Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1050/2008

Nr. 1050/2008 30. október 2008
REGLUGERÐ
um úthlutun afgreiðslutíma flugvalla.

1. gr.

Markmið og gildissvið.

Með þessari reglugerð er stefnt að því að afkastageta flugvalla, þar sem flugumferð er mikil, verði sem mest og sveigjanlegust. Með þessum hætti er stuðlað að aukinni sam­keppni á hinu Evrópska efnahagssvæði.

Reglugerð þessi gildir um flugvelli á Íslandi.

2. gr.

Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

  1. „afgreiðslutími“ (slot): leyfi, sem samræmingarstjóri veitir í samræmi við þessa reglugerð, til að nota alla fyrirliggjandi aðstöðu flugvallar til að starfrækja flug­þjónustu á flugvelli með skömmtuðum afgreiðslutíma, á tilgreindum degi og tíma, til lendingar eða flugtaks, eftir úthlutun samræmingarstjóra í samræmi við þessa reglugerð;
  2. „nýr aðili“ (new entrant):
    1. flugrekandi sem sækir um afgreiðslutíma á flugvelli sem hluta af röð afgreiðslutíma á tilteknum degi, þannig að flugrekandinn hefði færri en fimm afgreiðslutíma í heild á þeim flugvelli þann tiltekna dag væri beiðni hans samþykkt, eða
    2. flugrekandi, sem sækir um röð afgreiðslutíma fyrir síendurtekið áætlunar­flug með farþega milli tveggja flugvalla hins Evrópska efnahags­svæðis, þar sem í mesta lagi tveir aðrir flugrekendur starfrækja samskonar sí­endur­tekið áætlunarflug milli þessara flugvalla eða flugvalla­kerfa þennan tiltekna dag, þannig að flugrekandinn hefði samt sem áður færri en fimm afgreiðslutíma á við­komandi flugvelli þennan tiltekna dag, fyrir þetta síendurtekna flug ef umsókn hans væri samþykkt, eða
    3. flugrekandi sem sækir um röð afgreiðslutíma á flugvelli fyrir reglubundið áætlunarflug með farþega milli þess flugvallar og svæðisflugvallar þar sem enginn annar flugrekandi starfrækir síendurtekið áætlunarflug með farþega milli þessara flugvalla eða flugvallakerfa þennan tiltekna dag, þannig að flugrekandinn hefði samt sem áður færri en fimm afgreiðslutíma á viðkomandi flugvelli þennan tiltekna dag fyrir þetta síendurtekna flug ef umsókn hans væri samþykkt.
    Flugrekandi sem hefur til umráða meira en 5% af öllum afgreiðslutímum sem eru fáanlegir tiltekinn dag á tilteknum flugvelli eða meira en 4% af öllum afgreiðslu­tímum, sem eru fáanlegir þennan tiltekna dag í flugvallakerfi sem viðkomandi flugvöllur er hluti af, telst ekki vera nýr aðili á þeim flugvelli;
  3. „beint flug“ (direct air service): flug milli tveggja flugvalla, að meðtalinni milli­lendingu, með sama loftfari og sama flugnúmeri;
  4. „áætlunartímabil“ (scheduling period): annaðhvort sumar- eða vetraráætlun eftir því hvernig áætlun flugfélaganna er skipt upp;
  5. „bandalagsflugfélag“ (community air carrier): flugrekandi með gilt flugrekstrarleyfi veitt af aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið samkvæmt reglu­gerð um veitingu flugrekstrarleyfa;
 

f.

 

i.

 

„flugrekandi“ (air carrier): fyrirtæki sem stundar flutninga í lofti og hefur gilt flugrekstrarleyfi eða sambærilegt leyfi í síðasta lagi 31. janúar fyrir komandi sumaráætlun eða 31. ágúst fyrir komandi vetraráætlun. Í 4. gr., 8. gr., 9. gr. og 12. gr. skal skilgreiningin á flugrekanda einnig ná til flugrekenda flugs á vegum fyrirtækja þegar þeir starfa samkvæmt áætlun; í 7. og 15. gr. skal skilgreiningin á flugrekanda einnig taka til allra sem starfrækja almenningsflugvélar;

  

ii.

 

„hópur flugrekenda“ (group of air carriers): tveir eða fleiri flugrekendur sem stunda sameiginlegan rekstur, sérleyfisstarfsemi eða hafa sameigin­legt flugnúmerafyrirkomulag til að reka tiltekna flugþjónustu;

  1. „flugvöllur með skammtaðan afgreiðslutíma“ (coordinated airport): flugvöllur þar sem samræmingarstjóri verður að úthluta flugrekanda eða umráðanda loftfars afgreiðslutíma til lendingar eða flugtaks nema um sé að ræða ríkisflug, nauðlendingu eða flug í mannúðarskyni;
  2. „flugvallakerfi“ (airport system): tveir eða fleiri flugvellir sem í sameiningu þjóna sömu borg eða sama borgarsvæði, eins og um getur í II. viðauka reglugerðar (EBE) nr. 2408/92;
  3. „flugvöllur með afgreiðslutíma eftir samráði“ (schedules facilitated airport): flug­völlur þar sem hugsanlega getur myndast umferðarþröng á ákveðnum tíma dagsins, vikunnar eða ársins sem hægt er að leysa með valfrjálsri samvinnu milli flugrekenda og þar sem samráðsstjóri hefur verið skipaður til að greiða fyrir starfsemi flugrekenda sem fljúga eða hyggjast fljúga frá þeim flugvelli;
  4. „framkvæmdastjórn flugvallar“ (managing body of an airport): framkvæmdastjórn sem hefur það hlutverk auk annarrar starfsemi, samkvæmt innlendum lögum eða reglum, að stjórna og hafa umsjón með flugvallarmannvirkjum ásamt því að sam­ræma og stjórna starfsemi flugrekenda sem starfa á flugvellinum eða innan flugvallakerfisins sem um ræðir;
  5. „röð afgreiðslutíma“ (series of slots): a.m.k. fimm afgreiðslutímar sem sótt hefur verið um reglulega á sama tíma sama vikudags, á sama áætlunartímabili og úthlutað þannig eða úthlutað á u.þ.b. sama tíma ef það er ekki mögulegt;
  6. „atvinnuflug“ (business aviation): sá hluti almannaflugs er snýr að starfrækslu fyrirtækja eða nýtingu þeirra á loftfari til flutninga á farþegum eða vörum, sem liðar í starfsemi þeirra, þar sem loftfarið er ekki til leigu fyrir almenning og því er flogið af einstaklingum sem hafa a.m.k. gilt atvinnuflugmannsskírteini með blind­flugs­réttindum;
  7. „samræmingarbreytur“ (coordination parameters): lýsing á öllum þáttum afkasta­getu, með tilliti til starfrækslu, sem fyrir hendi eru til úthlutunar afgreiðslu­tíma á flugvelli á hverju samræmingartímabili og sem endurspegla alla tæknilega þætti, sem og rekstrar- og umhverfisþætti sem áhrif hafa á afkastagetu aðstöðu flugvallarins og mismunandi undirkerfa hennar.

