1. gr. Á eftir 6. gr. kemur ný grein sem verður 6. gr. A sem orðast svo: 6. gr. A Notkun sjálfvirkra auðkennikerfa (AIS) á fiskiskipum. Hvert það fiskskip sem er lengra en 15 metrar að mestu lengd, siglir undir fána, er skráð, stundar veiðar í lögsögu eða landar afla í höfn í EES-ríki skal, í samræmi við tímaáætlunina sem tilgreind er í 4. tölul., I. hluta, II. viðauka reglugerðar þessarar, vera búið sjálfvirku auðkennikerfi (AIS-A tæki) sem uppfyllir staðla Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar. Fiskiskip sem búin eru sjálfvirku auðkennikerfi skulu ætíð hafa kerfið í gangi. 2. gr. IV. kafli reglugerðarinnar orðast svo: IV. KAFLI Sjálfvirkt tilkynningarkerfi íslenskra skipa. 27. gr. Tilkynningar um staðsetningu skipa. Öll íslensk skip skulu tilkynna brottför og komu í höfn og staðsetningu sína gegnum sjálfvirkt tilkynningarkerfi samkvæmt 29. gr. Frá 1. júlí 2009 geta skip sem búin eru DSC-VHF talstöð, er uppfyllir alþjóðlegar lágmarkskröfur um D-tæki (EN 301 025), sent slíkar tilkynningar gegnum sjálfvirkt auðkennikerfi skipa (AIS). Skip sem búin eru sjálfvirku tilkynningarkerfi skipa (STK) geta sent slíkar tilkynningar fram til 1. janúar 2011, en þá eiga öll skip að vera búin DSC-VHF talstöð og senda tilkynningar gegnum sjálfvirkt auðkennikerfi skipa (AIS-A tæki). Skipum 15 metrar og styttri að mestu lengd er þó heimilt að senda tilkynningar gegnum sjálfvirkt auðkennikerfi skipa (AIS-B tæki). Útgerðarmenn skipa sem eingöngu sigla á þjónustusvæði sjálfvirks tilkynningarkerfis á metrabylgju skulu búa skip sín nauðsynlegum tækjakosti vegna sjálfvirks tilkynningarkerfis. Útgerðarmenn skipa sem sigla utan þjónustusvæðis sjálfvirks tilkynningarkerfis á metrabylgju skulu búa skip sín nauðsynlegum tækjakosti til að senda tilkynningar í gegnum gervihnattarsamband. Verði vaktstöð siglinga vör við að tæki í skipi starfi ekki rétt skal það þegar tilkynnt skipstjóra skipsins og skal skipstjóri láta gera við tækið svo fljótt sem verða má og eigi síðar en skipið lætur næst úr höfn. Ef tilkynning samkvæmt 29. gr. berst ekki frá skipi á reglulegum tíma skal vaktstöð siglinga bregðast strax við og kanna ástæður slíks. Viðbragðsstigin eru: Venjulegt ástand: Tilkynningar berast sjálfvirkt frá skipi samkvæmt 29. gr. Viðbragðsástand: Tilkynning hefur ekki borist frá skipi samkvæmt 29. gr. Vaktstöð siglinga skal hafa samband við skipið innan 30 mínútna eftir að tilkynning á að hafa borist. Takist ekki að hafa upp á skipinu skal farið í næsta viðbragðsstig – hættuástand. Hættuástand: Hafi skip ekki skilað sér eftir viðbragðsástand skal hafist handa við leit og björgun samkvæmt verklagsreglum sem vaktstöð siglinga setur. Hafi skip sent neyðarkall frá neyðarhnappi skipstækisins skal hafin leit og björgun samkvæmt nefndum verklagsreglum. Vaktstöð siglinga skal virkja alla þá aðila sem lögum samkvæmt sjá um leit og björgun. 