Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1207/2007

Nr. 1207/2007 3. desember 2007
REGLUR
um störf dómnefndar, ráðningar og framgang háskólakennara við Háskólann á Akureyri.

Reglur þessar gilda um nýráðningar lektora/sérfræðinga, dósenta og prófessora við Háskólann á Akureyri og framgang þeirra í starfi.

Reglur þessar gilda ekki um ráðningar aðjúnkta og stundakennara, en rektor ræður þá án hæfisdóms dómnefndar.

1. Gildandi lög og reglur um ráðningar, framgang og hæfismat.

Lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996, lög um háskóla nr. 63/2006, lög um Háskólann á Akureyri nr. 40/1999 og reglur um Háskólann á Akureyri nr. 466/2007 gilda um starfsmenn Háskólans á Akureyri.

Í reglum um Háskólann á Akureyri segir í 19. og 20. gr. um kennara og ráðningu þeirra:

Fastir kennarar háskólans eru prófessorar, dósentar og lektorar og þeir einir teljast lögum samkvæmt hafa kennslu og rannsóknir að aðalstarfi við skólann. Einnig starfa aðjúnktar, verkefnisstjórar, sérfræðingar og stundakennarar við skólann.

Þá eina má ráða sem fasta kennara sem lokið hafa fullnaðarprófi frá háskóla eða annarri sambærilegri stofnun í aðalgrein eða tengdri grein þeirri sem þeir eiga að kenna. Umsækjendur um stöður prófessora, dósenta og lektora skulu láta fylgja umsókn sinni rækilega skýrslu um vísinda- eða fræðastörf sín, ritsmíðar, rannsóknir, kennslustörf, stjórnunarstörf, námsferil og önnur störf.

Um skipun dómnefndar og mat á umsóknum um stöður prófessora, dósenta og lektora fjallar í lögum um skólann og í frekari reglum sem háskólaráð setur á grundvelli þeirra. Sé auglýst staða prófessors, dósents eða lektors og fleiri en einn umsækjandi fá hæfnisdóm skal rektor leita umsagnar viðkomandi deildar/deilda áður en ráðið er.

Heimilt er að flytja kennara úr lektorsstöðu í dósentsstöðu og úr dósentsstöðu í prófessorsstöðu samkvæmt reglum um framgang sem háskólaráð setur. Fallist deildarforseti á slíkan framgang ber háskólaráði að sjá til þess að umsóknir fái þá málsmeðferð sem kveðið er á um í lögum um háskólann.

Rektor ákvarðar í samráði við deildarforseta hvernig starfsskyldur einstakra háskólakennara skiptast á milli kennslu og annarra starfsþátta innan marka gildandi kjarasamninga og að teknu tilliti til laga og reglna um starfsskyldur og réttindi kennara.

Í lögum um Háskólann á Akureyri segir í 3. gr. um dómnefnd og störf hennar:

Rektor skal skipa þriggja manna dómnefnd eftir tilnefningu háskólaráðs og menntamála­ráðherra til tveggja ára í senn, til þess að dæma um hæfi umsækjenda til að gegna starfi prófessors, dósents eða lektors. Háskólaráð tilnefnir tvo menn í nefndina og er annar þeirra formaður. Annar fulltrúa háskólaráðs skal starfa utan háskólans. Menntamála­ráðherra tilnefnir einn mann í nefndina. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt.

Í dómnefnd má skipa þá eina sem lokið hafa meistaraprófi úr háskóla.

Að ábendingu viðkomandi deildar skal rektor hverju sinni tilnefna sérfræðing til ráðgjafar fyrir dómnefnd um mat á fræðistörfum umsækjenda.

Dómnefnd skal gefa rökstutt álit um hvort ráða megi af vísindagildi rita og rannsókna umsækjanda, svo og af námsferli hans og störfum, að hann sé hæfur til að gegna starfinu. Engum manni má veita starf prófessors, dósents eða lektors nema meiri hluti dómnefndar hafi látið það álit í ljós að hann sé til þess hæfur.