3. gr.

Skilyrði fyrir tilnefningu flugvalla.

Ekki er skylt að tilnefna flugvöll sem flugvöll með afgreiðslutíma eftir samráði eða flugvöll með skammtaðan afgreiðslutíma nema í samræmi við ákvæði þessarar greinar.

Flugmálastjórn Íslands í samráði við samgönguráðuneytið skal heimilt að tilnefna flugvöll sem flugvöll með skammtaðan afgreiðslutíma í samræmi við ákvæði 3. mgr. Engu að síður er heimilt að tilnefna hvaða flugvöll sem er sem flugvöll með afgreiðslutíma eftir samráði, að því tilskildu að fylgt sé meginreglum um skýrleika, hlutleysi og jafnræði.

Framkvæmdastjórn viðkomandi flugvallar eða annar þar til bær aðili skal gera ítarlega greiningu á afkastagetu flugvallar án tilnefningar eða flugvallar með afgreiðslutíma eftir samráði ef Flugmálastjórn Íslands óskar eftir því og telur það nauðsynlegt eða innan sex mánaða:

  1. frá því að skrifleg beiðni berst frá flugrekendum sem eru í forsvari fyrir meira en helmingi af starfsemi flugvallar eða frá framkvæmdastjórn flugvallarins þegar annar aðilinn telur afkastagetuna ófullnægjandi fyrir núverandi eða fyrirhugaða starfsemi á ákveðnum tímabilum, eða
  2. að beiðni Eftirlitsstofnunar EFTA, einkum þegar flugvöllur er í raun aðeins aðgengilegur flugrekendum sem hefur verið úthlutað afgreiðslutímum eða þar sem flugrekendur og einkum nýir aðilar lenda í verulegum erfiðleikum með að tryggja sér afgreiðslutíma fyrir lendingar og flugtök á flugvellinum sem um ræðir.

Ákvarða skal hvort skortur sé á afkastagetu með þessari greiningu, sem byggist á almennt viðurkenndum aðferðum, að teknu tilliti til takmarkana tengdum umhverfi á flug­vellinum sem um ræðir. Í greiningunni skal kannað hvort hægt sé að vinna bug á slíkum skorti með nýrri eða breyttri aðstöðu, rekstrarbreytingum eða öðrum breytingum og hve langan tíma taki að leysa vandann. Hún skal uppfærð ef skírskotað hefur verið til 5. mgr. eða þegar breytingar eiga sér stað á flugvellinum sem hafa veruleg áhrif á afkastagetu og nýtingu afkastagetu. Bæði greiningin og aðferðin, sem hún grundvallast á, skulu vera aðgengilegar aðilunum sem óskuðu eftir greiningunni og öðrum hagsmuna­aðilum, óski þeir eftir því. Flugmálastjórn Íslands skal senda Eftirlitsstofnun EFTA greininguna á sama tíma.

Á grundvelli greiningarinnar skal Flugmálastjórn Íslands ráðfæra sig við framkvæmda­stjórn flugvallarins, flugrekendur, sem nota flugvöllinn reglulega, samtök fulltrúa flug­rekenda, fulltrúa almannaflugs, sem nota flugvöllinn reglulega, og yfirstjórn flug­stjórnar­þjónustu um afkastagetu flugvallarins.

Þegar vandamál koma upp varðandi afkastagetu á a.m.k. einu áætlunartímabili skal Flug­mála­stjórn Íslands að höfðu samráði við samgönguráðuneytið tilnefna flugvöllinn sem flugvöll með skammtaðan afgreiðslutíma á viðeigandi tímabilum ef:

  1. skorturinn er svo alvarlegs eðlis að verulegar tafir eru óhjákvæmilegar á flug­vellinum og
  2. ekki er mögulegt að leysa þessi vandamál þegar til skemmri tíma er litið.

Þrátt fyrir ákvæði 5. mgr. er Flugmálastjórn Íslands að höfðu samráði við samgöngu­ráðuneytið í undantekningatilvikum heimilt að tilnefna viðkomandi flugvelli sem flugvöll með skammtaðan afgreiðslutíma á viðeigandi tímabili.

Þegar afgreiðslugetan vegna raunverulegrar eða áætlaðrar umferðar á flugvelli með skömmtuðum afgreiðslutíma er tryggð skal tilnefningu hans sem flugvallar með skammtaðan afgreiðslutíma aflétt.

