1. gr. Með vísan til 2. og 3. gr. reglugerðar nr. 82 frá 29. janúar 2010 um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2009/2010 staðfestir ráðuneytið sérstök skilyrði vegna úthlutunar aflaheimilda í eftirfarandi sveitarfélögum: Grundarfjarðarbær. Ákvæði reglugerðar nr. 82 frá 29. janúar 2010 gilda um úthlutun byggðakvóta Grundarfjarðarbæjar með eftirfarandi viðauka/breytingum: 1. Helmingi byggðakvótans, 25 þorskígildislestum, verði úthlutað samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 82/2010. 2. Helmingur byggðakvótans, 25 þorskígildislestir, fari til að bæta þeim sem höfðu aflahlutdeild í skelfiski upp samdrátt vegna banns við skelfiskveiðum á Breiðafirði. Reglur um úthlutum samkvæmt lið 2 hér að framan: a) Rétt til að sækja um úthlutun byggðakvóta hafa útgerðir sem gera út fiskiskip frá Grundarfirði eða starfrækja þar vinnslu afla og höfðu aflaheimildir í hörpuskel á fiskveiðiárinu 2004/2005. b) Aflinn skal veiddur af skipum gerðum út frá Grundarfirði. c) Umræddur byggðakvóti skal unninn í Grundarfirði, samningur við fiskvinnslu skal fylgja umsókn. d) Byggðakvóta samkvæmt umsóknum er uppfylla ofangreind skilyrði skal úthlutað á milli umsækjenda hlutfallslega miðað við aflahlutdeild í hörpuskel. Ákvæði 4. gr. reglugerðar um 15 þorskígildislesta hámarksúthlutun er fellt niður í báðum töluliðum þessara sérreglna. Norðurþing. Ákvæði reglugerðar nr. 82 frá 29. janúar 2010 gilda um úthlutun byggðakvóta Húsavíkur, Kópaskers og Raufarhafnar með eftirfarandi viðauka/breytingum: a) 4. gr. reglugerðarinnar breytist þannig: 15 þorskígildislesta hámark er fellt niður. b) 6. gr. reglugerðarinnar breytist þannig: Fiskiskipum er skylt að landa til vinnslu innan sveitarfélagsins afla sem nemur, í þorskígildum talið, tvöföldu magni þess aflamarks sem þau fá úthlutað o.s.frv. Akureyrarbær. Byggðakvóta Akureyrarbæjar vegna Hríseyjar skal úthlutað með eftirfarandi hætti til skipa skráðra í Hrísey samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 82 frá 29. janúar 2010 að öðru leyti en því að: 90% byggðakvótans skal úthlutað jafnt á þá báta sem gerðir hafa verið út a.m.k. 9 mánuði á síðustu 12 mánuðum. 10% byggðakvótans skal úthlutað samkvæmt reglugerð nr. 82 frá 29. janúar 2010 á aðra báta sem gerðir eru út hluta úr ári. Heimilt er að flytja byggðakvóta milli fiskiskipa í eigu sömu útgerðar. Byggðakvóta Akureyrarbæjar vegna Grímseyjar skal úthlutað með eftirfarandi hætti til skipa skráðra í Grímsey samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 82 frá 29. janúar 2010 að öðru leyti en því að: Vinnsluskyldu samkvæmt 6. gr. reglugerðarinnar er aflétt. Tálknafjarðarhreppur. Ákvæði reglugerðar nr. 82 frá 29. janúar 2010 gilda um úthlutun byggðakvóta Tálknafjarðarhrepps með eftirfarandi viðauka/breytingum: Ákvæði 4. gr. um 15 þorskígildislesta hámarksúthlutun fellur niður. Húnaþing vestra. Ákvæði reglugerðar nr. 82 frá 29. janúar 2010 gilda um úthlutun byggðakvóta Húnaþings vestra með eftirfarandi viðauka/breytingum: Byggðakvóta Húnaþings vestra verður skipt milli þeirra fiskiskipa sem gerð eru út frá Hvammstanga og fengið hafa úthlutun samkvæmt reglugerð nr. 675/2009 vegna aflabrests á rækju í innanverðum Húnaflóa og uppfylla ákvæði reglugerðar nr. 82/2010 að öðru leyti. Skipting er eftirfarandi: 35% er skipt jafnt milli ofangreindra skipa og 65% milli ofangreindra skipa þannig að til viðmiðunar verði löndunarhæsta ár útgerðar í Hvammstangahöfn í þorskígildum talið. Viðmiðunarárin eru 3 síðustu fiskveiðiár, nú 2006/2007, 2007/2008 og 2008/2009. Ákvæði 4. gr. reglugerðar um 15 þorskígildislesta hámarksúthlutun er fellt niður. 6. gr. reglugerðarinnar breytist þannig: Fiskiskipum er skylt að landa innan byggðarlagsins afla sem nemur, í þorskígildum talið, tvöföldu magni þess aflamarks sem þau fá úthlutað ..... o.s.frv. Kaldrananeshreppur. Ákvæði reglugerðar nr. 82 frá 29. janúar 2010 gilda um úthlutun byggðakvóta Kaldrananeshrepps með eftirfarandi viðauka/breytingum: Ákvæði 1. mgr. 4. gr. breytist þannig: ..... á tímabilinu 1. september 2009 til 31. mars 2010. Sveitarfélagið Árborg. Ákvæði reglugerðar nr. 82 frá 29. janúar 2010 gilda um úthlutun byggðakvóta Eyrarbakka með eftirfarandi viðauka/breytingum: a) 4. gr. reglugerðarinnar breytist þannig: Úthlutun aflamarks samkvæmt reglugerð þessari skal að öðru leyti fara fram til einstakra fiskiskipa sem uppfylla skilyrði 1. gr., sbr. og reglum um sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta í einstökum sveitarfélögum sem ráðuneytið staðfestir samkvæmt 2.-3. gr., eftir því sem við á, og skal úthlutað hlutfallslega af því aflamarki sem fallið hefur til viðkomandi byggðarlags, miðað við landaðan afla í þorskígildum talið á tímabilinu 1. febrúar 2009 til 31. janúar 2010. b) Í stað tveggja fyrstu málsgreina 6. gr. reglugerðarinnar kemur: Fiskiskipum er skylt að landa afla sem nemur, í þorskígildum talið, tvöföldu magni þess aflamarks sem þau fá úthlutað samkvæmt reglugerð nr. 82/2010. 2. gr. Auglýsing þessi, sem birt er samkvæmt heimild í 5. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 25. febrúar 2010. F. h. r. Hinrik Greipssson. Kristján Freyr Helgason. |