Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 129/2009

Nr. 129/2009 23. desember 2009
LÖG
um umhverfis- og auðlindaskatta.

FORSETI ÍSLANDS
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

I. KAFLI
Kolefnisgjald á fljótandi jarðefnaeldsneyti.
1. gr.
    Greiða skal í ríkissjóð kolefnisgjald af fljótandi jarðefnaeldsneyti eftir því sem nánar er mælt fyrir um í lögum þessum. Með fljótandi jarðefnaeldsneyti er átt við gas- og dísilolíu, bensín, flugvéla- og þotueldsneyti og brennsluolíu.
    Fjárhæð kolefnisgjalds skal vera 2,90 kr. á hvern lítra af gas- og dísilolíu, 2,60 kr. á hvern lítra af bensíni, 2,70 kr. á hvern lítra af flugvéla- og þotueldsneyti og 3,60 kr. á hvert kílógramm af brennsluolíu.

Gjaldskyldir aðilar.
2. gr.
    Gjaldskyldir aðilar samkvæmt lögum þessum eru:
    1.    Allir þeir sem flytja til landsins vöru sem gjaldskyld er samkvæmt lögum þessum, hvort sem er til endursölu eða eigin nota.
    2.    Allir þeir sem framleiða hér á landi vöru sem gjaldskyld er samkvæmt lögum þessum, vinna að framleiðslu hennar eða setja saman, hvort sem er til endursölu eða eigin nota.
    Gjaldskyldum aðilum ber að standa skil á kolefnisgjaldi við tollafgreiðslu ef um innflutning er að ræða en við afhendingu í tilviki innlendrar framleiðslu eða aðvinnslu.

Álagning, innheimta, eftirlit o.fl.
3. gr.
    Tollstjóri annast álagningu og innheimtu kolefnisgjalds samkvæmt lögum þessum og hefur með höndum eftirlit.
    Gjöld, sem lögð eru á samkvæmt lögum þessum, mynda gjaldstofn til virðisaukaskatts.

Ýmis ákvæði.
4. gr.
    Að því leyti sem eigi er kveðið á um gjaldskyldu, álagningu, úrskurð um flokkun til gjaldskyldu, eftirlit, innheimtu, vörslusviptingu, uppboð, sektir, viðurlög, refsingar og aðra framkvæmd varðandi kolefnisgjald, skv. I. kafla laga þessara, skulu gilda ákvæði tollalaga, nr. 88/2005, og laga nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., eftir því sem við getur átt, svo og reglugerða og annarra fyrirmæla settra samkvæmt þeim.
    Ráðherra getur með reglugerð sett nánari fyrirmæli um framkvæmd laga þessara.

II. KAFLI
Skattur af raforku og heitu vatni.
5. gr.
    Greiða skal í ríkissjóð sérstakan skatt af seldri raforku og heitu vatni eins og nánar er kveðið á um í lögum þessum.
    Fjárhæð skatts af raforku skal vera 0,12 kr. á hverja kílóvattstund (kWst) af seldri raforku.
    Fjárhæð skatts af heitu vatni skal vera 2,0% af smásöluverði á heitu vatni.
    Heimilt er að miða innheimtu skatts af raforku og heitu vatni við áætlaða sölu.

Skattskyldir aðilar.
6. gr.
    Skattskyldan nær til þeirra aðila sem selja raforku og heitt vatn á síðasta stigi viðskipta, þ.e. sölu til notenda, en notandi telst vera sá sem endurselur ekki raforku eða heitt vatn.
     Undanþegnir skattskyldu skv. 1. mgr. eru þeir sem selja raforku eða heitt vatn fyrir minna en 500.000 kr. á ári.
    Ríkisskattstjóri heldur skrá yfir skattskylda aðila samkvæmt þessari grein. Skattskyldir aðilar skulu ótilkvaddir senda ríkisskattstjóra tilkynningu um skattskylda starfsemi áður en starfsemi hefst.

