Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 611/2009

Nr. 611/2009 24. júní 2009
REGLUR
um stjórnskipulag hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri.

1. gr.

Markmið og stefna.

Meginmarkmið fræðasviðsins er að bjóða upp á háskólanám og standa fyrir rannsóknum í hug- og félagsvísindum, þar með talið félagsvísindum, lögfræði og menntunarfræðum. Fræðasviðið mótar sér stefnu til nokkurra ára í senn í samræmi við grunnmarkmið sín og stefnu Háskólans á Akureyri hverju sinni. Stefna hug- og félagsvísindasviðs árin 2008-2011 byggist á stefnu og framtíðarsýn þeirra deilda sem runnu saman í eina við stofnun hug- og félagsvísindadeildar 1. ágúst 2008, þ.e. kennaradeildar og félagsvísinda- og lagadeildar.

Hug- og félagsvísindasvið starfar á grundvelli laga um háskóla nr. 63/2006, laga um opinbera háskóla nr. 85/2008 og reglna fyrir Háskólann á Akureyri nr. 387/2009.

2. gr.

Deildafundur (fræðasviðsfundur).

Deildafundur hug- og félagsvísindasviðs, öðru nafni fræðasviðsfundur, fer með æðsta ákvörðunarvald í málefnum fræðasviðsins. Hann fjallar um meginatriði í starfsemi fræðasviðsins og ber ásamt forseta ábyrgð á að starfsemi þess sé í samræmi við lög og reglur. Fræðasviðsfundur gerir tillögu að ráðningu forseta fræðasviðsins, að undangenginni kosningu um umsækjendur. Á fræðasviðsfundi skal jafnframt kosinn staðgengill forseta til tveggja ára sem og varastaðgengill. Nánar er kveðið á um verkefni deildafundar fræðasviðs í 16. gr. reglna fyrir Háskólann á Akureyri nr. 387/2009.

Á fræðasviðsfundi eiga sæti og atkvæðisrétt: Forseti, prófessorar, dósentar, lektorar og aðjúnktar óháð starfshlutfalli, sérfræðingar og forstöðumaður skólaþróunarsviðs, einn fulltrúi stundakennara úr hverri deild, tilnefndur af stundakennurum viðkomandi deildar til eins árs í senn og einn fulltrúi nemenda úr hverri deild, tilnefndur af félagssamtökum þeirra til eins árs í senn.

3. gr.

Deildaráð.

Deildaráð starfar skv. 17. gr. reglna fyrir Háskólann á Akureyri nr. 387/2009. Ráðið fjallar um erindi sem varða mál einstakra nemenda og önnur málefni sem varða fræðasviðið. Fræðasviðsfundur setur nánari reglur um vald og verksvið deildaráðs.

Í deildaráði eiga sæti auk forseta fræðasviðs staðgengill hans, deildarformenn, brautarstjórar, forstöðumaður skólaþróunarsviðs, einn fulltrúi kennara valinn af deildafundi til tveggja ára í senn og einn fulltrúi nemenda valinn af félagssamtökum þeirra til eins árs í senn.

4. gr.

Forseti.

Forseti hug- og félagsvísindasviðs er ráðinn af rektor til tveggja ára að fenginni umsögn fræðasviðsins, skv. 15. gr. reglna fyrir Háskólann á Akureyri nr. 387/2009. Um verkefni forseta er fjallað í 14. gr. sömu reglna. Forseti annast fundarboð til fulltrúa á fræðasviðsfundi og fundastjórnun á þeim. Hann er jafnframt formaður deildaráðs.

5. gr.

Deildir og svið.

Hug- og félagsvísindasvið skiptist í þrjár deildir: Félagsvísindadeild, kennaradeild og lagadeild1. Undir fræðasviðið fellur skólaþróunarsvið Háskólans á Akureyri2.

Hver deild ber ábyrgð á skipulagi og þróun þess náms sem fræðasviðið hefur samþykkt að fari fram innan deildarinnar. Innan hverrar deildar er boðið upp á minnst eina námsbraut, en með því er átt við skilgreinda samsetningu námskeiða sem nemandinn þarf að ljúka til að hljóta skilgreinda gráðu.