Tilnefning flugvallar samkvæmt þessari grein skal gerð skriflega og beint til viðkomandi framkvæmdastjórnar flugvallar. Tilnefning skal tímabundin og ekki hafa lengri gildistíma en 7 ár. Tilnefning flugvallar skal tilkynnt í 1. deild flugmálahandbókar sem útgefin er af Flugmálastjórn Íslands (AIP Ísland).

4. gr.

Samráðsstjóri og samræmingarstjóri.

Framkvæmdastjórn flugvallar sem tilnefndur er sem flugvöllur með skammtaðan afgreiðslutíma eða afgreiðslutíma eftir samráði skal sjá til þess að hæfur einstaklingur eða lögaðili verði skipaður sem samráðs- eða samræmingarstjóri flugvallarins, að höfðu samráði við flugrekendur sem nota flugvöllinn reglulega, fulltrúa samtaka þeirra og sam­ræmingar­nefndina ef hún hefur verið skipuð. Skipa má sama samráðs- eða samræmingarstjóra fyrir fleiri en einn flugvöll.

Samráðsstjóri flugvallar með afgreiðslutíma eftir samráði skal rækja störf sín í samræmi við reglugerð þessa á sjálfstæðan, hlutlausan og skýran hátt og án mismununar. Samræmingarstjóri skal vinna sjálfstætt á flugvelli með skammtaðan afgreiðslutíma og vera óháður hagsmunaaðilum. Fyrirkomulag við fjármögnun starfsemi samræmingar­stjóra skal vera þannig að sjálfstæði hans sé tryggt. Samræmingarstjóri skal rækja starf sitt í samræmi við þessa reglugerð á hlutlausan og skýran hátt og án mismununar.

Samráðsstjóri skal veita flugrekendum ráðgjöf og mæla með öðrum komu- og/eða brottfarartímum þegar líklegt er að umferðarþröng myndist.

Samræmingarstjóri skal einn bera ábyrgð á úthlutun afgreiðslutíma. Hann skal úthluta afgreiðslutímum í samræmi við ákvæði þessarar reglugerðar og sjá til þess að í neyð sé hægt að úthluta afgreiðslutímum utan skrifstofutíma.

Samráðsstjóri skal hafa eftirlit með að starfsemi flugrekenda samræmist þeim áætlunum sem þeim er gert að fylgja. Samræmingarstjóri skal hafa eftirlit með að starfsemi flug­rekenda samræmist þeim afgreiðslutíma sem þeim er úthlutað. Þessar samræmis­athuganir skulu gerðar í samvinnu við framkvæmdastjórn flugvallarins og yfirstjórn flugstjórnarþjónustu með hliðsjón af tíma og öðrum viðeigandi breytum sem varða flugvöllinn sem um ræðir. Samræmingarstjóri skal, ef þess er óskað, senda viðeigandi aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðis og Eftirlitsstofnun EFTA ársskýrslu um starf­semina þar sem einkum er fjallað um beitingu 9. gr. og 15. gr. auk kvartana vegna beitingar 8. gr. og 12. gr. sem sendar hafa verið samræmingarnefndinni ásamt ráðstöfunum sem gerðar hafa verið til að ráða bót á þeim.

Samráðsstjórar og samræmingarstjórar skulu starfa saman að því að greina ósamræmi í áætlunum.

Samræmingarstjóri skal, ef þess er óskað og innan hæfilegs frests, gera hagsmuna­aðilum, einkum þeim sem sæti eiga í samræmingarnefndinni eða áheyrnar­fulltrúum hennar, kleift að skoða eftirfarandi upplýsingar endurgjaldslaust, annaðhvort á skriflegan hátt eða annan aðgengilegan hátt:

  1. afgreiðslutíma sem öll flugfélög er nota flugvöllinn hafa fengið úthlutað fram að þeim tíma, sundurliðað eftir flugfélögum og í réttri tímaröð;
  2. afgreiðslutíma sem öll flugfélögin hafa sótt um (fyrsta umsókn), sundurliðað eftir flugfélögum og í réttri tímaröð;
  3. alla úthlutaða afgreiðslutíma ásamt óafgreiddum umsóknum um afgreiðslutíma, sundurliðað eftir flugfélögum og í réttri tímaröð;
  4. alla óúthlutaða afgreiðslutíma;
  5. ítarlegar upplýsingar um hvaða viðmið gilda við úthlutun.

Upplýsingarnar, sem um getur í 7. mgr., skulu vera aðgengilegar í síðasta lagi í þann mund sem viðkomandi ráðstefnur um áætlanagerð hefjast og, eftir atvikum, meðan á þeim stendur og síðar. Samræmingarstjóri skal gera samantekt á þessum upplýsingum sé þess óskað. Heimilt er að krefjast gjalds til að mæta kostnaði við gerð samantektar á upplýsingunum.

Þar sem viðeigandi og almennt viðurkenndir upplýsingastaðlar um áætlanir eru fyrir hendi skulu samráðsstjóri, samræmingarstjóri og flugrekendur beita þeim, að því tilskildu að þeir samræmist lögum og reglum.

5. gr.

Samræmingarnefnd.

Framkvæmdastjórn flugvallar skal sjá til þess að skipuð sé samræmingarnefnd flugvallar með skammtaðan afgreiðslutíma. Skipa má sömu samræmingarnefnd fyrir fleiri en einn flugvöll. Aðild að nefndinni skal opin a.m.k. þeim flugrekendum, sem nota viðkomandi flugvöll eða flugvelli reglulega, og samtökum fulltrúa þeirra, fulltrúa framkvæmdastjórnar viðkomandi flugvallar, viðkomandi yfirstjórn flugstjórnarþjónustu og fulltrúum almanna­flugs sem nota flugvöllinn reglulega.

