1. gr. Gildissvið. Reglugerð þessi gildir um heimild Vinnumálastofnunar til greiðslu styrks úr Atvinnuleysistryggingasjóði í allt að sex mánuði til atvinnuleitenda sem hafa verið tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins og höfðu fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 36 mánuði eða lengur en þó skemur en 42 mánuði á tímabilinu 1. september til 31. desember 2012 auk þess að hafa fengið síðustu greiðslu atvinnuleysisbóta 1. janúar 2013. Reglugerð þessi gildir jafnframt um þá atvinnuleitendur sem sættu biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar 1. janúar 2013 og höfðu fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 36 mánuði eða lengur en þó skemur en 42 mánuði á tímabilinu 1. september til 31. desember 2012. Enn fremur gildir reglugerð þessi um atvinnuleitendur sem munu fullnýta rétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins á árinu 2013. Samanlagður tími þar sem viðkomandi atvinnuleitandi hefur fengið greiddar atvinnuleysisbætur samkvæmt ákvæðum laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum, annars vegar og styrk samkvæmt ákvæði til bráðabirgða í lögum um atvinnuleysistryggingar, sbr. einnig a-lið 17. gr. laga nr. 142/2012, um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks, hins vegar sem og ákvæðum reglugerðar þessarar getur aldrei orðið lengri en samtals 42 mánuðir. 2. gr. Skilyrði fyrir greiðslu styrks. Eftirfarandi skilyrði þurfa að vera uppfyllt fyrir greiðslu styrks á grundvelli reglugerðar þessarar: Viðkomandi atvinnuleitandi sé þátttakandi í verkefninu Liðsstyrkur og sé þar með reiðubúinn að taka tilboði um starfstengt vinnumarkaðsúrræði eða atvinnutengda starfsendurhæfingu í samræmi við ákvæði til bráðabirgða III og IV við reglugerð nr. 12/2009, um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki, með síðari breytingum. Viðkomandi atvinnuleitandi hafi fullnýtt rétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins, sbr. einnig 1. gr. Viðkomandi atvinnuleitandi hafi sótt um styrk samkvæmt reglugerð þessari áður en honum barst síðasta greiðsla atvinnuleysisbóta innan kerfisins skv. VII. kafla laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum eða áður en því tímabili lauk sem viðkomandi sætti biðtíma eða viðurlögum. Viðkomandi atvinnuleitandi sé búsettur og staddur hér á landi. Viðkomandi atvinnuleitandi hafi verið í atvinnuleit á því tímabili sem hann hefur fengið greiddan styrk á grundvelli reglugerðar þessara í samræmi við ákvæði laga um atvinnuleysistryggingar, þar með talið staðfest atvinnuleit sína í hverjum mánuði með sama hætti og meðan hann taldist tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins.
Heimild Vinnumálastofnunar til greiðslu styrks á grundvelli reglugerðar þessarar fellur niður ef skilyrði 1. mgr. fyrir greiðslu styrks eru ekki lengur uppfyllt að mati Vinnumálastofnunar. Hið sama á við hafni viðkomandi atvinnuleitandi sannanlegu tilboði um starf sem og tilboði um þátttöku í tilteknu starfstengdu vinnumarkaðsúrræði eða úrræði á sviði atvinnutengdrar starfsendurhæfingar. 3. gr. Fjárhæð styrks. Fjárhæð styrks samkvæmt reglugerð þessari skal nema fyrri rétti hlutaðeigandi atvinnuleitanda innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Ákvæði 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum, um frádrátt vegna tekna, gildir um greiðslu styrks samkvæmt reglugerð þessari. 4. gr. Útgreiðsla styrks. Vinnumálastofnun annast útgreiðslu styrks á grundvelli reglugerðar þessarar. Styrkur samkvæmt reglugerð þessari skal greiddur fyrsta virka dag hvers mánaðar og skal hann greiddur eftir á fyrir undanfarandi mánuð. Áður en til greiðslu kemur skv. 1. mgr. skal Vinnumálastofnun meta hvort uppfyllt séu skilyrði reglugerðar þessarar fyrir greiðslu styrks til viðkomandi atvinnuleitanda, sbr. 2. gr. 5. gr. Kæruheimild. Heimilt er að kæra ákvarðanir Vinnumálastofnunar sem teknar eru á grundvelli reglugerðar þessarar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða innan þriggja mánaða frá því aðila máls var tilkynnt um ákvörðunina, sbr. 12. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum. 6. gr. Gildistaka. Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 64. gr. sem og ákvæði til bráðabirgða í lögum um atvinnuleysistryggingar, sbr. einnig a-lið 17. gr. laga nr. 142/2012, um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks, að fenginni umsögn stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs, öðlast þegar gildi. Reglugerð þessi gildir til og með 31. desember 2013. Ákvæði til bráðabirgða. Þrátt fyrir c-lið 2. gr. er atvinnuleitanda sem barst síðasta greiðsla atvinnuleysisbóta 1. janúar 2013 heimilt að sækja um styrk á grundvelli reglugerðar þessarar til 15. febrúar 2013. Velferðarráðuneytinu, 23. janúar 2013. Guðbjartur Hannesson. Hanna Sigr. Gunnsteinsdóttir. |