Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 12/2006

Nr. 12/2006 13. mars 2006
LÖG
um breytingu á lögum um rannsókn sjóslysa, nr. 68/2000, með síðari breytingum.
FORSETI ÍSLANDS
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:
 
1. gr.
    2. mgr. 3. gr. laganna orðast svo:
    Samgönguráðherra skipar nefndinni forstöðumann til fimm ára í senn. Forstöðumaður ber ábyrgð á og stjórnar daglegum rekstri nefndarinnar og gætir þess að hann sé í samræmi við gildandi lög og reglugerðir á hverjum tíma. Samgönguráðherra skal, að fengnum tillögum forstöðumanns, ráða til nefndarinnar aðstoðarforstöðumann. Allur kostnaður við starfsemi nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.

2. gr.
    Á eftir 3. gr. laganna kemur ný grein, 3. gr. a, svohljóðandi:
    Forstöðumaður rannsóknarnefndar sjóslysa er jafnframt rannsóknarstjóri hennar og stýrir rannsóknarverkefnum á vegum nefndarinnar. Aðstoðarforstöðumaður skal vera staðgengill forstöðumanns.
    Forstöðumaður og aðstoðarforstöðumaður skulu hafa sérmenntun eða starfsreynslu á þeim sviðum sem sérstaklega nýtist við sjóslysarannsóknir.
    Um sérstakt hæfi þeirra fer eftir II. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

3. gr.
    1. mgr. 9. gr. laganna orðast svo:
    Rannsóknarnefnd sjóslysa og starfsmönnum hennar er heimilt að krefjast framlagningar allra gagna er varða skip, svo sem leiðar-, dag- og véladagbókar, eftirlitsbókar, allra vottorða sem skylt er að hafa um borð í skipi, skráa yfir skipverja, útskrifta úr tölvum er varða siglingu og vélbúnað skips, upptakna, svo og annarra gagna er ástæða þykir til, t.d. um fjarskipti og gögn sem varða rekstur og siglingu skipsins. Þeim er einnig heimilt að taka skýrslur af eiganda, notanda eða umráðanda skips, áhöfn þess og hverjum öðrum sem ætla má að kunni að geta veitt vitneskju er stuðli að því að leiða í ljós orsök slyssins.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Gjört í Reykjavík, 13. mars 2006..

Ólafur Ragnar Grímsson.
(L. S.)

Sturla Böðvarsson.

A deild - Útgáfud.: 27. mars 2006