Verkefni samræmingarnefndarinnar skulu vera:

  1. að leggja fram tillögur um eða veita samræmingarstjóra og/eða Flugmálastjórn Íslands ráðgjöf varðandi:

möguleikana á að auka afkastagetu flugvallarins, sem ákvörðuð er í samræmi við 3. gr., eða að bæta nýtingu hans,
samræmingarbreyturnar sem skulu ákvarðaðar í samræmi við 6. gr.,
aðferðir við eftirlit með nýtingu úthlutaðra afgreiðslutíma,
staðbundnar leiðbeiningar um úthlutun afgreiðslutíma eða eftirlit með nýtingu afgreiðslutíma, m.a. að teknu tilliti til hugsanlegra umhverfis­sjónarmiða eins og kveðið er á um í 5. mgr. 8. gr.,
úrbætur í ríkjandi umferðarmálum viðkomandi flugvallar,
alvarleg vandamál sem nýir aðilar standa frammi fyrir, eins og kveðið er á um í 9. mgr. 12. gr.,
allar spurningar sem tengjast afkastagetu flugvallarins,

  1. að miðla málum milli allra viðkomandi aðila vegna kvartana um úthlutun afgreiðslu­tíma eins og kveðið er á um í 13. gr.

Fulltrúum Flugmálastjórnar Íslands og samræmingarstjóra skal boðið á fundi sam­ræmingar­nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúum.

Samræmingarnefndin skal semja skriflegar starfsreglur sem ná m.a. til þátttöku, kosninga, tíðni funda og þess tungumáls eða tungumála sem eru notuð. Allir þeir sem sæti eiga í samræmingarnefndinni mega leggja fram tillögu að staðbundnum leið­bein­ingum eins og kveðið er á um í 5. mgr. 8. gr. Óski samræmingarstjóri eftir því skal samræmingarnefndin ræða tillögur að staðbundnum leiðbeiningum um úthlutun afgreiðslutíma auk tillagna um eftirlit með nýtingu úthlutaðra afgreiðslutíma. Skýrsla um umfjallanir samræmingarnefndarinnar skal send til Flugmálastjórnar þar sem fram kemur mismunandi afstaða innan nefndarinnar.

6. gr.

Samræmingarbreytur.

Flugmálastjórn Íslands skal tryggja að á flugvöllum með skammtaðan afgreiðslutíma séu ákveðnar samræmingarbreytur (coordination parameters) fyrir úthlutun afgreiðslutíma, að teknu tilliti til allra viðeigandi tækni, rekstrar- og umhverfistakmarkana og breytinga á þeim. Þetta skal gert tvisvar á ári og byggjast á hlutlægri rannsókn á möguleikunum á því að anna flugumferð að teknu tilliti til umferðar af öðrum toga um viðkomandi flugvöll, þess hve mikilli umferðarþröng má búast við í lofti á samræmingartímabilinu og afkasta­getunnar. Breyturnar skulu sendar samræmingarstjóra flugvallarins með góðum fyrirvara áður en fyrsta úthlutun afgreiðslutíma fer fram vegna ráðstefna um áætlanagerð.

Samræmingarstjóri skal, með hliðsjón af 1. mgr. og ef Flugmálastjórn Íslands gerir það ekki, skilgreina viðeigandi millibil samræmingartíma að höfðu samráði við samræmingar­nefndina og í samræmi við ákvarðaða afkastagetu.

Ræða skal ítarlega þá aðferðarfræði og það hvernig breytur eru ákvarðaðar og breyt­ingar þar á, í samræmingarnefndinni. Það skal haft að leiðarljósi hvernig auka megi afkasta­getu og fjölga afgreiðslutímum til úthlutunar áður en lokaákvörðun um breytur fyrir úthlutun afgreiðslutíma er tekin. Öll viðeigandi skjöl skulu vera aðgengileg hags­munaaðilum óski þeir eftir því.

7. gr.

Upplýsingar fyrir samráðsstjóra og samræmingarstjóra.

Flugrekendur, sem starfa eða hyggjast starfa á flugvelli með afgreiðslutíma eftir samráði eða flugvelli með skammtaðan afgreiðslutíma, skulu senda samráðsstjóra eða samræmingar­stjóra allar viðeigandi upplýsingar sem þeir óska eftir. Allar viðeigandi upplýsingar skulu gefnar með því sniði og innan þeirra tímamarka sem samráðsstjóri eða samræmingarstjóri tilgreina. Þegar flugrekandi óskar eftir úthlutun skal hann einkum upplýsa samræmingarstjóra um það hvort hann myndi njóta góðs af því að teljast nýr aðili í samræmi við b-lið 2. gr. Fyrir alla aðra flugvelli, sem ekki hafa ákveðna flokkunarstöðu, skal framkvæmdastjórn flugvallarins veita samræmingarstjóra allar upplýsingar, sem hún býr yfir, um fyrirhugaða þjónustu flugrekenda, óski hann eftir því.

Láti flugrekandi hjá líða að veita upplýsingarnar, sem um getur í 1. mgr., og geti hann ekki sýnt fram á aðstæður sem réttlæta það, eða veitir rangar eða misvísandi upplýsingar, skal samræmingarstjóri ekki taka tillit til umsóknar eða umsókna þess flugrekanda um afgreiðslutíma þar sem viðkomandi upplýsingar vantar, eru rangar eða misvísandi. Samræmingarstjóri skal gefa flugrekandanum tækifæri á að leggja fram athugasemdir.

Samráðsstjóri eða samræmingarstjóri, framkvæmdastjórn flugvallarins og yfirstjórn flugstjórnarþjónustu skulu skiptast á öllum upplýsingum sem eru nauðsynlegar til að þau geti framfylgt skyldum sínum, þ.m.t. fluggögn og afgreiðslutímar.

8. gr.

Úthlutun afgreiðslutíma.

