Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 620/2010

Nr. 620/2010 22. júlí 2010
REGLUR
um störf dómnefndar sem fjallar um hæfni umsækjenda um dómaraembætti.

1. gr.

Gildissvið reglnanna.

Reglur þessar gilda um störf dómnefndar um umsækjendur um embætti dómara skv. 4. gr. a og 3. mgr. 12. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla.

2. gr.

Um sérstakt hæfi nefndarmanna dómnefndar.

Um sérstakt hæfi nefndarmanna gilda ákvæði 3.-5. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 með síðari breytingum.

Varamaður tekur sæti í nefndinni í forföllum aðalmanns og þegar aðalmaður er vanhæfur til að veita umsögn um umsækjendur. Í forföllum varamanns svo og þegar hann er einnig vanhæfur til að veita umsögn skal sá aðili sem tilnefndi hann, tilnefna mann í hans stað til ráðherra.

Ef aðalmaður lætur af störfum í nefndinni skal sá aðili, sem tilnefndi hann, tilnefna nýjan aðalmann og nýjan varamann ef þörf krefur.

Ef umsækjandi um embætti dómara telur að nefndarmaður sé vanhæfur til að fjalla um umsókn hans skal hann tafarlaust gera ráðherra grein fyrir þeirri afstöðu sinni á rökstuddan hátt. Athugasemdirnar skulu sendar til dómnefndarinnar til úrlausnar lögum samkvæmt.

3. gr.

Um almennt hæfi umsækjenda.

Þegar umsóknarfrestur er liðinn lætur ráðherra staðreyna að umsækjendur uppfylli öll hin almennu hæfisskilyrði dómaraembættisins sem auglýst var laust til umsóknar skv. lögum nr. 15/1998 um dómstóla. Að því búnu skulu umsóknir þeirra umsækjenda, sem uppfylla hin almennu hæfisskilyrði, sendar dómnefnd til umsagnar.

4. gr.

Sjónarmið sem mat dómnefndar skal byggt á.

Í umsögn dómnefndar skal tekin afstaða til þess hvaða umsækjandi eða umsækjendur séu hæfastir til þess að hljóta umrætt dómaraembætti. Dómnefnd skal gæta þess við mat sitt að samræmis sé gætt þannig að jafnræði sé í heiðri haft. Niðurstaðan skal byggð á heildstæðu mati á grundvelli málefnalegra sjónarmiða og skal þar byggt á verðleikum umsækjenda með hliðsjón af menntun og reynslu, ráðvendni, hæfni og skilvirkni í starfi, eins og nánar greinir m.a. hér á eftir:

1. Menntun, starfsferill og fræðileg þekking. Við mat á menntun, starfsferli og fræðilegri þekkingu skal dómnefndin miða við að æskilegt sé að umsækjandi hafi fjölbreytta starfsreynslu á sviði lögfræðinnar s.s. reynslu af dómstörfum, málflutningi eða öðrum lögmannsstörfum, störfum innan stjórnsýslunnar eða fræðistörfum. Miðað skal við að umsækjandi hafi til að bera almenna og víðtæka lögfræðilega þekkingu og menntun. Þá skal litið til þess hvort umsækjandi hefur stundað framhaldsnám.

2. Aukastörf og félagsstörf. Dómnefnd ber einnig að líta til aukastarfa umsækjanda, svo sem til setu í úrskurðarnefndum eða annarra skyldra starfa sem nýtast dómaraefni. Loks er heimilt að líta til víðtækrar þátttöku í félagsstarfi.

3. Almenn starfshæfni. Við mat á almennri starfshæfni skal litið til þess hvort umsækjandi hafi sýnt sjálfstæði, óhlutdrægni, frumkvæði og skilvirkni í starfi og hvort hann eigi auðvelt með að skilja aðalatriði frá aukaatriðum. Æskilegt er að hann hafi reynslu af stjórnun. Umsækjandi skal hafa góða þekkingu á íslensku máli og eiga auðvelt með að tjá sig í ræðu og riti.

4. Sérstök starfshæfni. Mikilvægt er að umsækjandi hafi einkamála- og sakamálaréttarfar á valdi sínu og geti farið að fyrirmælum laga um samningu dóma og ritað þá á góðu máli. Hann verður að geta stjórnað þinghöldum af röggsemi og sanngirni og afgreitt þau mál sem honum eru fengin bæði fljótt og af öryggi.

