1. gr. Til eiginfjárþátta A, sbr. 5 mgr. 84. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, er heimilt að telja: Blendingsbréf (e. hybrid capital) sem uppfyllir skilyrði 2. gr., 4. gr. og 5. gr. þessara reglna (e. contingent convertible capital). Blendingsbréf sem uppfyllir skilyrði 3.-5. gr. þessara reglna (e. non-innovative hybrid capital).
2. gr. Blendingsbréf samkvæmt 1. tölulið 1. gr. skal uppfylla eftirtalin skilyrði: Bréfið tilgreini ekki gjalddaga. Endurgreiðsla höfuðstóls blendingsbréfs er ekki heimil. Útgefanda er heimilt að umbreyta blendingsbréfi í hlutafé eða stofnfé. Í skilmálum blendingsbréfs skal koma fram við hvaða skilyrði skuli umbreyta blendingsbréfi í hlutafé eða stofnfé. Skilyrðin skulu miðast við að fjármálafyrirtæki hafi ekki farið undir lágmarkskröfur um eigið fé, sbr. 11. mgr. 14. gr., a. lið 1 mgr. og 4. mgr. 84. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Fjármálaeftirlitið getur, með hliðsjón af fjárhags- og eiginfjárstöðu útgefanda, krafist þess að blendingsbréfinu sé umbreytt í hlutafé eða stofnfé. Vextir reiknast einungis á þau blendingsbréf sem ekki hefur verið umbreytt.
Við mat á fjárhags- og eiginfjárstöðu útgefanda, sbr. 4. tölulið 1. mgr. 2. gr., lítur Fjármálaeftirlitið m.a. til eftirfarandi þátta: hvort fjármálafyrirtæki uppfyllir lágmarks eiginfjárkröfur Fjármálaeftirlitsins, fyrirsjáanlegrar þróunar á fjárhagsstöðu fjármálafyrirtækis, og fjárhagslegs heilbrigðis fjármálafyrirtækis að öðru leyti.
Breytihlutfall (e. conversion ratio) blendingsbréfa yfir í hlutafé eða stofnfé skal ákvarðast á útgáfudegi bréfsins og skal hlutfallið miðast við markaðsvirði hlutafjár eða stofnfjár á þeim tíma, sbr. þó 4. mgr. Fjármálaeftirlitið getur heimilað breytingu á breytihlutfalli skv. 3. mgr. þessarar greinar í sérstökum tilfellum, svo sem þegar um er að ræða samruna, yfirtöku, ef fjármálafyrirtæki er skipt upp eða í sambærilegum tilfellum. Ef markaðsvirði hækkar umfram breytihlutfallið, þá minnkar það magn hlutafjár eða stofnfjár sem fæst fyrir blendingsbréfið. Ef markaðsvirði lækkar þá eykst ekki magn hlutafjár eða stofnfjár. 3. gr. Blendingsbréf samkvæmt 2. tölulið 1. gr. skal ekki innihalda hvata útgefanda til innlausnar (e. incentive to redeem) og ekki tilgreina neinn gjalddaga. Blendingsbréfið má þó innihalda ákvæði um innköllunarrétt útgefanda (e. call option) og er ekki litið á rétt til innköllunar sem hvata útgefanda til innlausnar. Blendingsbréf, samkvæmt 2. tölulið 1. gr., skal einnig uppfylla eftirtalin skilyrði: Hægt sé að innleysa eða endurfjármagna bréfið í fyrsta lagi eftir 5 ár frá útgáfudegi þess að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins. Fjármálaeftirlitið geti heimilað endurfjármögnun blendingsbréfs áður en 5 ár eru liðin frá útgáfu þess ef endurfjármögnunin er gerð með bréfum sem hafa samskonar eða betri eiginfjárígildi. Fjármálaeftirlitið geti á hverjum tíma heimilað innlausn eða endurfjármögnun blendingsbréfa skv. 2. tölulið 1. gr. ef ófyrirsjáanlegar breytingar verða á gildandi skattareglum og flokkun þessara blendingsbréfa sbr. 1. gr.
Heimild Fjármálaeftirlitsins varðandi innlausn eða endurfjármögnun verður aðeins veitt að fyrirsjáanleg fjárhags- og eiginfjárstaða útgefanda teljist ásættanleg eftir innlausn eða endurfjármögnun bréfanna. Fjármálaeftirlitið getur því aðeins veitt heimild til innlausnar tímabundins blendingsbréfs á gjalddaga að krafan um lágmarks eigið fé, sbr. 11. mgr. 14. gr., a. lið 1. mgr. og 4. mgr. 84. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sé uppfyllt. Auk þess sem að framan greinir skal blendingsbréfið uppfylla eftirfarandi skilyrði: Skilmálar blendingsbréfsins skulu tilgreina við hvaða aðstæður skuli niðurfæra blendingsbréfið ásamt ógreiddum vöxtum. Skilmálar blendingsbréfsins skulu tilgreina með hvaða hætti niðurfærsla blendingsbréfs á sér stað. Útgefandi blendingsbréfs getur ákvarðað einhliða niðurfærslu blendingsbréfs. Fjármálaeftirlitið getur, með hliðsjón af fjárhags- og eiginfjárstöðu útgefanda, krafist niðurfærslu blendingsbréfs. Að undangenginni niðurfærslu skv. 3. eða 4. tölulið getur Fjármálaeftirlitið, með hliðsjón af fjárhags- og eiginfjárstöðu útgefanda, heimilað að niðurfærsla höfuðstólsins sé færð til fyrra horfs að hluta eða öllu leyti. Þegar blendingsbréf hefur verið niðurfært skv. 3. eða 4. tölulið og þangað til bréfið hefur verið fært til fyrra horfs að öllu leyti skv. 5. tölulið eru vaxtagreiðslur óheimilar. Færsla til fyrra horfs að hluta til, sbr. 5. tölulið, er ekki nægjanleg til þess að banni við vaxtagreiðslum verði aflétt.