Röðum afgreiðslutíma er úthlutað úr heildarskrá afgreiðslutíma til flugrekenda, sem sækja um þær, sem heimildum til að nota aðstöðu flugvallarins til lendingar eða flugtaks á áætlunartímabilinu sem sótt er um og við lok tímabilsins skulu þær færðar aftur í heildarskrána í samræmi við ákvæði 12. gr.

Með fyrirvara um 7. gr., 9. gr., 11. gr., 12. gr. (1. mgr.) og 15. gr., skal 1. mgr. þessarar greinar ekki gilda ef eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:

flugrekandi hefur notað röð afgreiðslutíma til að starfrækja reglubundið áætlunar­flug og skipulagt leiguflug, og
flugrekandi getur sýnt samræmingarstjóra fram á, svo honum þyki fullnægjandi, að hann hafi nýtt a.m.k. 80% viðkomandi raðar afgreiðslutíma, samkvæmt fyrirmælum samræmingarstjóra, á áætlunartímabilinu sem henni var úthlutað fyrir.

Í því tilviki skal þessi röð afgreiðslutíma veita viðkomandi flugrekanda rétt á sömu röð afgreiðslutíma á næsta samsvarandi áætlunartímabili, ef flugrekandinn óskar eftir því innan þeirra tímamarka sem um getur í 1. mgr. 7. gr.

Þegar ekki er unnt að verða við öllum umsóknum viðkomandi flugrekenda um afgreiðslu­tíma skal atvinnuflug njóta forgangs, einkum reglubundið áætlunarflug og skipulagt leiguflug, sbr. þó 2. mgr. 12. gr. Ef um er að ræða umsóknir sem keppa hver við aðra innan sama þjónustuflokks skal starfsemi sem fer fram allt árið njóta forgangs.

Breyting á tímaáætlun raða afgreiðslutíma áður en eftirstandandi afgreiðslutímum er úthlutað úr heildarskránni, sem um getur í 12. gr., til annarra flugrekenda sem sækja um, skal aðeins samþykkt af rekstrarástæðum eða ef tímasetning afgreiðslutíma flug­rekend­anna, sem sækja um, yrði endurbætt í samanburði við þá tímasetningu sem upphaflega var sótt um. Hún skal ekki taka gildi fyrr en skýrt samþykki samræmingar­stjóra fæst.

Samræmingarstjóri skal einnig taka tillit til viðbótarreglna og -leiðbeininga sem settar eru í loftflutningageiranum á heimsvísu eða á Evrópska efnahagssvæðinu sem og stað­bundinna leiðbeininga sem samræmingarnefndin leggur til og framkvæmdastjórn flug­vallar samþykkir að því tilskildu að slíkar reglur og leiðbeiningar hafi ekki áhrif á sjálfstæði samræmingarstjórans, samræmist lögum og reglum og hafi það að markmiði að bæta skilvirkni í nýtingu á afkastagetu flugvallarins. Framkvæmdastjórn flugvallar skal senda Flugmálastjórn Íslands og samgönguráðuneytinu þær staðbundnu leiðbeiningar sem samþykktar eru, sem og breytingar á þeim, til kynningar.

Ef ekki er hægt að verða við umsókn um afgreiðslutíma skal samræmingarstjóri upplýsa flugrekandann, sem sækir um, um ástæðurnar fyrir því og benda á næsta fáanlega afgreiðslutíma.

Samræmingarstjóri skal, til viðbótar við skipulagða úthlutun afgreiðslutíma fyrir áætlunar­tímabilið, leitast við að verða við umsóknum um staka afgreiðslutíma með stuttum fyrirvara fyrir allar gerðir flugs, þ.m.t. almannaflug. Í þessu skyni má nota afgreiðslutíma sem eftir eru í heildarskránni, sem um getur í 12. gr., að lokinni dreifingu til flugrekenda, sem sækja um, og afgreiðslutíma sem eru fáanlegir með stuttum fyrirvara.

9. gr.

Hreyfanleiki afgreiðslutíma.

Afgreiðslutíma má:

  1. flugrekandi færa frá einni leið eða tegund þjónustu til annarrar leiðar eða tegundar þjónustu sem hann starfrækir,
  2. færa:
    1. milli móður- og dótturfélaga og milli dótturfélaga sama móðurfélags,
    2. sem hluta af yfirtöku eigin fjár flugrekanda,
    3. við yfirtöku að hluta eða í heild þegar afgreiðslutímarnir tengjast beint flugrekandanum sem er yfirtekinn,
  3. skipta fyrir annan á milli flugrekenda.

Færslan eða skiptin, sem um getur í 1. mgr., skulu tilkynnt samræmingarstjóra og þau skulu ekki taka gildi fyrr en skýrt samþykki samræmingarstjóra fæst. Samræmingarstjóri skal neita að samþykkja færslurnar eða skiptin ef þau samræmast ekki kröfum þessarar reglugerðar og ef samræmingarstjóri er ekki sannfærður um:

  1. að flugvallarreksturinn verði ekki fyrir neikvæðum áhrifum, að teknu tilliti til allra tækni-, rekstrar- og umhverfistakmarkana,
  2. að takmarkanir, sem eru settar í samræmi við 11. gr., séu virtar,
  3. að færsla afgreiðslutíma falli ekki innan gildissviðs 3. mgr. þessarar greinar.

