1. gr. Markmið. Markmið reglugerðar þessarar er að takmarka notkun rafhlaðna og rafgeyma sem í eru tiltekin hættuleg efni. Markmið reglugerðar þessarar er einnig að stuðla að því að koma í veg fyrir myndun rafhlöðu- og rafgeymaúrgangs sem og að stuðla að endurnotkun, endurvinnslu eða annars konar endurnýtingu hans. Jafnframt er það markmið reglugerðarinnar að auka umhverfisvitund þeirra sem framleiða, selja og nota rafhlöður og rafgeyma og þeirra sem meðhöndla rafhlöður og rafgeyma. 2. gr. Gildissvið. Reglugerðin tekur til rafhlaðna og rafgeyma. Jafnframt gildir reglugerðin um móttöku, geymslu, söfnun, endurvinnslu og aðra meðhöndlun notaðra rafhlaðna og rafgeyma. 3. gr. Skilgreiningar. Endurnotkun: Endurtekin notkun úrgangs í óbreyttri mynd. Endurnýting: Hvers kyns nýting úrgangs, önnur en endurnotkun, þ.m.t. endurvinnsla og orkuvinnsla. Endurvinnsla: Endurframleiðsla úr úrgangi til upprunalegra eða annarra nota, þar með talin lífræn endurvinnsla, þó ekki orkuvinnsla. Framleiðandi og innflytjandi: Aðili sem, óháð þeirri sölutækni sem er notuð, - framleiðir og selur rafhlöður eða rafgeyma, eða
- flytur rafhlöður eða rafgeyma inn eða út úr landinu í atvinnuskyni.
Færanleg rafhlaða eða rafgeymir: Sérhver rafhlaða, hnapparafhlaða, rafhlöðupakki eða rafgeymir sem: - eru innsigluð og
- unnt er að bera í hendi og
- er hvorki iðnaðarrafhlaða né rafgeymir né rafhlaða eða rafgeymir fyrir vélknúin ökutæki.
Förgun: Aðgerð eða ferli þegar úrgangi er umbreytt og/eða komið fyrir varanlega, s.s. brennsla og urðun úrgangs. Hnapparafhlaða: Sérhver lítil, kringlótt, færanleg rafhlaða eða rafgeymir sem er meiri um sig að þvermáli en hæð og er notuð í sérstökum tilgangi, svo sem í heyrnartæki, úr og smá raftæki. Iðnaðarrafhlaða eða -rafgeymir: Sérhver rafhlaða eða rafgeymir sem er eingöngu ætlaður til notkunar í iðnaði eða til faglegrar notkunar eða sem notaður er í allar tegundir rafknúinna ökutækja. Meðhöndlun: Söfnun, geymsla, böggun, flokkun, flutningur, endurnotkun, endurnýting, pökkun og förgun úrgangs, þ.m.t. eftirlit með slíkri starfsemi og umsjón með förgunarstöðvum eftir að þeim hefur verið lokað. Móttökustöð: Staður og aðstaða þar sem tekið er við úrgangi til geymslu til lengri eða skemmri tíma, til umhleðslu, flokkunar eða annarrar úrvinnslu. Þaðan fer úrgangurinn til förgunar, endurnýtingar, endurnotkunar eða honum er fargað á staðnum. Undir móttökustöð falla flokkunarmiðstöðvar og förgunarstaðir. Notuð rafhlaða eða rafgeymir: Sérhver rafhlaða eða rafgeymir sem fellur undir skilgreiningu á úrgangi. Rafhlaða eða rafgeymir: Uppspretta raforku sem myndast við beina umbreytingu efnaorku og samanstendur af einu einhlaði eða fleiri eða einu endurhlaði eða fleiri. Rafhlaða eða rafgeymir fyrir vélknúin ökutæki: Sérhver rafhlaða eða rafgeymir sem notuð er til að ræsa vél, til lýsingar eða sem kveikjubúnaður. Rafhlöðupakki: Sérhver samstæða af rafhlöðum eða rafgeymum sem eru tengd saman og/eða lokuð inni í ytra byrði og mynda fullbúna einingu sem notandanum er ekki ætlað að skipta eða opna. Rafknúið handverkfæri: Sérhvert handverkfæri sem