Dómnefnd skal meta hæfi umsækjenda um stöðu deildarforseta með sama hætti og hæfi umsækjenda um stöðu háskólakennara er metið. Umsækjendur um stöðu deildarforseta skulu uppfylla almenn hæfisskilyrði sem háskólakennarar, og það á vettvangi þeirra fræða sem annaðhvort eru kennd í viðkomandi háskóladeild eða tengjast mjög náið helstu viðfangsefnum hennar.

Í samningum sem Háskólinn gerir við rannsóknastofnanir er heimilt að kveða á um að starfsmenn samstarfsstofnana, sem hafa kennsluskyldu við skólann en gegna rannsókna­skyldu sinni við samstarfsstofnun, eigi rétt á, eða sé skylt, að dómnefnd meti hæfi þeirra til að gegna þar lektors-, dósents- eða prófessorsstöðu.

Sá er hlýtur hæfnisdóm skv. framangreindri málsgrein skal njóta sambærilegra réttinda og gegna sambærilegum skyldum og lektorar, dósentar eða prófessorar eftir því sem við á þótt ráðning sé við aðra stofnun, enda sé slíkt í samræmi við lög, reglur og kjarasamninga er gilda fyrir samstarfsstofnunina. Háskólaráð getur sett framgangsreglur fyrir starfsmenn samstarfsstofnana sem hafa kennsluskyldu við skólann og í samræmi við framgangsreglur fyrir kennara við skólann.

Gesta- og afleysingakennarar sem starfa við Háskólann á Akureyri um lengri eða skemmri tíma kunna, af faglegum og fjárhagslegum ástæðum, að þurfa að öðlast hlutgengi innan stöðu- og starfsheitakerfis háskólakennara. Í slíkum tilfellum er rektor heimilt að fela formanni dómnefndar að ákvarða hvaða starfsheiti viðkomandi gæti hlotið ef um hefðbundið dómnefndarmál væri að ræða. Ekki er gert ráð fyrir að öll dómnefndin komi að slíkum málum, né er gert ráð fyrir að ráðgjafi sé ráðinn til að fara yfir gögn við­komandi.

2. Nýráðningar í akademískt starf.

Umsóknir um nýjar stöður eða framgang skulu berast rektor sem staðfestir móttöku umsókna með bréfi til umsækjenda. Eftir að umsóknarfresti um starf lýkur eru öll nöfn umsækjenda opinber. Rektor felur verkefnisstjóra rannsókna, Háskólanum á Akureyri, að annast vinnslu umsókna og eiga samskipti við umsækjendur og dómnefnd, sbr. 6. gr. hér á eftir.

Umsækjendur skulu láta fylgja umsókn sinni rækilega skýrslu um vísindastörf þau er þeir hafa unnið, ritsmíðar, þróunarverkefni, listaverk, hönnunarverk og rannsóknir, svo og vottorð um námsferil sinn og störf. Með umsókninni skulu send eintök af vísindalegum ritum og ritgerðum, birtum eða óbirtum, og myndir eða lýsingar af listaverkum og hönnunarverkum, sem umsækjendur óska eftir að tekin verði til mats. Þegar fleiri en einn höfundur stendur að ritverki, hönnunarverki eða listaverki skal umsækjandi gera grein fyrir framlagi sínu til verksins. Einnig er nauðsynlegt að í umsókn komi fram hvaða verkefnum umsækjendur hafi unnið að, hverju þeir eru að vinna að og hver eru áform þeirra ef til ráðningar kæmi. Enn fremur er ætlast til þess að umsækjendur láti fylgja með umsagnir um kennslu- og stjórnunarstörf sín, eftir því sem við á. Heimilt er í aug­lýsingu um stöðu að takmarka hámarksfjölda eintaka af gögnum frá hverjum umsækj­anda, til dæmis þannig að umsækjendur séu beðnir að senda inn eintök af tilteknum hámarksfjölda vísindarita sem þeir sjálfir telja mikilvægust.

