Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 155/2011

Nr. 155/2011 4. febrúar 2011
REGLUR
um val nemenda til náms í tannlæknisfræði og tannsmíði við tannlæknadeild Háskóla Íslands.

1. gr.

Ákvörðun um fjöldatakmörkun.

Heilbrigðisvísindasvið, að tillögu tannlæknadeildar, leggur fyrir háskólaráð, ef þörf krefur, rökstuddar tillögur um fjölda stúdenta sem unnt er að taka til náms í tannlæknisfræði og tannsmíðum. Skal beiðni frá deildinni, þar að lútandi, send háskólaráði fyrir lok nóvember ár hvert. Háskólaráð afgreiðir tillögur tannlæknadeildar eigi síðar en í janúar.

Ef fjöldatakmörkun er ákveðin fer val stúdenta til náms fram í samræmi við ákvæði reglna þessara.

2. gr.

Fyrirkomulag samkeppnisprófa.

Samkeppnispróf fyrir skráða stúdenta í tannlæknisfræði og tannsmíði eru haldin í desember að lokinni kennslu á haustmisseri. Að undanskildum inngangi að tannlæknisfræði er prófað í öllum þeim námskeiðum, sem kennd eru á haustmisseri 1. námsárs og verða stúdentar að taka öll prófin til þess að koma til álita við valið. Ekki er hægt að fá viðurkennd eldri próf. Desemberpróf fyrsta árs eru að jafnaði ekki endurtekin á öðrum árstímum, sjá þó undir a) og b). Sjúkrapróf eru ekki haldin í samkeppnisprófum í tannlækningum og tannsmíði.

a)

Kandídatsnám í tannlækningum.

Stúdentspróf af bóknámsbraut er inntökuskilyrði í tannlæknisfræði. Til að standast samkeppnispróf í tannlæknisfræði verður stúdent að hafa hlotið eigi lægra en 5,0 í hverri prófgrein. Ef fleiri stúdentar þreyta öll samkeppnisprófin en sá fjöldi sem ákveðinn hefur verið, sbr. 1. gr. (numerus clausus), öðlast einungis þeir rétt til áframhaldandi náms í tannlæknisfræði við tannlæknadeild Háskóla Íslands sem bestum árangri ná á samkeppnisprófum. Verði niðurstaða úr prófum slík að ekki nái sá fjöldi sem ákveðinn hefur verið lágmarkseinkunn, verða endurtekningarpróf haldin samkvæmt nánari ákvörðun deildarinnar. Þau próf breyta ekki stöðu þeirra sem þegar hafa náð prófum. Þeim sem taka endurtekningarpróf er raðað eftir að niðurstaða úr þeim prófum liggur fyrir. Þegar tveir eða fleiri nemendur hafa sömu meðaleinkunn og velja þarf á milli þeirra ræður forgangsröðun einkunna þannig að sá nemandi sem hefur hæstu einkunn í verklegri formfræði heldur áfram námi. Ef tveir nemar hafa sömu einkunn í þeirri grein þá ræður hæsta einkunn í almennri efnafræði, því næst hæsta einkunn í almennri líffræði og að síðustu hæsta einkunn í fræðilegri formfræði.


b)

BS nám í tannsmíði.

Stúdentspróf af bóknámsbraut er inntökuskilyrði í BS nám í tannsmíði. Til að standast samkeppnispróf í tannsmíði verður stúdent að hafa hlotið eigi lægra en 5,0 í hverri prófgrein. Ef fleiri stúdentar þreyta öll samkeppnisprófin en sá fjöldi sem ákveðinn hefur verið, sbr. 1. gr. (numerus clausus), öðlast einungis þeir rétt til áframhaldandi náms í tannsmíði við tannlæknadeild Háskóla Íslands sem bestum árangri ná á samkeppnisprófum. Verði niðurstaða úr prófum slík að ekki nái sá fjöldi sem ákveðinn hefur verið lágmarkseinkunn, verða endurtekningarpróf haldin samkvæmt nánari ákvörðun deildarinnar. Þau próf breyta ekki stöðu þeirra sem þegar hafa náð prófum. Þeim sem taka endurtekningarpróf er raðað eftir að niðurstaða úr þeim prófum liggur fyrir. Þegar tveir eða fleiri nemendur hafa sömu meðaleinkunn og velja þarf á milli þeirra ræður forgangsröðun einkunna þannig að sá nemandi sem hefur hæstu einkunn í verklegri formfræði heldur áfram námi. Ef tveir nemar hafa sömu einkunn í þeirri grein þá ræður hæsta einkunn í fagvitund starfstéttar, því næst hæsta einkunn í almennri efnafræði, síðan hæsta einkunn í líffærafræði og að síðustu hæsta einkunn í fræðilegri formfræði.

3. gr.

Vægi greina og námsmat.

Prófað verður úr öllum námskeiðum sem metin eru til námseininga á haustmisseri 1. námsárs, nema inngangi að tannlæknisfræði (1e), en þar er mætingarskylda. Vægi þeirra námskeiða sem prófað er í er ákveðið af tannlæknadeild og miðast við eftirfarandi einingafjölda námskeiða:

a)

Kandídatsnám í tannlækningum:

Efnafræði I, 8e

Almenn líffræði A, 9e

Formfræði tanna, verkleg, 6e

Formfræði tanna, fræðileg, 3e

Vefjafræði, 3e


b)

BS nám í tannsmíði:

Efnafræði I, 8e

Líffærafræði, 6e

Formfræði tanna, verkleg, 6e

Formfræði tanna, fræðileg, 3e

Fagvitund starfsstéttar, 6e

Einkunn fyrir hvert námskeið er gefin með tveimur aukastöfum, frá 0,00-10,00. Þær einkunnir eru síðan aðlagaðar vægi greinanna. Heildareinkunn í samkeppnisprófunum fæst með því að leggja saman einkunnir úr einstökum námskeiðum, sem þannig hafa verið vegnar. Þessi einkunn, reiknuð með tveimur aukastöfum, er lögð til grundvallar við niðurröðun stúdenta varðandi áframhaldandi nám.

4. gr.

Birting einkunna, endurtökupróf, sjúkrapróf o.fl.

Stefnt skal að því að einkunnir úr samkeppnisprófi að loknu haustmisseri 1. námsárs í tannlæknisfræði og tannsmíði verði birtar fyrir 10. janúar.

Sjúkrapróf eru ekki haldin. Endurtökupróf eru að jafnaði ekki haldin, sjá þó 2. grein.

Að öllu jöfnu er stúdentum ekki veitt námsleyfi á fyrsta námsári.

5. gr.

Gildistaka o.fl.

Reglur þessar, sem samþykktar hafa verið í háskólaráði Háskóla Íslands að fenginni tillögu heilbrigðisvísindasviðs, eru settar með heimild í 3. og 4. mgr. 18. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla.

Reglur þessar öðlast þegar gildi.

Háskóla Íslands, 4. febrúar 2011.

Kristín Ingólfsdóttir.

Þórður Kristinsson.

B deild - Útgáfud.: 18. febrúar 2011