er knúið með rafhlöðu eða rafgeymi og er ætlað til viðhalds-, smíða- eða garðvinnu. Söfnunarhlutfall: Hundraðshlutinn, á tilteknu almanaksári, sem fæst með því að deila þyngd færanlegra notaðra rafhlaðna og rafgeyma, sem safnað er á því almanaksári, í meðalþyngd færanlegra rafhlaðna og rafgeyma sem framleiðendur og innflytjendur setja á markað á því almanaksári og næstliðnum tveimur almanaksárum. Söfnunarstöð (gámastöð): Staður og aðstaða þar sem tekið er við úrgangi frá almenningi og/eða smærri fyrirtækjum. Þaðan fer hann til endurnotkunar og endurnýtingar eða er fluttur til móttökustöðva. Úrgangur: Hvers kyns efni eða hlutir sem úrgangshafi ákveður að losa sig við eða er gert að losa sig við á tiltekinn hátt og skráðir eru á lista í reglugerð um skrá yfir spilliefni og annan úrgang. 4. gr. Hlutverk stjórnvalda. Hlutverk heilbrigðisnefnda er að: | a) | hafa eftirlit með banni við tilteknum rafhlöðum og rafgeymum á markaði, sbr. 4. mgr. 5. gr. | | b) | hafa eftirlit með skyldum söluaðila, sbr. 3. mgr. 8. gr. og | | c) | tilkynna Umhverfisstofnun um niðurstöður framangreinds eftirlits á formi sem stofnunin leggur til. |
Hlutverk Umhverfisstofnunar er: | a) | að annast eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar, | | b) | að vinna skýrslur um framkvæmd reglugerðar þessarar og ráðstafanir á grundvelli hennar, sbr. 18. gr. og | | c) | beiting þvingunarúrræða, sbr. 19. gr. |
Hlutverk Úrvinnslusjóðs er að: | a) | tryggja upplýsingagjöf framleiðenda og innflytjenda, sbr. 7. gr., | | b) | tryggja meðhöndlun notaðra rafhlaðna og rafgeyma, sbr. 9. gr., | | c) | halda skrá yfir framleiðendur og innflytjendur, sbr. 10. gr., | | d) | ná söfnunarhlutfalli, sbr. 12. gr., | | e) | gera skýrslu um söfnunarhlutfall, sbr. 12. gr., | | f) | tryggja meðhöndlun notaðra rafhlaðna og rafgeyma, sbr. 14. gr., | | g) | gera skýrslu um endurvinnslustig, sbr. 14. gr., | | h) | hvetja til nýrrar tækni við endurvinnslu, sbr. 15. gr., og | | i) | vinna skýrslur um framkvæmd reglugerðar þessarar og ráðstafanir á grundvelli hennar í samráði við Umhverfisstofnun, sbr. 18. gr. og veita stofnuninni nauðsynlegar upplýsingar. |
5. gr. Takmarkanir. Óheimilt er að framleiða, flytja inn, selja eða nota: | a) | rafhlöður og rafgeyma sem innihalda meira en 0,0005% af kvikasilfri miðað við þyngd, hvort sem þau eru hluti af tækjum eða ekki, og | | b) | færanlegar rafhlöður og rafgeyma sem innihalda meira en 0,002% af kadmíum miðað við þyngd, að meðtöldum þeim sem eru hluti af tækjum. |
Bannið, sem sett er fram í a-lið 1. mgr., gildir ekki um hnapparafhlöður sem innihalda minna en 2% af kvikasilfri miðað við þyngd. Bannið, sem sett er fram í b-lið 1. mgr., gildir ekki um færanlegar rafhlöður eða rafgeyma sem ætluð eru til nota í: | a) | neyðar- og viðvörunarkerfi, að meðtöldum neyðarlýsingum, | | b) | lækningabúnað eða | | c) | rafknúin handverkfæri. |
