1. gr. Til skattskyldra tekna manna telst ekki eftirgjöf skulda þegar svo háttar sem kveðið er á um í reglugerð þessari, sbr. 3. tölul. 28. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Eftirgjöf skulda í tengslum við nauðasamninga, eða sem mælt er fyrir um í nauðasamningi til greiðsluaðlögunar, samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, með áorðnum breytingum, telst ekki til skattskyldra tekna þess sem niðurfellingar nýtur. Skiptir ekki máli í því sambandi þótt eignir skuldara eða eignaauki myndist við slíka samninga, eða að ráðstöfunartekjur muni aukast með þeim. 2. gr. Eftirgjöf skulda sem uppfyllir skilyrði reglugerðar þessarar telst ekki til skattskyldra tekna, án tillits til ástæðna þess að til skulda var stofnað, s.s. vegna íbúðakaupa og bifreiðakaupa. Ekki skiptir máli hvort skuld er gefin eftir að hluta eða öllu leyti. Eftirgjöf skulda sem stofnað hefur verið til í tengslum við atvinnurekstur skuldara telst ætíð til skattskyldra tekna. 3. gr. Eftirgjöf skulda eða niðurfelling ábyrgðar telst ekki til skattskyldra tekna þótt formleg skilyrði 1. gr. séu ekki uppfyllt, ef sannað er á fullnægjandi hátt að eignir eru ekki til fyrir þeim. Það telst sannað að eignir eru ekki til fyrir skuldum þegar gerðar hafa verið ítrekaðar árangurslausar innheimtutilraunir, þar með árangurslaust fjárnám eða allar eignir skuldara eru metnar yfirveðsettar og fullvíst talið að skuldari og eftir atvikum maki séu ófær til greiðslu. Skilyrði eftirgjafar skv. 1. mgr. er að fyrir liggi með formlegum hætti að skuld eða ábyrgð hafi verið gefin eftir samkvæmt hlutlægu mati á fjárhagsstöðu skuldara, og eftir atvikum maka hans, sem sýni að engar eignir séu til fyrir skuldum og aflahæfi sé verulega skert til greiðslu skulda að hluta eða öllu leyti þegar ákvörðun um eftirgjöf er tekin. Einhliða ákvörðun kröfuhafa er ekki nægileg í þessu sambandi heldur skal hún studd gögnum hans eða til þess bærra aðila. 4. gr. Hafi lánveiting verið liður í ráðningarkjörum og/eða byggst á starfssambandi launþega og lánveitanda að öðru leyti, telst eftirgjöf slíkrar skuldar ætíð til skattskyldra tekna launþegans sbr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, enda séu ekki uppfyllt skilyrði 2. mgr. 1. gr. og 3. gr. Sama á við um eftirgjöf skuldar eða niðurfellingu ábyrgðar vegna láns sem upphaflega var veitt einstaklingi utan atvinnurekstrar en síðar skuldskeytt á þann hátt að það hefur verið flutt frá einstaklingnum til lögaðila í eigu skuldara eða aðila honum tengdum. Með eftirgjöf skulda í þeim tilvikum þegar lán hefur verið veitt milli aðila sem tengdir eru fjárhagslega og/eða stjórnunarlega fer á sama hátt, eftir því sem kveðið er á um í II. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. 5. gr. Eftirgjöf skulda sem stofnað hefur verið til milli þeirra sem teljast lögerfingjar samkvæmt 1. gr. erfðalaga nr. 8/1962, með áorðnum breytingum, fellur ekki undir reglugerð þessa. Það sama á við um eftirgjöf skulda í þeim tilvikum þegar lán hefur verið veitt milli aðila sem tengdir eru fjárhagslega og/eða stjórnunarlega með kjörum sem telja verður óvenjuleg skipti í fjármálum. Sé eftirgjöf skulda byggð á örlætisgerningi fellur slíkt undir skattskyldar gjafir, sbr. 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003. Hafi skuldari greitt að hluta eða öllu leyti lán sem síðan er gefið eftir telst eftirgjöfin til skattskyldra tekna, eftir atvikum sem gjöf eða kaupauki, sbr. 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. 6. gr. Við eftirgjöf skulda skal kröfuhafa skylt að varðveita öll þau gögn sem forsendur eftirgjafarinnar eru byggðar á þannig að unnt verði að sinna upplýsingaskyldu samkvæmt 92. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Upplýsingar skulu veittar í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður. 7. gr. Reglugerð þessi, er sett með stoð í 3. tölul. 28. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum, og öðlast þegar gildi. Fjármálaráðuneytinu, 19. júní 2009. F. h. r. Guðmundur Árnason. Ingibjörg Helga Helgadóttir. |