Við skipulag náms í sálfræði er m.a. tekið mið af lögum um sálfræðinga nr. 40/1976.

Við skipulag kennaranáms er m.a. tekið mið af lögum um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla nr. 87/2008, lögum um leikskóla nr. 90/2008, lögum um grunnskóla nr. 91/2008, lögum um framhaldsskóla nr. 92/2008 og viðkomandi reglugerðum.

Við skipulag náms í lögfræði er m.a. tekið mið af lögum um lögmenn nr. 77/1998 og reglugerð um próf til að öðlast réttindi til að vera héraðsdómslögmaður nr. 1095/2005.
 ______________

1Sbr. samþykkt háskólaráðs frá 28. september 2007. Í samþykktinni var stefnt að því að sjálfstæð hugvísindaskor (-deild samkvæmt núgildandi reglum) tæki til starfa haustið 2009. Ljóst er að þessu markmiði verður ekki náð, en á fræðasviðinu verður áfram stefnt að stofnun sjálfstæðrar hugvísindadeildar.

2 Heimild til þess að starfrækja sérstakar háskólastofnanir við deildir eða skóla er gefin í c-lið 1. mgr. 4. gr. laga nr. 85/2008 og 3. mgr. 11. gr. sömu laga.

6. gr.

Skólaþróunarsvið Háskólans á Akureyri.

Viðfangsefni skólaþróunarsviðs lúta að ráðgjöf við kennara og skólastjóra leik- og grunnskóla og hvers konar þróunar- og umbótastarfi í skólum. Það hefur forgöngu um að kynna kennurum nýjungar á sviði skóla- og kennslumála, stendur fyrir rannsóknum á skólastarfi og fræðslu til starfandi kennara og heldur ráðstefnur.

Fagleg ábyrgð á starfsemi skólaþróunarsviðs er á hendi forstöðumanns, sem ráðinn er af rektor eftir tillögu deildafundar. Forstöðumaður skal hafa hlotið hæfnisdóm sem lektor, dósent eða prófessor á fræðasviði sem tengist starfsemi skólaþróunarsviðs.

Á skólaþróunarsviði starfa sérfræðingar í menntavísindum. Þeir sinna ráðgjöf, þróunarverkefnum í skólum, námskeiða- og ráðstefnuhaldi, þjónusturannsóknum (án rannsóknafrelsis) og akademískum rannsóknum (með rannsóknafrelsi). Þeir geta sinnt kennslu við Háskólann á Akureyri og skal um það samið í hverju tilviki við forstöðumann skólaþróunarsviðs að höfðu samráði við viðkomandi sérfræðing. Á sama hátt geta kennarar við HA átt samstarf við skólaþróunarsvið vegna rannsóknar- og þróunarverkefna.

7. gr.

Deildarformenn og deildarfundir.

Deildarformenn og deildarfundir bera ábyrgð á kennslu, kennslufyrirkomulagi og þróun náms. Deildarfundur gerir einnig tillögur til forseta um að auglýsa stöður, fjallar um umsóknir að fengnu dómnefndaráliti og gerir tillögur til forseta um ráðningar.

Sæti í deild – og þar með seturétt, tillögurétt og atkvæðisrétt á deildarfundum – eiga aðjúnktar, lektorar, dósentar og prófessorar sem inna af hendi minnst 50% kennsluskyldu sinnar innan deildar og einn fulltrúi nemenda sem valinn er af félagssamtökum þeirra til eins árs í senn. Deildarformaður skal kosinn af deildarfundi til tveggja ára í senn, úr hópi fastráðinna lektora, dósenta og prófessora deildarinnar. Einnig skal deildarfundur kjósa staðgengil deildarformanns til sama tíma. Einungis fræðasviðsfundur getur leyft frávik frá þessum ákvæðum.

