1. gr. Hlutverk námsgagnasjóðs er að leggja grunnskólum til fé til námsgagnakaupa í því augnamiði að tryggja val þeirra um námsgögn. Framlag til námsgagnasjóðs er ákveðið í fjárlögum ár hvert. 2. gr. Menntamálaráðherra skipar námsgagnasjóði þriggja manna stjórn til fjögurra ára í senn. Skal einn stjórnarmaður tilnefndur af Kennarasambandi Íslands og einn af Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Menntamálaráðherra skipar einn stjórnarmann án tilnefningar og skal hann vera formaður en varaformaður skal skipaður úr hópi tilnefndra aðalmanna. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. 3. gr. Stjórn námsgagnasjóðs ákveður skiptingu fjármuna milli grunnskóla til námsgagnakaupa á grundvelli upplýsinga frá Hagstofu Íslands um fjölda skráðra nemenda í hverjum grunnskóla á síðastliðnu skólaári. Greiðsla fyrir hvern grunnskóla er innt af hendi til rekstraraðila grunnskóla í maímánuði ár hvert. Stjórnin hefur eftirlit með því að farið sé að úthlutunarreglum, sbr. 4. gr. Ákvarðanir sjóðstjórnar um úthlutanir eru endanlegar og verður ekki skotið til æðra stjórnvalds. 4. gr. Eftirfarandi reglum skal fylgt við úthlutun úr námsgagnasjóði: Skilyrði ráðstöfunar fjár fyrir grunnskóla er einskorðað við kaup á námsgögnum frá lögaðilum og skulu námsgögnin samrýmast markmiðum aðalnámskrár. Óheimilt er að verja fjármunum úr námsgagnasjóði til búnaðar- og tækjakaupa. Hlutdeild hvers grunnskóla ræðst af nemendafjölda en heimilt er að ívilna fámennum skólum. Í því felst að skólar með allt að 50 nemendur fá 20% hærri úthlutun. Skólar með 51-100 nemendur fá 10% hærri úthlutun og skólar með 101-150 nemendur fá 5% hærri úthlutun. Grunnskólar skulu láta sjóðstjórn í té skilagrein á rafrænu formi um ráðstöfun úthlutunar eigi síðar en 30. apríl ár hvert. Eingöngu þeir skólar sem skilað hafa skilagrein koma til álita við úthlutun næsta árs. Grunnskólum er heimilt að færa úthlutunarfé á milli ára.
5. gr. Menntamálaráðuneytið annast umsýslu sjóðsins og ber ábyrgð á henni. Umsýslukostnaður skal greiddur af ráðstöfunarfé sjóðsins. Komi í ljós við eftirlit stjórnar námsgagnasjóðs að grunnskóli hafi ráðstafað fjármunum úr námsgagnasjóði til annars en mælt er fyrir um í reglugerð þessari skal skólinn krafinn um endurgreiðslu. 6. gr. Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 6. gr. laga um námsgögn nr. 71/2007 og öðlast þegar gildi. Ákvæði til bráðabirgða. Fyrsta úthlutun úr námsgagnasjóði fer fram í nóvembermánuði 2007 á grundvelli upplýsinga frá Hagstofu Íslands um fjölda skráðra nemenda í hverjum skóla á síðastliðnu skólaári. Menntamálaráðuneytinu, 7. nóvember 2007. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Guðmundur Árnason. |