3. Framgangur í akademísku starfi.

Eins og fram kemur í 3. gr. laga um Háskólann á Akureyri nr. 40/1999 og 20. gr. reglna um Háskólann á Akureyri er heimilt, án auglýsingar, að flytja lektor úr lektorsstöðu í dósentsstöðu og dósent úr dósentsstöðu í prófessorsstöðu. Með beiðni um slíkan framgang skal fara á sama hátt og með umsóknir um nýjar stöður, þ.e. fjalla skal um þær í dómnefnd áður en til endanlegrar afgreiðslu kemur. Endanleg ákvörðun um fram­gang er í höndum rektors, en engum má veita fram­gang í prófessors- eða dósents­stöðu nema meirihluti dómnefndar telji hann til þess hæfan.

Markmið framgangskerfis háskólans er að hvetja akademíska starfsmenn til virkni og árangurs í starfi og auka þannig gæði kennslu og rannsókna innan Háskólans á Akureyri. Framgangur byggist á faglegu mati á frammistöðu og árangri í rannsóknum, kennslu og stjórnun í þágu Háskólans á Akureyri. Gert er ráð fyrir því að starfsmenn hafi sjálfir frumkvæði að framgangi sínum í starfi.

3.1 Umsóknir um framgang í starfi.

Umsækjandi um framgang í starfi leggur fram umsókn ásamt greinargerð hjá deildar­forseta viðkomandi deildar. Í greinargerð skal rökstutt hvernig rannsóknavirkni, kennslu­störf, stjórnunarstörf og önnur sambærileg störf í þágu háskólans nægi til þess að leggja umsóknina fyrir dómnefnd háskólans. Fallist deildarforseti á umsókn áframsendir hann umsóknina til rektors til formlegrar meðferðar.

Þegar álit dómnefndar liggur fyrir metur rektor hvort veita beri umbeðinn framgang m.a. á grundvelli fyrirliggjandi dómnefndarálits. Ef það er niðurstaða rektors að ekki sé rétt að veita umbeðinn framgang ber honum að rökstyðja þá niðurstöðu sína.

Háskólaráð getur sett reglur um að umsækjendur hafi lokið lágmarksárafjölda í starfi við Háskólann á Akureyri áður en þeir sækja um framgang í stöðu dósents eða prófessors. Slíkar reglur kæmu þá til viðbótar þeim ákvæðum um lágmarksstig sem fram koma í næstu grein.

3.2 Lágmarksstig fyrir hvern starfsþátt við nýráðningar og framgangsmat.

Miðað er við hefðbundna skiptingu starfsþátta milli rannsókna, kennslu og stjórnunar. Stigin í töflu 1 byggja á stigamatskerfi kjaranefndar og því kerfi sem beitt er samkvæmt stofnanasamningi Háskólans á Akureyri og Félags háskólakennara á Akureyri.

Dómnefnd getur við sérstakar aðstæður gert meiri eða minni kröfur ef hún telur ástæðu til. Hér er átt við aðstæður t.d. samkvæmt ákvæði um ríka áherslu háskólans á góð tengsl við atvinnulífið í grein 5.3. Jafnframt er heimilt að víkja frá reglum um lágmarksrannsóknastig í tilvikum þar sem viðkomandi hefur gegnt starfi deildarforseta enda hafi miklar stjórnunarkröfur, þar með taldar kröfur um samhæfingu rannsókna í eigin deild, rýrt möguleika hans til að stunda sjálfstæðar rannsóknir. Víki mat dómnefndar verulega frá lágmarksstigum fyrir hvern starfsþátt kennara eða sérfræðinga, sem fram koma í reglum þessum, þarf hún að rökstyðja það enda um frávik frá megin­reglu að ræða.

Dómnefnd ber að gera meiri kröfur til umsókna um framgang í starf prófessors en umsókna í önnur störf. Umsækjendur um framgang í prófessorsstarf skulu vera virkir í rannsóknum og hafa sýnt verulega hæfni og frumkvæði í vísindastörfum, sbr. grein 5.3.

Tafla 1.

Lágmarksstig fyrir hvern starfsþátt kennara.