5. Andlegt atgervi. Umsækjandi þarf að eiga auðvelt með mannleg samskipti, bæði við samstarfsmenn og þá sem erindi eiga við hann. Gerð er krafa um að af umsækjanda fari gott orð bæði í fyrri störfum og utan starfa og að reglusemi hans sé í engu ábótavant.

5. gr.

Rannsókn máls.

Umsókn umsækjanda um embætti dómara á grundvelli auglýsingar um það ásamt þeim reglum sem um það gilda markar þann grundvöll sem dómnefnd byggir umsögn sína á.

Dómnefndin skal sjá til þess að mál sé að öðru leyti nægilega upplýst áður en umsögn er veitt um hæfni umsækjanda.

Dómnefndin getur litið til allra birtra verka umsækjanda, s.s. fræðirita, dóma, úrskurða og annars þess háttar, við mat sitt skv. 4. gr. þótt þau hafi ekki fylgt umsókn umsækjanda. Ekki þarf að gera umsækjanda sérstaklega viðvart um það fyrirfram.

Dómnefndin getur boðað umsækjendur í viðtal og krafið þá um öll nauðsynleg gögn til viðbótar þeim sem fylgdu umsókn þeirra og lagt til grundvallar mati sínu skv. 4. gr.

Dómnefnd getur aflað vitneskju um starfsferil umsækjanda hjá fyrri vinnuveitendum hans og öðrum, sem hafa átt samskipti við umsækjanda vegna starfa hans. Umsækjanda skal gefinn sjö daga frestur til þess að tjá sig um upplýsingar sem þannig er aflað.

6. gr.

Framsetning umsagnar dómnefndar.

Dómnefndin skal gefa skriflega og rökstudda umsögn um umsækjendur þar sem fram kemur:

a. rökstutt álit á hæfni hvers umsækjanda, og síðan

b. rökstutt álit á því hvern eða hverja nefndin telur hæfasta til að hljóta embættið.

7. gr.

Andmælaréttur umsækjanda við drög að umsögn nefndarinnar.

Dómnefnd skal kynna umsækjendum drög sín að umsögn um hæfni umsækjenda og gefa þeim sjö daga frest til þess að koma að sjónarmiðum sínum. Umsækjendur eru bundnir trúnaði um efni draganna.

8. gr.

Endanleg gerð umsagnar og birting hennar.

Eftir að dómnefnd hefur farið yfir sjónarmið umsækjenda og gert eftir atvikum breytingar á umsögn sinni gengur nefndin sameiginlega frá umsögn sinni í endanlegri mynd, undirritar hana og sendir ráðherra ásamt gögnum málsins. Jafnframt sendir nefndin umsækjendum umsögn sína.

Þremur dögum eftir að ráðherra og umsækjendum hafa verið send eintök af umsögn nefndarinnar skal birta umsögnina í heild á vefsíðu dómsmálaráðuneytisins.

9. gr.

Umsagnarfrestur.

Dómnefnd skal skila umsögn um umsækjendur innan sex vikna frá því að umsóknirnar bárust henni. Sá frestur getur þó orðið lengri ef sérstakar ástæður valda því svo sem mikill fjöldi umsækjenda o.þ.h.

10. gr.

Þagnarskylda o.fl.

Nefndarmönnum dómnefndar er skylt að gæta þagmælsku um viðkvæmar upplýsingar sem leynt eiga að fara er varða umsækjendur og þeir fá vitneskju um í starfi sínu. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi í nefndinni.

Dómsmálaráðuneytið varðveitir umsóknir um embætti dómara, umsagnir dómnefndar og fylgigögn.

11. gr.

Gildistaka o.fl.

Reglur þessar, sem settar eru með heimild í 2. mgr. 4. gr. a laga um dómstóla nr. 15/1998 með síðari breytingum, öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi reglur nr. 693 11. október 1999 um störf nefndar samkvæmt 3. mgr. 12. gr. laga nr. 15/1998.

Dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu, 22. júlí 2010.

F. h. r.

Þórunn J. Hafstein.

Bryndís Helgadóttir.

B deild - Útgáfud.: 23. júlí 2010