Óheimilt er að setja á markað rafhlöður og rafgeyma sem uppfylla ekki skilyrði þessarar reglugerðar. 6. gr. Skil. Notuðum rafhlöðum og rafgeymum skal skila til söfnunarstöðva eða móttökustöðva, til söluaðila rafhlaðna og rafgeyma eða á aðra staði sem framleiðendur og innflytjendur ákveða. 7. gr. Upplýsingaskylda framleiðenda og innflytjenda. Framleiðendur og innflytjendur rafhlaðna og rafgeyma skulu í upplýsingum sem ætlaðar eru kaupanda upplýsa um hvar sé heimilt að skila notuðum rafhlöðum og rafgeymum, að notaðar rafhlöður og rafgeymar megi ekki fara með öðrum úrgangi, að hægt sé að skila notuðum rafhlöðum og rafgeymum án greiðslu og að ábyrgst sé að úrgangurinn verði meðhöndlaður í samræmi við gildandi reglur. Jafnframt skal upplýsa um áhrif rafhlaðna og rafgeyma á heilsu manna og umhverfi. Loks skulu notendur upplýstir um merkingu á rafhlöðum og rafgeymum og hvað þær þýða. Í samræmi við 2. ml. 2. mgr. 9. gr. skal Úrvinnslusjóður að lágmarki sjá til þess að upplýsingar skv. 1. mgr. séu aðgengilegar á vefsetri hans og að upplýsingar skv. 1. mgr. séu kynntar reglulega. Framleiðendur og innflytjendur skulu veita Úrvinnslusjóði upplýsingar skv. 1. mgr. 8. gr. Skyldur sveitarfélaga og söluaðila. Söfnunarstöðvar sveitarfélaga skulu hafa aðstöðu fyrir móttöku á notuðum rafhlöðum og rafgeymum frá heimilum. Ber söfnunarstöðvum að taka við slíkum úrgangi gjaldfrjálst. Sveitarfélög skulu veita leiðbeiningar um hvernig beri að flokka notaðar rafhlöður og rafgeyma og skila þeim til söfnunarstöðva sveitarfélaga og upplýsa um að notaðar rafhlöður megi ekki fara með öðrum úrgangi. Þeim sem selja rafhlöður og rafgeyma og dreifa þeim ber að taka við notuðum rafhlöðum og rafgeymum á sölu- eða dreifingarstað gjaldfrjálst og tryggja viðeigandi ráðstöfun. 9. gr. Ábyrgð framleiðenda og innflytjenda. Framleiðendur og innflytjendur rafhlaðna og rafgeyma bera ábyrgð á þeim rafhlöðum og rafgeymum sem framleidd eru hér á landi eða flutt inn. Í ábyrgð framleiðenda og innflytjenda felst að þeir skulu fjármagna og tryggja meðhöndlun á rafhlöðum og rafgeymum, að frátalinni söfnun til söfnunarstöðva, og fjármagna upplýsingagjöf samkvæmt 7. gr. Framleiðendur og innflytjendur uppfylla skyldur sínar með því að vörurnar beri úrvinnslugjald samkvæmt lögum um úrvinnslugjald. Til að uppfylla þær skyldur skal Úrvinnslusjóður bera ábyrgð á að tryggja meðhöndlun á notuðum rafhlöðum og rafgeymum, tryggja upplýsingagjöf framleiðenda og innflytjenda og ná söfnunarhlutfalli. Seljandi rafhlaðna og rafgeyma sem seld eru í tollfrjálsri verslun hér á landi og ætluð til innlendra nota ber ábyrgð framleiðanda og innflytjanda samkvæmt reglugerð þessari. 10. gr. Skrá yfir framleiðendur og innflytjendur. Úrvinnslusjóður skal halda skrá yfir framleiðendur og innflytjendur rafhlaðna og rafgeyma hér á landi. Skrá yfir framleiðendur og innflytjendur rafhlaðna og rafgeyma skal innihalda eftirfarandi: - nafn framleiðanda og innflytjanda og kennitölu hans,
- heiti fyrirtækis,
- heimilisfang framleiðanda og innflytjanda, símanúmer og netfang,
- nafn tengiliðar og netfang hans,
- upplýsingar um hvaða tegund rafhlaða og rafgeyma framleiðandi og innflytjandi setur á markað,
- dagsetningu skráningar og
- yfirlýsing framleiðanda og innflytjanda um að framangreindar upplýsingar séu réttar.