Við mat á fjárhags- og eiginfjárstöðu útgefanda, sbr. 4. og 5. tölulið 4. mgr. þessarar greinar, tekur Fjármálaeftirlitið m.a. mið af þeim þáttum sem getið er í 2. mgr. 2. gr. 4. gr. Blendingsbréf samkvæmt 1. og 2. tölulið 1. gr. skal uppfylla eftirfarandi skilyrði: Útgefandi blendingsbréfs getur, með hliðsjón af fjárhagsstöðu útgefanda, stöðvað vaxtagreiðslur um óákveðinn tíma. Stöðva skal vaxtagreiðslur ef útgefandi uppfyllir ekki skilyrði um lágmarks eigið fé, sbr. 11. mgr. 14. gr., a. lið 1. mgr. og 4. mgr. 84. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Fjármálaeftirlitið getur, með hliðsjón af fjárhags- og eiginfjárstöðu útgefanda, stöðvað vaxtagreiðslur.
Ef Fjármálaeftirlitið stöðvar vaxtagreiðslur, þá getur útgefandinn, með samþykki Fjármálaeftirlitsins, skipt út vaxtagreiðslum með greiðslu í formi hlutafjár eða stofnfjár. Samþykki Fjármálaeftirlitsins er háð því að fjárhags- og eiginfjárstaða útgefanda sé ásættanleg eftir útgreiðsluna. Við mat á því hvort fjárhags- og eiginfjárstaða útgefanda sé ásættanleg, sbr. 2. mgr. þessarar greinar, tekur Fjármálaeftirlitið m.a. mið af þeim þáttum sem getið er í 2. mgr. 2. gr. Vaxtagreiðslur eru einungis heimilar innan þeirra marka sem óráðstafað eigið fé leyfir enda séu lágmarks eiginfjárkröfur jafnframt uppfylltar eftir að tekið hefur verið tillit til vaxtagreiðslna. Komi ekki til vaxtagreiðslna á tilteknu ári eða árabili safnast þær ekki upp. Ákvæði þessarar greinar um takmarkanir á vaxtagreiðslum gilda einnig um aðrar greiðslur af blendingsbréfinu sem kunna að koma í staðinn fyrir beinar vaxtagreiðslur, s.s. arðgreiðslur. Takmarkanirnar eiga ekki við um innlausn eða endurfjármögnun skv. 3. gr. 5. gr. Útgefandi blendingsbréfs samkvæmt reglum þessum skal fá andvirði þess til ráðstöfunar við útgáfu bréfsins. Útgáfu blendingsbréfs skal tilkynna til Fjármálaeftirlitsins. Blendingsbréf má ekki vera tryggt af útgefanda, fela í sér ábyrgð aðila sem tengdur er útgefanda né veita kröfuhafa með neinum öðrum hætti forgang eða betri rétt gagnvart öðrum kröfuhöfum. Eftirfarandi hámörk sem hlutfall af eiginfjárþætti A skulu gilda um blendingsbréf: Samtala blendingsbréfa samkvæmt 1. og 2. tölulið 1. gr. má að hámarki nema 10% af eiginfjárþætti A í eiginfjárútreikningi. Samtala blendingsbréfa samkvæmt 2. tölulið 1. gr. má að hámarki nema 5% af eiginfjárþætti A í eiginfjárútreikningi.
Framangreind hámörk gilda bæði fyrir móðurfélag og samstæðu. Fjármálaeftirlitið getur heimilað fjármálafyrirtæki að fara tímabundið út fyrir þessi mörk ef sérstakar og veigamiklar ástæður mæla með því. Við gjaldþrot eða slit útgefanda falla kröfur samkvæmt blendingsbréfinu, að meðtöldum þeim hluta sem samsvarar niðurfærslu, sbr. 2. tölul. 4. mgr. 3. gr., á eftir kröfum skv. 109. - 114. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, þ.e. séu greiddar á eftir öllum öðrum kröfum á útgefanda en endurgreiðslu hlutafjár eða stofnfjár. Auk þeirra skilyrða vegna útgáfu blendingsbréfa sem getið er um í reglum þessum skulu öll blendingsbréf innihalda ákvæði um að eigandi bréfsins geti ekki þvingað útgefandann í slit eða gjaldþrot vegna ráðstafana sem útgefandi eða Fjármálaeftirlitið grípa til samkvæmt reglum þessum. 6. gr. Reglur þessar eru settar á grundvelli 10. mgr. 84. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og öðlast þegar gildi. Við gildistökuna falla reglur nr. 156/2005 um viðbótareiginfjárliði fyrir fjármálafyrirtæki úr gildi. Fjármálaeftirlitinu, 18. desember 2012. Unnur Gunnarsdóttir. Halldóra E. Ólafsdóttir. |