Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 565/2012

Nr. 565/2012 29. júní 2012
GJALDSKRÁ
fyrir bakgrunnsathugun/-skoðun lögreglu á einstaklingi og útgáfu öryggisvottunar.

1. gr.

Gjaldtökuheimild.

Nú kveða lög á um heimild lögreglu til bakgrunnsathugunar/-skoðunar á einstaklingi og útgáfu öryggisvottunar, vegna eðlis starfs hans, svo sem trúnaðarstarfa, aðgangs hans að trúnaðarupplýsingum eða sérstökum öryggissvæðum, og skal þá greidd þóknun samkvæmt gjaldskrá þessari, fyrir bakgrunnsathugun/-skoðun og útgáfu öryggisvott­unar.

Greiða skal gjald fyrir bakgrunnsathugun/-skoðun samkvæmt gjaldskrá þessari óháð því hvort aðgangsheimild af hálfu vinnuveitanda verður veitt eða ekki, sbr. þó 2. mgr. 3. gr.

2. gr.

Fjárhæð gjalds og sundurliðun.

Fyrir stofnun og skráningu máls, öflun upplýsinga og úrvinnslu gagna, skráningu og vöktun í skráningakerfum lögreglu eða öðrum gagnagrunnum og stjórnsýslulega meðferð skal umsækjandi bakgrunnsathugunar/-skoðunar greiða gjald sem nemur kr. 5.000 fyrir hverja umsókn. Með „umsækjanda" í gjaldskrá þessari er átt við vinnuveitanda viðkomandi einstaklings, hvort heldur sem er einkaaðila eða opinberan aðila sem er til þess bær, lögum samkvæmt, að óska, vegna eðlis starfsins, eftir bakgrunnsathugun/-skoðun fyrir viðkomandi einstakling.

Auk kostnaðar samkvæmt 1. mgr. ber umsækjandi sjálfur kostnað af öflun gagna sem nauðsynleg eru til framlagningar hjá lögreglu vegna bakgrunnsathugunar/-skoðunar í samræmi við ákvæði laga eða reglugerða þar um, svo sem af útgáfu sakavottorðs, búforræðisvottorðs eða annarra gagna sem krafist er.

Undanþegnir gjaldskyldu samkvæmt gjaldskrá þessari eru starfsmenn lögreglu, slökkvi- og sjúkraliðs, Landhelgisgæslu Íslands og ríkissaksóknara auk þeirra einstaklinga sem þarfnast bakgrunnsathugunar/-skoðunar á grundvelli varnarmálalaga.

Sé lögreglu heimilt samkvæmt lögum að láta framkvæma fíkniefnarannsókn, blóð- eða þvagrannsókn á einstaklingi, ber umsækjandi kostnað af slíkri rannsókn. Bjóða skal einstaklingi að bera sjálfur kostnað við rannsókn af þessu tagi, áður en óskað er greiðslu frá umsækjanda. Kjósi einstaklingur að greiða sjálfur á hann þó ávallt endurkröfurétt á greiðslu til umsækjanda samkvæmt framangreindu, óski hann þess.

3. gr.

Bakgrunnsathugun/-skoðun og öryggisvottun.

Að lokinni bakgrunnsathugun/-skoðun gegn greiðslu kostnaðar samkvæmt gjaldskrá þessari skal einstaklingi veitt öryggisvottun eða synjað um hana eftir atvikum.

Sé hætt við bakgrunnsathugun/-skoðun, eftir að hún er hafin, skal greiða áfallinn kostnað samkvæmt reikningi.

4. gr.

Innheimta.

Gjald samkvæmt gjaldskrá þessari skal innheimt af lögreglu eða öðrum aðilum eftir atvikum samkvæmt ákvörðun ríkislögreglustjóra.

Þeir einstaklingar sem gangast undir bakgrunnsathugun/-skoðun fyrir milligöngu þriðja aðila, svo sem rekstraraðila flugvallar, opinbers stjórnvalds eða annarra bærra aðila lögum samkvæmt, skulu greiða gjald samkvæmt gjaldskrá þessari til viðkomandi þriðja aðila. Sá aðili skal skila gjaldi samkvæmt gjaldskránni til lögreglu samhliða því að beiðni um bakgrunnsathugun/-skoðun viðkomandi einstaklings er send lögreglu.

5. gr.

Gjalddagi.

Gjald samkvæmt gjaldskrá þessari greiðist til lögreglu, sbr. þó 2. mgr. 4. gr., þegar beiðni um bakgrunnsathugun/-skoðun er send lögreglu, nema annað sé tekið fram.

6. gr.

Dráttarvextir.

Heimilt er lögreglu að innheimta dráttarvexti á kröfu frá gjalddaga til greiðsludags í sam­ræmi við ákvæði vaxtalaga.

7. gr.

Gildistaka.

Gjaldskrá þessi er sett samkvæmt 3. mgr. 34. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996, og öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.

Innanríkisráðuneytinu, 29. júní 2012.

Ögmundur Jónasson.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

B deild - Útgáfud.: 29. júní 2012