Úrvinnslusjóður skal uppfæra skrá yfir framleiðendur og innflytjendur rafhlaðna og rafgeyma reglulega, svo sem til að bæta við nýjum framleiðendum og innflytjendum, breyta upplýsingum um framleiðendur og innflytjendur eða afskrá framleiðendur og innflytjendur. 11. gr. Merkingar á rafhlöðum og rafgeymum. Framleiðandi og innflytjandi skulu merkja rafhlöður og rafgeyma með merki skv. I. viðauka. Rafhlöður og rafgeymar, sem innihalda meira en 0,0005% af kvikasilfri, meira en 0,002% af kadmíum eða meira en 0,004% af blýi, skulu ennfremur merktar með auðkenni fyrir viðkomandi málm: Hg, Cd eða Pb. Auðkennið, sem tilgreinir innihald þungmálmsins, skal prentað fyrir neðan táknið sem sýnt er í I. viðauka og skal þekja flöt sem er a.m.k. fjórðungurinn af stærð þess tákns. Táknið, sem sýnt er í I. viðauka, skal þekja a.m.k. 3% af yfirborði stærstu hliðar rafhlöðunnar eða rafgeymisins en vera að hámarki 5 × 5 sm. Ef um er að ræða sívala rafhlöðu skal táknið þekja a.m.k. 1,5% af yfirborðsfleti rafhlöðunnar eða rafgeymisins og ekki vera stærra en 5 × 5 sm. Ef stærð rafhlöðunnar eða rafgeymisins er slík að táknið myndi verða minna en 0,5 × 0,5 sm þarf ekki að merkja rafhlöðuna, rafgeyminn eða rafhlöðupakkann en tákn, sem er a.m.k. 1 × 1 sm að stærð, skal prentað á umbúðirnar. Táknin skal prenta þannig að þau séu vel sýnileg, læsileg og óafmáanleg. 12. gr. Markmið fyrir meðhöndlun. Úrvinnslusjóður skal reikna út söfnunarhlutfall færanlegra rafhlaðna og rafgeyma. Rafhlöður og rafgeymar, sem eru hluti af raf- og rafeindatækjum, falla undir tölur um söfnun og sölu rafhlaðna og rafgeyma. Úrvinnslusjóður skal reikna árlega sölu af færanlegum rafhlöðum og rafgeymum til notenda rafhlaðna og rafgeyma sem þyngd færanlegra rafhlaðna og rafgeyma sem sett eru á markað ár hvert að frádreginni þeirri þyngd færanlegra rafhlaðna og rafgeyma sem flutt eru úr landi áður en þau eru seldar til notenda. Sérhver færanleg rafhlaða eða rafgeymir sem sett er á markað skal aðeins talin einu sinni. Framangreindur útreikningur skal byggður á söfnuðum gögnum eða áætlun byggðri á söfnuðum gögnum. Úrvinnslusjóður skal að lágmarki ná eftirfarandi söfnunarhlutfalli færanlegra rafhlaðna og rafgeyma: | a) | 25% eigi síðar en 26. september 2012, | | b) | 45% eigi síðar en 26. september 2016, | | c) | 65% eigi síðar en 26. september 2020 og | | d) | 85% eigi síðar en 26. september 2024. |
Úrvinnslusjóður skal fylgjast með söfnunarhlutföllum á ársgrundvelli, sbr. II. viðauka. Úrvinnslusjóður skal árlega gera skýrslu um söfnunarhlutföll rafhlaðna og rafgeyma, sbr. 3. mgr. Úrvinnslusjóður skal skila framangreindri skýrslu til Umhverfisstofnunar eigi síðar en 1. apríl ár hvert fyrir árið á undan á því formi sem Umhverfisstofnun leggur til. Í skýrslunum skal tilgreina hvernig nauðsynlegra gagna til að reikna söfnunarhlutfallið var aflað. 13. gr. Fjarlæging notaðra rafhlaðna og rafgeyma. Framleiðendur rafhlaðna og rafgeyma skulu hanna raf- og rafeindatæki þannig að auðvelt sé að fjarlægja úr þeim notaðar rafhlöður og rafgeyma. Tækjum, sem rafhlöður og rafgeymar eru hluti af, skulu fylgja leiðbeiningar um hvernig fjarlægja megi rafhlöðurnar og rafgeymana á öruggan hátt og, eftir því sem við á, upplýsa notendur um tegund þeirra. Þessi ákvæði gilda ekki ef stöðug rafmagnstenging er nauðsynleg með tilliti til öryggis, afkastagetu, læknisfræðilegra þátta eða heilleika gagna og hún krefst órofinnar tengingar milli tækisins og rafhlöðunnar eða rafgeymisins. 14. gr. Meðhöndlun. Úrvinnslusjóður skal sjá til þess, að: | a) | besta, fáanlega tækni með tilliti til verndar heilbrigðis og umhverfis sé notuð til að meðhöndla og endurvinna notaðar rafhlöður og rafgeyma og | | b) | allar rafhlöður og rafgeymar fari til meðhöndlunar og endurvinnslu sem samræmast að lágmarki gildandi löggjöf, einkum að því er varðar heilbrigði, öryggi og meðhöndlun úrgangs. |
