Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 24/2015

Nr. 24/2015 19. janúar 2015
REGLUR
um inntöku nýnema og inntökupróf í hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands.

1. gr.

Ákvörðun um fjöldatakmörkun.

Heilbrigðisvísindasvið, fyrir hönd hjúkrunarfræðideildar, leggur árlega fyrir háskólaráð rök­studda tillögu um fjölda stúdenta sem hefja nám við hjúkrunarfræðideild á komandi skóla­ári. Skal erindi frá heilbrigðisvísindasviði þess efnis sent háskólaráði fyrir lok nóvember. Háskólaráð afgreiðir tillögur sviðsins eigi síðar en í janúar.

2. gr.

Inntökupróf og próftökugjald.

Inntökupróf til að hefja grunnnám í hjúkrunarfræðideild er haldið í júní ár hvert fyrir nám sem hefst á næsta haustmisseri. Hjúkrunarfræðideild ákveður dagsetningu fyrir inntökupróf í samráði við kennslusvið. Deildinni er heimilt, að höfðu samráði við kennslusvið, að halda próf tvisvar sinnum á ári. Prófið er haldið á vegum Háskóla Íslands og í húsnæði á hans vegum.

Hjúkrunarfræðideild auglýsir inntökuprófið og birtir sérstaka lýsingu á því og framkvæmd þess ásamt upplýsingum um innbyrðis vægi inntökuprófs og veginnar meðaleinkunnar úr kjarna­greinum á stúdentsprófi á heimasíðu deildarinnar í síðasta lagi átta vikum fyrir áætlaðan prófdag.

Í samræmi við 2. mgr. 24. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla er heimilt að inn­heimta próftökugjald til að kosta gerð, fyrirlögn og yfirferð inntökuprófa. Ef ákveðið er að inn­heimta próftökugjald fer um fjárhæð þess og innheimtu samkvæmt sameiginlegum reglum fyrir Háskóla Íslands.

3. gr.

Markmið og innihald inntökuprófs.

Inntökuprófið er aðgangspróf fyrir háskólastig (A-próf). Kennslusvið Háskóla Íslands í sam­ráði við hjúkrunarfræðideild annast undirbúning þess og framkvæmd.

Markmið prófsins er að kanna hæfni stúdents til að hagnýta þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér í samræmi við markmið aðalnámskrár framhaldsskólanna.

Prófað er í eftirtöldum fimm þáttum: upplýsinganotkun, málfærni, les­skilningi á íslensku, lesskilningi á ensku og stærðum og reiknanleika.

4. gr.

Skráning til náms í hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands.

Nemendur sem hyggjast hefja nám í hjúkrunarfræðideild sækja um nám við deildina í sam­ræmi við almennar reglur Háskóla Íslands og ákvæði 9. gr. reglna nr. 319/2009 um inn­töku­skilyrði í grunnnám.

5. gr.

Fjöldatakmörkun og val á umsækjendum sem fá aðgang að hjúkrunarfræðideild.

Ef umsækjendur eru fleiri en fjöldatakmörkun samkvæmt 1. gr. kveður á um skal ákvörðun um inntöku nýnema byggð á frammistöðu í aðgangsprófi fyrir háskólastig annars vegar og veginni meðaleinkunn úr kjarnagreinum, íslensku, ensku og stærðfræði, í námi til stúdents­prófs hins vegar. Ef nemandi hefur ekki stúdentspróf en fullnægir engu að síður skil­yrð­um 9. gr. reglna nr. 319/2009 skal einvörðungu miðað við frammistöðu hans á inn­töku­prófi. Sama á við ef ekki er möguleiki á að reikna vegna meðaleinkunn úr kjarna­greinum á stúdentsprófi samkvæmt fyrirmælum 2. mgr., s.s. ef próf umsækjanda byggist ekki á einkunn eða einkunnum gefnum í tölum eða á grunni sambærilegs mæli­kvarða.

