrum ástæðum.

6. gr.

Viðurlög.

Hver sá sem brýtur gegn þvingunaraðgerðum skv. lögum nr. 93/2008 um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða skal sæta viðurlögum skv. 10. gr. laganna, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.

7. gr.

Heimild.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 12. gr. laga um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða nr. 93/2008.

8. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi öðlast þegar gildi.

Utanríkisráðuneytinu, 20. janúar 2009.

Össur Skarphéðinsson.

Benedikt Jónsson.

B deild - Útgáfud.: 6. febrúar 2009