1. gr. Við 7. gr. bætist ný mgr. sem orðist svo: Rekstraraðili ber ábyrgð á að gerð sé skrifleg áætlun um öryggi gesta, sem felur í sér almennt áhættumat og áætlun um forvarnir, sem er hluti af innra eftirliti. Rekstraraðila ber að grípa til viðeigandi aðgerða í samræmi við niðurstöður áhættumatsins til að draga úr eða koma í veg fyrir aðstæður er ógna öryggi á sund- og baðstaðnum. Í „Öryggishandbók fyrir sund- og baðstaði“ sem nálgast má á heimasíðu Umhverfisstofnunar er að finna upplýsingar um gerð áhættumats og þau öryggisatriði sem taka þarf tillit til við gerð þess. 2. gr. 11. gr. orðist svo: Á sund- og baðstöðum skal vera til staðar neyðaráætlun, viðbragðsáætlun og öryggisreglur og skulu allir starfsmenn upplýstir um þær. Öryggisreglur skulu vera sýnilegar gestum. Þar skal jafnframt vera tiltækur viðurkenndur búnaður til skyndihjálpar. Skal sá búnaður yfirfarinn reglulega og starfsmenn, sundkennarar og sundþjálfarar þjálfaðir í notkun hans ásamt viðbrögðum við neyðartilvikum a.m.k. einu sinni á ári. Sund- og baðstaðir skulu hafa laugargæslu. Á sund- og baðstöðum skal ávallt vera laugargæsla meðan gestir eru í laug. Tryggja skal að starfsmenn sem sinna laugargæslu fylgist stöðugt með gestum í laugum og á laugarsvæði og hafi eftirlit og yfirsýn yfir alla hluta laugar og sinni ekki öðru starfi samhliða. Aðstaða starfsmanns sem sinnir laugargæslu skal tryggð með yfirsýn, öryggiskerfi t.d. myndavélum, speglum eða á annan fullnægjandi hátt. Við almenningslaugar allt að 25 x 12,50 metrar að stærð skal að minnsta kosti vera einn laugarvörður við laugargæslu við hverja sundlaug. Við laugar lengri en 40 m eða með flóknari uppbyggingu skal hafa minnst tvo laugarverði við laugargæslu við hverja sundlaug. Þá skal laugarvörður sérstaklega fylgjast með rennibrautalaugum og barnalaugum. Yfirmenn sund- og baðstaða skulu sérstaklega taka tillit til þessara þátta á mestu annatímum. Í innra eftirliti sund- og baðstaða skal skilgreina laugargæslu í hverri laug fyrir sig. Þrátt fyrir ákvæði 3. ml. 2. mgr. er á ákveðnum tímum í laugum allt að 25 m á lengd, heimilt að laugarvörður sinni störfum sem tiltekin eru í 3. ml. þessarar mgr. samhliða laugarvörslu, þó laugarvörðurinn sé einn á vakt við laugina. Þetta er þó einungis heimilt ef vakt og afgreiðsla eru í sama rými og yfirsýn úr rýminu er með þeim hætti að auðvelt er að fylgjast með gestum í laug um leið og afgreiðsla fer fram. Á meðan gestir eru í laug má laugarvörður ekki sinna öðrum störfum en þeim að selja aðgang ofan í laug eða tilfallandi störfum við laugarbakka þar sem yfirsýn yfir laugarsvæði er gott. Laugarvörður skal ávallt hafa á sér síma þannig að hægt sé að kalla til aðstoð með mjög stuttum fyrirvara. Heimildarákvæði þetta gildir einungis fyrir laugar þar sem gestafjöldi í laug er að meðaltali undir 10 gestum á ársgrundvelli á þeim tíma dags sem um ræðir og skulu gestir upplýstir um fyrirkomulag laugargæslu með því að tilgreina sérstaklega um fjölda laugarvarða á vakt hverju sinni við afgreiðslu. Ef fleiri en 20 gestir eru í laug í einu eða samsetning gesta kallar á aukna gæslu, skal kalla til auka laugarvörð. Rekstraraðili laugar þar sem þessi heimild er nýtt skal senda hlutaðeigandi heilbrigðisnefnd upplýsingar um fyrirkomulag laugar og tíma þann sem heimild þessi er nýtt. Við útgáfu eða endurskoðun á starfsleyfi skal skrá ef heimild er nýtt. Í laugum með sjálfvirkri skömmtun á klór skal laugarvörður hafa stöðuga yfirsýn yfir klór, hita- og sýrustig. Þar sem ekki er hægt að fylgjast með sjálfvirkri skömmtun klórs á skjá, skal laugarvörður fylgjast með skömmtuninni reglulega. 