Einkunn fyrir frammistöðu á inntökuprófi er gefin á sérstökum einkunnastiga sem ákveðinn er fyrir það próf. Við ákvörðun um inntöku í BS-nám við hjúkrunarfræðideild gildir þessi frammistaða 70% og meðaleinkunn úr kjarnagreinunum íslensku, ensku og stærðfræði í námi til stúdentsprófs 30%.

Meðaleinkunn í kjarnagreinum stúdentsprófs byggist á vegnu meðaltali allra áfanga í íslensku, ensku og stærðfræði. Nefnd um inntöku nýnema, sbr. 6. gr., tekur ákvörðun ef beita þarf heimild 1. mgr. til að byggja einvörðungu á frammistöðu í inntökuprófi. Þegar meðal­einkunn kjarnagreina á stúdentsprófi hefur verið ákveðin er hún yfirfærð á sam­bæri­legan einkunnakvarða og notaður er í inntökuprófi fyrir háskólann og um­sækjendum að því loknu raðað samkvæmt 2. mgr.

Þeir umsækjendur sem bestum árangri ná á inntökuprófi að viðbættri veginni meðaleinkunn kjarnagreina á stúdentsprófi samkvæmt framangreindu fá aðgang að BS-námi við hjúkrunar­fræði­deild. Hafi umsækjandi tekið fleiri en eitt inntökupróf á síðustu 11 mánuðum áður en umsóknarfrestur rann út, sbr. heimildarákvæði í 2. gr., skal miða við síðasta próf sem umsækjandi tók.

Nemandi sem öðlast rétt til BS-náms við hjúkrunarfræðideild samkvæmt reglum þessum skal hefja námið þegar á næsta haustmisseri eftir að honum var veittur aðgangur að deildinni, ella missir hann réttinn. Ákvörðun um að taka nýnema inn í BS-nám við hjúkrunarfræðideild skal tilkynnt honum sérstaklega þegar niðurstaða liggur fyrir. Hafi nýnemi ekki staðfest innan tveggja vikna frá tilkynningu að hann muni hefja nám við deildina verður sætinu úthlutað til þess sem næstur er í röðinni, enda sé fjöldatakmörkun skv. 1. gr. ekki náð. Þiggi sá ekki sætið innan einnar viku verður þeim sem þá er næstur í röðinni boðið sæti, og þannig koll af kolli fram til 20. ágúst, en eftir þann tíma verða nýir nemar ekki teknir inn í deildina. Ef tveir eða fleiri nemendur eru jafnir í síðasta sæti, að teknu tilliti til fjöldatakmörkunar, öðlast báðir eða allir rétt til náms á haustmisseri.

6. gr.

Nefnd um inntöku nýnema.

Hjúkrunarfræðideild skipar þriggja manna nefnd um inntöku nýnema til að hafa eftirlit með framkvæmd inntökuprófsins, meta reynsluna af því og aðgangstakmörkunum og gera tillögur um úrbætur ef með þarf. Nefndin skal skipuð til þriggja ára í senn.

7. gr.

Gildistaka o.fl.

Reglur þessar um inntöku nýnema og inntökupróf í hjúkrunarfræðideild eru settar af háskóla­ráði með stoð í 3. mgr. 18. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla, sbr. og 11. mgr. 98. gr. reglna nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands með síðari breytingum.

Auk birtingar í B-deild Stjórnartíðinda skal birta reglurnar í kafla hjúkrunarfræðideildar í kennslu­skrá og á heimasíðu hjúkrunarfræðideildar.

Reglurnar öðlast þegar gildi. Með gildistöku þeirra falla úr gildi reglur um val stúdenta til náms í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands, nr. 502/2002.

Háskóla Íslands, 19. janúar 2015.

Kristín Ingólfsdóttir.

Þórður Kristinsson.

B deild - Útgáfud.: 20. janúar 2015