Eftirfarandi gildir jafnframt um afgreiðslutíma:

  1. Afgreiðslutíma, sem úthlutað er til nýs aðila, eins og hann er skilgreindur í b-lið 2. gr., er óheimilt að færa, eins og kveðið er á um í b-lið 1. mgr. þessarar greinar, næstu tvö samsvarandi áætlunartímabil nema um sé að ræða löglega yfirtöku á starfsemi gjaldþrota fyrirtækis.
  2. Ekki má færa afgreiðslutíma, sem úthlutað er nýjum aðila, eins og hann er skilgreindur í ii- og iii-lið b-liðar 2. gr., yfir á aðra leið, eins og kveðið er á um í a-lið 1. mgr. þessarar greinar, næstu tvö samsvarandi áætlunartímabil nema nýi aðilinn njóti sama forgangs á nýju leiðinni og upphaflegu leiðinni.
  3. Nýjum aðila, eins og hann er skilgreindur í b-lið 2. gr., er óheimilt að skipta við annan, eins og kveðið er á um c-lið 1. mgr. þessarar greinar, á afgreiðslutímum sem honum hefur verið úthlutað í tvö samsvarandi áætlunartímabil nema til að bæta tímasetningu afgreiðslutíma þessarar þjónustu í samanburði við þá tíma­setningu sem upphaflega var sótt um.

10. gr.

Útilokun bótakrafna.

Rétturinn til að raða afgreiðslutíma, sem um getur í 2. mgr. 8. gr., skal ekki hafa í för með sér rétt til skaðabóta vegna takmarkana, hamla eða afnáms hans samkvæmt lögum og reglum, einkum við beitingu reglna samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði er varða loftflutninga. Þessi reglugerð hefur ekki áhrif á vald opinberra yfirvalda til að krefjast færslu afgreiðslutíma milli flugrekenda og til að stjórna hvernig þeim er úthlutað í samræmi við innlend samkeppnislög eða 52. gr. samningsins um Evrópska efna­hags­svæðið eða reglugerða um eftirlit með samfylkingum fyrirtækja.

Samræmingarstjóri verður ekki gerður bótaskyldur vegna þeirra ráðstafana sem grípa þarf til og tengjast störfum hans samkvæmt þessari reglugerð nema í þeim tilvikum þegar um er að ræða stórfellt gáleysi eða misferli af hans hálfu.

11. gr.

Kvaðir um opinbera þjónustu.

Þar sem kvaðir um opinbera þjónustu hafa verið lagðar á flugleið í samræmi við reglur um markaðsaðgang flugrekenda á Evrópska efnahagssvæðinu er samgönguráðherra heimilt að óska eftir því við samræmingarstjóra flugvallar með skammtaðan afgreiðslu­tíma að tekinn verði frá nauðsynlegur afgreiðslutími fyrir fyrirhugaðan rekstur á þeirri leið. Ef fráteknir afgreiðslutímar fyrir þessa leið eru ekki notaðir skal hver sá flugrekandi fá þá sem hefur áhuga á að starfrækja leiðina í samræmi við kvaðir um opinbera þjónustu, sbr. þó 2. mgr. Ef enginn annar flugrekandi hefur áhuga á að starfrækja leiðina og samgönguráðuneytið býður hana ekki út samkvæmt reglum um markaðsaðgang flugrekenda á Evrópska efnahagssvæðinu skulu afgreiðslutímarnir annaðhvort fráteknir fyrir aðra leið sem heyrir undir kvaðir um opinbera þjónustu, eða færðir aftur í heildarskrána.

Beita skal útboðsferlinu, sem komið er á samkvæmt reglum um markaðsaðgang flug­rekenda á Evrópska efnahagssvæðinu, til að ákvarða nýtingu afgreiðslutímanna, sem um getur í 1. mgr. hér að framan, ef fleiri en einn flugrekandi á Evrópska efna­hags­svæðinu hefur áhuga á að starfrækja sömu flugleið en hefur ekki fengið afgreiðslutíma innan klukkutíma fyrir eða eftir afgreiðslutímann sem sótt var um hjá samræmingarstjóra.

12. gr.

Heildarskrá afgreiðslutíma.

Samræmingarstjóri skal setja saman heildarskrá yfir alla afgreiðslutíma sem ekki er úthlutað á grundvelli 2. og 4. mgr. 8. gr. Allur laus afgreiðslutími sem er ákvarðaður í samræmi við 3. mgr. 3. gr. skal settur í heildarskrána.

Röð afgreiðslutíma, sem flugrekanda hefur verið úthlutað til að stunda reglubundið áætlunar­flug eða skipulagt leiguflug, skal ekki veita flugrekandanum rétt á sömu röð afgreiðslu­tíma á næsta samsvarandi áætlunartímabili nema flugrekandinn geti sýnt samræmingar­stjóra fram á að viðkomandi flugrekandi hafi nýtt, skv. fyrirmælum samræmingar­stjóra, a.m.k. 80% af þeim tíma á áætlunartímabilinu sem honum var úthlutað fyrir.

Afgreiðslutímar, sem flugrekanda er úthlutað fyrir 31. janúar vegna komandi sumar­áætlunar eða fyrir 31. ágúst vegna komandi vetraráætlunar en skilar til samræmingar­stjóra til endurúthlutunar fyrir þessar dagsetningar, teljast ekki með við útreikning á nýtingu.

Ef ekki er unnt að sýna fram á 80% nýtingu á röð afgreiðslutíma skulu allir afgreiðslu­tímar í þeirri röð færðir í heildarskrána nema unnt sé að réttlæta skortinn á nýtingunni með einhverri af eftirfarandi ástæðum:

  1. ófyrirsjáanlegar og óhjákvæmilegar aðstæður sem flugrekandi ræður ekki við og hafa í för með sér:
    1. flugbann á þá tegund loftfars sem venjulega er notað á viðkomandi flugleið,
    2. lokun flugvallar eða loftrýmis,
    3. alvarlega röskun á starfsemi viðkomandi flugvalla, þ.m.t. á þeim röðum afgreiðslutíma á öðrum flugvöllum hins Evrópska efnahagssvæðis sem tengjast flugleiðum sem verða fyrir áhrifum af slíkri röskun, á umtals­verðum hluta viðkomandi áætlunartímabils,
  2. truflun á flugþjónustu vegna aðgerða sem ætlað er að hafa áhrif á þjónustuna og valda því að það er óframkvæmanlegt og/eða tæknilega ógjörlegt fyrir flug­rekandann að sinna rekstri eins og áætlað var,
  3. alvarlegt fjárhagslegt tjón hlutaðeigandi flugrekanda á hinu Evrópska efna­hags­svæði sem hefur í för með sér veitingu tímabundins rekstrarleyfis af hálfu leyfis­yfirvalda á meðan fram fer fjárhagsleg endurskipulagning flug­rekandans í samræmi við ákvæði reglugerðar um veitingu flugrekstrarleyfa,
  4. málarekstur fyrir dómstólum varðandi beitingu 11. gr. vegna flugleiða sem kvaðir um opinbera þjónustu hafa verið lagðar á, í samræmi við reglur um markaðs­aðgang flugrekenda á Evrópska efnahagssvæðinu, og sem leiðir til tímabundinnar stöðvunar á starfrækslu slíkra leiða.

Eftirlitsstofnun EFTA skal, óski aðildarríki eftir því eða að eigin frumkvæði, rannsaka hvernig samræmingarstjóri flugvallar sem fellur undir gildissvið þessarar reglugerðar, beitir 4. mgr. Hún skal taka ákvörðun innan tveggja mánaða frá móttöku beiðninnar.

Með fyrirvara um 2. mgr. 8. gr. þessarar reglugerðar og reglur um markaðsaðgang flugrekenda á Evrópska efnahagssvæðinu skal afgreiðslutímum, sem færðir eru inn í heildarskrána, deilt niður á flugrekendur sem hafa sent inn umsóknir. Fyrst skal 50% afgreiðslutímanna úthlutað til nýrra aðila nema hlutfall umsókna frá nýjum aðilum nái ekki 50%. Samræmingarstjóri skal meðhöndla umsóknir nýrra aðila og annarra flug­rekenda af sanngirni og í samræmi við samræmingartímabil hvers áætlunardags. Þeir flugrekendur, sem uppfylla skilyrði um stöðu nýs aðila samkvæmt i- og ii-lið b-liðar 2. gr. eða i- og iii-lið b-liðar 2. gr., skulu njóta forgangs meðal umsækjenda í hópi nýrra aðila.

Ef nýr aðili hafnar boði um röð afgreiðslutíma innan klukkustundar fyrir eða eftir um­beðinn tíma skal hann ekki halda stöðu sinni sem nýr aðili á því áætlunartímabili.

Ef um er að ræða þjónustu sem hópur flugrekenda starfrækir getur aðeins einn flug­rekendanna í hópnum sótt um afgreiðslutíma. Flugrekandi, sem starfrækir slíka þjónustu, tekur ábyrgð á því að uppfylla nauðsynlegar rekstrarviðmiðanir til að halda sögulega fordæminu sem um getur í 2. mgr. 8. gr. Annar flugrekandi eða flugrekendur, sem taka þátt í sameiginlegum rekstri, mega nota afgreiðslutíma sem einum þeirra er úthlutað að því tilskildu að flugnúmer flugrekandans, sem er úthlutað afgreiðslutímunum, sé áfram á sameiginlega fluginu m.t.t. samræmingar og eftirlits. Þegar slíkum rekstri er hætt skulu afgreiðslutímarnir, sem þannig voru notaðir, áfram tilheyra flugrekandanum sem var upphaflega úthlutað þeim. Flugrekendur, sem taka þátt í sameiginlegum rekstri, skulu greina samræmingarstjórum frá fyrirkomulagi slíks rekstrar áður en hann hefst.

Ef alvarleg vandamál halda áfram að koma upp hjá nýjum aðilum skal Flugmálastjórn Íslands sjá til þess að boðað verði til fundar í samræmingarnefnd flugvallarins. Tilgangur fundarins skal vera að kanna möguleika til úrbóta. Eftirlitsstofnun EFTA skal boðið að sitja fundinn.

13. gr.

Kvartanir og áfrýjunarréttur.

Með fyrirvara um áfrýjunarrétt samkvæmt stjórnsýslulögum, skulu kvartanir varðandi beitingu 2. mgr. 7. gr., 8. gr., 9. gr., 12. gr. og 1. – 4. mgr. og 6. mgr. 15. gr. sendar samræmingarnefndinni. Nefndin skal taka málið til athugunar innan mánaðar frá því að kvörtunin er lögð fram og, ef því verður við komið, leggja tillögur fyrir samræmingar­stjórann um úrbætur. Ef vandinn verður ekki leystur getur Flugmálastjórn Íslands leitað sátta með viðeigandi samtökum fulltrúa flugrekenda eða flugvalla eða annars þriðja aðila innan tveggja mánaða til viðbótar.

Náist ekki sátt samkvæmt 1. mgr. innan tveggja mánaða frá því sáttameðferð hófst, er heimilt að kæra ágreining til samgönguráðherra.

Ákvarðanir um tilnefningu flugvalla samkvæmt 3. gr. eru kæranlegar til fastanefndar EFTA.

14. gr.

Tengsl við þriðju lönd.

Þegar útlit er fyrir, við úthlutun og nýtingu afgreiðslutíma á flugvöllum, að þriðja land:

  1. veiti flugrekendum á hinu Evrópska efnahagssvæði ekki sambærilega meðferð við þá sem þessi reglugerð veitir flugrekendum frá viðkomandi landi eða
  2. veiti flugrekendum á hinu Evrópska efnahagssvæði ekki í reynd sams konar meðferð og innlendum aðilum eða
  3. veiti flugrekendum frá öðrum þriðju löndum hagstæðari meðferð en flugrekendum á hinu Evrópska efnahagssvæði,

er samgönguráðherra heimilt að ákveða að gerðar skuli ráðstafanir, þ.m.t. að fresta tímabundið beitingu þessarar reglugerðar að hluta eða í heild að því er varðar flug­rekanda eða flugrekendur í viðkomandi þriðja landi með það að markmiði að ráða bót á mismunun þriðja landsins sem um ræðir. Samráð skal haft við aðildarríki EES-samningsins í gegnum sameiginlegu EES-nefndina.