Þó er heimilt að farga færanlegum rafhlöðum og rafgeymum, sem hefur verið safnað og innihalda kadmíum, kvikasilfur eða blý, á urðunarstöðum eða koma þeim fyrir í neðanjarðargeymslum ef ekki er völ á heppilegum lokamörkuðum, að uppfylltum ákvæðum reglugerðar um urðun úrgangs. Meðhöndlunin skal uppfylla lágmarkskröfurnar í A-hluta III. viðauka. Ef rafhlöðum og rafgeymum er safnað með raf- og rafeindatækjaúrgangi skal taka rafhlöður og rafgeyma úr raf- og rafeindatækjaúrganginum sem safnað hefur verið. Endurvinnsluferlin skulu vera í samræmi ákvæði sem eru tilgreind í B-hluta III. viðauka, m.a. um endurvinnslunýtni. Úrvinnslusjóður skal árlega gera skýrslu um hvaða endurvinnslustigi hefur verið náð á viðkomandi almanaksári og hvort þeirri nýtni sem um getur í B-hluta III. viðauka hefur verið náð. Úrvinnslusjóður skal skila framangreindri skýrslu til Umhverfisstofnunar eigi síðar en 1. apríl ár hvert fyrir árið á undan á því formi sem Umhverfisstofnun leggur til. 15. gr. Ný tækni við endurvinnslu. Úrvinnslusjóður skal hvetja til þróunar á nýrri tækni við endurvinnslu og meðhöndlun og stuðla að rannsóknum á aðferðum sem eru umhverfisvænar og kostnaðarhagkvæmar fyrir allar tegundir rafhlaðna og rafgeyma. Úrvinnslusjóður skal hvetja meðhöndlunarstöðvar til að koma á fót vottuðu umhverfisstjórnunarkerfi í samræmi við reglugerð um frjálsa þátttöku fyrirtækja og stofnana í umhverfisstjórnunarkerfi bandalagsins (EMAS). 16. gr. Bann við förgun. Óheimilt er að farga notuðum iðnaðarrafhlöðum og -rafgeymum og rafhlöðum og rafgeymum fyrir vélknúin ökutæki á urðunarstöðvum eða með brennslu. Þó er heimilt að farga leifum rafhlaðna og rafgeyma, sem hafa bæði verið meðhöndluð og endurunnin í samræmi við 1. mgr. 14. gr., á urðunarstöðum eða með brennslu. 17. gr. Flutningur milli landa. Meðhöndlun og endurvinnsla getur átt sér stað erlendis að því tilskildu að flutningur notaðra rafhlaðna og rafgeyma sé í samræmi við lög nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs og reglugerð um flutning úrgangs á milli landa. Notaðar rafhlöður og rafgeymar, sem eru fluttar út úr landinu í samræmi við 1. mgr., skulu því aðeins teljast í samræmi við kröfur og ákvæði um nýtni, sem mælt er fyrir um í III. viðauka við þessa reglugerð, að áreiðanlegar sannanir séu fyrir því að endurvinnsla hafi farið fram við aðstæður sem svara til krafna í þessari reglugerð. 18. gr. Framkvæmdaskýrsla. Umhverfisstofnun, í samráði við Úrvinnslusjóð, skal vinna skýrslu um framkvæmd þessarar reglugerðar sem tekur til þriggja ára í senn. Umhverfisstofnun, í samráði við Úrvinnslusjóð, skal jafnframt vinna skýrslu um allar ráðstafanir sem gerðar hafa verið til að hvetja til þróunar sem skiptir máli fyrir áhrif sem rafhlöður og rafgeymar hafa á umhverfið, einkum um: | a) | þróun, þ.m.t. ráðstafanir sem framleiðendur gera að eigin frumkvæði til að draga úr magni þungmálma og annarra hættulegra efna sem rafhlöður og rafgeymar innihalda, | | b) | nýja tækni við endurvinnslu og meðhöndlun, | | c) | þátttöku rekstraraðila í umhverfisstjórnunarkerfum, | | d) | rannsóknir á þessum sviðum og | | e) | ráðstafanir sem gerðar eru til að koma í veg fyrir myndun úrgangs. |