Deildarformaður ber ábyrgð á starfsemi deildar, skipulagi, undirbúningi og framkvæmd náms, þróun og samskiptum og tekur einnig þátt í stjórn fræðasviðsins, m.a. með setu í deildaráði. Hann sér um samskipti við nemendur, áætlun kennslumagns, gerir tillögur um nýráðningar, velur umsjónarkennara hvers námskeiðs í samráði við forseta fræðasviðs og kemur að stundaskrárgerð í samvinnu við skrifstofu fræðasviðs. Deildarformaður stýrir deildarfundum og fylgir samþykktum fundanna eftir. Nánar er kveðið á um ábyrgð og verkefni deildarformanns í sérstakri starfslýsingu.

8. gr.

Brautarstjórar og kennarafundir.

Deildum er heimilt (en ekki skylt) að velja sérstaka brautarstjóra til að hafa umsjón með einni eða fleiri námsbrautum innan deildarinnar. Brautarstjórar eru kosnir á deildarfundi til eins árs í senn.

Brautarstjórn felur í sér samskipti við nemendur, setu í náms- og matsnefnd og forystu um samráð milli kennara um kennslu- og námsþróun. Nánar er kveðið á um ábyrgð og verkefni brautarstjóra í sérstakri starfslýsingu.

Kennarafundir eru vettvangur slíks samráðs og boðar brautarstjóri til slíkra funda eftir þörfum. Á kennarafund má kalla fastráðna kennara, lausráðna kennara, stundakennara og hverja þá aðra sem koma að kennslu innan námsbrautar hverju sinni.

9. gr.

Náms- og matsnefndir.

Náms- og matsnefndir gera tillögur um mat á fyrra námi og fyrirhuguðu skiptinámi nemenda í viðkomandi deild eða á námsbraut. Náms- og matsnefndir gera jafnframt tillögur til deildarfundar um breytingar á náms- og kennsluskrá. Náms- og matsnefnd skal skipuð minnst þremur fulltrúum kennara (aðjúnkta, lektora, dósenta eða prófessora), sem valdir skulu til tveggja ára í senn af viðkomandi deildarfundi og einum fulltrúa nemenda, sem er valinn af félagssamtökum þeirra til eins árs í senn. Nefndin skiptir sjálf með sér verkum. Nánar er kveðið á um skipan, hlutverk og verkferla náms- og matsnefnda í sérstakri samþykkt.

Náms- og matsnefndir á hug- og félagsvísindasviði eru fimm: Í (1) lögfræði, (2) hugvísindum, (3) félagsvísindum, (4) grunnnámi í menntunar- og kennslufræðum og (5) framhaldsnámi í menntunar- og kennslufræðum. Námsnefndirnar skulu hafa formlegt samráð sín á milli með það fyrir augum að koma á sem mestri samvinnu um nám og námsframboð á fræðasviðinu. Stefnt skal að því að sameina náms- og matsnefndir (4) og (5) þegar heildstætt fimm ára kennaranám verður komið að fullu til framkvæmda.

10. gr.

Umsjónarmenn málaflokka.

Umsjónarmenn málaflokka bera sérstaka ábyrgð á tilteknum málaflokkum innan fræðasviðsins. Málaflokkar sem geta haft slíka umsjónarmenn eru til dæmis rannsóknir, alþjóðasamskipti, kynningarmál og frágangur náms- og kennsluskrár. Umsjónarmenn málaflokka eru kosnir á fræðasviðsfundi til tveggja ára í senn.

11. gr.

Gildistaka og endurskoðun.

Stjórnskipulag þetta er samþykkt á grundvelli laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla og reglna fyrir Háskólann á Akureyri nr. 387/2009 og tekur gildi frá og með 1. ágúst 2009.

Stjórnskipulag þetta og starfslýsingar skal endurskoðað reglulega og skal þá tekið mið af fenginni reynslu. Næsta endurskoðun skal gerð á fyrsta fræðasviðsfundi almanaksársins 2010.

Háskólanum á Akureyri, 24. júní 2009,

Þorsteinn Gunnarsson rektor.

B deild - Útgáfud.: 13. júlí 2009