3. gr. Í stað 1,2 m í 1. ml. 1. mgr. 12. gr. komi: 1,5 m. 4. gr. 14. gr. orðist svo: Börnum sem ekki hafa náð 10 ára aldri, sbr. 4. ml., er óheimill aðgangur að sund- og baðstöðum nema í fylgd með syndum einstaklingi 15 ára eða eldri. Þeim sem er 15 ára og eldri er óheimilt að hafa fleiri en tvö börn með sér yngri en 10 ára, sbr. 4. ml., nema um sé að ræða foreldri eða þann sem fer með forsjá barnanna lögum samkvæmt. Ber viðkomandi að gæta í hvívetna að öryggi þeirra barna sem eru með honum á meðan þau eru í eða við laug. Ákvæði 1. og 2. ml. hvað varðar 10 ára aldursmörk gilda til 1. júní það ár sem barnið verður 10 ára. Um sundkennslu fer samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla. Dýpi þess svæðis laugar sem notað er við sundkennslu yngri barna en 8 ára og ósyndra skal vera á bilinu 0,70-1,05 m. Þar sem hópar barna undir 10 ára aldri eru saman komnir skulu ekki fleiri en 15 börn vera í umsjá hvers kennara eða ábyrgðarmanns hóps sem, ásamt laugarverði, er ábyrgur fyrir hópnum. Miða skal við að þeir sem starfa með eða hafa umsjón með börnum og ungmennum í æskulýðsstarfi séu lögráða og hafi þjálfun, menntun, þekkingu eða reynslu til starfsins, sbr. 1. mgr. 10. gr. æskulýðslaga nr. 70/2007. Til að auðvelda kennara eða ábyrgðarmanni hópa að fylgjast með hverju barni skulu hópar barna sérstaklega auðkenndir með áberandi lit á sundhettum, armböndum, vestum eða á annan sambærilegan hátt. Fyllsta öryggis skal gætt þegar komið er með hóp af börnum og unglingum í sund. Kennarar og ábyrgðarmenn hópa skulu kynna sér reglur sund- og baðstaða og aðstoða starfsfólk sund- og baðstaða við gæslu. Sundkennarar, sundþjálfarar og leiðbeinendur skulu ávallt gæta þess í samvinnu við starfsfólk sund- og baðstaða að nemendur fari ekki að laug á undan þeim. Sundkennarar, sundþjálfarar og leiðbeinendur skulu aldrei víkja frá laug fyrr en allir nemendur/iðkendur yngri en 15 ára eru farnir inn í búnings- eða baðklefa. Þau varúðaratriði sem hvíla á laugarverði hvíla einnig á kennara, þjálfara og leiðbeinanda varðandi nemendur og iðkendur. Laugar í einkaeigu með takmarkaðan aðgang eru undanþegnar ákvæði um stöðuga laugargæslu sbr. 1. mgr. 11. gr. Eiganda eða eftir atvikum rekstraraðila slíkra lauga ber að setja skýrar reglur um notkun laugar þegar laugargæsla er ekki til staðar. Ekki skulu færri en tveir syndir einstaklingar fara saman í laugina. Ekki má veita börnum og ósyndum einstaklingum aðgang að laug án fylgdar ábyrgðarmanns. Við þessar aðstæður skal vera til staðar búnaður til skyndihjálpar, sími eða neyðarrofi tengdur Neyðarlínu. Einstaklingum undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna er ekki heimill aðgangur að sund- og baðstöðum. Gestir sund- og baðstaða skulu í hvívetna hlýða fyrirmælum starfsmanna sundstaða varðandi öryggi og hollustuhætti. Laugarverði er heimilt að vísa gesti úr laug eða meina honum aðgang að laug telji laugarvörður það nauðsynlegt til að tryggja öryggi eða þegar gestur fer ekki að lögum og reglum. 5. gr. 15. gr. orðist svo: Eiganda sund- og baðstaðar er skylt að sjá til þess að starfsfólk fái reglulega starfsþjálfun eigi sjaldnar en árlega, þar með talin þjálfun í sérhæfðri skyndihjálp sem sérstaklega er ætluð sund- og baðstöðum og fræðslu um hreinlæti og hollustuhætti. Þeir starfsmenn sem vinna við meðferð tækja, þar með talin mælitæki, búnaðar og efna vegna hreinsunar vatnsins skulu árlega fá viðeigandi þjálfun í meðferð þeirra. Starfsmenn sem sinna laugargæslu, sundkennarar, sundþjálfarar og leiðbeinendur skulu hafa náð 18 ára aldri. Starfsmenn sem sinna laugargæslu skulu árlega standast hæfnispróf samkvæmt III. viðauka. Sundkennarar, sundþjálfarar