Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 31/2012

Nr. 31/2012 7. maí 2012
LÖG
um breytingu á lögum um matvæli, nr. 93/1995, með síðari breytingum (heimild til að víkja frá ákvæðum laganna, reglugerðarheimild, EES-reglur).

FORSETI ÍSLANDS
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

1. gr.
    Á eftir 1. mgr. 2. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Ráðherra er heimilt að víkja frá einstökum ákvæðum laga þessara þegar um er að ræða:
    a.    aðila sem framleiða og markaðssetja matvæli þar sem starfsemi er ekki samfelld heldur tilfallandi, lýtur ekki sérstöku skipulagi og er ekki rekin í eigin hagnaðarskyni,
    b.    framleiðendur sem framleiða og markaðssetja frumframleiðsluvörur í litlu magni beint til neytenda eða til staðbundins smásölufyrirtækis sem afhendir matvæli beint til neytenda,
    c.    framleiðendur sem framleiða og markaðssetja vörur, sem eru unnar úr eigin frumframleiðslu, beint til neytenda, enda sé um takmarkaða, árstíðabundna eða tilfallandi starfsemi að ræða,
    d.    framleiðendur sem framleiða matvæli með aðferðum sem er hefð fyrir hérlendis. 
Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um þessa starfsemi, svo sem um hvaða starfsemi er að ræða, hvað telst staðbundin starfsemi, skilyrði fyrir slíkri starfsemi, opinbert eftirlit og hvaða reglur um framleiðslu, markaðssetningu, hollustuhætti, merkingar, umbúðir, rekjanleika, geymslu og flutning gilda um slík matvæli.

2. gr.
    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Gjört á Bessastöðum, 7. maí 2012.

Ólafur Ragnar Grímsson.
(L. S.)

Steingrímur J. Sigfússon.

A deild - Útgáfud.: 9. maí 2012