Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1097/2014

Nr. 1097/2014 5. desember 2014
REGLUR
um breytingu á reglum nr. 140/2014 um meistaranám við heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands.

1. gr.

I. liður 20. gr. ásamt fyrirsögn orðast svo:

Markmið.

Markmið meistaranáms við tannlæknadeild er að veita nemandanum vísindalega þjálfun að loknu kandídatsnámi eða BS-námi. Meistaranámið skal auka faglega þekkingu og veita þjálfun og innsýn í rannsóknaraðferðir tannlæknisfræðinnar og skyldra greina.

2. gr.

III. liður 20. gr. ásamt fyrirsögn orðast svo:

Einingafjöldi og tímalengd náms.

Meistaranám við tannlæknadeild er 120 einingar. Nemandi sem lokið hefur kandídatsprófi í tannlæknisfræðum fær 30 einingar úr því námi metnar inn í meistaranámið. Heimilt er að meta allt að 30 einingar til viðbótar fyrir fyrirfram skilgreind námskeið úr tann­lækna­náminu. Miðað er við að lágmarkseinkunn úr þeim námskeiðum sem metin eru inn í meistaranámið sé 6,0. Með eðlilegri námsframvindu er við það miðað að lengd meistara­náms sé eitt og hálft ár (þrjú misseri) hjá þeim sem lokið hafa cand. odont.-prófi en tvö ár (fjögur misseri) hjá nemendum sem lokið hafa BS-prófi. Að jafnaði taki námið ekki lengri tíma en þrjú ár.

3. gr.

Núverandi IV. liður 20. gr., um námsmat og meistarapróf, verður VI. liður. Nýr IV. liður ásamt fyrirsögn orðast svo:

Samsetning náms.

Námið felur í sér þjálfun í vísindalegum vinnubrögðum og er samsett af almennum og sé­rtæk­um námskeiðum auk rannsóknarverkefnis. Vinna að eigin rannsóknarverkefni og samning ritgerðar sem byggist á því er meginhluti námsins. Eigi síðar en í lok fyrsta náms­misseris skal nemandi skila á sérstöku eyðublaði rannsóknaráætlun þar sem fram komi staða þekkingar, skýr rannsóknarspurning, aðferðir og verkþættir og hlutverk nem­andans í verkefninu. Stærð rannsóknarverkefnis skal vera 60 einingar. Aðrar ein­ing­ar fást með þátttöku í námskeiðum í samræmi við samþykkta námsáætlun. Nám­skeið eru ýmist skyldunámskeið eða valnámskeið.

Kynning á verkefninu á ritrýndri ráðstefnu telst einnig til þjálfunar og má meta til eininga samkvæmt umsókn. Kynningar á ráðstefnum mega að hámarki nema 4 af 120 einingum í meistaranámi. Nemandi í meistaranámi má að hámarki taka 10 einingar í lesnámskeiðum undir leiðsögn kennara. Lesnámskeiðið skal vera á rannsóknasviði sem tengist rann­sóknar­verkefni nemanda en er ekki hluti af aðalverkefni. Námið felst í lestri tímarits­greina og annarra heimilda sem valdar eru í samráði við kennara og umræðum um þær við kennara.

4. gr.

Núverandi V. liður 20. gr., um kröfur til umsjónarkennara, verður VII. liður. Nýr V. liður ásamt fyrirsögn orðast svo:

Rannsóknanámsnefnd.

Sameiginleg rannsóknanámsnefnd læknadeildar og tannlæknadeildar fer með málefni meistaranámsins í umboði deildarráðs, enda situr fulltrúi tannlæknadeildar í þeirri nefnd. Hlutverk rannsóknanámsnefndar er m.a. að fjalla um umsóknir, skipa í meistara­prófs­nefnd, tilnefna prófdómara fyrir meistarapróf og sjá um meistarapróf í tann­lækna­deild.

5. gr.

Tölusetning núverandi VI. liðar 20. gr., um meistaraprófsnefndir, og VII. liðar, um skil og frágang meistararitgerða, breytist og verða liðirnir númer VIII og IX.

6. gr.

Reglur þessar eru settar af háskólaráði með heimild í 3. mgr. 18. gr. laga um opinbera háskóla nr. 85/2008. Reglurnar hafa verið samþykktar af tannlæknadeild og stjórn heilbrigðisvísindasviðs, auk Miðstöðvar framhaldsnáms, sbr. 66. og 69. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Reglurnar öðlast þegar gildi.

Háskóla Íslands, 5. desember 2014.

Kristín Ingólfsdóttir.

Þórður Kristinsson.

B deild - Útgáfud.: 19. desember 2014