 

Rannsóknir

Kennsla

Stjórnun, þjónusta, annað

Mismunur

Alls

Lektor/Sérfræðingur

30

-

-

0

30

Dósent

130

20

-

50

200

Prófessor

270

50

-

80

400

4. Hlutverk dómnefndar við Háskólann á Akureyri.

Við Háskólann á Akureyri starfar þriggja manna dómnefnd, sem rektor skipar skv. 3. gr. laga nr. 40/1999 til tveggja ára í senn, til þess að dæma um hæfi umsækjenda til að gegna stöðu prófessors, dósents eða lektors/sérfræðings. Rektor skal í samráði við deildarforseta tilnefna ytri ráðgjafa, hverju sinni, er skal vera dómnefnd til ráðgjafar þegar fræðistörf umsækjenda eru metin. Við sérstakar aðstæður er heimilt að skipa fleiri en einn ytri ráðgjafa.

Dómnefnd fjallar bæði um nýráðningar og stöðuhækkanir. Þær reglur og leiðbeiningar sem fram eru settar í þessum kafla eiga því yfirleitt jafnt við hvort tveggja nema annað sé sérstaklega tekið fram.

Dómnefnd skal meta hvern umsækjanda á þann veg að ótvírætt komi fram hvort hún dæmir hann hæfan eða ekki hæfan til að gegna því starfi sem um ræðir. Hún metur hvort menntun og aðrar forsendur umsækjanda falli með eðlilegum hætti innan þess sviðs sem auglýsing kveður á um. Í áliti dómnefndar skal koma fram rökstuðningur fyrir dómi hennar um hæfi umsækjanda og auk þess þær upplýsingar sem dómnefnd telur leiðbeinandi fyrir rektor við endanlega ákvörðun um ráðningu eða framgang. Ef ágreiningur er í dómnefnd skulu greidd atkvæði sérstaklega um hvern umsækjanda og ber hverjum dómnefndarmanni þá að taka afstöðu. Minnihluta gefst kostur á að gera grein fyrir máli sínu með séráliti. Teljist umsækjandi ekki hæfur ber dómnefnd að gera rækilega grein fyrir þeirri niðurstöðu, en að öðru leyti þarf umfjöllun ekki að vera eins ítarleg og um þá sem teljast hæfir.

Telji dómnefnd líkur á að umsækjandi uppfylli kröfur um að gegna æðri stöðu en ráðið skal í hverju sinni skal hún geta þess í dómnefndarálitinu, en ekki þarf að rökstyðja það með sama hætti og álitið um stöðuna sem til stendur að ráða í. Dómnefnd skal ekki raða hæfum umsækjendum m.t.t. þess starfs sem um ræðir nema rektor hafi sérstaklega farið fram á slíkt.

Í upphafi dómnefndarálits skal dómnefnd gera grein fyrir þeim forsendum, gögnum og heimildum sem hún byggir á í mati sínu á umsækjendum og vinnubrögðum sínum við mat á umsækjendum. Í dómnefndaráliti skal vera ritaskrá/verkaskrá umsækjenda sem þeir hafa látið fylgja umsókn sinni og greinargerð um námsferil þeirra og fyrri störf.

Dómnefnd er heimilt að óska eftir því við umsækjendur að þeir láti í té viðbótargögn. Í þessu efni skal nefndin láta umsækjendur njóta jafnræðis.

Dómnefnd skal hraða störfum sínum eftir föngum og skal hún að jafnaði hafa lokið störfum innan tveggja mánaða frá því að ytri ráðgjafi er tilnefndur.

Að loknu starfi dómnefndar skal hún skila umsóknargögnum til verkefnisstjóra rannsókna sem sendir skjalastjóra háskólans gögnin til varðveislu.

5. Mat á hæfi umsækjenda.

Hér á eftir fara lýsingar á viðmiðum sem dómnefnd ber að hafa í huga þegar hæfi umsækjanda er metið. Þessi viðmið eiga yfirleitt jafnt við nýráðningar og stöðuhækkanir. Á fáeinum stöðum er þó gerður greinarmunur á þessu tvennu, einkum hvað varðar mat á kennslu.

