1. gr. 56. gr. orðast svo: Próf og próftímabil. Próf geta verið munnleg, skrifleg eða verkleg. Háskólakennarar standa fyrir námsmati og prófum en hver deild ræður tilhögun prófa hjá sér í samræmi við lög og reglur háskólans. Próftími í skriflegum prófum skal að jafnaði ekki vera lengri en þrjár klukkustundir. Almenn próf eru haldin 2. til 18. desember og á tímabilinu 25. apríl til 10. maí eftir nánari ákvörðunum deilda í samráði við prófstjóra. Próf eða prófhlutar í einstökum greinum geta þó farið fram á öðrum tímum, samkvæmt ákvörðun prófstjóra. Sjúkrapróf eru haldin í þrjá daga í kjölfar almennra próftímabila í desember og maí samkvæmt nánari ákvörðun prófstjóra. Deildum er heimilt að höfðu samráði við prófstjóra að nýta tímabil sjúkraprófa að vori fyrir sjúkrapróf beggja kennslumissera. Ákvörðun um það liggi fyrir við upphaf kennslu á haustmisseri. Heimilt er að halda sjúkrapróf í samkeppnisprófum, þar sem fjöldi stúdenta sem fær rétt til áframhaldandi náms er fyrirfram ákveðinn með ákvörðun háskólaráðs, og einnig ef þannig stendur á að stúdent á kost á að brautskrást við næstu brautskráningu að próftímabili loknu. Auglýsa skal próftöflu almennra prófa í kennsluskrá ef unnt er, en annars með tveggja mánaða fyrirvara. Próftöflu fyrir sjúkrapróf í kjölfar almennra próftímabila í desember og maí skal birta eins fljótt og kostur er og eigi síðar en tveimur dögum fyrir fyrsta prófdag. Auglýstum prófdegi verður einungis breytt með ákvörðun deildarforseta að höfðu samráði við prófstjóra og að fengnu skriflegu samþykki allra þeirra sem skráðir eru til viðkomandi prófs. 2. gr. 57. gr. orðast svo: Endurtaka prófs og úrsögn úr prófi. Nú stenst stúdent ekki próf, gengur frá því eftir að hann hefur byrjað próf eða kemur ekki til prófs og hefur ekki boðað forföll, og er honum þá heimilt að þreyta prófið næst þegar almennt próf er haldið í námskeiðinu og eigi síðar en innan árs. Standist hann þá ekki prófið, gangi frá því eða komi ekki til prófs án þess að boða forföll, hefur hann fyrirgert rétti sínum til þess að ganga oftar undir það. Úrsögn úr prófi skal vera rafræn eða skrifleg og hafa borist nemendaskrá háskólans eigi síðar en 1. október vegna prófa á haustmisseri, 1. febrúar vegna prófa á vormisseri og eigi síðar en sólarhring eftir birtingu próftöflu sjúkraprófa. Berist ekki úrsögn fyrir tilskilinn frest telst stúdent hafa staðfest skráningu sína í próf í viðkomandi námskeiði. Háskóladeild getur veitt undanþágu frá ákvæðum þessarar greinar, ef sérstaklega stendur á. Deildum er heimilt í samráði við prófstjóra að halda endurtökupróf í einstökum inngangsnámskeiðum á fyrsta námsári sem eru skilyrði áframhaldandi náms. Slík próf skulu tilgreind í kennsluskrá og skulu þá fara fram fyrir miðjan janúar og fyrir lok maí. Deildum er ennfremur heimilt í samráði við prófstjóra að halda endurtökupróf í einstökum námskeiðum ef þannig stendur á að stúdent á kost á að brautskrást við næstu brautskráningu að prófi loknu. Stúdent er heimilt að endurtaka próf, sem hann hefur staðist, innan árs frá því hann stóðst það, enda sé á því tímabili haldið próf í sama námskeiði. Nú byrjar stúdent prófið, og fellur þá fyrra próf í grein eða prófhluta úr gildi. Þar sem flokki greina er skipað saman í prófhluta verður stúdent að taka upp próf í öllum greinum prófhlutans ef hann vill ekki una fyrra prófi. 