7. gr.
    Til skattskyldrar sölu eða afhendingar telst ekki:
    1.    Raforka eða heitt vatn sem afhent er öðrum skattskyldum aðila.
    2.    Raforka eða heitt vatn sem afhent er eða notað eingöngu til framleiðslu á raforku eða heitu vatni til endursölu.
    Ráðherra er með reglugerð heimilt að kveða nánar á um skilyrði og framkvæmd vegna undanþágu frá greiðslu skatts af raforku og heitu vatni.

8. gr.
    Skattskyldir aðilar skulu við sölu eða afhendingu á raforku eða heitu vatni gefa út sölureikning þar sem eftirfarandi upplýsingar koma fram:
    1.    Útgáfudagur.
    2.    Útgáfustaður.
    3.    Afhendingarstaður ef annar en útgáfustaður.
    4.    Nafn og kennitala seljanda.
    5.    Nafn og kennitala kaupanda.
    6.    Magn, einingarverð og heildarverð á raforku eða heitu vatni.
    Auk upplýsinga sem tilgreindar eru í 1. mgr. skal á sölureikningi koma fram hvort skattur af raforku og heitu vatni sé lagður á og hver fjárhæð hans er. Um varðveislu sölureikninga gilda ákvæði laga nr. 145/1994, um bókhald.

Álagning.
9. gr.
    Ríkisskattstjóri annast álagningu skatts af raforku og heitu vatni á þá aðila sem skráningarskyldir eru skv. 6. gr., vegna sölu þeirra á raforku eða heitu vatni.

Uppgjör og innheimta.
10. gr.
    Skylda til að innheimta skatt af raforku og heitu vatni og standa skil á honum í ríkissjóð hvílir á þeim aðilum sem selja raforku eða heitt vatn til endanlegra notenda, í samræmi við ákvæði raforkulaga, nr. 65/2003, og orkulaga, nr. 58/1967.
    Skattskyldir aðilar sem hlotið hafa skráningu skv. 6. gr. skulu greiða skatt af raforku og heitu vatni fyrir hvert uppgjörstímabil miðað við sölu.
    Við uppgjör skatts af raforku og heitu vatni má draga frá fjárhæð sem nemur sannanlega töpuðum útistandandi kröfum eða ofgreiddum skatti, sbr. 4. mgr. 5. gr., af raforku og heitu vatni sem áður hefur verið skilað í ríkissjóð.

Uppgjörstímabil og skýrslur.
11. gr.
    Uppgjörstímabil skatts af raforku og heitu vatni er tveir mánuðir, janúar og febrúar, mars og apríl, maí og júní, júlí og ágúst, september og október, nóvember og desember. Gjalddagi er fimmti dagur annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabils. Beri gjalddaga upp á helgidag eða almennan frídag færist hann yfir á næsta virka dag á eftir. Eigi síðar en á gjalddaga skulu skattskyldir aðilar, sem hlotið hafa skráningu skv. 6. gr., ótilkvaddir skila innheimtumanni ríkissjóðs skýrslu yfir magn gjaldskyldrar raforku og heits vatns á uppgjörstímabilinu og standa skil á greiðslu skattsins. Fjármálaráðherra kveður í reglugerð á um greiðslustaði, greiðslufyrirkomulag og efni skýrslu, þar á meðal hvernig rafrænum skilum á skýrslu og greiðslu skuli háttað.

Ýmis ákvæði og gildistaka.
12. gr.
    Að því leyti sem eigi er ákveðið í lögum þessum um álagningu, tilhögun bókhalds, eftirlit, upplýsingaskyldu, viðurlög, kærur og aðra framkvæmd varðandi skatt af raforku og heitu vatni, skv. II. kafla laga þessara, skulu gilda, eftir því sem við geta átt, ákvæði laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
    Skattur, sem lagður er á samkvæmt lögum þessum, myndar gjaldstofn til virðisaukaskatts.

13. gr.
     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2010. Lögin falla úr gildi 31. desember 2012.

Gjört á Bessastöðum, 23. desember 2009.

Ólafur Ragnar Grímsson.
(L. S.)

Steingrímur J. Sigfússon.

A deild - Útgáfud.: 29. desember 2009