1. gr. Innheimtumenn ríkissjóðs. Innheimtumenn ríkissjóðs eru: tollstjóri á höfuðborgarsvæðinu, sýslumaðurinn á Vesturlandi, sýslumaðurinn á Vestfjörðum, sýslumaðurinn á Norðurlandi vestra, sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra, sýslumaðurinn á Austurlandi, sýslumaðurinn á Suðurlandi, sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum og sýslumaðurinn á Suðurnesjum skv. lögum nr. 50/2014, um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði. 2. gr. Hlutverk innheimtumanna ríkissjóðs. Innheimtumenn ríkissjóðs annast innheimtu skatta og gjalda hver í sínu umdæmi. Með sköttum og gjöldum er átt við hvers konar skatta og gjöld sem lögð eru á lögum samkvæmt. 3. gr. Sérstakt hlutverk tollstjóra. Auk þeirra verkefna sem tollstjóra eru falin skv. 2. gr. annast tollstjóri eftirtalin verkefni sem lúta að innheimtu skatta og gjalda á landsvísu: Stefnumótun á sviði innheimtumála á landsvísu með hagræðingu, samræmingu, framþróun og öryggi varðandi innheimtu opinberra gjalda að leiðarljósi. Samræmingar- og eftirlitshlutverk gagnvart öðrum innheimtumönnum ríkissjóðs, m.a. með setningu verklagsreglna. Tollstjóra er heimilt að beina bindandi fyrirmælum til annarra innheimtumanna um innheimtuaðgerðir í einstökum málum ef settar reglur eru ekki virtar. Umsjón og þróun tölvukerfa og rafrænnar stjórnsýslu á sviði innheimtu skatta og gjalda. Birtingu almennrar greiðsluáskorunar skv. 8. gr. laga nr. 90/1989, um aðför, fyrir hönd innheimtumanna ríkissjóðs. Töku ákvarðana um boð innheimtumanna ríkissjóðs í eignir fyrir hönd ríkissjóðs á nauðungaruppboðum. Við þá ákvörðun skal tollstjóri taka mið af því hvernig hagsmunum ríkissjóðs er best borgið. Töku ákvarðana um ábyrgð á auknum skiptakostnaði vegna endurheimtu verðmæta við gjaldþrotaskipti. Eftirlit með afskriftum skatta og gjalda á landsvísu. Greiningarstarf vegna áhættustjórnunar við innheimtu opinberra gjalda. Fræðslustarf fyrir starfsfólk innheimtuembætta um innheimtumálefni.
4. gr. Kyrrsetningar. Tollstjóri annast á landsvísu kyrrsetningarmál að beiðni skattrannsóknarstjóra á grundvelli 6. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, 41. gr. a. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, 31. gr. a. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda og 20. gr. a. laga nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur. 5. gr. Alþjóðlegt samstarf skattinnheimtuyfirvalda. Tollstjóri annast móttöku og umsjón beiðna erlendra ríkja um aðstoð við innheimtu skatta og gjalda á grundvelli alþjóðlegra samninga á landsvísu. Tollstjóri hefur umsjón með útsendingu beiðna um aðstoð við innheimtu skatta og gjalda til erlendra ríkja fyrir hönd innheimtumanna ríkissjóðs. 6. gr. Vanskilainnheimta á landsvísu. Tollstjóri annast vanskilainnheimtu eftirtalinna skatta og gjalda á landsvísu: skuldabréf gefin út á grundvelli laga nr. 24/2010, sektir skattrannsóknarstjóra ríkisins, fésektir ársreikningaskrár ríkisskattstjóra, umsýslu- og eftirlitsgjald ríkisskattstjóra, árgjald fyrir tíðninotkun, gjöld þjóðskrár og leyfisgjöld útvarpsréttarnefndar. 7. gr. Áætlanagerð og úrvinnsla tölfræðiupplýsinga. Tollstjóri skal í upphafi hvers árs gera áætlun um innheimtu skatta og gjalda á landsvísu og skal hún send fjármála- og efnahagsráðuneyti, ásamt upplýsingum um innheimtuárangur síðasta árs. Tollstjóri skal á hverju tveggja mánaða tímabili taka saman tölfræðiupplýsingar um innheimtuárangur einstakra innheimtuembætta og senda innheimtumönnum ríkissjóðs og fjármála- og efnahagsráðuneyti. Tollstjóri skal þróa mælikvarða og aðferðir við framsetningu tölfræðigagna um innheimtu skatta og gjalda. 8. gr. Gildistaka. Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 2. og 3. mgr. 111. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Ákvæði 1. gr. reglugerðarinnar öðlast gildi 1. janúar 2015. Önnur ákvæði öðlast þegar gildi. Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 2. desember 2014. F. h. r. Guðmundur Árnason. Maríanna Jónasdóttir. |