og leiðbeinendur skulu standast hæfnispróf samkvæmt III. viðauka á tveggja ára fresti. Leiðbeinendur með gild réttindi til að leiðbeina í skyndihjálp og björgun skulu annast hæfnispróf skv. III. viðauka. Slík réttindi öðlast þeir sem hafa lokið leiðbeinendanámskeiði í skyndihjálp og tveggja daga leiðbeinendanámskeiði í björgun. Til að viðhalda réttindum sínum skal leiðbeinandi sækja endurmenntun fyrir leiðbeinendur í skyndihjálp og björgun á þriggja ára fresti. Heimilt er að leiðbeinendur leiti til íþróttakennara til að framkvæma prófatriði 1-3 í hæfnisprófi skv. III. viðauka. Að loknu námskeiði í sérhæfðri skyndihjálp fyrir sund- og baðstaði og hæfnisprófum skv. III. viðauka, skulu leiðbeinendur senda lista yfir þátttakendur sem hafa lokið sérhæfðu skyndihjálparnámskeiði fyrir sund- og baðstaði og þá er hafa staðist hæfnispróf samkvæmt III. viðauka, til viðkomandi heilbrigðiseftirlitssvæðis og til viðkomandi rekstraraðila sundstaðar þar sem starfsmaðurinn starfar. Listi frá leiðbeinendum um þá sem staðist hafa hæfnispróf skv. III. viðauka og starfa á sund- og baðstað, skulu vera starfsmönnum heilbrigðiseftirlits aðgengileg við eftirlit. Við 3. mgr., sem verður 7. mgr., bætist við nýr málsliður sem orðast svo: Rekstraraðila ber að tilkynna heilbrigðiseftirliti um öll alvarleg slys. Haldin skal skrá yfir slys sem verða í eða við laugar og skal hún vera heilbrigðiseftirliti aðgengileg. 6. gr. Við reglugerðina bætist við ákvæði til bráðabirgða sem orðist svo: Áhættumat samkvæmt 7. gr. skal liggja fyrir eigi síðar en 1. janúar 2014. Merkingar samkvæmt 12. gr. skulu vera að fullu í samræmi við reglugerðina og starfsleyfi eigi síðar en 1. júlí 2013. 7. gr. III. viðauki orðist svo: Hæfnispróf starfsmanna sem sinna laugargæslu, sundkennara, sundþjálfara og leiðbeinenda. Prófatriði eru: Þolsund, 600 m á innan við 21 mínútu (frjáls aðferð). Hraðsund, 25 m á 30 sek. Kafsund, 15 m. Björgunarsund í síðbuxum og síðerma peysu, 25 m með jafningja. Björgun á óvirkum jafningja með björgunarsveig eða öðrum flotáhöldum, úr miðri laug að hliðarbakka, lyfta viðkomandi upp á bakka með aðstoð eins laugarvarðar. Sækja 3 hluti í dýpsta hluta laugar (á allt að 3,5 m dýpi). Synda 5 m á yfirborði, kafa niður eftir hlut, hlutnum skilað á bakka, hvíld milli kafana 10 sekúndur. Hoppa eða stinga sér út í laug, synda 25 m, kafa eftir björgunarbrúðu í dýpsta hluta laugar, færa björgunarbrúðu upp á yfirborðið og synda 25 m til baka, lyfta björgunarbrúðu upp á bakka með aðstoð eins laugarvarðar. Starfsmenn sem sinna laugargæslu skulu ljúka árlegu námskeiði í skyndihjálp og björgun fyrir sund- og baðstaði og standast alla verklega þætti þess námskeiðs. Sundkennarar, sundþjálfarar og leiðbeinendur skulu ljúka þessu námskeiði á tveggja ára fresti. Fara yfir öryggisatriði og útbúnað (öryggis- og sjúkrabúnað) á viðkomandi sund- og baðstað.
Standist viðkomandi ekki einstaka þætti hæfnisprófsins skal hann endurtaka þá hluta innan mánaðar hjá sama leiðbeinanda. Fyrirmynd að prófskírteini fyrir laugarverði, sundkennara og sundþjálfara er að finna á heimasíðu Umhverfisstofnunar. 8. gr. Reglugerð þessi er sett með stoð í 15. tölul. 4. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga hvað varðar skyldur sveitarfélaga, sbr. 3. mgr. 9. gr. laganna. Reglugerðin er einnig sett að höfðu samráði við mennta- og menningarmálaráðuneytið hvað varðar öryggisráðstafanir á sund- og baðstöðum, sbr. ákvæði 14. gr. íþróttalaga nr. 64/1998. Reglugerðin öðlast þegar gildi. Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 5. september 2012. Svandís Svavarsdóttir. Magnús Jóhannesson. |