Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 14/2010

Nr. 14/2010 12. mars 2010
LÖG
um breyting á tollalögum, nr. 88/2005, lögum nr. 97/1987, um vörugjald, og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

FORSETI ÍSLANDS
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

I. KAFLI
Breyting á tollalögum, nr. 88/2005.
1. gr.
    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, V, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 122. gr. laganna skal fyrirkomulag gjalddaga aðflutningsgjalda, hjá aðilum sem njóta greiðslufrests á aðflutningsgjöldum, vegna uppgjörstímabilanna janúar og febrúar annars vegar og mars og apríl hins vegar, á árinu 2010 vera sem hér segir:
    1.    Helmingi af aðflutningsgjöldum á viðkomandi uppgjörstímabili, sbr. 1. mgr. 122. gr., skal skila eigi síðar en á 15. degi næsta mánaðar eftir lok uppgjörstímabils.
    2.    Helmingi af aðflutningsgjöldum á viðkomandi uppgjörstímabili, sbr. 1. mgr. 122. gr., skal skila eigi síðar en á 15. degi annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabils.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 97/1987, um vörugjald.
2. gr.
    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 9. gr. laganna skal fyrirkomulag gjalddaga vörugjalds, hjá aðilum sem skráðir eru skv. 2. mgr. 4. gr., vegna uppgjörstímabilanna janúar og febrúar annars vegar og mars og apríl hins vegar, á árinu 2010 vera sem hér segir:
    1.    Helmingi af vörugjöldum á viðkomandi uppgjörstímabili, sbr. 1. mgr. 9. gr., skal skila eigi síðar en á 28. degi annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabils.
    2.    Helmingi af vörugjöldum á viðkomandi uppgjörstímabili, sbr. 1. mgr. 9. gr., skal skila eigi síðar en á 28. degi þriðja mánaðar eftir lok uppgjörstímabils.

III. KAFLI
Breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
3. gr.
    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði VII. kafla og 7. mgr. 20. gr. er á gjalddaga virðisaukaskatts vegna uppgjörstímabilanna janúar og febrúar annars vegar og mars og apríl hins vegar, á árinu 2010, sbr. 1. mgr. 24. gr., heimilt að færa til innskatts á virðisaukaskattsskýrslu allan virðisaukaskatt vegna viðkomandi uppgjörstímabils, þótt einungis hluta af gjaldföllnum virðisaukaskatti hafi á þeim tíma verið skilað, sbr. ákvæði til bráðabirgða V í tollalögum, nr. 88/2005.

4. gr.
    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Gjört á Bessastöðum, 12. mars 2010.

Ólafur Ragnar Grímsson.
(L. S.)

Steingrímur J. Sigfússon.

A deild - Útgáfud.: 12. mars 2010