5.1 Forsendur.

Í 1. gr. laga um Háskólann á Akureyri segir: Háskólinn á Akureyri er vísindaleg mennta- og rannsóknastofnun. Hann veitir stúdentum sínum menntun til að sinna sjálfstætt vísindalegum verkefnum og til að gegna ýmsum ábyrgðarstörfum í atvinnulífinu, sem einkum tengjast sjávarútvegi, rekstri, menntun og heilbrigði. Háskólanum er heimilt að veita framhaldsmenntun og endurmenntun í þeim fræðum sem stunduð eru í deildum hans.

Með þessari fyrstu grein laganna um Háskólann á Akureyri er skólanum markaður starfs­vettvangur sem vísindaleg mennta- og rannsóknastofnun. Háskólanum ber að sinna bæði kennslu og rannsóknum, starfsmenntun og rannsóknartengdu framhaldsnámi. Þetta meginmarkmið Háskólans á Akureyri ber dómnefnd að hafa í huga við mat á hæfi háskóla­kennara.

Þá ber dómnefnd að hafa í huga að störf kennara við Háskólann á Akureyri eru fólgin í rannsóknum, kennslu og stjórnun. Hér á eftir verður fjallað um hvern þessara starfsþátta fyrir sig. Jákvæður hæfisdómur á afmörkuðum sviðum matsins upphefur ekki vanhæfis­dóm á öðrum sviðum.

Dómnefnd hefur aðgang að og getur haft stuðning af stigamati því sem notað er við launaröðun einstakra kennara og annarra akademískra starfsmanna við Háskólann á Akureyri.

5.2 Menntun.

Eins og fram kemur í 7. gr. laga um háskóla nr. 63/2006 skulu kennarar í háskóla hafa lokið meistaraprófi hið minnsta eða hafa jafngilda þekkingu og reynslu að mati dóm­nefndar.

Umsækjandi um dósentsstöðu skal að jafnaði hafa lokið doktorsprófi eða hliðstæðu háskólanámi sem felst að verulegu leyti í þjálfun til sjálfstæðra rannsóknarstarfa. Dómnefnd getur þó lagt annars konar nám að jöfnu, t.d. í listgreinum.

Umsækjandi um prófessorsstöðu skal að jafnaði hafa lokið doktorsprófi eða hliðstæðu háskólaprófi sem felur í sér fyllstu kröfur um sjálfstæða rannsóknarvinnu. Sjálfstæð rannsóknarstörf má meta sambærileg við doktorspróf enda hafi umsækjandi lokið veigamiklu rannsóknarverkefni eða fleiri samstæðum verkum sem sýna traust tök á aðferðum hlutaðeigandi greinar og staðgóða þekkingu á henni. Gera skal kröfu um að niðurstöður slíkra rannsókna hafi verið birtar á opinberum vettvangi af viðurkenndum útgefendum.

5.3 Rannsóknir.

Við mat á rannsóknum og þróunarverkefnum skal leggja áherslu á vísindagildi þeirra. Gefa skal gaum að frumleika þeirra og sjálfstæði gagnvart öðrum rannsóknum og ritverkum, meðferð heimilda og vinnubrögðum, nýjungum og notagildi. Einnig er heimilt að taka tillit til starfa að rannsóknum sem standa yfir þó að niðurstöður liggi ekki fyrir, enda lýsi umsækjandi eðli þeirra og umfangi og geri grein fyrir stöðu þeirra.

Við mat á rannsóknum og þróunarverkefnum er eðlilegt að tillit sé tekið til lokaverkefna í háskólanámi (kandídats- eða meistaraprófsritgerða og doktorsritgerða). Þá skal meta útgefin hugverk, fræðileg rit, prentuð eða fjölrituð, rit um þróunarverkefni, útgefið námsefni, greinar í fræðilegum tímaritum og bókum (safnritum), innlendum og erlendum, þar sem efni er metið af sérfræðingum, svo og greinar í öðrum tímaritum og bókum, fræðilegar útgáfur og ritdóma. Þá skal meta greiningartæki, próf og önnur gögn sem samin eru með hagnýta notkun fagstétta á vettvangi í huga. Þá skal og meta þýðingar úr erlendum málum, verk á mynd- og hljóðböndum, svo og frumsamin eða aðlöguð tölvu­forrit. Heimilt er að taka tillit til óbirtra verka, t.d. fræðilegra fyrirlestra sem hafa ekki verið birtir.

