Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 924/2007

Nr. 924/2007 24. september 2007
REGLUR
um breytingar á reglum nr. 880/2005 um málsmeðferð Samkeppniseftirlitisins.

1. gr.

11. gr. orðist svo:

Tilkynning um upphaf máls, skrifleg málsmeðferð o.fl.

Ákveði Samkeppniseftirlitið að taka mál til meðferðar skal þeim aðila sem málið beinist að, fyrirtæki eða stjórnvaldi, skýrt frá efni þess og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og skýringum, nema hætta sé á að rannsókn kunni að torveldast af þeim sökum, t.d. þegar til álita kemur að beita heimild 20. gr. samkeppnislaga.

Málsmeðferð fyrir Samkeppniseftirlitinu skal vera skrifleg. Ef ástæða þykir til getur Samkeppniseftirlitið heimilað aðila máls að gera munnlega grein fyrir meginatriðum í rituðum athugasemdum hans á fundi með Samkeppniseftirlitinu.  

2. gr.

12. gr. orðist svo:

Fyrirsvar og aðild.

Feli aðili máls lögmanni að annast fyrirsvar í máli fyrir sína hönd, skal hann framvísa yfirlýsingu um umboð til handa viðkomandi lögmanni. Skal hún undirrituð af forstjóra, framkvæmdastjóra, stjórnarformanni eða öðrum þar til bærum fyrirsvarsmanni þess sem aðild á að málinu og viðkomandi lögmanni. Skal í yfirlýsingunni staðfest að aðili máls og lögmaður hafi kynnt sér efni þessarar greinar.

Nema annað sé sérstaklega tekið fram í yfirlýsingu skv. 1. mgr. lítur Samkeppniseftirlitið á hana sem fyrirvaralaust og óskilyrt umboð til handa viðkomandi lögmanni til að koma fram gagnvart Samkeppniseftirlitinu fyrir hönd aðilans þannig að eftirlitið megi líta á sérhverja yfirlýsingu eða athöfn lögmannsins sem yfirlýsingu eða athöfn aðilans. Sé aðili máls hluti af fyrirtækjasamstæðu lítur Samkeppniseftirlitið svo á, nema annað sé sérstaklega tekið fram í yfirlýsingu skv. 1. mgr., að umboð lögmanns nái til annarra félaga innan sömu fyrirtækjasamstæðu.

Aðila máls og lögmanni ber án tafar að tilkynna Samkeppniseftirlitinu um hvers konar breytingar á fyrirsvari aðila eða umboði lögmanns. Erindum telst réttilega beint til lögmanns þangað til að slík tilkynning hefur borist Samkeppniseftirlitinu.

Hafi aðili máls ekki gefið yfirlýsingu skv. 1. mgr., efni hennar er áfátt, eða upplýsingagjöf skv. 2. og 3. mgr. ekki fullnægjandi, hefur Samkeppniseftirlitið milliliðalaus samskipti við aðila málsins.

Samkeppniseftirlitið getur átt milliliðalaus samskipti við aðila máls, þrátt fyrir að full­nægjandi yfirlýsing skv. 1. mgr. liggi fyrir. Í þessum tilvikum sendir Samkeppniseftirlitið afrit formlegra erinda jafnframt til lögmanns aðila.

Telji aðili að breytingar sem átt hafa sér stað undir rekstri málsins, t.d. á eignarhaldi hans, geti haft áhrif á aðild hans að málinu, skal tilkynna um þær án tafar.

3. gr.

Við 3. mgr. 17. gr. bætist nýr málsliður sem orðast svo:

Í málum sem rekin eru á grundvelli 17. gr. samkeppnislaga er þó heimilt að veita skemmri frest en tvær vikur til að koma að athugasemdum, sbr. og 2. mgr. 13. gr. reglna þessara.

4. gr.

Við 24. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

Samkeppniseftirlitinu er heimilt að fylgja eftir áður útgefnum álitum með fyrirspurnum til þess sem álitið beindist að. Svör við slíkum fyrirspurnum skulu að jafnaði birt á heima­síðu eftirlitsins.

5. gr.

2. mgr. 25. gr. fellur brott.

6. gr.

Viðauki við reglurnar tekur svohljóðandi breytingum:

  1. 2. málsliður 1. mgr. fellur brott.
  2. Við viðaukann bætist nýr tölul. sem verður 6. tölul. og orðast svo:
    Feli sá sem beinir erindi til Samkeppniseftirlitsins lögmanni að annast fyrirsvar í málinu fyrir sína hönd, skal yfirlýsing um umboð til handa viðkomandi lögmanni fylgja erindinu. Yfirlýsingin skal vera í samræmi við 12. gr. reglna um máls­meðferð Samkeppniseftirlitsins.
  3. 6. tölul. viðauka við reglurnar verður 7. tölul. Lokamálsliður hins nýja 7. tölul. tekur svohljóðandi breytingum:

Undirritaðir hafa kynnt sér ákvæði 41. gr. b. samkeppnislaga.

7. gr.

Reglur þessar eru settar með heimild í 2. mgr. 8. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 og öðlast gildi við birtingu.

Samkeppniseftirlitinu, 24. september 2007.

Páll Gunnar Pálsson.

B deild - Útgáfud.: 11. október 2007