3. gr. 101. gr. orðast svo: Kennslugreinar, prófgráður og námseiningar. Læknadeild veitir kennslu sem hér segir: Til kandídatsprófs í læknisfræði. Til BS-prófs í læknisfræði. Til BS-prófs í sjúkraþjálfun. Til BS-prófs í geislafræði. Til BS-prófs í lífeindafræði. Til meistara- og doktorsprófs í heilbrigðisvísindum og líf- og læknavísindum. Ennfremur til meistara- og doktorsprófs í lýðheilsuvísindum og öðrum þverfræðilegum greinum í samvinnu við aðrar háskóladeildir, þar sem nauðsynleg aðstaða er fyrir hendi. Deildin setur nánari reglur um nám til meistara- og doktorsprófs, samkvæmt reglum þessum, sem háskólaráð staðfestir, sbr. 66.-69. gr. þessara reglna.
Læknadeild veitir kennslu í læknisfræði, sjúkraþjálfun, geislafræði og lífeindafræði. Sjúkraþjálfun, geislafræði og lífeindafræði er skipað í námsbrautir, sbr. ákvæði 21. gr. þessara reglna. Auk kennslu stendur deildin fyrir rannsóknum á fræðasviðum deildarinnar. Deildin ákvarðar kennslugreinar og skiptingu þeirra í námskeið og um vægi þeirra. Allar breytingar á vægi námskeiða skal tilgreina í kennsluskrá eða tilkynna á annan hátt eigi síðar en við upphaf kennsluárs. Kennsla í hverri grein skal við það miðuð að stúdent fái yfirferð yfir öll aðalatriði hennar áður en hann gengur undir próf. Nám í læknisfræði til kandídatsprófs jafngildir 360 námseiningum, að meðtöldum 180 einingum til BS-prófs í læknisfræði, nám til BS-prófs í læknisfræði jafngildir 180 einingum, nám til BS-prófs í sjúkraþjálfun jafngildir 240 einingum, nám til BS-prófs í geislafræði jafngildir 180 einingum og nám til BS-prófs í lífeindafræði jafngildir 180 einingum. Sá sem lokið hefur kandídatsprófi í læknisfræði ber próftitilinn candidatus medicinae (cand. med.). Sá sem lokið hefur BS-prófi í læknisfræði ber próftitilinn baccalaureus scientiarum (BS) í læknisfræði, sá sem hefur lokið fullnaðarprófi í sjúkraþjálfun ber titilinn baccalaureus scientiarum (BS) í sjúkraþjálfun og sá sem lokið hefur 180 eininga námi í geislafræði eða lífeindafræði ber titilinn baccalaureus scientiarum (BS) í geislafræði/lífeindafræði, eftir því sem við á. Að loknu BS-prófi í geislafræði og í lífeindafræði tekur við 60 eininga nám á meistarastigi sem leiðir til starfsréttinda, samkvæmt nánari reglum þar að lútandi. Læknadeild veitir kennslu og þjálfun til meistaraprófs, magister scientiarum, (MS-prófs) í heilbrigðisvísindum, líf- og læknavísindum. Lærdómstitillinn MS er veittur fyrir 120 eininga framhaldsnám að afloknu viðeigandi háskólaprófi. Til að innritast í meistaranám við læknadeild þarf stúdent að hafa lokið BS-prófi frá Háskóla Íslands, eða öðru samsvarandi prófi. Nefnd skipuð af læknadeild er deildarforseta til aðstoðar við að meta umsóknir um MS-nám, fylgjast með náminu í heild og samræma það. Sérstök umsjónarnefnd, skipuð af deild, hefur umsjón með námi hvers stúdents í MS-námi. Námið felur í sér þjálfun í vísindalegum vinnubrögðum og er ritgerð byggð á sjálfstæðri rannsókn hluti námsins. Stærð rannsóknarverkefnis er ákveðin í námsáætlun og skal vera minnst 60 námseiningar en mest 90. MS-rannsóknarverkefni lýkur með því að stúdent leggur fram ritgerð og heldur um hana fyrirlestur. Ritgerð og fyrirlestur eru dæmd af tveimur sérfræðingum sem umsjónarnefnd tilnefnir til starfans. Aðrar námseiningar til MS-prófs öðlast stúdent með þátttöku í námskeiðum. Lágmarkseinkunn fyrir námskeið sem tekin eru sem hluti af námi til MS-prófs er 6,0. Nám til doktorsprófs í heilbrigðisvísindum og læknavísindum lýtur sérstökum reglum, sbr. f. lið 1. mgr. þessarar greinar. 