Við mat á listsköpun skal leggja áherslu á að framlögð verk uppfylli kröfur um listrænan metnað, frumleik og vinnubrögð er sýni vald og kunnáttu höfundar á þessu sviði.

Við mat á hönnunarverkefnum skal leggja áherslu á gildi verkanna, frumleika og sjálf­stæði gagnvart öðrum verkum, meðferð heimilda og vinnubrögð, nýjungar og notagildi.

Á listasviði skal meta verk eins og opinberan flutning og sýningar/sýningastjórn, fram­lagða muni eða lýsingar á þeim. Skal þá eftir atvikum huga að rannsóknum að baki verkum og vinnubrögðum, svo og frumleik höfundar og sjálfstæði.

Á sviðum þar sem reynir á flókna hreyfifærni eða skapandi tjáningu, eins og í leikrænni tjáningu, hljóðfæraleik, dansi og íþróttum, skal auk annars meta hagnýta reynslu, iðkun og leikni.

Í mati sínu á framlagi umsækjenda til rannsókna er eðlilegt að dómnefnd taki mið af hversu vel það tengist markmiðum háskólans, sbr. 1. gr. laga um Háskólann á Akureyri nr. 40/1999. Við mat á rannsóknum er heimilt að taka tillit til stjórnunarstarfa sem falla undir sérsvið umsækjanda, t.d. stjórn og skipulagningu langtímarannsóknarverkefna, undirbúning og stjórn fræðilegra ráðstefna, ritstjórn fagtímarita og þjálfunarstörf.

Háskólinn á Akureyri leggur ríka áherslu á góð tengsl við atvinnulífið og nánasta umhverfi sitt. Dómnefnd er því heimilt að taka tillit til kennslu- og stjórnunarreynslu sem umsækjandi hefur aflað sér og annarra starfa utan veggja háskólastofnana, að svo miklu leyti sem slíkt nýtist í því starfi sem sótt er um. Sérstaklega skal hér meta umsækjanda til tekna, sem ígildi rannsókna, frumkvæði og nýsköpun í fyrri störfum.

Hafi umsækjandi unnið með öðrum að rannsóknarverkum, listsköpun, hönnunar- og þróunarverkum eða námsefnisgerð og ekki kemur skýrt fram í ritverki eða umsókn hver hlutur hans hefur verið skal jafnan afla traustra upplýsinga um þetta og meta hlut hans eftir því. Dósentar og prófessorar skulu sýna ótvírætt fram á hæfni sína til sjálfstæðra starfa að nýsköpun þekkingar. Meta skal mikils ef þeir hafa náð árangri við að afla fjármuna frá innlendum eða erlendum aðilum til rannsóknar- eða þróunarverkefna. Umsækjendur um prófessorsstöður þurfa að vera vel virkir á sínu sérsviði og hafa sýnt verulega hæfni og frumkvæði í vísindastörfum eða á sviði listrænnar sköpunar.

Auk hinna almennu ákvæða um lágmarkskröfur og mat starfsþátta, sem þegar hafa verið tíunduð, skal dómnefnd taka mið af þeim kröfum sem gerðar eru til umsækjenda um sambærileg störf í viðurkenndum erlendum og innlendum vísindastofnunum.

5.4 Kennsla.

Við mat á kennslu skal leggja áherslu á hæfni umsækjanda til kennslu á viðkomandi sérsviði þannig að hún nýtist nemendum sem best.

Nýráðning. Umsækjandi skal láta fylgja umsókn sinni rökstudda greinargerð þar sem fram kemur á hvaða þætti viðkomandi sviðs hann vill leggja áherslu, hver megintilgangur hans er, hvernig vinnubrögðum hann hyggst beita og hvernig hann hyggst meta árangur sinn og nemenda. Hafi umsækjandi kennslureynslu á háskólastigi og/eða öðrum skólastigum, skal hann einnig láta fylgja greinargerð þar um, ásamt öðrum þeim gögnum sem snerta kennslureynslu hans. Skal þá leggja mat á sömu þætti og þegar um fram­gang er að ræða.

