Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 470/2015

Nr. 470/2015 8. maí 2015

REGLUR
um mat á umsóknum um leyfi til að kalla sig byggingafræðing.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og Byggingafræðingafélag Íslands hafa komið sér saman um að miða við eftir­farandi reglur við mat á umsóknum um leyfi til að kalla sig bygg­inga­fræðing, sbr. 1.-3. gr. laga nr. 8/1996, um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum, með síðari breytingum.

 1. gr.

Reglur þessar gilda um mat á umsóknum um leyfi til að nota starfsheitið bygginga­fræðingur. Byggingafræðingafélag Íslands er umsagnaraðili um hvort nám umsækj­anda sé fullnaðarmenntun í byggingafræði.

2. gr.

Sækja skal um leyfi til að kalla sig byggingafræðing til þess ráðuneytis sem fer með lög um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum, nr. 8/1996. Umsókn­inni skal fylgja staðfest yfirlit yfir námsferil (einkunnir) og frumrit af prófskírteinum eða staðfest ljósrit.

Ráðuneytið áframsendir umsóknir til umsagnar Byggingafræðingafélags Íslands. Séu fylgi­gögn ófullnægjandi eða umsókn að öðru leyti ábótavant skal fulltrúi stjórnar Bygg­inga­fræðinga­félags Íslands upplýsa ráðuneytið um það hið fyrsta og útskýra hvaða gögn vanti svo gefa megi umsögn.

3. gr.

Eftirfarandi skilyrði þarf að uppfylla til að fá leyfi til að nota starfsheitið byggingafræðingur:

Lokið sé með prófgráðu námi við háskóla eða tækniháskóla sem stjórn Byggingafræðinga­félags Íslands telur færa um að veita fullnægjandi menntun. Prófgráðan skal að námslengd og efnis­legri samsetningu vera sambærileg BSc prófi í byggingafræði frá viðurkenndum háskóla á Íslandi og fullnægja eftirfarandi lágmarkskröfum:

  a) Undirstöðugreinar byggingafræði (125 ECTS einingar).
  b) Valnámsþættir og sérhæfðar ritgerðir (10-35 ECTS einingar).
  c) Starfsþjálfun (15-30 ECTS einingar).
  d) Lokaverkefni (20 ECTS einingar).

Heildarlengd náms skal eigi vera styttri en þrjú og hálft ár og telja 210 ECTS einingar í heild.

Undirstöðugreinar byggingafræðináms snerta m.a. á eftirfarandi viðfangsefnum:

Samskipti, samstarf, aðferðafræði, upplýsingatækni.
Hagnýt eðlis- og efnafræði byggingarefna, burðarþol mannvirkja.
Landmælingar, jarðtækni.
Hönnun, viðgerðir og viðhald mannvirkja, brunaþol, hljóðvist, aðgengismál.
Hitunarfræði og lagnir, loftræsing, orkurammi bygginga.
Vistvæn hönnun og orkunýting.
Fyrirtækjarekstur, stjórnsýsla, lögfræði.
Framleiðsla, skipulag á byggingasvæði, verkefnisstjórnun, eftirlit.
Gerð tíma-, fjárhags- og rekstraráætlana, verksamningar, útboð byggingaverkefna.

Að námi loknu ætti viðkomandi að þekkja ferli hönnunar og framkvæmdar mannvirkja og geta skipulagt, stjórnað og sinnt verkefnum innan þess sviðs sjálfstætt og í samstarfi við aðra.

 4. gr.

Framkvæmdastjóri Byggingafræðingafélags Íslands (eða annar kjörinn fulltrúi stjórnar) fer yfir umsóknir sem berast frá ráðuneytinu og sendir jákvæðar umsagnir til baka sýni fylgi­gögn með ótvíræðum hætti fram á að umsækjandi hafi lokið prófi í viðeigandi námi frá skóla sem félagið þekkir og viðurkennir. Eftirtaldir skólar og námstitlar eru meðal þeirra: 

Land Skóli Námstitill Námsgráða
Ísland Háskólinn í Reykjavík (HR) Byggingafræði BSc í byggingafræði
Danmörk

Erhvervsakademi Sjælland (EASJ), Næstved

Københavns Erhvervsakademi (KEA), Kaupmannahöfn

Erhvervsakademiet Lillebælt (EAL)‚ Óðinsvéum

Erhvervsakademi SydVest (EASV), Esbjerg

Erhvervsakademi Aarhus (EAAA), Árósum (sameinast VIA 2016)

University College Nordjylland (UCN), Álaborg

VIA University College (VIAUC), Horsens/Árósum/Holsterbro

Bygningskonstruktør

Námstitill á ensku:
Constructing 
Architect

Professionsbachelor i bygningskonstruktion

Námsgráða á ensku:
Bachelor of Architectural Technology and Construction Management.

Hafi umsækjandi lokið prófi, í námi eða frá skóla sem félagið þekkir ekki, er umsókn tekin sérstaklega fyrir á fundi stjórnar Byggingafræðingafélags Íslands og lagt hlutlaust mat á hana út frá þeim kröfum sem fram koma í reglum þessum.

Ef umsögn stjórnar Byggingafræðingafélags Íslands er jákvæð ber henni að mæla með því við ráðherra að umsækjandi fái leyfi ráðherra til að kalla sig byggingafræðing.

Ef umsögn stjórnar Byggingafræðingafélags Íslands er neikvæð ber henni að mæla gegn því að umsækjandi fái leyfi ráðherra til að kalla sig byggingafræðing. Telji stjórnin að synja beri umsækjanda um leyfi skal rök­styðja þá ákvörðun.

Framkvæmdastjóri Byggingafræðingafélags Íslands (eða annar kjörinn fulltrúi stjórnar) til­kynnir ráðuneytinu umsögn félagsins. Leitast skal við að svara erindum frá ráðuneytinu svo skjótt sem verða má og eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að umsögn ásamt fullnægjandi fylgigögnum berst félaginu til umsagnar.

5. gr.

Reglur þessar voru samþykktar á aðalfundi Byggingafræðingafélags Íslands þann 30. apríl 2015.

 6. gr.

Reglur þessar eru settar á grundvelli 3. gr. laga nr. 8/1996, um löggildingu nokkurra starfs­heita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum og öðlast gildi við birtingu í Stjórnar­tíðindum.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 8. maí 2015.

F. h. iðnaðar- og viðskiptaráðherra,

Kristján Skarphéðinsson.

 Ingvi Már Pálsson.

 


B deild - Útgáfud.: 22. maí 2015