28. gr. Hafsvæði. Hafsvæði eins og þau eru skilgreind í reglugerð þessari eru samkvæmt skilgreiningum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO) í SOLAS, sbr. 2. gr. reglugerðar um fjarskiptabúnað og fjarskipti íslenskra skipa, nr. 53/2000. Hafsvæði A1: Er hafsvæði sem takmarkast af langdrægi strandarstöðvar til talfjarskipta og viðvarana með stafrænu valkalli (DSC) á metrabylgju (VHF). Hafsvæði A2: Er svæði utan hafsvæða STK/AIS og/eða A1, sem takmarkast af langdrægi strandarstöðvar til talfjarskipta og viðvarana með stafrænu valkalli (DSC) á millibylgju (MF). Hafsvæði A3: Er svæði utan hafsvæða STK/AIS, A1 og A2, sem takmarkast af langdrægi kyrrstæðra INMARSAT gervihnatta til sendinga viðvarana, þ.e. milli 70° N og 70° S. Hafsvæði A4: Er svæði utan hafsvæða STK/AIS, A1, A2 og A3. Hafsvæði sjálfvirks tilkynningarkerfis: Er hafsvæðið sem takmarkast af langdrægi sjálfvirku tilkynningarskyldunnar á metrabylgju (VHF). Skipum og bátum sem aðeins hafa búnað til að senda tilkynningar á þjónustusvæði sjálfvirks tilkynningarkerfis á metrabylgju er óheimilt að sigla út fyrir það svæði. 29. gr. Öll íslensk skip skulu með fjarskiptum tilkynna vaktstöð siglinga um brottför og komu í höfn. Þau skulu einnig tilkynna staðsetningu sína gegnum sjálfvirkt tilkynningarkerfi að lágmarki á eftirfarandi hátt: a. Skip sem eru 24 metrar að lengd eða lengri skulu tilkynna sig á klukkustundar fresti. b. Skip sem eru styttri en 24 metrar og hafa heimild til að sigla utan þjónustusvæðis sjálfvirks tilkynningarkerfis á metrabylgju skulu tilkynna sig á einnar klukkustundar fresti. c. Skip sem eru styttri en 24 metrar og sigla á þjónustusvæði sjálfvirks tilkynningarkerfis á metrabylgju skulu tilkynna sig á fimmtán mínútna fresti. d. Farþegaskip sem notuð eru í atvinnuskyni skulu tilkynna sig á fimmtán mínútna fresti. |
Undanþegin ákvæðum 1. mgr. eru varðskip og skip sem ekki eru notuð í atvinnuskyni. Siglingastofnun Íslands er heimilt að veita undanþágu frá ákvæðum 1. mgr. til skipa og báta sem stunda aðeins veiðar í atvinnuskyni innan 1,5 sjómílna frá landi og aðstæður um borð eru þannig að ekki er unnt að hafa þar nauðsynlegan búnað til að senda sjálfvirkar tilkynningar, enda telji stofnunin að öryggi skips og áhafnar sé ekki stefnt í hættu. Þegar slík undanþága er veitt skal Siglingastofnun Íslands árita leyfilegt farsvið skipsins á haffærisskírteini þess. 3. gr. Við I. hluta II. viðauka bætist ný málsgrein sem orðast svo: 4. Fiskiskip. Fiskiskip sem eru lengri en 15 m að mestu lengd skulu hafa þann búnað um borð sem mælt er fyrir um í 6. gr. A í samræmi við eftirfarandi tímaáætlun: — fiskiskip sem eru 24 m að lengd og lengri að mestu lengd en styttri en 45 metrar: eigi síðar en 31. maí 2012, — fiskiskip sem eru 18 m að lengd og lengri að mestu lengd en styttri en 24 metrar: eigi síðar en 31. maí 2013, — fiskiskip sem eru 15 m að lengd að mestu lengd en styttri en 18 metrar: eigi síðar en 31. maí 2014. Nýsmíðuð fiskiskip sem eru lengri en 15 m að mestu lengd skulu hafa þann búnað um borð sem mælt er fyrir um í 6. gr. A frá og með 30. nóvember 2010. 4. gr. Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 6. gr. og 17. gr. laga um vaktstöð siglinga nr. 41/2003, 4. mgr. 3. gr. laga um Siglingastofnun Íslands nr. 6/1996, 1. gr. og 4. mgr. 3. gr. laga um eftirlit með skipum nr. 47/2003, með síðari breytingum, staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli. Samgönguráðuneytinu, 15. júní 2009. Kristján L. Möller. Ragnhildur Hjaltadóttir. |