Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 698/2014

Nr. 698/2014 8. júlí 2014
REGLUGERÐ
um samræmt verklag og viðmið við leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána.

1. gr.

Markmið.

Markmið með reglugerð þessari er að stuðla að samræmdu verklagi og viðmiðum við framkvæmd laga nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána.

2. gr.

Miðlun upplýsinga.

Lífeyrissjóðir, Íbúðalánasjóður og fjármálafyrirtæki sem starfa samkvæmt lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, skulu miðla nauðsynlegum upplýsingum til ríkisskattstjóra í gegnum miðlægt upplýsingakerfi sem notað er við úrvinnslu allra umsókna um leiðréttingu samkvæmt ákvæðum laga nr. 35/2014. Öflun og miðlun upplýsinga skal vera í samræmi við 6. gr. laga nr. 35/2014.

3. gr.

Skilgreiningar.

Með eftirlifandi maka í skilningi 2. málsl. 4. mgr. 3. gr. laga nr. 35/2014 er átt við hjúskaparmaka og sambúðarmaka sem stofnað hafði til óvígðrar sambúðar við hinn látna og tekur arf eftir hann samkvæmt erfðaskrá þar sem stöðu hans sem sambúðarmaka hins látna er ótvírætt getið.

4. gr.

Útreikningur á leiðréttingu.

Fjárhæð leiðréttingar einstaklings og hámark hennar ræðst skv. 5. mgr. 7. gr. laga nr. 35/2014 af hjúskapar- eða heimilisstöðu eins og hún var á hverjum tíma innan leiðréttingartímabilsins 1. janúar 2008 til 31. desember 2009. Ef breytingar urðu á högum umsækjanda, einu sinni eða oftar, sbr. 1. málsl., á leiðréttingartímabilinu skal útreikningur leiðréttingar miða við að breytingin taki gildi frá og með næstu mánaðamótum eftir að hún átti sér stað.

Samkvæmt 6. mgr. 7. gr. laga nr. 35/2014 getur heildarsamtala fjárhæðar útreiknaðrar leiðréttingar hvers heimilis að hámarki orðið 4 millj. kr. Við útreikning á hámarki leiðréttingar hvers heimilis skal, eftir atvikum, skipta fjárhæð leiðréttingar í samræmi við breytingar á hjúskapar- eða heimilisstöðu hvers einstaklings á hverjum tíma innan leiðréttingartímabilsins.

Öll lán skv. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 35/2014 skal reikna sem eina heild miðað við þá lánaskilmála sem voru í gildi við upphaf leiðréttingartíma viðkomandi láns, óháð því hvort lán hafi færst á milli kröfuhafa eða innheimtuaðila á leiðréttingartímabilinu.

Ráðherra birtir leiðbeiningar og dæmi á vefsíðu fjármála- og efnahagsráðuneytisins til nánari skýringa á útreikningi á fjárhæðum leiðréttingar skv. 7. gr. laga nr. 35/2014.

5. gr.

Frádráttarliðir.

Frá fjárhæð leiðréttingar skv. 7. gr. laga nr. 35/2014 skal draga samtölu hlutdeildar einstaklings í niðurfellingu vegna fasteignaveðlána, sem glatað hafa veðtryggingu í kjölfar nauðungarsölu eða annarrar ráðstöfunar eignar, frá 1. janúar 2008 til birtingardags ákvörðunar um leiðréttingarfjárhæð skv. 10. gr. laga nr. 35/2014. Sömu tímamörk skulu gilda um frádrátt samkvæmt a-e lið 1. mgr. 8. gr. laganna.

Ráðherra birtir leiðbeiningar og dæmi á vefsíðu fjármála- og efnahagsráðuneytisins um frádráttarliði leiðréttingar skv. 8. gr. laga nr. 35/2014.

6. gr.

Birting ákvörðunar um leiðréttingarfjárhæð.

Við birtingu ákvörðunar um leiðréttingarfjárhæð skv. 10. gr. laga nr. 35/2014 skal gætt að almennum reglum um trúnaðarskyldu, m.a. því að fjárhagsupplýsingar fyrrverandi maka verði ekki birtar núverandi maka. Sama á við ef umsækjandi var einhleypur á árunum 2008 og 2009 en í hjúskap eða sambúð í árslok 2013 eða þegar tveir eða fleiri einstaklingar áttu í sameign heimili á árunum 2008 og 2009.

7. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 17. gr. laga nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, og öðlast þegar gildi.

Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 8. júlí 2014.

F. h. r.

Hafdís Ólafsdóttir.

Guðrún Þorleifsdóttir.

B deild - Útgáfud.: 22. júlí 2014