19. gr. Þvingunarúrræði. Til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt reglugerð þessari er Umhverfisstofnun heimilt að veita viðkomandi aðila áminningu. Jafnframt skal veita hæfilegan frest til úrbóta ef þeirra er þörf. Ef aðili verður ekki við tilmælum um úrbætur innan tiltekins frests er heimilt að ákveða aðila dagsektir þar til úr er bætt. Dagsektir renna til ríkissjóðs og skal hámark þeirra vera 500.000 kr. á dag. Heimilt er að láta vinna verk á kostnað hins vinnuskylda ef tilmæli um framkvæmd eru vanrækt og skal sá kostnaður þá greiddur til bráðabirgða af Umhverfisstofnun en innheimtast síðar hjá hlutaðeigandi. Kostnað við verkið sem og dagsektir skv. 3. mgr. má innheimta með fjárnámi. Leita skal aðstoðar lögreglu ef með þarf við framkvæmd þvingunarúrræða. 20. gr. Viðurlög. Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða sektum hvort sem þau eru framin af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Sé um stórfelld eða ítrekuð ásetningsbrot að ræða varða brot á reglugerð þessari fangelsi allt að fjórum árum. Tilraun til brota gegn reglugerðinni varðar refsingu sem fullframið brot, sbr. III. kafla almennra hegningarlaga. Sama gildir um hlutdeild í brotum. Sektir má ákvarða lögaðila þó að sök verði ekki sönnuð á fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðra þá einstaklinga sem í þágu hans starfa, enda hafi brotið orðið eða getað orðið til hagsbóta fyrir lögaðilann. Einnig má, með sama skilorði, gera lögaðila sekt ef fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðrir einstaklingar sem í þágu hans starfa gerast sekir um brot. 21. gr. Innleiðing. Reglugerðin er sett til innleiðingar á eftirfarandi EB-gerðum: | a) | Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/66/EB frá 6. september 2006 um rafhlöður og rafgeyma og notaðar rafhlöður og rafgeyma og um niðurfellingu tilskipunar 91/157/EB, sem vísað er til í lið 12x í II. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 141/2007. | | b) | Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/12/EB frá 11. mars 2008 um breytingu á tilskipun 2006/66/EB um rafhlöður og rafgeyma og notaðar rafhlöður og rafgeyma, hvað varðar heimildir framkvæmdastjórnarinnar til útfærslu tilskipunar 2006/66/EB. | | c) | Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/103/EB frá 19. nóvember 2008 um breytingu á tilskipun 2006/66/EB um rafhlöður og rafgeyma og notaðar rafhlöður og rafgeyma, hvað varðar markaðssetningu rafhlaðna og rafgeyma, sem vísað er til í lið 12x í II. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 7/2010. | | d) | Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2009/603/EB frá 5. ágúst 2009 um kröfur til skráningar á framleiðendum og innflytjendum rafhlaðna og rafgeyma í samræmi við tilskipun 2006/66/EB um rafhlöður og rafgeyma og notaðar rafhlöður og rafgeyma. | | e) | Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2008/763/EB um sameiginlega aðferðarfræði við útreikning á árlegri sölu á rafhlöðum og rafgeymum í samræmi við tilskipun 2006/66/EB um rafhlöður og rafgeyma og notaðar rafhlöður og rafgeyma. |
22. gr. Gildistaka. Reglugerð þessi er sett með stoð í 29. gr., sbr. 20.-23. gr., laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, 5. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, og með stoð í lögum nr. 52/1988, um eiturefni og hættuleg efni. Jafnframt er reglugerðin sett að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga hvað varðar skyldur sveitarfélaga, sbr. ákvæði 3. mgr. 9. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og 29. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Reglugerðin öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 946/1999, um rafhlöður og rafgeyma með tilteknum hættulegum efnum. Umhverfisráðuneytinu, 27. október 2011. F. h. r. Sigríður Auður Arnardóttir. Kjartan Ingvarsson. VIÐAUKAR (sjá PDF-skjal) |