Framgangur. Meta skal eftir föngum kennsluferil umsækjanda og hversu mikla alúð hann hefur lagt við kennslustörf sín, svo sem með samningu kennslugagna og leiðbeininga, fjölbreytni og nýjungum í kennsluaðferðum, frumkvæði að uppbyggingu og endurbótum á kennslu og viðleitni til að vekja nemendur til sjálfstæðra og fræðilegra vinnubragða eða til samvinnuverkefna, þar sem það á við. Þá skal meta umsjón með og frumkvæði að skipulagningu námsgreina og námskeiða svo og að kynningu á þróun og nýjungum á kennslusviði viðkomandi starfsmanns. Jafnframt skal leggja mat á samstarf við erlendar stofnanir og sérfræðinga, svo og tengsl við innlendar stofnanir. Einnig skal metin umsjón með lokaverkefnum nemenda, persónuleg leiðsögn og liðsinni.

Við mat á kennsluþættinum má leggja til grundvallar umsögn deildar, brautar, skorar eða nemenda, svo og faglegt mat á kennslu ef því verður við komið.

Dómnefnd er heimilt að nýta gögn sem aflað hefur verið í tengslum við kennslumat á vegum Háskólans á Akureyri.

5.5 Stjórnun.

Við mat á stjórnun skal leggja áherslu á frumkvæði og forystuhæfni umsækjanda, hæfni til sjálfstæðrar skipulagningar og áætlunargerðar sem og til að vinna að stjórnsýslu­verkefnum með öðrum.

Af starfsþáttunum þremur - kennslu, rannsóknum og stjórnun - vegur þessi síðasttaldi yfirleitt minnst. Þess er líka að gæta að stjórnun verður ekki alltaf glöggt afmörkuð frá rannsóknum og kennslu. Stundum getur því verið eðlilegt að meta þennan starfsþátt sem hluta af hinum tveimur en varast ber þá jafnan að tvítelja hann.

Um mat á stjórnun gildir hið sama og um kennslu að það fer mjög eftir starfsreynslu umsækjanda hvað unnt er að meta og hvernig standa ber að mati. Að þessu leyti getur staða umsækjanda sem nýlega hefur lokið prófi frá háskóla verið harla ólík stöðu þess sem hefur reynslu af því að starfa við háskóla eða á öðrum faglegum starfsvettvangi. Því er eðlilegt að líta svo á, þegar um ráðningu í nýja stöðu er að ræða, að stjórnunarreynsla teljist umsækjanda alla jafnan til tekna en sé ekki skilyrði fyrir því að hann geti hlotið stöðuna.

Þáttum sem metnir verða má skipta í tvennt:

 

a)

Reynsla af stjórnun og skipulagningu. Um er að ræða atriði er umsækjandi getur vottað með gögnum sem hægt er að meta: (1) Skipulagning á sjálfstæðum eða samþættum námskeiðum. (2) Stjórnunargögn sem umsækjandi hefur samið sjálfur eða átt hlut að því að semja (umsagnir, álitsgerðir, tillögur, drög að reglum eða reglugerðum o.s.frv.). (3) Þátttaka í nefndum sem umsækjandi hefur verið kjörinn eða skipaður í. (4) Þátttaka í stjórnum og ráðum með ákvörðunarvald, bæði innlendum og fjölþjóðlegum. (5) Þátttaka í vísinda- og fræðafélögum. (6) Önnur almenn reynsla af stjórnunarstörfum.

 

b)

Persónueiginleikar sem skipta máli fyrir stjórnunar- og samskiptahæfni. Gögn af því tagi sem að framan greinir segja sína sögu um stjórnunarhæfni umsækjanda; þau eru í senn vitnisburður um dugnað hans og metnað á þessu sviði og það álit sem hann hefur áunnið sér. Ætla má að álit annarra ráðist hér mjög af ákveðnum þáttum í fari umsækjanda, s.s. ábyrgðarkennd, forystuhæfni, lipurð í samskiptum, skipulagshæfni og glöggskyggni. Umsagnir yfirmanna og samstarfsmanna umsækjanda geta því komið að góðu haldi við matið.