4. gr. 102. gr. orðast svo: Námsframvinda, námsmat, einkunnir og hámarksnámstími. Stúdent skal hafa lokið öllum prófum hvers árs, áður en hann hefur nám á næsta námsári. Próf skulu að jafnaði vera skrifleg en geta einnig verið munnleg eða verkleg eftir ákvörðun deildarinnar. Séu prófþættir fleiri en einn í einhverri kennslugrein eða próf haldið í sömu kennslugrein á fleiri en einu ári, þarf stúdent að fá tilskilda lágmarkseinkunn í hverjum prófþætti. Deildin ákvarðar vægi hvers prófþáttar í samráði við kennara. Árangur stúdents í verklegu námi er metinn af þeim kennara sem kennsluna annast. Kennari skilar skriflegum vitnisburði til nemendaskrár háskólans. Gefnar eru fjórar einkunnir: ágætt, gott, viðunandi og óviðunandi. Sá sem fær einkunnina óviðunandi telst ekki hafa lokið verklega náminu og getur ekki sagt sig til prófs. Einkunnir fyrir verklegt nám reiknast ekki með til lokaeinkunnar. Heimilt er þó með samþykki deildar að gefa verklega einkunn í tölum og reikna hana sem ákveðinn hluta af lokaeinkunn í hlutaðeigandi grein. Lágmarkseinkunn fyrir námskeið sem tekin eru sem hluti af námi til MS-prófs, er 6,0, sbr. 101. gr. Kennslu til kandídatsprófs í læknisfræði skal haga þannig að unnt sé að ljúka námi á sex árum en heildarnámstími má ekki vera lengri en átta ár. Kennslu til BS-prófs í læknisfræði skal haga þannig að unnt sé að ljúka námi til BS-prófs á þremur árum en heildarnámstími má ekki vera lengri en fjögur ár. BS-próf í læknisfræði frá læknadeild Háskóla Íslands er skilyrði fyrir áframhaldandi námi til kandídatsprófs í læknisfræði. Kennslu í sjúkraþjálfun skal haga þannig að unnt sé að ljúka námi til BS-prófs á fjórum árum en heildarnámstími má ekki vera lengri en fimm ár. Kennsla í geislafræði og í lífeindafræði miðast við að á þremur árum megi ljúka námi til BS-prófs, en að því loknu tekur við nám á meistarastigi sem leiðir til starfsréttinda, samkvæmt nánari reglum þar að lútandi. Deildinni er heimilt að veita undanþágu frá þessum skilyrðum, þegar sérstaklega stendur á. Stúdentar sem eru í verklegu námi á sjúkradeildum eða rannsóknarstofum skulu sitja fræðslufundi þeirra. Læknadeild stendur fyrir framhaldsmenntun læknakandídata og sjúkraþjálfara, eftir því sem fjárveitingar og aðrar aðstæður leyfa. Deildin ákveður nánar hvernig kennslu og prófum skuli háttað. Fræðasvið heilbrigðisvísinda gerir árlega, að tillögu læknadeildar, ef þörf krefur, rökstuddar tillögur til háskólaráðs um takmörkun á fjölda stúdenta í læknisfræði, sjúkraþjálfun, geislafræði og lífeindafræði. Ákvörðun háskólaráðs skal tilkynna fyrir upphaf þess háskólaárs, sem hún tekur til. Háskólaráð setur, að fengnum tillögum fræðasviðs og deildar, reglur um hvernig staðið skuli að inntöku stúdenta og skulu þær birtar í kennsluskrá ár hvert. Deildin setur reglur um viðurkenningu fyrra náms við endurskráningu stúdenta og umskráningu úr öðrum deildum eða milli aðalgreina í læknadeild. 5. gr. Reglur þessar, sem samþykktar hafa verið í háskólaráði Háskóla Íslands, eru settar á grundvelli laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla. Reglurnar öðlast gildi 1. júlí 2010. Háskóla Íslands, 11. desember 2009. Kristín Ingólfsdóttir. Þórður Kristinsson. |