Samgönguráðuneytið skal tilkynna framkvæmdastjórn viðkomandi flugvallar um ákvörðun sína að loknu samráðsferli.

15. gr.

Framkvæmd.

Þar til bær rekstrarstjórn flugumferðar, getur hafnað flugáætlun flugrekanda sem hyggst lenda eða taka á loft frá flugvelli með skammtaðan afgreiðslutíma á þeim tíma þegar afgreiðslutími er skammtaður, án þess að samræmingarstjórinn hafi úthlutað honum afgreiðslutíma.

Samræmingarstjóri skal draga til baka röð afgreiðslutíma sem flugrekanda, sem stefnir að starfrækslu, hefur verið úthlutað til bráðabirgða og færa í heildarskrá 31. janúar fyrir komandi sumaráætlun eða 31. ágúst fyrir komandi vetraráætlun ef fyrirtækið er ekki komið með flugrekstrarleyfi eða sambærilegt leyfi á þessum dögum eða ef þar til bært eftirlitsstjórnvald hefur ekki tilkynnt að líklegt sé að flugrekstrarleyfi eða sambærilegt leyfi verði gefið út áður en viðkomandi áætlunartímabil hefst.

Samræmingarstjóri skal afturkalla og færa í heildarskrá raðir afgreiðslutíma flugrekanda, sem fengið hefur þær í skiptum samkvæmt c-lið 1. mgr. 9. gr., ef þær hafa ekki verið notaðar eins og til var ætlast.

Flugrekendur, sem ítrekað og af ásetningi starfrækja flugstarfsemi sína á tímum sem eru verulega frábrugðnir þeim afgreiðslutímum sem þeim er úthlutað, sem hluta af röð afgreiðslutíma, eða nota afgreiðslutímana á verulega frábrugðinn hátt frá því sem gefið var til kynna við úthlutun og raska þannig starfsemi flugvallarins eða flugumferðar, skulu tapa stöðu sinni eins og um getur í 2. mgr. 8. gr. Samræmingarstjóra er heimilt að ákveða að svipta flugrekanda viðkomandi röðum afgreiðslutíma það sem eftir er áætlunar­tímabilsins og setja þær í heildarskrá eftir að hafa veitt viðkomandi flugrekanda áheyrn og gefið honum eina viðvörun.

Flugrekendum er óheimilt að starfrækja flugstarfsemi, ítrekað og af ásetningi, á tímum sem eru verulega frábrugðnir úthlutuðum afgreiðslutímum eða nota afgreiðslutíma á verulega frábrugðinn hátt frá því sem gefið var til kynna við úthlutun, ef það raskar starfsemi flugvallarins eða flugumferðar.

Eftirfarandi gildir jafnframt um samræmingarstjóra:

  1. Ef flugrekandi nær ekki 80% nýtingarhlutfallinu, sem skilgreint er í 2. mgr. 8. gr., getur samræmingarstjóri ákveðið, með fyrirvara um 4. mgr. 12. gr., að afturkalla viðkomandi raðir afgreiðslutíma það sem eftir er áætlunartímabilsins og setja þær í heildarskrá eftir að hafa veitt viðkomandi flugrekanda áheyrn.
  2. Ef engir afgreiðslutímar úthlutaðra raða hafa verið notaðir að liðnum tíma sem svarar til 20% af gildistímabili raðanna skal samræmingarstjóri, með fyrirvara um 4. mgr. 12. gr., setja viðkomandi raðir afgreiðslutíma í heildarskrá það sem eftir er áætlunartímabilsins eftir að hafa veitt viðkomandi flugrekanda áheyrn.

16. gr.

Skýrsla og samvinna.

Flugmálastjórn Íslands og Eftirlitsstofnun EFTA skulu starfa saman við beitingu þessarar reglugerðar einkum að því er varðar söfnun upplýsinga fyrir skýrslu sem send skal framkvæmdastjórn Evrópusambandsins varðandi framkvæmd ákvæða 8. gr., 9. gr. og 12. gr.

17. gr.

Innleiðing gerða.

Með reglugerð þessari öðlast gildi eftirfarandi reglugerðir ráðsins með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af XIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og bókun 1 um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum hans:

  1. Reglugerð ráðsins (EBE) nr. 95/93 frá 18. janúar 1993 um sameiginlegar reglur um úthlutun afgreiðslutíma á bandalagsflugvöllum, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 7/94;
  2. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 793/2004 frá 21. apríl 2004 um breytingu á reglugerð ráðsins (EBE) nr. 95/93 um sameiginlegar reglur um út­hlutun afgreiðslutíma á bandalagsflugvöllum, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 154/2004.

18. gr.

Viðurlög.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða refsingu samkvæmt 141. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum.

19. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 1. mgr. 57. gr. c, 3. mgr. 76. gr., sbr. 145. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum og öðlast þegar gildi.

Jafnframt fellur úr gildi 2. liður (64b.) auglýsingar nr. 439/1994 um gildistöku ákvæða er leiða af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið vegna flugmála og reglugerð nr. 42/2007 um gildistöku reglugerðar Evrópusambandsins og ráðsins (EB) nr. 793/2004 frá 21. apríl 2004 um breytingu á reglugerð ráðsins (EBE) nr. 95/93 um sameiginlegar reglur um úthlutun á afgreiðslutíma á bandalagsflugvöllum.

Samgönguráðuneytinu, 30. október 2008.

Kristján L. Möller.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

    B deild - Útgáfud.: 18. nóvember 2008