Mikilsvert er að matsaðilar fái í hendur sem gleggstar upplýsingar um hvað umsækjandi hefur til brunns að bera á sviði stjórnunar. Að þessu þarf að kveða í sjálfum stöðu­auglýsingunum. Þá er æskilegt að umsækjandi, sem hefur starfsreynslu að baki, vísi á umsagnaraðila (t.d. yfirmann í stofnun, deild, braut eða skor) eða sjái til þess að hann sendi inn umsögn beint til rektors. Eins er æskilegt að umsækjandi, sem hefur nýlega lokið námi, leiti eftir hinu sama hjá kennara sem þekkir vel til hans úr framhalds­námi.

5.6 Önnur störf.

Tilgangur þess að meta önnur störf umsækjanda en rannsóknir, kennslu og stjórnun á viðkomandi fræðasviði er sá að varpa ljósi á starfshæfni hans frá sem flestum hliðum. Hér er um að ræða mat á störfum sem falla utan þess sérsviðs sem auglýsing tekur til en þarfnast sambærilegrar hæfni svo sem sjálfstæð ritun, ritdómar, erindi eða þættir í útvarpi, sjónvarpi, önnur störf við fjölmiðla, ritstjórn bóka, tímarita, almannatengsl eða virk tengsl í samstarfi við marga aðila innanlands eða erlendis, ráðstefnuhald, stjórnun félaga, stjórnun námskeiða, dómnefndarstörf, þróunarstörf, ráðgjöf við stofnanir eða fyrirtæki, sjálfstætt starf sem sérfræðingur á öðru fræðasviði o.s.frv.

Önnur störf en þau sem unnin eru beinlínis á auglýstu sviði ráða ekki úrslitum um hæfismat. Mat á þeim getur heldur ekki dregið niður mat á nýsköpun, kennslu eða stjórnun á auglýstu sérsviði. Mat þetta gefur fyrst og fremst viðbótarupplýsingar um starfshæfni umsækjanda.

6. Um meðferð dómnefndarálits og afgreiðslu máls.

Dómnefndarálit, ásamt umsóknargögnum og umsögnum sem dómnefnd hefur aflað, á að berast verkefnisstjóra rannsókna, dagsett og undirritað af öllum dómnefndarmönnum. Verkefnisstjóri sendir rektor álitið. Telji rektor það gallað að einhverju leyti eða störfum dómnefndar ábótavant er honum heimilt að senda dómnefndarálitið aftur til dómnefndar. Dómnefndarálit telst gallað ef það samrýmist ekki lögum og reglum, umfjöllun um umsækjendur og rökstuðningur eru rýr, mikilvægar upplýsingar vantar eða um aðrar greinilegar misfellur er að ræða. Dómnefnd er skylt að svara athugasemdum rektors.

Verkefnisstjóri rannsókna skal senda hverjum umsækjanda dómnefndarálitið í heild, nema rektor telji að takmarka verði aðgang aðila að gögnum sbr. 17. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verkefnisstjóri rannsókna gefur umsækjendum kost á að gera skriflegar athugasemdir við álitið áður en ákvörðun um ráðningu er tekin. Berist athugasemdir frá umsækjendum skulu þær bornar undir dómnefnd. Dómnefnd er skylt að svara slíkum athugasemdum.

Fara skal með umsóknargögn, dómnefndarálit og önnur skjöl tengd dómnefndarstarfinu sem trúnaðarskjöl.

Rektor veitir verkefnisstjóra rannsókna umboð til að sjá um formleg samskipti við umsækj­endur og dómnefnd, eins og fram hefur komið í reglum þessum.

7. Gildistaka.

Reglur þessar eru settar á grundvelli 2. og 3. gr. laga um Háskólann á Akureyri nr. 40/1999 og reglna fyrir Háskólann á Akureyri nr. 466/2007. Reglur þessar öðlast þegar gildi og samtímis falla úr gildi reglur um sama efni nr. 782/2005.

Háskólanum á Akureyri, 3. desember 2007.

Þorsteinn Gunnarsson rektor.

Sólveig Ása Árnadóttir,
varaforseti háskólaráðs.

B deild - Útgáfud.: 20. desember 2007